Kirkjugatan milli Býjaskers og Hvalsness

Sigurður Eiríksson

Gengið var með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og fleirum eftir gömlu kirkjugötunni milli Býjaskers og Hvalsness. Leiðirnar fyrrum þarna á millum voru tvær; Neðri-gatan, sem lá með ströndinni, og Efri-Efri-gatagatan, sem lá ofar í landinu.
Gatan síðarnefnda sést víða enn mjög vel og er ætlunin að ganga hana milli hverfanna og jafnframt skrá á spjöld sögunnar – því ekki er vitað til þess að henni hafi áður verið lýst, hvorki á prenti né skjá. Sigurður þekkir örnefnin best núlifandi manna og kann að segja sögur af eftirminnilegum atburðum. Þetta var því söguleg ganga.
Byrjað var þó á því að skoða Bæjarskersgötuna þar sem frá var horfið.
Reynt var að skrá niður það helsta er fyrir augu bar á leiðinni, en vegna þess hversu margt það var, verður sumt að bíða betri síðna.
Sigurður býr nú að Norðurkoti III, austan Stafnesvegar. Þegar hann vildi hliðra til og hleypa yngra fólkinu að búskapnum í Norðurkoti mættu honum ýmsar hindranir, sem bæði eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að leysa af verandi ráðamönnum í Sandgerði. Má þar t.d. nefna viðurkenningu á búsetu í hina ágæta nýja húsi, sem sumir vildu flokka undir sumarbústað.
Norðurkot IIISkv. túlkun þeirra mátti Sigurður ekki hafast þar við yfir vetrarmánuðina. Hann þurfti þá að greiða fullt verð fyrir rafmagn, vera án þjónustu sveitarfélagsins og svo mætti lengi telja. Auðvitað verður að flokka þessi viðbrögð undir þröngsýni og lýsir kannski best þeim er þau sýndu – og hafa sýnt. En nóg með það að sinni…
Gangan hófst við leifar gamla bæjarins Bæjarsker. Þar eru nú engin ummerki eftir gömlu götuna.
Að sögn Sigurðar má sjá Neðri-götuna stutta kafla á þremur stöðum, s.s. við Norðurkot. Annars væri hún að mestu horfin. Í lýsingu segir Sigurður m.a. svona frá þessari götu: „Neðri göngugatan milli hverfa, stundum kölluð kirkjugata. Hún lá með bæjum. HólkotÉg man vel eftir henni á Háabakkahólnum. Þar var hún vel merkjanleg eftir miðju Norðurkotstúni. Kom gatan upp úr Fúluvíkinni um hlaðið í Fuglavík, í traðir sem liggja með Fjósakotstúni sunnan til sjávar. Gatan þar er vel sjáanleg í dag, lá með sjó yfir Melabergsá og í gegnum hlaðið á Nesjum og Löndum. Efri-gata var notuð líka og víða sjáanleg.“
Gengið var í fyrstu yfir að og framhjá tóftum Hólkots, Hábæjar og Miðkots. Þar eru á öllum stöðum tóftir torfbæja og hlaðnir grjótveggir.
Efri-gatan kom glögglega í ljós sunnan við Setberg, vestan Stafnesvegar. Götunni var fylgt áleiðis til suðurs. Þegar komið var á móts við Kambsstekk benti Sigurður á grónar leifar hans skammt ofan þjóðvegarins.

Skammt sunnar mátti sjá móta fyrir nánast jarðlægum hlöðnum görðum: „Gilsgarðar, sagði Sigurður“: Gilsgarðar voru hlaðnir af Þorgils Árnasyni í Hamrakoti.
Skammt sunnar staldraði Sigurður við, snérist um 90° og benti til austurs, áleiðis upp heiðina: „Þetta er forvitnilegt, hluti gamals vegar, sem átti að liggja héðan til Keflavíkur. Hér má sjá hvernig mótar fyrir veginum, sem byrjar hér við Efri-götu ofan Vatnagarðs. Hluti vegarins var skemmdur töluvert þegar slitlag var sett á Stafnesveg. Var mjög vel hlaðinn og breiður.
Gamlir menn sögðu, að hestvagnar hafi átt að geta mæst Götuhlutinná honum. Hann hefði átt að liggja til Keflavíkur en draugar hefðu stoppað áframhald. Voru menn hér í hverfinu svona framsýnir og langt á undan tímanum og einhverjir draugar, e.t.v. mennskir, tafið og viljað láta hann liggja með byggð?“
Sigurður taldi að þarna hefði getað verið um vegabótavinnu að ræða. Þegar fjármagn hefði skort var ekki lengra farið. Eflaust hefur líka verið ágreiningur um vegstæðið, sem er svolítið einkennilega staðsett, millum Fuglavíkur og Melabergs.
MarkavarðaOfan við þjóðveginn eru Fuglavíkurstekkir; Neðri-Stekkur (grjóthlaðinn) og Efri-Stekkur (torfhlaðinn). Efri stekkurinn ber við sjónarröndina. Eftir er að skoða hann nánar, en ekki er ólíklegt að þar kunni undir háum gróningunum að leynast fjárborg. Ætlunin er að skoða þessi mannvirki betur fljótlega.
Framundan til hægri mátti sjá Markavörðuna svonefndu. Um hana sagði Sigurður: „Markavarðan er á mörkum milli Fuglavíkur og Melabergs. Varðan er neðst í Almenningum og í klöpp við hana er höggvið L.M. Almenningur var samkomulag milli fjárbænda í Bæjarskershverfi og Fulavíkurhverfi, suður í Nesjar. Almenningur hafði þann tilgang að fé kæmist í fjöru. 

Hábær

Hábær.

Vel má sjá móta fyrir útlínum stekksins. „Kambsstekkurinn er norðast í Setbergsgirðingu (eða Bárugirðingu). Gæti hafa verið stekkur frá Syðstakoti?“, segir í lýsingu Sigurðar. Suðaustan við hann er lítil tjörn, sem þornar á sumrum. Stekkurinn er norðan í svonefndu Kambsgili, sem er aflíðandi slakki upp í landið.
Þá liggur gatan innan girðingarinnar í Norðurkoti og færist smám saman nær henni við þjóðveginn. Þegar komið var inn fyrir Norðurkot III (Bjarghús), þar sem Sigurður býr núna, var staldrað við. Það er í svonefndu Gili.

Kambsstekkur

Austan við húsið í Norðurkoti I er sæmileg tjörn. Hana sagðist Sigurður hafa búið til á sínum tíma. Norðan við Norðurkotsbæinn er Lón, nefnt Skurðir. Um Norðurkotstjörnina segir Sigurður: „Hún var mikið minni hér áður og náði Háibakki mikið ofar og var mjótt haft á milli upp í tangann sem nú er orðinn hólmi. Var farið á steinum yfir á Háabakkann. Pabbi (Eiríkur) byrjaði að laga til og búa til hólma um 1939. Hólmarnir voru búnir til með því að aka grjóti á ís og laða æðarfugl að og smám saman fjölgaði fugli. Var það aðallega úti í hólmunum, en eftir að minkurinn kom, þá flutti fuglinn sig upp í landið.“ Sigurður lýsti því hvernig æðarvarpinu var komið á legg, baráttunni við nálægan varg, sem reyndust vera kettir úr Bæjarskershverfi, uppsetningu 5 km langra varnarneta umleikis o.fl.
Brókarlaut er austar, þar sem Stafnesvegur fer upp brekku suðvestan Norðurkots III. Sagði Sigurður nafnið hafa komið til vegna þess að vegagerðarmenn við veginn hafi þurft að klæðast hlífðarbrókum vegna þess hversu blautt vegarstæðið hafi verið.
Gatan við KlapparkotshólFarið var yfir heimreiðina að Norðurkoti. Þar á hægri hönd mátti sjá leifar af gömlum hlöðnum túngarði. Gatan liggur þarna upp stutta hæ
ð. Á hægri hönd er aflangur klapparhóll, Klapparkotshóll. „Klapparkot stóð vestur undir hólnum“, sagði Sigurður. Þar má enn sjá tóftir þess. Skammt sunnar mátti sjá leifar Hamrakots, hjáleigu frá Fuglavík. Við þær er trjárækt austanvert. Að sögn Sigurðar plantaði Una í Fuglavík, systir Jónínu, þessum trjám löngu eftir að kotið var aflagt. Kotið stóð við Hamrakotshól. Vestar, austan Fuglavíkurbæjarins, var Móhús. Sunnan við Fuglavík er Fuglavíkurtjörn. Hún var einnig nefnd Varptjörn. Sést hún vef frá götunni, sem og annað er lýst hefur verið.
Fuglavíkurbærinn er vestan við Norðurkot. Frá fundi húsfreyjunnar þar, Jónínu, á fornum ártalssteini, segir annars staðar á vefsíðunni.
Ofan götunnar, móts við Hamrakot, er aflangur klettur með hárri fuglaþúfu á, grónar leifar vörðu. „Álfakirkja heitir hann þessi“, sagði Sigurður. Sagðist hann ekki þekkja til sagna af álfum þarna, en þær gætu þó tengst konu einni (Stína) er umsetin var álfum. Bjó hún fyrrum í Hamrakoti. Hún kom þangað einus inni á ári og gekk þá um Hólinn. „Sögur hef ég heyrt um dularfulla hegðun og hvörf hennar þegar hún var ung í Hamrakoti. Ein er sú að bankað var þar að kvöldi, fór hún til dyra en kom ekki aftur og var horfin. Fannst hún inn á Njarðvíkurfitjum. Fleiri sögur eru til skráðar.“
Ofar má sjá steypta veggi Hóla. Faðir Sigurðar, sem bjó í Fjósakoti niður við Fuglavík, byggði húsið, nýbýlið, 1934. Sigurður (f: 1929) flutti síðan í húsið ásamt foreldrum sínum, en það brann árið 1937. Um það leyti var Norðurkotið laust til ábúðar og fluttist þá fjölskyldan þangað. 

Álfakrikjan

Eiríkur Jónsson keypti Norðukotið af Guðmundi Gíslasyni, sem fékk að vera þar áfram meðan hann lifði. Eiríkur reif öll hús í Norðurkoti, sem þá voru úr torfi og grjóti, og reisti ný.
Þarna, upp frá Fuglavík, liggur Fuglavíkurvegur. Um hana segir Sigurður: „Fuglavíkurvegur, gömul leið til Keflavíkur. Man eftir honum liggja frá Efri-götu sunnan Norðurkotsafleggjara, norðan hænsnakofa, norðan Háamels og upp, beygði svo norður af Folaldatjörn og inn á Einstæðingsmel, vestan Gotuvörðu á Sandgerðisvegi. Gotuvarða er ný upphlaðin og merkt af okkur Guðmundi Sigurbergssyni.“
Efri-gataUtan við Hóla og ofan Stafnesvegar er Siggavarða. Ekki sagðist Sigurður vita hvaðan nafngiftin er komin, en hann og Jónína í Fuglavík væru sammála um að hún væri gömul. Skammt sunnar er Dagmálavarða á ílangri Dagmálahæð. Um var að ræða eyktarmark frá Fuglavík.
Frá þessum stað við gömlu götuna benti Sigurður til vesturs og sagði að þarna neðar hefði verið býli er nefndist Vatnagarðar eða Vatnagarður. Sunnar hefðu Kaðalhamrar verið, niður við ströndina. Um væri að ræða stórtgrýttan kletthöfða. Sagði hann fróða menn hafa talað um að nafnið væri sennilega keltneskt. Svo væri og um mörg önnur áhrifaorð í íslensku. Tók hann sem dæmi orðið „geir“ í merkingunni „mör“. Þannig mætti nefna geirfuglinn „mörfugl“, en það væri einfaldlega rökrétt þegar afurð hans væri skoðuð í samhengi. Mörgæsin væri t.a.m. ekki ólíkur þeim fugli, sem reyndar er ekki  útdauð eins og hann. Fleiri dæmi tók Sigurður af nafngiftum kelta og áhrif þeirra á þessu svæði við gömlu kirkjugötuna.

Seinna, um 1945 varð gert samkomulag um að loka þessu til að stjórna flæðihættu. Norðurkot hafði alltaf aðgang að sinni spildu í gegnum Almenning, þangað til 2005, að Melabergsbændur girtu hana af einhliða.“
LindinÞrátt fyrir leit á klöppum við vörðufótin sást engin áletrun. Hún mun þó geta leynst þarna undir sandi, sem fokið hefur um svæðið og þakið misfellur.
Það kom líka augsýnilega í ljós á götukaflanum, sem framundan var. Allt Melabergssvæðið vestanvert er sandoprið þótt takist hafi að rækta þar upp á seinni árum. Gatan er því horfin í sandinn. Syðst á svæðinu staðnæmdist Sigurður við litla tjörn. „Hér neðar er Lindarsandur og þetta er Lindin. Lindarkot var hér skammt ofar, rétt ofan þjóðvegarins, og enn ofar er Melaberg. Í Lindinni þraut aldrei vatn. Hún var hlaðinn niðurgenginn brunnur. Tröppur voru hér að suðvestanverðu og hlaðið umleikis, líkt og sjá má í brunninum forna á Merkinesi. Sandurinn fyllti síðan brunninn og nú er hann horfinn. Það væri létt verk og löðumannlegt að grafa hann upp og gera aðgengilegan áhugasömum ferðalöngum um svæðið“. Í örnefnalýsingu fyrir Melaberg segir um lind þessa: „Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind. Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk

 báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. 

Smalinn

Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér.“
Leiðin liggur nú yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Komið var að „Melabergsbræðrum og smalanum“; þremur stórum steinum á lágri aflangri hæð. Þjóðsaga kveður á um tilurð steinanna, smalinn austast og bræðurnir þétt saman vestar. Í kringum þá eru minni steinar; ær er urðu að steinum líkt og hinir fyrrnefndu.

Norður-Nesjar

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: „Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðrá
ttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Efri-gata

Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna.“
Þegar lengra var haldið blasti Másbúðarvarða við niður við ströndina; sundvarða í Keili. Komið var að gatnamótum Hvalsnesgötu frá Keflavík og Efri-götu. Frá þeim tók gatan svo til beina stefnu á efsta grjótgarðinn við Nesjar. Ekki er auðvelt við fyrstu sýn að greina götustæðið, en úr því rættist fljótlega. Á leiðinni var gengið yfir jarðlægan garð Norður-Nesja. Tóftir bæjarins eru á lágum hól sunnan við túngarðinn. Hleðslur sjást enn er forma fyrrum bæjarstæðið. Um hann og fleira á leiðinni má t.d. lesa í Rauðskinnu.

Fuglavík

Fuglavík – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var ofan garðs við Nesjar og Lönd. Þar fylgdi gatan utanverðum görðum. Að sögn Sigurður má enn greina Virkið (Virkishól) og Gömlu Nesjar á bak við bílskúrinn á Nesjum. Másbúðarhólmi er neðar, landfastur á fjöru.
Nýlegt sumarbýlissvæði var á hægri hönd er lengra var haldið og þá Bursthús. Nýlenda var síðasti bærinn á hægri hönd áður en haldið var heim á hlað að Hvalsnesi. Frægastur ábúenda á Hvalsnesi er að ölluk líkindum séra Hallgrímur Pétursson.
Að lokinni göngu bauð Sigurður þátttakendum til stofu í Norðurkoti III. Til að bæta um betur fyrir hinar ellefu sortir og laufabrauð á borðum eftir fyrri ferðina galdraði hann fram rúsínur í súkkulaðihjúp og bauð rjúkandi kaffi með.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mínútur.

Heimild:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti (f. 1929 – d. 2016)

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.