Íþróttahúsið Hálogaland – skilti
Við göngustíg skammt vestan gatnamóta Skeiðarvogs og Gnoðarvogs er skilti um „Íþróttahúsið Hálogaland„. Á því má lesa eftirfarandi texta:
„Fyrsta húsið sem hét Hálogaland var íbúðarhús byggt 1930 þar sem nú er bílastæði á milli blokkanna Sólheima 25 og 27. Á þeim tíma, fyrir seinni heimsstyrjöldina, var þetta svæði austan þéttbýlis Reykjavíkur og sóttust einstaklingar sem vildu stunda ræktun og búrekstur eftir að búa þar. Húsið brann árið 1972.
Árið 1940 var hluti Laugardals og nærliggjandi svæða leigður hernámsliði Breta og síðar Bandaríkjamanna. Þar risu heilu braggahverfin og einnig stór skáli sem setuliðið notaði sem íþróttahús, bíó og samkomusal. Skálinn var nefndur Andrews Memorial Field House í minningu Frank M. Andrews hershöfðingja sem fórst í flugslysi við Fagradalsfjall 1943. Í daglegu tali var skálinn kallaður Hálogaland. Skálinn var vígður í nóvember 1943.

Loftmynd frá 1960. Á henni má sjá bæði íþróttahúsið Hálogaland og húsið Hálogaland sem stendur milli blokkanna í
Sólheimum 25 og 27.
Íþróttahúsið Hálogaland stóð hér, þar sem nú eru gatnamót Skeiðarvogs og Gnoðarvogs. Á stríðsárunum stunduðu hermenn þar körfubolta og aðrar íþróttir og lánuðu húsið einnig íslenskum íþróttafélögum. Jafnframt voru haldnar í húsinu ýmsar samkomur. Í september 1944 hélt söng- og leikkonan Marlene Dietrich til að mynda tónleika fyrir bandaríska hermenn og gesti þeirra í húsinu og einnig mun gamanleikarinn Bob Hope hafa komið hér fram á skemmtun um svipað leyti.
Í styrjaldarlok keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur skálann af setuliðinu og var hann eftir það kallaður Hálogaland. Húsið varð nú miðstöð handknattleiks í landinu og vettvangur allra helstu kappleikja innahúss fram á 7. áratuginn, þegar Laugardalshöll tók við því hlutverki. Á tímabili var Hálogaland einnig íþróttahús Vogaskóla og notað undir guðsþjónustur fyrir Langholtssöfnuð.
Skálinn var rifinn árið 1970.“












