Kjalarnes og Kjós

Kjalarnes

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2000 má lesa eftirfarandi frásögn um „Kjalarnes og Kjós„:
„Esjan er fjall sem allir Reykvíkingar og fleiri hafa fyrir sjónum nær alla daga.Uppi í hlíðum þess var unnið kalk og flutt til Reykjavíkur. Brennsluofhinn stóð þar sem nú heitir Kalkofnsvegur og eru enn til hús sem kalkið var notað í. Á Esjuna eru margar góðar og frekar auðveldar gönguleiðir, t.d á Þverfellshorn, um Gunnlaugsskarð, úr Blikdal og margar fleiri. Á Esjubergi var fyrsta kirkja á Íslandi reist og þar bjó Búi Andríðsson, aðalsöguhetja Kjalnesingasögu.
Esja-221Á Móum bjó séra Matthías Jochumsson þegar hann var prestur í Saurbæ á Kjalarnesi 1867-73 og þar þýddi hann leikritin Hamlet, Othello og Rómeó og Júlíu.
Um Brautarholt segir í Kjalnesingasögu að Helgi bjóla, sem nam land á Kjalarnesi fengi Andríði, írskum manni, bústað. Þar fæddist Bjarni Thorarensen, 1786-1841, skáld og amtmaður. Helgi bjóla bjó á Hofi, en Þorgrímur goði reisti þar hof mikið.
Saurbær á Kjalarnesi er kirkjustaður og höfuðból. Árið 1424 rændu enskir víkingar staðinn og stálu vopnum, hestum og fleiru.
Tíðaskarð innan við Saurbæ heitir svo því að þar fóru kirkjugestir um á leið til tíða og þegar til þeirra sást, þótti tími til að hringja til tíða. Fyrir um 15-20 árum var farið að brotna mikið úr sjávarbakkanum fyrir neðan kirkjugarðinn og komu þá í ljós bein úr garðinum.
Hvalfjarðareyri, löng og flöt eyri er gengur út í Hvalfjörðinn. Þar var verslunarstaður um tíma á seinni hluta 17. aldar eftir að Maríuhöfn eyðilagðist. Rétt innan eyrarinnar heitir Naust. Þaðan gekk ferja um tíma yfir að Katanesi. Þar er og elsti vegarkafli í Kjósinni, sem enn er notaður.
Laxárvogur (Laxvogur) er grunnur en þótti góður beitutínslustaður.
mariuhofn-221Maríuhöfn var verslunarstaður á miðöldum og sjást þar rústir, sem eru að mestu ókannaðar. Árið 1402 kom Hval-Einar Herjólfsson skipi sínu í Maríuhöfn og flutti með sér svarta dauða, mannskæðustu drepsótt er hingað hefur komið. Þegar Alexíus prestur Svarthöfðason á Saurbæ reið frá skipi, komst hann ekki nema í Botnsdal og andaðist hann þar og sjö fylgdarmenn hans. Svo bráð var sóttin.
Árið 1387 kom Björn Einarsson Jórsalafari skipi sínu í Hvalfjörð.
Hvammur, þar bjó Hvamm-Þórir er land nam milli Laxár og Fossár.
Steðji, Karlinn í Skeiðhól, Staupasteinn, sem allt eru nöfn á sama steininum, en þar er forn áningarstaður.
glymur-221Í Landnámu segir að Ávangur hinn írski hafi reist bú að Botni. Um Botnsdalinn rennur Botnsá, en hún skiptir löndum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Í henni er Glymur, 198 m hár, talinn hæsti foss á Íslandi. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, um 160 m djúpt. Inn af dalnum er Hvalfell, móbergsfjall, sem hlóðst upp í gosi undir jökli síðla á ísöld. Grágrýtiskollur er á fjallinu, sem bendir til að gosið hafi náð upp úr jöklinum. Sagt er að Arnes Pálsson hafi hafst við í hellisskúta við vatnið á árunum 1750-57.
Botnssúlur, einstakir tindar, sá hæsti 1095 m. talið er að um gamla eldstöð sé að ræða og tindarnir séu rústir af gömlum gíg. Þyrill er 358 m hátt hömrum girt fjall úr basalti, þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Nafnið mun vera dregið af þyrilvindum þeim, sem eru svo algengir fyrir botni Hvalfjarðar. Í Þyrli er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að Helga jarlsdóttir klifi upp með syni sína, Björn og Grímkel, á flótta eftir víg Hólmverja á leið sinni yfir að Indriðastöðum í Skorradal.
Í Geirshólma höfðust við Hólmverjar undir forustu Harðar Grímkelssonar, sem frá segir í Harðar sögu og Hólmverja. Þar hafðist við flokkur Sturlu Sighvatssonar undir forustu Svarthöfða Dufgussonar og fóru með ránum þaðan um hríð.
Bessastaðir, kirkjustaður og fornt höfuðból á Álftanesi. Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar og eru þá í eigu Snorra Sturlusonar. Eftir dráp Snorra sló Noregskonungur eign sinni á Bessastaði og eru þeir fyrsta jörðin í konungseign á íslandi. Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen, en faðir hans bjó bar áður. Grímur var fæddur á Bessastöðum 1820. Á Bessastöðum fæddist einnig skáldið Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal 1826. Þar var Bessastaðaskóli, arftaki Hólavallaskóla, frá 1805 og í um 40 ár. Þá var hann fluttur til Reykjavíkur aftur og nefndist þá Lærði skóli og síðar Menntaskólinn í Reykjavík. Bessastaðir voru gefnir íslenska ríkinu 1941, með því skilyrði að þar yrði setur ríkisstjóra og forseta. Gefandinn var Björgúlfur Ólafsson, læknir á Bessastöðum og síðar í Kópavogi. Hús þar eru í elstu röð húsa í landinu, reist á árunum 1761-66 sem amtmannssetur. Kirkja var reist þar á árunum 1777-1823. Þar var gert virki á 17. öld, Skansinn, til varnar sjóræningjum og óvinaherjum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 18. árg. 2000, 4. tbl., bls. 1 og 3.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.