Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um “Landnám í Kjós“:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

“Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.”

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.