Hleinar

Jóhann Guðni Reynisson hefur tekið saman sögu golfklúbbsins Keilis, golfvallargerð á Hvaleyri, örnefnin og sögustaðinn:

Jóhann Guðni Reynisson

Jóhann Guðni Reynisson.

“Keilismenn hafa varðveitt gömul örnefni á og við völlinn með því að gefa öllum brautum nöfn eftir örnefnum á Hvaleyri. Þetta sást strax á fyrsta árinu (1967 ) gat Jónas formaður þess í ræðu sinni á fyrsta aðalfundi klúbbsins að haft hafi verið samband við Gísla Sigurðsson lögregluþjón vegna þessara áforma og hefur Gísli eflaust haft mikla þekkingu á örnefnum og staðháttum á Hvaleyri. Ekki hafði mikið verið gert í málunum á þessum tíma en fyrirheitin voru fyrir hendi, ekki síst ef og þá þegar Keilisfólk hefði afnot af eyrinni allri. Leitast var við að hrófla ekki við neinu sem sögulegt kynni að teljast. Hlutar vallarins eru friðaðir og má þar nefna rúnasteinana, hólinn þar sem gamli Hvaleyrarbærinn stóð og túngarðinn sem er elsta mannvirkið á eyrinni.
Kortið sem hér fylgir gerði Jónatan Garðarsson og það sýnir prýðisvel byggð og starfsemi, örnefni og fornar minjar sem ýmist eru enn sýnilegar eða horfnar af ýmsum ástæðum. Í ljósi þess hve mikilvæg þessi atriði eru í sögu Keilis og mikilvæg kennileiti um staðhætti og sögu á Hvaleyri er rétt að gera þeim sérstök skil í riti sem þessu. Því var Jónatan fenginn til þess að ganga með höfundi um eyrina og segja frá því helsta sem fyrir augu ber.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Óhjákvæmilega verður að tala hér í áttum og því er líklega best að skilgreina áttirnar lauslega þannig að norður er í átt að Esjunni, vestur í átt að Snæfellsjökli, suður í átt að álverinu og austur í átt að athafnahverfinu á Hvaleyrarholti, þegar staðið er við golfskála Keilis þar sem hann stendur árið 2017.

Hvaleyri

Hvaleyrarrétt.

Við byrjum á því að ganga í austur að gömlu réttinni en hún er rétt neðan við vörðuna, sem við segjum frá síðar. Réttin er við veginn sem liggur að golfskálanum sem stendur við Steinholt. Vegurinn ber heitið Miklaholt en ekið er inn á það af Hvaleyrarbraut. Réttin er ævaforn, hlaðin úr grjóti, og enginn veit í raun hversu gömul hún er. Eitthvað hefur réttinni verið raskað og segir Jónatan að það hafi hermenn líklega gert og búið þá til garð úr grjótinu frá kvínni sem er sunnan við réttina og má greina grjótröð sem hefur verið veggur frá kvínni að réttinni. Að öllum líkindum hafa hermennirnir hlaðið vegg þennan úr grjótinu og hefur hann því ekki verið upprunalegur. Tóftir réttarinnar eru þó greinilegar þegar þarna er staðið. Ef horft er í norðvestur frá réttinni, með stefnu nokkurn veginn milli Esjunnar og Snæfellsjökuls, og þá eftir hábungu Hvaleyrarinnar, sést bæjarstæði gamla Hvaleyrarbæjarins á efsta leitinu sem kalla má bæjarhól. Við göngum í átt að bæjarstæðinu.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.

Næst verður á vegi okkar mjög gamall túngarður sem er m.a. kallaður Fornigarður sem eflaust hefur einnig gegnt landamerkjahlutverki á sínum tíma. Þessi garður markaði heimatúnið og varnaði því að lausafé kæmist inn í túnið.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Fornigarður liggur samsíða gömlu þjóðleiðinni milli Innnesja og Suðurnesja, svonefndri Alfaraleið eða Suðurvegi. Garðurinn liggur nokkurn veginn í stefnuna austur/vestur og afmarkar að hluta (Suðurtún) Suðurvöll norðaustanvert við hábunguna, en hann tilheyrði Hjörtskoti. Suðurvöllur endar þar sem gamli Kotagatan lá og neðan hans stóð Sveinskotí láginni á eyrinni austanverðri. Þar er Sveinskotstún, en Ársæll Grímsson, síðasti ábúandinn á Hvaleyri, bjó í Sveinskoti. Sjá má það litla sem eftir er af Sveinskoti rétt neðan við vélageymsluna sem stendur eins og eyland á vellinum norðaustanverðum en hún er eitt af þeim mannvirkjum sem breskir hermenn skildu eftir á Hvaleyri eftir hersetu sína hér á landi í síðari heimstyrjöldinni.

Hvaleyri

Hvaleyri – Hvaleyrarbærinn síðasti.

Þegar gengið er eftir eyrinni í góðum skilyrðum sjást vel í landslaginu margvísleg form sem gefa hugmynd um ýmiskonar mannvirki. Til dæmis má sjá gamla veginn sem lá að Vesturkoti, svokallaða Kotagötu, en hann er nú hulinn gróðri þótt glögglega megi sjá móta fyrir slóðinni í landslaginu.

Hvaleyri

Hvaleyri – Fornigarður.

Ef litið er í vestur eða suðvestur þegar gengið er eftir eyrinni frá réttinni við vörðuna og út á hábunguna, þ.e. til vinstri, má sjá svæði sem kallað er Sandbrekknatún og skiptist í tvennt, syðra og nyrðra tún. Sand-brekknaheitið er ágæt heimild fyrir ástandi túnsins áður en Þorsteinn Jónsson stóð fyrir sandgræðslu á eyrinni en hann byggði þar upp þrjú kot austan og vestan við Hvaleyrarbæinn: Bindindi 1778 eða Halldórskot, Lásastaði 1781 eða Vesturkot og Ásgautskot 1785 sem fékk seinna nafnið Sveinskot. Þannig stuðlaði hann bæði að landgræðslu á Hvaleyri og öðrum náttúrunytjum og það fól í sér að ábúendur á svæðinu gátu goldið kónginum það sem kónginum bar.

Hvaleyri

Hvaleyri – Vesturkot.

Þorsteinn fékk síðan ábúðarrétt til æviloka fyrir sig og afkomendur sína að launum frá kónginum. Þorsteinn virðist hafa gert sér ágæta grein fyrir því hvað þyrfti til þess að hjól atvinnulífsins og þar með framþróunar á Hvaleyri snerust svo gagn væri af. Hann endurreisti Hvaleyrarbæinn eins og sést á mynd úr Íslandsleiðangri Sir Joseph Banks frá 1772 og byggði ennfremur stóra bátasmiðju, þá stærstu á landinu að því er Jónatan Garðarsson segir. Þar voru smíðaðir fiskibátar og lét Þorsteinn bændur og búalið á Hvaleyri fá báta til afnota svo að þeir gætu róið til fiskjar og bætt þar með afkomu jarðarinnar. Því þeir fiska sem róa, segir máltækið, og til þess að róa þarf víst báta. Þorsteinn kveikti á þessu og stuðlaði þannig að því að bændur sköpuðu tekjur sem gáfu skatta og kóngurinn fékk sitt. Allir ánægðir. Jón sonur Þorsteins tók við ábúðinni 1805 en hann drukknaði 1812 í Hvaleyrarvör. Eftir það tók Bjarni Sívertsen jörðina á leigu og keypti hana af konungi 1816, en afkomendur Þorsteins misstu ábúðarréttinn. Þar sem Hvaleyrarbærinn stóð fyrrum er nú teigur en þar er hæsti punkturinn á Hvaleyrinni og umhverfis bæinn var Hvaleyrartún.

Hvaleyri

Hvaleyri – málverk Sveins Björnssonar.

Þegar gengið er aðeins lengra í sömu átt er komið að hjartalaga glompu á golfvellinum en þar nærri segir Jónatan að allar líkur bendi til að kirkja hafi staðið forðum enda segi í gömlum heimildum að kirkjan hafi staðið beint upp af Gestalág sem svo er kölluð. Við göngum því í vestur og niður í fjöru. Þar er vissulega lág í landslaginu, rétt upp af lítill vík og segir sagan að þar hafi fundist sjórekin lík erlendra sjómanna í eina tíð og er nafngiftin rakin til líkfundarins. Þar var jafnframt svonefnd Jónasarlending, sumarlending Jónasar Jónassonar bónda í Tjarnarkoti 1875-77 og Sveinskoti 1890-97. Við göngum í norður upp úr Gestaláginni og komum að gömlu skotbyrgi sem breski herinn lét byggja þarna á eyrinni. Byrgið er hlaðið og steypt og að hluta er það hulið torfhleðslu einhvers konar. Þakið er steypt og sjá má að á því hafa verið skotraufar sem nú eru fylltar steypu. Norðvestur af skotbyrginu eru fleiri byrgi sem augljóslega hafa þó verið ætluð aðeins einum hermanni hvert, hlaðin og steypt með braggalaga bárujárnsþaki eða yfirbyggingu. Hefur þá verið gert ráð fyrir að hermaðurinn skriði þarna ofan í byrgið og stæði – eða lægi – vaktina ef til þess kæmi að ráðist yrði á landið af sjó.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Nokkur slík byrgi eru þarna og verða þau að teljast allmerkileg fyrirbæri. Og ekki er síður merkilegt fallbyssustæði þarna frammi á tanganum en þar var nokkuð stór fallbyssa. Jónatan Garðarsson segir hinsvegar að tvennum sögum fari af því hvort þar hafi verið alvöru fallbyssa eða ekki. Allavega var þar svo að á nokkrum stöðum á landinu voru grámálaðir símastaurar í felubúningi, sem sagt dulbúnir sem fallbyssur. Þar er væntanlega komin skýringin á því að engin þjóð þorði að gera innrás á Íslandi í stríðinu, allavega ekki á Hvaleyri. Við svo búið er haldið í vestur frá byrgjunum þangað til við komum að nokkrum flötum steinum, en inn á milli þeirra eru fleiri skotbyrgi.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Einn þessara steina er jafnan nefndur Rúnasteinn og er frægur af ýmsum ástæðum. Hann hefur meðal annars einnig verið kallaður Flókaklöpp, þá ekki síst vegna þess að sjálfur Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur – sá eini sanni, mun hafa rannsakað steininn á 19. öld og talið að áhafnarmeðlimir á skipi Flóka hafi fyrstir letrað nöfn sín í grjótið. Þau sannindi eru þó ekki meitluð í stein. Steinninn er friðaður sem fornminjar. Kringum hann virðist hafa verið einhvers konar hringlaga garður og má sjá menjar um hann. Á steininn er ýmislegt letrað og þarf líklega talsvert hugmyndaflug til þess að ætla honum verðugt hlutverk í norrænni menningarsögu þótt Jónas hafi getað séð þar ýmislegt merkilegt sem ekki verður fjölyrt um hér en fróðlegt er að lesa um þetta á ferlir.is:

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

„Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.
Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bættvið fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki.Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum. Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903; “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902”. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: “Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri”. Síðan segir hann: “Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.““

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Hvaleyrarbærinn hefur verið þó nokkurt býli og má sjá ýmsar minjar á þessum slóðum sem tengja má viðbúskapinn í kotinu. Vestur af honum stóð Vesturkot, sem var um tíma notað sem golfskáli. Þessi staður var stundum nefndur Drundur sem er annað orð yfir það þegar naut leysa vind. Það hefur eflaust þótt hinn prýðilegasti viðburður á þessum árum, þ.e. á 19. öld eða þar um bil, þegar aðeins fína fólkið gat leyft sér að eiga naut og kýr. Nafngiftin hlýtur því að hafa haft á sér talsvert virðulegra yfirbragð heldur en ef íslenskur sveitabær væri kallaður þetta árið 2017. Almennt mun þó drundur hafa þróast yfir í heldur óvirðulegri merkingueftir því sem árin hafa liðið. Þegar gengið er norður eftir eyrinni frá Drundi og út að sjó er komið að Hvaleyrarbakka en þar hafa fundist mannabein, til dæmis árið 1923 þegar Magnús Benjamínsson bóndi í Hjörtskoti fann höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði í bakkanum „og gróf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó“ eins og segir í grein Matthíasar Þórðarsonar um þetta í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1926. Yfirskriftin er “Fundin á Hvaleyri bein þriggja manna“, en Magnús fann síðar tvær höfuðkúpur í viðbót og fleiri bein. Jónatan Garðarsson segir söguna af því þegar Pálína Margrét Þorleifsdóttir sem hélt heimili fyrir þá þjóðfélagsþegna sem minna máttu sín í Hjörtskoti, tók til sinna ráða varðandi beinin í kistlinum á þriðja áratug síðustu aldar. Þótti henni þessum mönnum lítill sómi sýndur og vildi láta jarðaleifar þeirra í vígðri mold. Leitaði hún þá til Árna Björnssonar sóknarprests í Hafnarfjarðarkirkju sem setti upp tiltekið verð fyrir þjónustu sína. Það hugnaðist Pálínu ekki svo hún leitaði til Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests í Hafnarfirði. Tókust samningar með þeim svo hann annaðist jarðsetningu í kirkjugarðinum í Hafnarfirði. Sagði Pálína svo frá því að eftir þetta hefði maður vitjað hennar í draumi og þakkað henni fyrir að koma þeim félögum í vígða mold.

Hvaleyri

Hvaleyri – brunnur.

Sem kunnugt er stóð Hvaleyrinni mikil hætta af landbroti og varð það úr að Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjarðarbær létu hlaða umtalsverðan varnargarð þarna á Hvaleyrarbakkanum, norðan í eyrinni. Myndar þessi garður nú fallega umgjörð og ver Hvaleyri fyrir ágangi sjávar. Þegar gengið er meðfram bakkanum norðan frá og suður og austur með ströndinni er komið í svolitla geil sem kölluð er Þórðarvik og er nefnd eftir Þórði Jónssyni lóðs og kotbónda í Þórðarkoti sem síðar var nefnt Beinteinskot eftir ábúendaskipti þar. Þórður þessi mun hafa dregið bát sinn upp úr lendingunni í geilinni og alveg upp á bakkann. Þetta er talsvert bratt og hátt og má kallast þrekvirki að nokkrum manni hafi tekist að draga bát þar upp á þurrt land. Og áfram höldum við í áttina inn að Hvaleyrargranda og Hvaleyrartjörn. Rétt áður en komið er að tjörn-inni og grandanum, förum við um svæðið þar sem bátasmiðja Þorsteins Jónssonar stóð og þar hjá var Hvaleyrarvörin og nokkru innar á Hjallanesi var Hvaleyrarhjalli. En framundan er Hvaleyrartjörn sem þjónaði sem skipalægi á tímum Innréttinga Skúla fógeta Magnússonar. Þar voru húkkortunum eins og fiskiskipin kölluðust siglt inn og þær hafðar í vari. Yfir háveturinn voru skipin dregin á þurrt upp á Skipasand sem kallað var þar sem verbúðarskýlin eru núna að sögn Jónatans. Hvaleyrargrandi var mun lengri og meiri en hann er í dag. Hann mun hafa náð langleiðina að Flensborgarhöfn á móts við Óseyri, en þar stendur veitingahúsið Kænan. Grandinn fór illa í sjógangi á seinni hluta 18. aldar og Óseyrartjörn var smám saman fyllt upp um miðja síðustu öld. Á grandanum voru ýmis kennileiti eins og Skiphóll á móts við Hafnargarðinn en Hvaleyrartjörn var í eina tíð nefnd Herjólfshöfn. Þess má svo til gamans geta að ef staðið er á Hjallanesi á grandanum og horft eftir nesinu og upp í holtið má sjá eldgamla rétt þar sem allt eins gæti verið gerð af landnámsmönnum.

Ársæll Grímsson

Ársæll Grímsson.

En nú beygjum við til hægri eða til suðurs og göngum upp að þústinni sem myndar rústirnar af Sveinskoti – sem reyndar var kallað Sælakot í seinni tíð eftir Ársæli Grímssyni, síðasta ábúanda þar og fyrsta starfsmanni Keilis, rétt neðan við gömlu vélageymsluna, steinhúsið sem enn stendur. Þar fyrir neðan er önnur þúst, aðeins minni, en það er gamli Hvaleyrarbrunnurinn. Þangað sóttu allir bændur og búalið á Hvaleyri vatn sitt um langtskeið og þurfti þá að ganga með skjólur og kyrnur að brunninum og bera í þeim vatnið heim á alla bæi. Þetta hefur verið ærinn starfi. Og nú fer að styttast í gönguferðinni því við erum komin að Hjörtskoti. Það varfyrst nokkuð neðan við síðari staðsetn-ingu en síðast var það rétt neðan viðtóftirnar af Poltzhúsi sem enn sjást. Poltz-hús var timburhús byggt fyrir Legh Poltzárið 1775, en tekið niður nokkrum árum seinna og viðirnir seldir. Legh Poltz var starfsmaður Skúla Magnússonar fógeta og hafði yfirumsjón með skipaflota hans í Hafnarfirði. Það má sjá vinkillaga járnstöng eða rör þar sem hús Legh Poltz stóð en Hjörtskot er hins vegar alveg horfið.
Það var byggt árið 1829 og hét upphaflega Daðakot en fékk nafnið Hjörtskot 1868. Suðurvöllur eða Suðurtún tekur við þegar gengið er í átt að golfskála Keilis og má sjá túngarð á hægri hönd og annan ávinstri hönd. Hinum megin við hann, nærveginum, er gamli Suðurnesjavegurinn enn sjáanlegur en þess má til gamans geta að þarna lá leiðin frá Hafnarfirði til Keflavíkur framyfir aldamótin 1900. Þetta var reiðleið þá en fyrsta bílnum á Íslandi, sem kenndur var við Thomsen kaupmann, var ekið eftir þessum vegi til Keflavíkur árið 1904. Það var í fyrsta sinn sem farið var á bíl þessa leið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Poltzhús; byggt 1776.

Við erum loks komin hringinn og endum við vörðuna sem hlaðin var til minningar um ferð Hrafna-Flóka til Íslands. Efniviðurinn í hana var fluttur á Hvaleyri frá Sveio í Noregi þaðan sem Flóki Vilgerðarson hélt af stað í för sína norður á bóginn. Sagan segir að hann hafi gefið Íslandi nafn en við upphaf ferðarinnar hafi hannfórnað þremur hröfnum og síðan haft þrjá unga hrafna með sér til að finna landið. Einn þeirra hafi snúið afturheim, annar lent aftur niðri á skipinu en sáþriðji tekið stefnuna á landið sem síðar fékkheitið Ísland. Með Hrafna-Flóka var maður að nafni Herjólfur og heitir Herjólfshöfn eftir honum. Sagan segir að Flóki, Herjólfur og félagar hafi fundið rekinn hval á eyri við fjörðinn og það hafi orðið þeim innblástur í nafngift fyrir tangann sem þeir hafi þá nefnt Hvaleyri. Um þetta og fleira má lesa á ferlir.is og ágætt að rifja upp þessar gömlu sagnir áður en við segjum skilið við tengingar landnáms og Hvaleyrar:

Hvaleyri

Minnismerki um Hrafna-Flóka á Hvaleyri.

“Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndurvið. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl íVatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes.Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Óvíst er hvar Herjólfshöfn hefur verið. Flóki og menn hans voruum veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ogkölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður en Flóki Vilgerðarson fór að leita Garðarhólms hlóð hann vörðu við Smjörsundí Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi, til að minnast þessa atburðar. Hvaleyri var ein af helstu bújörðum í Hafnarfirði frá fornu fari. Fyrir siðaskiptin átti Viðeyjarklaustur Hvaleyri, sem varð síðan kóngsjörð. Þar stóð hálfkirkja uppi til 1765 sem var í eigu Viðaeyjarklausturs en þjónað frá Görðum. Útræði var frá Hvaleyri fyrr á tímum og margar hjáleigur fylgdu.

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tíma landnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málari sem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmundsson, barnabarn Ársæls Grímssonar, fyrsta starfsmanns Keilis. Taliðer að myndin sé máluð í kringum 1950.

Í Íslendingabók segir að FlókiVilgerðarson hafi verið “víkingr mikill; hann bjósk af Rogalandi at leita Snælands. Þeir lágu í Smjörsundi. Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið visa…. ok sleit frá þeim bátinn, ok þar á Herjólf. Hann tók þar land, sem nú heitir Herjólfshöfn. ”Hafnarfjörður byggir grundvöll sinn á höfninni sem hefur veitt skipum öruggt skjól um aldir. Þegar norður evrópskir sæfarar leituðu á hin gjöfulu fiskimið við Íslandsstrendur í lok miðalda þótti fjörðurinn bera af vegna náttúrulegra hafnarskilyrða.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hvaleyri; loftmynd 1954.

Snemma á 15. öld settu enskir farmenn upp kaupbúðir við fjörðinn og lögðu grunninn að verslunarstaðnum Hafnarfirði. Alla tíð síðan hefur verslun og sjávarútvegur stýrt vexti og viðgangi Hafnarfjarðar. Þýskir kaupmenn hröktu þá ensku í burtu seint á 15. öld. Hansakaupmenn höfðu mikil umsvif á 16. öld, allt þar til einokunarverslunin danska tók við 1602. Síðan hefur höfnin tekið sífelldum breytingum og er unnið að frekari stækkun hennar út með Hvaleyrinni. Sumir segja, þ.á.m. Jónas Hallgrímsson, að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á Flókaklöppina, en aðrir eru efins. Hvað sem því líður hefur mikið verið klappað á hana í gegnum tíðina og eru áletranirnar greinilega misgamlar.”

Heimild:
-http://gunnar.vinnsla.com/keilir/files/assets/basic-html/page40.html

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.