Íslandsferð Williams Lewis Telbin 1884

William Lewis Telbin

Í Helgafelli 1953 birtist grein um „Íslandsferð Williams Lewis Telbin árið 1884„. Hér er stutt frásögn frá ferðinni í íslenskri þýðingu Þórarins Guðnasonar er birtist í blaðinu:

Helgafell

Helgafell 1953.

[Höfundur þessarar ferðasögu, William Lewis Telbin (1840—1931), var enskur leiktjaldamálari og maður víðförull. Í eftirmælum um hann í The Times var m. a. komist þannig að orði, að hann hefði ferðast „frá Íslandi til Tangier og Írlandi til Vín“. Grein þessi mun rituð árið 1925, en hefur ekki birzt á prenti fyrr en nú. Frændi höf., dr. W. D. Nicol yfirlæknir, lét mér góðfúslega í té eftirrit af handriti gamla mannsins og leyfði, að greinin yrði þýdd og birt á íslenzku. Ág hef leitast við að breyta sem minnstu í þýðingunni, læt t. d. allar tölur standa óhaggaðar, þótt sjálfsagt megi um sumar þeirra deila. Þýð.]

„Við bjuggum í litlu, þokkalegu gistihúsi. Fæðið var fábreytt, enda varla við öðru að búast í svo hrjóstrugu landi, en norski bjórinn var afbragð og kaffið gott, en út í það var látin sauðamjólk.
Tíminn var naumur, og hófum við því fljótlega undirbúning ferðarinnar inn í landið. Gestgjafinn útvegaði okkur túlk, en hann tók svo á leigu hesta, hestadreng og tjald. Við lögðum af stað frá Reykjavík snemma morguns í blíðuveðri. Um nóttina gistum við á prestssetrinu Þingvöllum, skammt frá samnefndu stöðuvatni.

Hengill

Hengill – útsýni til vesturs yfir Reykjanesskaga.

Eftir nálega tveggja mílna ferð á fótinn námum við staðar og litum til baka. Mikils fara þeir á mis, sem nú á dögum ferðast í bíl eða á hjóli; þeim getur orðið jafnhættulegt að líta um öxl og Orfeusi forðum, þótt sá verknaður hefni sín með nokkuð öðrum hætti nú en í grísku goðsögninni.
Héðan sást vítt yfir og margt var að skoða. Reykjanesskaginn, þar sem vitinn er, var lifandi eftirmynd landslagsins á tunglinu, ef dæma má af myndum bókarinnar „Um tunglið“ eftir Hasmyth og Carpenter. Þar var gígur við gíg, en flestir voru þeir litlir unr sig og grunnir, og blikaði á gígbarmana í sólskininu. Í þessum fjarska virtist skaginn líka jafn-lífvana og öræfi mánans, hvergi gróðurtó.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Framundan blasti við hinn víðáttumikli Faxaflói og norðan við hann fremur lágur fjallgarður, sem smálækkaði niður að sjóndeildarhring, unz Snæfellsjökull reis í 4850 feta hæð lengst í vestri.
Meira en helmingur þessa tignarlega eldfjalls er þakinn ís og snjó, en aflíðandi hlíðar þess minna dálítið á hið fagra og heilaga fjall Japana, Fusijama.
— Eftir nokkra stund héldum við svo ferðinni áfram. Ég komst brátt að raun um, að klárinn minn var engin asaskepna. Honum mun aftur á móti fljótlega hafa skilizt, að ég væri lítill hestamaður og einnig hitt, að ég gripi sjaldan til svipunnar, en legði því meiri áherzlu á fortölur. Fyrr kom þó, ef við drógumst aftur úr, að hann tók allt í einu á rás og þótti mér það hin bezta skemmtun, ef framundan voru sléttar grundir, en líkaði miður, ef skeiðvöllurinn var stórgrýttur og í honum djúpir götuskorningar. Íslenzku hestarnir eru með afbrigðum fótvissir, og var okkur ráðlagt að leggja taumana fram á makkann og láta klárana ráða, þegar við færum upp og niður illfærar brekkur. Þeir kváðu jafnvel eiga það til að hreyfa sig hvergi, ef taka á af þeim ráðin.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja um 1900.

Þegar leið á daginn, þykknaði í lofti og fór að rigna, í fyrstu lítið eitt, en síðan gerði helliregn. Um kvöldið, þegar við stigum af baki á Þingvöllum, hneig ég niður. Eftir fyrsta daginn á hestbaki og rigninguna var ég annaðhvort of stirður eða máttlaus til þess að geta staðið uppréttur.
Á prestssetrinu voru engir gestir fyrir, svo að við fengum gistingu, að öðrum kosti hefðum við orðið að sofa í kirkjunni. Ekki var þarna um auðugan garð að gresja, hvað mat áhrærði, og urðum við því að grípa til niðursoðna kjötsins, sem við höfðum nestað okkur nreð. Við spurðum prestskonuna, hvort hún ætti nokkuð í staupinu.

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

,,Nei“, mælti hún, „við höfum slíkt aldrei um hönd“, og gekk út. Að vörmu spori kom hún aftur og sagði okkur frá því, að árið áður hefði Skoti nokkur heimsótt þau, og hún minntist þess nú, að hann hafði skilið tvær flöskur eftir, en hvað í þeim væri, vissi hún ekki. Á hinn bóginn mættum við ráðstafa þeim eftir geðþótta. Við álitum vandalaust að gizka á, hvað reyndur og hygginn Skoti hefði í mal sínum, og hækkaði nú heldur á okkur brúnin, en að sá hinn sami Skoti skildi nestið sitt eftir í næturstað, því trúðum við trauðla, og lækkaði brúnin því aftur. En til þess að fá úr málinu skorið, tókum við tappann úr annarri flöskunni og sjá, í henni var gott og gamalt skozkt viský!

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Morguninn eftir risum við árla úr rekkju. Ég skoðaði kirkjuna, og í þetta sinn fylgdist félagi minn með mér, en á síðari árum hefur hann gert sitt ýtrasta til þess að venja mig af að skoða kirkjur. Hann segir, að það hafi kostað marga töf og langa, þegar við höfum verið á ferðalagi í bílnum hans. — Þetta var ákaflega einfalt guðshús, aflangur salur með öllu skrautlaus. Þrír gluggar voru á hvorri hlið og steinhlerar fyrir þeim að utan, eins og á fornri kirkju einni í Torcello nálægt Feneyjum.
Í vesturendanum var klefi, þar sem blautar eða fenntar yfirhafnir kirkjugestanna voru geymdar um messuna. En hvaðan fólk kæmi hér til kirkju, gátum við ekki gert okkur í hugarlund.

Þingvellir

Þingvallakirkjugarður – staðsetning gömlu kirkjunnar.

Einskis varð ég vísari, sem gæfi nokkra hugmynd um aldur kirkjunnar; ef til vill hefði nokkuð mátt ráða af þeim fáu legsteinum, sem í kirkjugarðinum voru, en áletranirnar voru flestar máðar, og svo kunnum við ekkert í íslenzku.
Þótt Þingvallavatn sé mesta stöðuvatn landsins, getur það ekki talizt stórt. Úr miðju vatninu rís keilulaga eyja, og líkist vatnið því mest, að það lægi á botni mikils eldgígs. Út frá því liggja djúpar og víðar sprungur í basaltklettana, en gjárbotnarnir eru huldir fagurbláu vatni. Á klettunum, sem eru eins og vígi milli gjáa, var háð Alþingi hið forna. Víðsvegar kring um vatnið standa reykjarstrókar upp í loftið, andgufa sjóðheitra vatnshvera.“…

Heimild:
-Helgafell, 3. hefti, 01.12. 1953, W.L. Telbin, Íslandsferð árið 1884, Þórarinn Guðnason íslenzkaði, bls. 10-11.

Sandey

Sandey í Þingvallavatni.