Hvassahraunsskúti – Loftsskúti – Virkishólahellir – Skógarnefsskúti
Með í för voru Björn Hróarsson, Hellarannsóknarfélaginu, og Ásbjörn frá Garpar. Í leiðinni var m.a. kíkt á Skógarnefsgrenin og Urðarás sunnan við Hraunkrossstapa, en hann er einn stórbrotnasti brothringur landsins.
Fyrsti skútinn, sem skoðaður var, er sunnan í hól skammt sunnan við Reykjanesbrautina. Fyrirhleðslan er fallin. Skútinn er beint suður af réttinni, fyrsti hóll strax sunnan vegar, syðstur svonefndra Hjallhóla. Líklegt má telja að skútinn hafi verið notaður sem fjárskjól, en annar skúti, Hjallhólaskúti, er í hólunum milli gömlu og nýju Reykjanesbrautarinnar. Opið snýr til suðurs og mótar fyrir hleðslum við opið. Í þeim skúta er talið að geymdur hafi verið fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisloftinu (SG).
Grunur var um að Loftsskúti gæti verið vestan í hól, milli Smalaskála, Virkis- og Brennihóla, þ.e. sunnan við Virkið. Þar er skúti í jarðfalli. Greinilegt er að fé hefur notað skútann sem skjól. Hafði verið hlaðið fyrir skútann er sú hleðsla fallin og gróið yfir. Þyrfti að róta með skóflu í garðinum fyrir framan skútann til að sjá hvað þar leyndist. Varða er á hólnum. Skútinn er um 350m suður af Virkinu, 300m NA af Smalaskála og 600m NV af Brennihólum. Hann er grunnur, en gefur gott skjól fyrir SA áttinni.
Litið var ofan í Virkishólahelli. Hellirinn er í litlu jarðfalli suðvestan undir í hraunhól, u.þ.b. 200 metrum ofan (suðaustan) við Virkið. Ekki er vitað til þess að áður hafi verið farið niður í hellinn. Gatið liggur til norðurs úr opi mót suðri, en inn undir jarðfallinu að austanverðu er m.a. mosavaxinn kindarkjálki.
Björn liðaðist með ljós niður í hellinn, líklega sá fyrsti mannkyns, sem sögur fara af. Ekki er langt síðan einn FERLIRsfélaga ætlaði að kíkja í annan slíkan þarna skammt norðar, en mætti þá rebba innan við gættina.
Björn var hins vegar óragur. Þegar niður var komið blasti við sæmileg hraunbóla, en engin endagangur annar. Innst í bólunni voru nokkrar sauðatennur er bentu til þess að rebbi hafi gert sig þar heimakominn. Þarna hefur hann verið kóngur í hásölum um stund. Kjálkinn ofar í munnanum gæti staðfest það.
Þá var haldið til austurs upp Rjúpnadalahraunið, stundum nefnt Afstapahraunið eldra, og upp í Geldingahraunið með stefnu á Skógarnefið. Í rauninni er grunnurinn gamla Hrútagjárdyngjuhraunið, en inni á milli og til vængjanna má sjá móta fyrir minni hraunum, t.d. Dyngnahrauninu er kom út úr Dyngjurananum og Mávahlíðum ofan við Einihlíðar. Einn fallegasta hraunfoss þess má sjá í vestanverðum Einihlíðum ofan við Mosa. Þarna, í neðanverðu Skógarnefninu, hafði Ásbjörn komið auga á stað, sem gæti leitt til fundar Skógarnefsskúta.
Gengið var vestan við Hvassahraunssel og í gegnum selið. Vel mátti sjá á tóftunum við þessar aðstæður hversu kalsasamt hefði verið þarna að vetrarlagi, en selin voru að jafnaði ekki setin á þeim tíma. Ofan við selið eru tvær vörður við hraunsprungu. Gengið var í gegnum nýrra hraunhaft, sem virðist hafa komið úr litlu skammvænu gosi, vestan við Urðarás.
Skútinn er inn í sprungu austan í hól, rétt ofan við Skógargötuna og skammt vestan og innan landamerkja Hvassahrauns. Girðingin, sem talin hefur verið á mörkunum, er svolítið vestan markanna. Það virtist vera allnokkurt rými þarna inn í hólnum, eins og reft hafi verið yfir sprunguna en þakið fallið niður. Hellirinn er ofan við efsta krossstapann (Hraunkrossstapa). Ljós þurfti til að skoða hann. Björn fór bæði inn í hann að norðanverðu og einnig að vestanverðu, en engar mannvistarleifar var að sjá á þeim stöðum. Snjó hafði skafið yfir hliðarskúta, svo skoða þarf aðstæður betur í auðu. Þarna skammt norðvestar eru tvær vörður á litlum klapparhól; landamerki Hvassahrauns og Óttarsstaða.
Skútinn er um 1 km fyrir ofan krossstapann, um 140m ofan við Skógargötuna og um 40m NA við línu sem dregin er milli Miðkrosstapa og Markhelluhóls (girðingu milli Hvassahrauns og Óttarsstaða).
Á bakaleiðinni var komið við í Skógarnefsgrenum. Grenin eru neðan við Skógarnefið, skammt ofan við efsta krosstapann. Grenjaskyttubyrgið er hlaðið um hraunskjól og grenin skammt frá. Tekinn var gps-punktur á byrgið.
Skammt norðvestan við grenin er merkilegt jarðfræðifyrirbæri; Urðarás. Um er að ræða svenefndan „brothring“. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins, s.s. í Hallmundahrauni. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn „brotadalur“ í miðju hrauni. Þetta eru algeng fyrirbæri á Hawai og víðar þar sem hraun renna í kvikugosum. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið fallegasta á landinu.
Erfitt er að finna Urðarás á færi, en hann er þess greinilegri úr loftið séður. Ekki er ólíklegt að ætla, enda hefur það sennilega aldrei verið gert, að skoða syðst í jarðfallinu hvort þar, neðst, kynnu að leynast göng á stórum helli, en ætla má, og önnur dæmi sýna slíkt, að í slíkum tilvikum er þetta gerist, er um mikið magn af glóandi hraunkviku í neðanjarðarrásum að ræða. Hún hefur komið niður frá eldstöðinni í Hrúatgjárdyngju, en neðan Urðaráss er tiltölulega slétt hraun. Þar hefur rennslið verið litið og því glóandi kvikan ekki náð að renna áfram að ráði. Afleiðingin, eða afurðin, var þetta merkilega jarðfyrirbæri.
Til fróðleiks er gaman að geta þess að þetta jarðfræðifyrirbæri hafði verið uppgötvað hér á landi löngu áður en erlendir vísindamenn uppgötvuðu merkilegheit þess. Þannig var að á vísindaráðstefnu erlendis á níunda áratugnum fjallaði vísindamaður um nýlega uppgötvun; brothringi á Hawai. Að fyrirlestri loknum stóð íslenskur vísindamaður upp og sagði þetta varla geta talist merkilegt því einn vísindamanna Íslands, Kristján Sæmundsson, hefði þá tveimur áratugum fyrr ritað um fyrirbærið í Sunnudagsblað Tímans. Þar lýsti hann brothringjum hér á landi. Hin nýlega uppgötvun teldist því til þeirra eldri á Íslandi.
Í rauninni er Hvassahraunið að meginefni til eitt hraun; Hrútagjárdyngjuhraun sem fyrr segir, en inn á milli koma lítil hraun, sem að framan greinir.
Lítið sást af rjúpu, en þegar að henni var komið var hún mjög gæf. Hins vegar sáust víða spor eftir hana í snjónum – og rebba.