Hvassahraunsstekkir

Hvassahraun

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um Hvassahraunsstekk í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi):

Hvassahraun

Hvassahraun – varða ofan stekksins í Stekkjarnesi. Gerði og skúti á miðri mynd.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur,“ segir í örnefnaskrá.
„Svo er næst við sjó Stekkjarnef þar er rúst eftir Stekk þar er og Stekkjardalur, niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll klofinn grashóll,“ segir í örnefnalýsingu AG. Ekki er annað að skilja af þessum lýsingum að Stekkjarnef/-nes og Stekkjardalur séu á svipuðum slóðum. Það er því líklegt að báðir þessir staðir dragi nafn sitt af Stekk sem þekktur er í Stekkjardal.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjarnesi.

Ekki fannst nema einn stekkur á þessu svæði og er hann í Stekkjardal, allstóru og flatlendu viki inn í hraunið sunnan við grýttan sjávarkampinn, um 760 m norðan við bæ. Auk stekkjartóftar er gerði og hleðsla framan við skúta í dalnum og ungleg varða er austan við stekkinn. Flatlent og smáþýft er í Stekkjardal. Grjót berst á land í sjógangi.
Minjarnar eru á svæði sem er um 28×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í norðausturenda þess er ungleg varða.
Hún er uppi á hraunhól um 15 m austan við stekkjartóft. Hún er um 0,5 m í þvermál og á hæð. Í henni sjást 4 umför en hleðslan er óvönduð.

Hvassahraun

Hvassahraunssstekkur í Stekkjarnesi – Uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjartóftin er austast í Stekkjardalnum, vestan undir hraunvegg. Tóftin er mjög sigin og grjóthleðslur jarðlægar en hún er tvískipt. Tóftin er um 5×4 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hólf I er í norðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 3×1 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er í suðausturenda tóftarinnar. Það er einnig um 3×1 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Op er á báðum hólfum til suðvesturs. Mesta hæð veggja er 0,2 mog er hvergi steinn yfir steini. Gerði B er um 15 m suðvestan við tóft A. Það er einfalt og virðist vera grjóthlaðið. Gerðið er sporöskjulagaog er um 9×7 m að stærð, snýr VSV-ANA. Skýrir veggir eru til norðurs en ógreinilegir til suðurs þar sem hlaðið ermeðfram hraunvegg. Ekki er skýrt op á gerðinu en þaðkann að hafa verið í norðvesturhorni. Hleðslur í gerðinu eru að mestu hrundar en eru 0,2-0,3 m á hæð og mest sjást 2 umför.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Grjót sem sjórinn ber á land er komið fast að gerðinu. Hlutverk gerðisins er óljóst en líklega er það „byrgið“ sem nefnt er í örnefnaskrá AG. Fast vestan við gerðið er skúti. Op hans er um 10 m á lengd. Hlaðið er fyrir skútann að mestu leyti. Sumt af grjótinu í opinu hefur hrunið og svo hefur verið hlaðið ofan á hrunið. Mest sjást 2-3 umför hleðslu.

Hvassahraun

Hvassahraun – fyrirhleðsla við skúta í Stekkjarnefi.

Mögulega hefur norðurhluti skútans verið nýttur sem fjárskjól þar sem gólf er tiltölulega slétt og hæst er til lofts. Ekki er að sjá að skýrt op sé inn í hann og samband gerðis og skúta er óljóst.“

Sem fyrr segir kemur fram í örnefnaskráningu Ara Gíslasonar fyrir Hvassahraun að svo er næst við sjó Stekkjarnef, þar er rúst eftir Stekk. Þar er og Stekkjardalur niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll, klofinn grashóll.“

Í örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar og Guðmundar Sigurðssonar segir:

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur. Þar upp af er Stekkjarhóll og á honum Stekkjarhólsvarða.“

Stekksins í „Stekkjardal“ er ekki getið sem slíks í fornleifaskráningunni, einungs stekksins í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi), sem sagður er vera í Stekkjardal. Hins vegar er getið um „gerði/kálgarð“ neðst í dalnum, líkt og segir í örnefnalýsingum, sbr. „Grjóthlaðið gerði er um 100 m norðvestan og 380 m NNV við bæ. Líklega afmarkaði gerðið kálgarð. Gerðið er nærri sjó, í grasi vöxnum, hólóttum móa.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Gerðið er um 18×13 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur, mjókkar lítillega til norðvesturs. Veggjahleðslur eru hrundar og eru 1-1,5 m á breidd og hæstar 0,5 m. Mest sjást 2-3 umför hleðslu. Tréstaurar eru hér og hvar í grjótinu og hefur verið girðing ofan á grjóthleðslunni. Ekki sést skýrt op á gerðinu.“

U.þ.b. 20 metrum norðan við „gerðið/kálgarðinn“ mótar fyrir ferhyrndum hleðslum á gróðurbleðli, rétt ofan við núverandi grjótuppkastaðan fjörukampinn. Um er að ræða tvö hólf í aflöngu gerði, 2x 6x12m með op móti suðri. Einungis sést móta fyrir einu umfari, en skýrastir eru veggirnir að austan og norðanverðu. Hér er greinilega um leifar af stekk að ræða, enda stemmir hann við lýsingar í framangreindum örnefnaskrám. Minjarinnar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi; eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt. Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900.

Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt.

Hvassahraun

Hvassahraun – matjurtargarður.

Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þessi virðist hins vegar ekki hafa verið notaður sem slíkur. Hins vegar eru þrír stórir matjurtargarðar með grjóthlöðnum veggjum umhverfis skammt ofar í dalnum.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Gísli Sigurðsson og Guðmundur Sigurðsson.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.