Tag Archive for: Kjós

Steðji

Í Tímanum 1976 eru sögð  „Nokkur orð um Kjósarsýslu – Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?„.

„Sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu eru við Botnsá i Hvalfirði, en Kjós nefnist sveitin frá Hvalfjarðarbotni til Kiðafellsár. Kjós þýðir í raun kvos eða dæld, enda kemur það vel heim og saman við landslag þar í sveit.

Kjós

Ferð okkar um landnám Ingólfs hefst við Botnsá í Hvalfirði, og þar eru, eins og fyrr segir, sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu.

Botnsá

Botnsá.

Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, 160 m djúpt. Er sagt, að vatnið heiti eftir hval, sem teymdur var í það upp eftir Botnsá. Í Botnsá er fossinn Glymur, hæsti foss á Íslandi, rúmir 200 m að hæð.
Þegar yfir Botnsá er komið, sveigir vegurinn út með Múlafjalli, bröttu og hömrum girt í sjó fram, og er vegastæðið tæpt á kafla. Botnsvogur heitir vogurinn, sem við sjáum á hægri hönd.

Brynjudalur

Brynjudals á og hellarnir; Bárðarhellir (t.h.) og Maríuhellir (t.v). Huldukona fær sér að drekka vatn úr ánni.

Við ökum út með Múlafelli og yfir Brynjudalsá, sem fellur um lítið dalverpi, Brynjudal, og til sjávar í Brynjudalsvogi. Ofan við brúna á Brynjudalsá var foss, sem sprengdur hefur verið, og við hann er Maríuhellir.
Skammt norðan Laxár komum við að vegamótum Kjósarskarðsvegar, en hann liggur á milli Kjósar og Þingvallavegar, u.þ.b. 22 km langur. Við Kjósarskarðsveg eru meðal annarra bæirnir Reynivellir, sem er kirkjustaður og prestssetur, og Vindáshlíð, þar sem eru sumarbúðir KFUK. Írafell heitir innsti bær í Kjós, og við þann bæ er kenndur Írafells-Móri, frægur draugur í eina tíð.

Við ökum yfir Laxá og höldum fram hjá Félagsgarði. Áður en við vitum af komum við að vegamótum Meðalfellsvegar, sem liggur upp með Meðalfelli að sunnan.
KjósÁin Bugða fellur úr Meðalfellsvatni, og rennur í Laxá, ekki langt frá bænum Ásgarði, Bærinn að Meðalfelli er á vinstri hönd, ef haldið er eftir Meðalfellsvegi.

Eilífsdalur

Eilífsdalur.

Ef við höldum fram hjá vegamótum Meðalfellsvegar, komum við brátt að þriðju vegamótunum, að þessu sinni að vegamótum Eyrarfjallsvegar. Tilvalið er að bregða út af vananum og taka nú beygjuna til vinstri í stað þess að halda beint áfram. Þá höldum við fyrst um grasi gróið undirlendi fram hjá búsældarlegum býlum, yfir Skorá og síðan eftir berangurslegum ruðningsöldum, allt til þess er við komum að mótum Eilífsdals, en Í þeim dal stendur samnefndur bær. Undirlendi er töluvert á þessum slóðum.

Eilífsdalur

Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.

Eilífsdalur er tilkomumikill og hrífandi í senn hið innra, girtur hamrafjöllum á þrjá vegu, Þórnýjartindi að austan, Skálatind að vestan, en Eilífstindi fyrir botni dalsins.
Við höldum fram hjá bænum Eilífsdal, og þegar Miðdalur, Tindastaðir og Mórastaðir eru að baki, komum við til Kiðafells, landnámsjarðar Svartkels hins katneska. Ef við hefðum ekki beygt til vinstri og ekið eftir Eyrarfjallsvegi, hefði leið okkar legið áfram eftir þjóðbrautinni, eins og vaninn er að fara, þegar haldið er til Reykjavíkur. Leiðin liggur þá út með Eyrarfjalli og framhjá bænum Eyri. Til hægri sjáum við Hvalfjarðareyrina, langa og flata, en þaðan liggur sæsímastrengurinn yfir í Katanes á Hvalfjarðarströnd. Á sínum tíma var rætt um að gera þaðan bílferjustað yfir Hvalfjörð, og var nokkur undirbúningur hafinn að því, en ekkert varð meira úr framkvæmdum.

Írafell

Írafell.

Við höldum fram hjá bænum Kiðafelli, förum yfir Kiðafellsá og sjáum brátt niður að Hjarðarnesi.

Tíðaskarð

Tíðaskarð – loftmynd.

Nú erum við komin á Kjalarnesið, en svo heitir nesið milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Vegurinn liggur um Tíðaskarð, sem svo er nefnt, og brátt opnast okkur mikilfengleg sýn suður um Seltjarnarnes og Faxaflóa.
Þjóðvegurinn liggur fram hjá heimavistarskólanum á Klébergi, og litlu sunnar er félagsheimilið Fólkvangur. Gegnt Fólkvangi er bærinn Vallá, en þaðan var Benedikt Magnússon, sá er stofnsetti steypustöðina B.M. Vallá. Hofsvík heitir víkin fram undan Fólkvangi.
Kollafjörður
Brátt komum við á steyptabraut og ökum eftir henni framhjá Mógilsá, þar sem Skógrækt ríkisins hefur reist rannsóknarstöð skógræktar fyrir þjóðargjöf Norðmanna. Þar er kalknáma, sem um skeið var unnin, og einnig fannst þar vottur gulls, en því miður ekki nógu mikið. Kalkið, sem unnið var við Mógilsá, var flutt til Reykjavíkur og brennt þar. Heitir Kalkofnsvegur, þar sem brennslan fór fram.
Mógilsá
Bærinn Kollafjörður stendur skammt frá Mógilsá og þar hefur ríkið sett upp fiskeldisstöð. Í Kollafirði bjó Kolbeinn Högnason, alþýðuskáld, landskunnur fyrir snjallar lausavísur og ferskeytlur. Fjörðurinn allur milli Seltjarnarness og Kjalarness heitir Kollafjörður, og á honum eru eyjarnar, Viðey, Engey, Akurey, Þerney og Lundey.
Við höldum fram hjá byggingum kaupfélags Kjalarnesþings, og til hægri blasir við okkur Leiruvogurinn.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Lágafell neðst.

Brátt sér heim að Hulduhólum, íbúðarhúsi Sverris Haraldssonar, listmálara , en í túninu framan við hús sitt hefur listamaðurinn komið nokkrum verka sinna fyrir. Lágafell er á vinstri hönd, en þar er kirkja og fagurt íbúðarhús, sem Thor Jensen reisti. Effersöeættin færeyska á rætur sínar að rekja til Lágafells. Þaðan var og ættaður Oddgeir Stephensen, sem meðal annars gegndi starfi forstöðumanns íslenzku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Hlíðartún nefnist lítið þorp í Lágafellslandi. Þar er vistheimili fyrir vangefin börn. Leið okkar liggur nú með Úlfarsfelli á vinstri hönd, en til hægri sjáum við heim að Blikastöðum, miklu stórbýli í Mosfellssveit.“

Heimild:
-Tíminn; Nokkur orð um Kjósarsýslu, Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?, 222 tbl. 03.10.1976, bls. 16-17.
Kjós

Kjós

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998, er fjallað um „Morðóðan og ófróman bónda á Frossá í Kjós“.

Morðóður og ófrómur bóndi á Frossá

Reynivallaháls

Kjós.

Axlar-Björn er einn frægasti morðingi Íslandssögunnar. Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi var í alfaraleið og urðu ferðamenn fegnir að fá gistingu í bænum. Björn réði þeim þá bana og rændi þeim verðmætum sem þeir höfðu meðferðis.

Fossá

Fossárrétt hin nýrri við Fossá.

Sagt er að 19 manns hafi verið vegnir í rúmum Axlarbónda, sem tekinn var, dæmdur og höggvinn fyrir ódæði sín. En Axlar-Björn var ekki sá eini sem lagðist á ferðamenn með þessum hætti. Magnús Sighvatsson, sem bjó á Fossá í Kjós á árabilinu 1729-1770, var sterklega grunaður um að myrða og ræna ferðamenn sem leið áttu um hlöð hans.
Örnefnið Dauðsmannsbrekka á Reynivallahálsi í Kjós dregur nafn sitt af þeim atburði að þar hafi maður verið myrtur og sögn er til um að þar hafi Magnús á Fossá átt hlut að máli. Magnús var ættaður af þessum slóðum. Faðir hans Sighvatur Halldórsson var frá Meðalfelli, en móðir hans Kristín Erlingsdóttir frá Esjubergi á Kjalarnesi. Var Magnús fæddur á Hurðarbaki í Kjós árið 1704.

Morð í Dauðsmannsbrekku

Kjós

Kjós – Dauðsmannsbrekka of Fossá.

Magnús Sighvatsson var forn í skapi og talinn fjölkunnugur. Hann var illa þokkaður meðal nábúa sinna og þorðu fáir á hann að leita. Honum er svo lýst, að hann hafi verið mikill og sterkur og illur viðureignar ef því var að skipta. Þessa lýsingu á Magnúsi skráði Jósafat ættfræðingur Jónasson, en hann ritaði eftir sögnum á Hvalfjarðarströnd. Hann var vel efnum búinn og héldu sumir að auður hans væri miður vel fenginn.

Gíslagata

Gíslagata upp frá Fossá.

Sagt er að maður nokkur norðlenskur hafi verið sendur suður í Reykjavík, sumir segja suður að Bessastöðum á Álftanesi, og hafði hann allmikla peninga meðferðis. Maður þessi gisti á Fossá hjá Magnúsi á suðurleið og er ekki annars getið en að allvel hafi farið á með þeim meðan heimafólk vissi til. Snemma morguns lagði ferðamaður af stað eins og leið lá yfir hálsinn suður af Fossá, en er hann var skammt kominn verður hann þess var, að tveir menn veita honum eftirför. Þekkir hann þar Magnús bónda á Fossá og Eyjólf son hans. Man hann þá eftir að hafa heyrt ýmsar misjafnar sögur af Magnúsi og kemur í hug að hér muni ekki allt með felldu.

Kjós

Kjós – Reynivallaháls.

Leitar hann nú undan suður á hálsinn, en þeir á eftir og létta eigi fyrr en þeir ná honum í brekku einni þar í hálsinum, skammt frá veginum er liggur niður frá Fossá suður að Reynivöllum. Taka þeir feðgar þegar til hans og biðja hann að afhanda sér peninga þá er hann hafði meðferðis. Norðlendingurinn tekur því fjarri og réðust þeir feðgar þá þegar á hann, og var viðureigna þeirra bæði hörð og löng, því Norðlendingurinn hafði krafta í kögglum.

Reynivallasel

Reynivallasel ofan Fossár.

Er svo skýrt frá að Magnús hafi látið Eyjólf son sinn ganga aftan að manninum og hafi Eyjólfur lagt hnífi milli herða honum, meðan Magnús glímdi við hann að framan.
Er það haft eftir manni er Guðmundur hét og bjó á Hálsi í Kjós, og reið þar skammt frá þeim suður yfir hálsinn þennan sama dag, og að hann hafi séð viðureign þeirra, en treystist ekki til að hjálpa þeim ókunna manni, þótt hann sæi dauða hans þegar vísan. Er jafnvel sagt að Norðlendingurinn hafi kallað til Guðmundar og beðið hann hjálpar, en Guðmundur sá það síðast til, að þeir feðgar höfðu kominn manninum á hné og mæddi hann þá mjög blóðrás, svo að vörn hans var á þrotum. Þeir feðgar veittu honum þá þegar tilræði með hnífnum.

Sönnunargögn skorti

Kjós
En það er af Guðmundi að segja að hann tók svo nærri sér að geta ekki bjargað manninum, að hann lagðist þegar í rúmið þegar hann kom heim og varð hann aldrei síðan samur og áður á meðan hann lifði. Einkum sótti á hann sinnisveiki og ætluðu menn að orsökin var að hann skyldi hlaupast frá þegar voðaverkið var framið.

Gíslagata

Dys við Gíslagötu.

Þegar sama dag og morðið var framið var mannsins leitað og fannst hann eftir tilvísun Guðmundar í brekku þeirri, er síðan er kölluð Dauðsmannsbrekka.
Aldrei sannaðist þetta verk til fulls upp á Magnús, enda er sagt að ekki hafi verið gerður að því neinn reki. Guðmundur vildi og mjög lítið um þetta tala og aldrei gat hann þess í votta viðurvist, og er sagt að bæði hann og aðrir nábúar hans, er líka höfðu grun um hver valdið hafi, hafi dulið það mest fyrir ótta sakir, því þeir vissu að Magnús var bæði fjölkunnugur og í öllu hinn versti viðureignar.
Guðmundur sá er hér er fjallað um var Þórðarson. Hann var fæddur 1725 og dó 1798. Hann bjó á Neðra-Hálsi og þótti merkisbóndi. Hann var faðir Lofts hreppstjóra á Hálsi og Þorsteins stúdents í Laxnesi í Mosfellssveit. Fjölmenn ætt er komin frá Guðmundi.

Prestur marinn til dauða

Kjós

Kjós – Svínaskarð.

Margar eru fleiri sagnirnar um Magnús á Fossá og þótti hann jafnan hinn mesti misindismaður og menn þóttust vissir um að hann hefði oftar orðið ferðamönnum að fjörtjóni.
Einar Torfason var prestur á Reynivöllum 1747 -1758. Hann dó snögglega í Svínaskarði er hann reið á eftir lest sinni og sonur hans fór með yfir skarðið nokkru fyrr. Fannst Einar þar fallinn af hestinum og marinn til dauða, með annan fótinn fastan í ístaðinum. Hugðu flestir að dauða hans hafi borið að af manna völdum og var Magnús á Fossá grunaður um verknaðinn, því menn þóttust áður vita að óvild var á milli þeirra, en hvað þeim hafi orðið að sundurþykkju er ekki frá greint.

Féll á eigin bragði

Kjós

Á Reynivallahálsi.

Þess er getið að maður nokkur var sendur úr Borgarfirði suður til Reykjavíkur og var erindi hans að sækja peninga til einhvers í Reykjavík. Það var um vetur og var hjarn yfir allt. Maður þessi gisti á Fossá hjá Magnúsi bónda og var honum vel tekið, svo að hann þóttist hvergi á leið sinni hafa fengið jafngóðar viðtektir og var Magnús honum þó ókunnur með öllu.

Kirkjustígur

Á Kirkjustíg milli Reynivalla og Fossár.

Að morgni er Borgfirðingurinn fer af stað fylgir Magnús honum á veg og verður þeim allhjaldrjúgt, og kemur þar niður tal þeirra, að Magnús spyr ferðamann um erindi hans til Reykjavíkur. Borgfirðingurinn grunaði ekki að brögð væru í tafli og segir honum allt hið ljósasta um erindi sín. Áður en þeir kveðjast býður Magnús honum að koma við hjá sér á bakaleið og segir sér forvitni á fréttum að sunnan. Heitir hinn þessu og heldur síðan sína leið.
Ekki er sagt af ferðum hans fyrr en hann hefur lokið erindum sínum og fer hann þá sömu leið til baka og gistir á bæ einum í Mosfellssveit. Bóndi spyr hann hvort hann hafi komið að Fossá til Magnúsar og segir Borgfirðingurinn honum allt um samtal þeirra, því að hann var kunnugur bónda. Bóndi varð hljóður við og ráðleggur sendimanni að fara aðra leið, þar sem Magnús verði hans ekki var og segir honum að ef Magnús nái fundi hans, muni tvísýnt um hvort hann komist heill á leiðarenda.

Kjós

Kjós – Fossá og Reynivallaháls.

Borgfirðingurinn féllst á ráð hans og fer þó yfir Reynivallaháls, en nokkuð frá almannavegi, eða að minnssta kosti annan veg en hann hafði áður farið og ætlar ekki að koma við á Fossá. Magnús fær grun af þessari ætlun hans og hefur spurn af för hans og situr fyrir honum, þar sem honum þótti líklegast að leið hans mundi liggja og þar hittast þeir á Reynivallahálsi.

Kirkjustígur

Varða við Kirkjustíg.

Magnús spyr sendimann þegar, hvers vegna hann hafi ætlað að forðast bæ sinn. En hinn segist hafa álitið þessa leið beinni, enda hafi hann verið búinn að vera lengur á ferðinni en hann hafi búist við. Hafi hann og frétt að Magnús væri ekki heima. Magnús gefur þessu engan gaum og ræðst þegar á manninn og segist ekki munu láta hann fara án þess að hafa gefið honum ráðningu fyrir að hafa brugðið loforði sínu og skuli hann ekki gera það fleirum. Hinn tekur sterklega á móti og kveðst vilja fara ferða sinna óhindraður af Magnúsi, þar sem hann hafi ekkert til saka unnið. Glíma þeir ekki lengi áður en þar kennir aflsmunar, svo að Magnús varð að bíða lægri hlut í viðskiptum þeirra, og gekk hinn svo frá Magnúsi, að hann komst nauðulega heim til sín, lagðist og dó skömmu síðar. Hörmuðu hann fár er hann þekktu.
Ýmsar sögur eru um að Magnús hafi gengið aftur og gert skráveifur og að illa hafi hann legið kyrr í kirkjugarðinum á Reynivöllum. En [þær] draugasögur verða ekki tíundaðar hér.

Illmennska í arf

Kjós

Kjós.

Magnús á Fossá var enn á lífi 1772 en dáinn er hann fyrir 1780. Kona hans hét Þuríður Magnúsdóttir og var hún enn á lífi 1780. Þau áttu mörg börn en mestar sögur fara af Eyjólfi syni þeirra, sem var líkur föður sínum í flestu, gáfaður og vel að sér sem hann, en hið mesta illmenni og ekki frómur.

Kirkjustígur

Kirkjustígur ofan Fossár.

Eyjólfur bjó á Fossá fyrstu búskaparár sín eftir lát föður síns. Þá grunaði menn að hann væri valdur að hvarfi nokkurra kinda sem hurfu frá einum eða fleiri nágrönnum hans. Hann frétti að gera ætti þjófaleit á bænum. Lét hann hið stolna fé þá í gryfju eina dimma er var undir baðstofugólfi á Fossá, og var ekki hægt að sjá það nema taka upp gólffjalirnar. Til þess að ekki heyrðist jarmur kindanna, tók hann það ráð að skera úr þeim tungurnar. Má af því marka innræti hans og hefur honum þar svipað til föður síns. Þó að hið stolna fé fyndist ekki að þessu sinni hjá Eyjólfi, höfðu menn þó stöðugt grun á honum, enda komst síðar upp, að grunurinn var ekki ástæðulaus og er sagt að Eyjólfur hafi verið dæmdur fyrir sauðaþjófnað.

Heimild:
-Dagur – Íslendingaþættir; Morðóður og ófrómur bóndi á Frossá, 29.08.1998, bls. 1-2.

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekku á Reynivallahálsi.

Steðji

Á Vísindavef Háskóla Íslands er m.a. fjallað um „Kjós og nokkra staði þar innan marka“ í svörum við spurningum þess efnis. Taka ber þó svörunum með hæfilegum fyrirvara.

Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Upprunlega hljóðaði spurningin svona:

Kjósarhreppur

Í Hvalfirði er landsvæði sem heitir Kjós. Nálægt Skaftafelli, inn af Morsárdal er líka landsvæði sem heitir Kjós. Spurningin er hvað gerir landsvæði að Kjós? Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Orðið „kjós“ merkti í fornu máli ‚þröng vík‘ en merkir nú ‘kvos, dalur eða dæld’ (Íslensk orðabók, 778; Ásgeir Blöndal Magnússon, 468).
Í Troms og víðar í Norður-Noregi merkir orðið kjos ‘þröngur dalur’ eða ‘laut’ (Norsk stadnamnleksikon, 183).
Auk Kjósar í Kjósarsýslu og í Skaftafellssýslu kemur nafnliðurinn meðal annars fyrir í örnefnum á Snæfellsnesi, í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu (Íslandsatlas).

Heimildir:
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
-Íslandsatlas. Fimmta prentun endurskoðuð. Reykjavík 2015.
-Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. prentun. Reykjavík 2005.
-Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.

Af hverju heitir Írafell í Kjós þessu nafni og hvað er sá bær gamall?
Írafell er þekkt á nokkrum stöðum á Íslandi, meðal annars í Kjós þar sem bæði fell og bær bera þetta nafn. Bærinn er þekktur í rituðum heimildum allt frá 16. öld en nafn hans kemur fyrst fyrir í fógetareikningum frá 1547-1548 (Íslenskt fornbréfasafn XII:107 og víðar).

Írafell

Írafell.

Í 18. aldar heimildum er getið um Írafell á Reykjanesi í Gullbringusýslu en það er ekki þekkt nú. Auk þess eru nefnd þrjú Írafell á Snæfellsnesi: eitt á Hellisvöllum (Hellnum) í Breiðuvíkurhreppi (nú slétt flöt, samkvæmt örnefnalýsingu), annað í Helgafellssveit og það þriðja suðvestur af Drápuhlíðarfjalli.

Írafell

Írafell í Kjós.

Í Skagafirði er bær sem oft er nefndur Írafell en samkvæmt Landnámabók og fleiri heimildum er upphaflega nafn hans Ýrarfell (Byggðasaga Skagafjarðar III (2004), bls. 410 og áfram).
Ekki er vitað hve gamalt bæjarnafnið Írafell í Kjós er né heldur hvort það er kennt við þá Íra sem taldir eru hafa verið hér við upphaf landnáms eða Íra sem hingað komu í verslunarerindum á 15. öld. Hermann Pálsson fjallaði um Íra-örnefni í grein í Skírni 1953 (bls. 105-111) en hann ræðir ekki Írafell sérstaklega.

Írafellssel II

Írafellssel II – uppdráttur ÓSÁ.

Helgi Guðmundsson fjallar um örnefni kennd við Íra, Breta og Pétta1 í bók sinni, Um haf innan (1997, bls. 198-199). Þar nefnir hann meðal annars að á Katanesi í Skotlandi sé fjall með keltnesku nafni, Cnoc an Eireannaich, sem merki ‘Írafell’, en hann telur annars óvíst hvernig eigi að túlka örnefni þau á Íslandi sem kennd séu við erlendar þjóðir (199).
Péttar (e. Picts) voru þjóðflokkur, sem var ef til vill ekki keltneskur að uppruna en bjó á Bretlandseyjum og átti í sífelldum útistöðum við Rómverja. Á níundu öld eða svo runnu þeir saman við Skota.

Hvernig myndaðist Meðalfellsvatn í Kjós?

Meðalfellsvatn

Við Meðalfellsvatn í Kjós.

Stöðuvötn eru vatnsfylltar dældir sem ná niður fyrir grunnvatnsflöt eða myndast þar sem einhver þröskuldur girðir fyrir vatnsrennsli á yfirborði eða grunnvatnsrennsli. Jöklar hafa leikið stórt hlutverk við myndun stöðuvatna á Íslandi og má skipta jökulmynduðum vötnum í nokkra flokka. Nánar er fjallað um myndun stöðuvatna í svari við spurningunni Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi? og um jökulrof í svari við spurningunni Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?

Meðalfellsvatn

Meðalfellsvatn (MWL).

Langflest íslensk stöðuvötn í jökulsorfnum dældum. Dældirnar hafa myndast þegar ísaldarjökullinn heflaði landið, misdjúpt eftir þykkt jökulsins á hverjum stað og styrk undirlagsins. Eftir stóð mishæðótt landslag með dældum sem fylltust af vatni.
Að öllum líkindum er Meðalfellsvatn í Kjós dæmi um stöðuvatn í jökulsorfinni dæld og þá myndast eins og hér hefur verið lýst.
Meðalfellsvatn er 2 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi vatnsins er tæplega 19 m og meðaldýpi er 4,4 m. Dýpsti hluti þess er í því austanverðu en meginhluti þess er tiltölulega grunnur (2 – 4 m). Vatnasvið Meðalfellsvatns er um 39 km2 . Í það sunnanvert renna smáárnar Flekkudalsá með upptök í Flekkudal í norðanverðri Esju og Sandsá með upptök í norðanverðum Móskarðshnjúkum. Úr Meðalfellsvatni norðvestanverðu fellur áin Bugða sem rennur í Laxá.
Í Meðalfellsvatni er töluvert af bleikju og einnig er þar að finna urriða. Auk þess veiðast í vatninu nokkrir laxar árleg.

Heimildir:
-Flokkun vatna á Kjósarsvæði – Meðalfellsvatn. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis og Háskólasetrið í Hveragerði. 2004.
-Meðalfellsvatn á NAT Norðurferðir. Sótt 6. 3. 2008.

Hvernig myndaðist Esjan?
Esja
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esja
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs.

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.

Esja

Esjan á Kjalarnesi.

Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.

Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla.

Esja

Kirkjan ofan Leiðahóla í Esju.

En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Esja
Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.

Mosfell

Mosfell.

Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.
Nánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.

Hvað þýðir nafnið Esja?
Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.

Esja

Esja – örnefni.

Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.

Kistufell

Kistufell.

Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Líklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.

Hver er uppruni örnefnisins Skálafell og gæti verið að upphaflega hafi það heitið Skálarfell eða Skaflafjell?

Skálafell

Skálafell – Stardalur fremst.

Fyrirspyrjandi nefnir ekki hvaða fell hann á við en Skálafell eru tvö í nágrenni Reykjavíkur:
Austan Esju, inn af Mosfellsdal í Kjósarsýslu (774 m).
Upp af Hellisheiði, suðaustur af Hveradölum (574 m).

Skálafell

Skálafell á Hellisheiði.

Landnámabók segir að Ingólfur Arnarson hafi látið gera skála á Skálafelli (Íslenzk fornrit I, 45) og mun þá átt við Skálafell sunnan Hellisheiðar. Hins vegar segir Kristian Kålund í sögustaðalýsingu sinni að sagnir séu um að Ingólfur hafi haft skála (fjárskála) á Skálafelli austan Esju (Kålund I, 43). Jónas Magnússon í Stardal segir í örnefnaskrá að fellið í Kjós „ætti betur við söguna af Ingólfi Arnarsyni en Skálafell upp af Kömbum, því að Þingvallavatn blasir við af þessu felli.“
Líklega er nafnið á fjallinu austan Esju upphaflega *Skálarfell, af áberandi skál í fjallinu. Þó er önnur skál minni í austurenda fjallsins og gæti því nafnið hafa verið Skálafell í upphafi, segir Egill J. Stardal, sonur Jónasar í Stardal í Árbók Ferðafélagsins 1985, 122-123.
Ekki er líklegt að upphaflega nafnið hafi verið Skaflafjell eða Skavlfjell. Þórhallur Vilmundarson segir að Skálafell sunnan Hellisheiðar minni á húsburst séð úr Ölfusi og gæti því verið líkingarnafn (Grímnir I, 128).

Heimildir:
-Ferðafélag Íslands. Árbók 1985. Rvk. 1985.
-Grímnir I. Rvk. 1980.
-Kristian Kålund. Íslenzkir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Íslenzk þýðing: Haraldur Matthíasson. Rvk. 1984.
-Landnámabók. Íslenzk fornrit. I. Rvk. 1968.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/search/?q=Kj%C3%B3s

Skálafell

Tóft í Skálafelli í Mos.

Hvítanes

Hvítanes í sunnanverðum Hvalfirði er merkilegur staður, ekki síst vegna mikilla stríðsminja, sem þar eru.
Friðþór Eydal skrifaði um „Hernámið og hersetuna“ í Fréttablaðið 9. maí 2020. Þar minnist hann t.d. á Hvítanes.

Satt og logið um hernámið og hersetuna

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

„Friðþór Eydal hefur rannsakað umsvif erlendra herja á Íslandi, meðal annars í skjalasöfnum þeirra. Margt reynist ekki eins og almannarómur hafði fyrir satt og Friðþór varpar ljósi á staðreyndirnar.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Stuttur aðdragandi var að þessum sögufræga atburði en þýskir herir gerðu innrás í Noreg mánuði fyrr og brutu á nokkrum vikum á bak aftur mótspyrnu norska hersins og breskra og franskra hersveita sem sendar höfðu verið til aðstoðar.
Sumt af breska herliðinu sem hrökklaðist frá Noregi kom til Íslands ásamt öðrum liðsauka í júnímánuði og hóf varnarviðbúnað. Skortur á herafla varð til þess að Kanadastjórn lagði til eitt stórfylki með tæplega 2.700 mönnum til Íslandsdvalar sumarið 1940. Sigldu flestir þeirra áfram til Bretlands um haustið þegar breskur liðsauki barst til landsins. Herafli Breta náði hámarki árið 1941 þegar um 28.000 liðsmenn landhers, flughers og flota dvöldu í landinu.

Til verndar skipaleiðinni

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest á stríðsárunum.

Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en allmikils stuðnings gætti þar við málstað Breta. Ríkisstjórn Roosevelts Bandaríkjaforseta fann leið til þess að létta undir með því að lána og leigja Bretum margvíslegan herbúnað sem þeir sóttu í bandarískar hafnir. Mikil hætta steðjaði þó að siglingunum og hugkvæmdist forsetanum að senda bandarískt herlið til Íslands og láta Bandaríkjaflota þar með veita herskipavernd á siglingaleiðum austur á mitt Atlantshaf. Sömdu ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um það sumarið 1941 að bandarískt herlið skyldi taka við vörnum landsins og leysa breska hernámsliðið smám saman af hólmi.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 þegar meginliðsstyrkur þeirra hvarf heimleiðis, en breski flotinn og flugherinn, sem léku aðalhlutverk í baráttunni við þýska flotann á norðaustanverðu Atlantshafi, starfaði áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.

Hvalfjörður lék stórt hlutverk

Hernámið

Hernámið. Bandaríkjamenn mæta til leiks.

Bandamenn höfðu mikinn viðbúnað til þess að hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir á Atlantshafi. Varnir landsins miðuðust fyrst og fremst við svæði þar sem voru hafnir, eða aðstaða til flugvallagerðar og starfsemi sjóflugvéla með vegartengingu við aðra landshluta, svo sem á Suðvesturlandi, við Húnaflóa, Eyjafjörð og á Austurlandi.

Stríð

Frá stríðsárunum á höfuðborgarsvæðinu.

Viðbúnaður var mestur á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurhöfn var lykillinn að liðs- og birgðaflutningum til landsins. Umsvifin voru í meðallagi á Norðurlandi og fremur lítil á Austurlandi, enda vegatengingar við þá landshluta fremur frumstæðar. Bretar lögðu flugvelli í Kaldaðarnesi og Reykjavík en Bandaríkjamenn reistu stóra flugbækistöð við Keflavík, sem lék stórt hlutverk í miklum loftflutningum þeirra til Bretlands.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta höfðu aðstöðu í Hvalfirði og áðu einnig í Seyðisfirði. Hvalfjörður lék stórt hlutverk í siglingum skipalesta með hergögn og birgðir frá Bretlandi og Bandaríkjunum til sovéskra hafna á Kólaskaga og við Hvítahaf er mest reið á, 1941 og 1942.
Heildarheraflinn í landinu var nærri 50.000 þegar mest var, sumarið 1943, og hafði um 80 prósent hans aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn sjálfir voru einungis um 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000.

Kærkomin umskipti

Hernámið

Hernámið.

Þótt þröngt væri á þingi tókst sambúð landsmanna við hina framandi gesti furðu vel. Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja og sumarið eftir var stór hluti bandaríska herliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli kom þá til landsins en hélt að mestu sömu leið árið 1944.
Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin þar sem núr er Hvalstöðin.

Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu Íslendinga. Markaðir opnuðust í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir flestar útflutningsafurðir á margföldu verði og hleypti það, ásamt atvinnu sem skapaðist við fjölbreytt umsvif herliðsins, af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin voru kærkomin eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur var lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Íslendingar voru ekki þátttakendur í hernaðinum en bækistöðvar bandamanna og aðstaða í landinu átti þátt í að flýta fyrir sigri í styrjöldinni. Landsmenn veittu mikilvægan stuðning, t.d. með sölu matvæla og annarra framleiðsluvara sem kom Bretum afar vel.
Þótt styrjöldin færði þjóðinni auðsæld og umbætur fór hún ekki varhluta af ógnum hennar. Alls fórust 151 Íslendingur af hernaðarvöldum, svo fullvíst sé talið, og skjótur efnahagsuppgangur og herseta höfðu langvarandi þjóðfélagsumrót í för með sér.
Bandamenn misstu alls nærri 900 manns hér við land og í stríðslok hvíldu 510 erlendir hermenn og sjómenn í íslenskri mold. Þar af voru rúmlega 200 Bandaríkjamenn en líkamsleifar þeirra voru síðar fluttar til heimalandsins.

Bábiljurnar leiðréttar

Hernámið

Hernámið.

Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu staðreyndir, en margvíslegar bábiljur sem snemma fengu byr undir báða vængi heyrast enn. Er því ekki úr vegi að skýra og leiðrétta ýmislegt sem misskilningi kann að valda.

Stríðsár

Breskir hermenn á verði í Reykjavík.

Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 og við tók umsamin hervernd Bandaríkjanna.
Herliðið tók sér í fyrstu bólfestu í fjölmörgum byggingum sem sumar stóðu auðar, en reistu síðan herbúðir víða á leigulóðum. Engin mannvirki eða lóðir voru tekin án samninga og endurgjalds til eigenda, sem miðaðist við gangverð í landinu.
Stóraukin dýrtíð olli því þó að endurgjaldið rýrnaði þegar frá leið, en fékkst að hluta bætt í gegnum skaðabótanefndir sem í sátu fulltrúar hersins og íslenskra stjórnvalda. Þeir sem fært gátu sönnur á að hafa farið halloka í viðskiptum hlutu bætur frá ríkis­sjóði að styrjöldinni lokinni.
Breska orrustuskipið HMS Hood lagði ekki upp frá Hvalfirði í sína hinstu för vorið 1941, heldur var á leið þangað frá Orkneyjum þegar því var snúið til vesturs í veg fyrir þýska orrustuskipið Bismarck. Hood var grandað um það bil miðja vegu milli Reykjaness og Hvarfs á Grænlandi en ekki skammt undan Reykjanesi. Ógerlegt er talið að sprengjudrunurnar hafi borist alla leið til Reykja­víkur.

Ofmetinn fjöldi hermanna

Hernámið

Hernámið…

Hermannafjöldi í landinu hljóp ekki á hundruðum þúsunda, eins og sumir landsmenn ályktuðu af umsvifunum sem þeir urðu vitni að, heldur fór mest í tæplega 50 þúsund.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Hernaðaryfirvöld gerðu reyndar í því að láta líta út fyrir að liðsaflinn væri miklu meiri, til þess að láta Þjóðverja halda að innrás í Noreg væri yfirvofandi frá Íslandi og Bretlandseyjum.
Heraflinn var minnstur á Austurlandi, þar sem hann fór mest í um 800 á Seyðisfirði en fluttist síðar að stórum hluta til Reyðarfjarðar. Þar náði hann hámarki rúmlega 900 í tíð breska, kanadíska og norska hersins árið 1942 og í rúmlega 1.200 eftir að Bandaríkjamenn höfðu tekið við haustið 1942, en var ekki mörg þúsund eins og gjarnan er haldið fram fyrir austan.

Íslendingar ekki þátttakendur

Hernámið

Hernámið.

Landsmenn voru ekki þátttakendur í hildarleiknum en allmargir íslenskir sjómenn sigldu á farskipum sem fluttu nauðsynjavörur til landsins og fiskiskipum með afla til sölu á mörkuðum í Bretlandi. Einnig réðust nokkrir ungir sjómenn á erlend farskip, oftast í ævintýraleit. Því miður komust ekki allir alltaf heilir heim úr þeim ferðum, en það var fremur afleiðing, heldur en þátttaka í átökunum og reyndar engin nýlunda, enda sjómennska jafnan nokkurt hættuspil.

Hvalfjörður

USS KEARNEY , laskaður tundurspillir eftir að hafa leitaðs sér skjóls í Hvalfirði.

Þjóðverjar litu á siglingar Íslendinga til Bretlands sömu augum og bandamenn á siglingar norskra og danskra skipa á hersetnum heimaslóðum sínum, það er í þágu óvinarins og eirðu engu.
Alls fórust um 410 íslenskir sjómenn og farþegar af almennum slysförum eða hernaðarvöldum á styrjaldarárunum sex, auk fjögurra sem urðu fyrir banaskotum hermanna eða sprengjubrotum. Virðist sem sú heildartala hafi snemma verið höfð ranglega til marks um fórnir Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir.
Til samanburðar við þá 260 sjómenn og farþega sem ekki fórust af hernaðarvöldum, svo víst sé talið, fórust samkvæmt skýrslum Slysavarnafélags Íslands að meðaltali um 200 sjómenn á þremur sex ára tímabilum á áratugnum fyrir stríð. Að teknu tilliti til mjög aukinnar sóknar og ástands skipastólsins á stríðsárunum, má því álykta að hlutfallslegur mannskaði af öllum orsökum á sjó, hafi í reynd verið lítið tíðari en áratugina á undan.

Lítinn séns í íslenskar konur

Hernám

Samskipti hernámsliðsins við Íslendinga voru óneitanlega mikil.

Erlendu hermönnunum varð alls ekki eins vel ágengt í samskiptum við íslenskar stúlkur og oft er látið í veðri vaka. „Ástandið“ svonefnda var raunar ekkert frábrugðið því sem jafnan gerðist á stöðum sem ungir vermenn hópuðust til eða í síldarplássum, þótt fjöldi aðkomumanna næði óþekktum hæðum á stríðsárunum.

Stríðsár

Bandarískur hermaður og íslensk kona.

Langflestir hermannanna kváðust ekki eiga neinn „séns“ í stúlkurnar, sem fæstar virtu þá viðlits.
Bandaríkjaher sem fjölmennastur var þegar á leið, lagði bann við giftingum liðsmanna sinna. Ákvörðunin var ekki einskorðuð við Ísland og byggðist á því að stjórnvöld vildu forðast að þurfa að annast framfærslu fjölskyldna sem stofnað væri til með óvissa framtíð og e.t.v. í einmanaleika fjarri heimahögum.
Allmikið er til af lýsingum á viðhorfi hermanna til landkosta eða ókosta og dvölinni í landinu almennt, en fremur lítið um viðhorf til lands­manna. Þetta stafar einfaldlega af því að sárafáir kynntust í raun, eða áttu náin samtöl við, landsmenn.
Nú gerir fólk sér vart grein fyrir hversu tungumálakunnáttan var lítil og erfiðlega gekk að eiga gagnleg samtöl þannig að fólk kynntist högum hvers annars í raun. Flest viðhorfin á báða bóga eru því byggð á því sem fólk sá úr fjarlægð, og upplifði í einhverjum tilvikum, en ekki síst á sögusögnum og getgátum sem gengu manna á milli í fásinninu, enda fréttaflutningi strangar skorður settar.

Báru hver öðrum vel söguna

Hernámið

Hernámið.

Þeir sem kynntust í raun sér um líkum, til dæmis liðsforingjar eða menntamenn, báru hverjir öðrum jafnan vel söguna og sama er að segja um þá sem áttu í viðskiptum eða bjuggu í návígi, til dæmis á smærri varðstöðvum á landsbyggðinni.

Stríðsár

Hermenn á vakt við Vesturlandsveg nálægt Þingvallavegi.

Herliðið flutti ógrynni tækja og búnaðar til landsins við uppbyggingu heraflans, til dæmis rúmlega 4.000 bifreiðar og önnur farartæki auk fjölda flugvéla, og reisti um 12.000 braggabyggingar ásamt 1.000 smærri stein- og timburhús í rúmlega 300 íbúðahverfum. Þrjú þúsund farartæki voru flutt aftur úr landi ásamt margvíslegum búnaði.
Árið 1944 samdist svo við ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna um að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem ekki yrði fjarlægður, til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda. Fékk ríkissjóður eignirnar á vægu verði en yfirtók jafnframt skuldbindingar gagnvart landeigendum. Var Sölunefnd setuliðseigna sett á fót til að annast verkið ásamt því að bæta skemmdir á landeignum fyrir ágóða af endursölu til landsmanna.

Hernám

Skjáskot úr sjónvarpsþættinum Stríðsárin á Íslandi, sem sýndur var á RÚV 1990, í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá upphafi hernáms á Íslandi.

Í allmörgum tilvikum fengu landeigendur greitt fyrir að sjá sjálfir um landlögun en heyktust sumir á því og eru það nánast einu staðirnir þar sem mannvirki eða minjar standa eftir frá hersetunni, utan flugvallanna í Reykjavík og Keflavík og olíu- og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði, sem voru áfram í notkun.

Hernám

Nissan-braggi í Mosfellsveit á stríðsárunum.

Heyrst hefur að hermannafjöldi í Hvalfirði hafi skipt tugum þúsunda, en hið rétta er að bækistöðvar í firðinum voru fremur fáliðaðar en fjöldi sjóliða og sjómanna á skipum sem áðu þar gat auðvitað hlaupið á þúsundum, þótt fæstir fengju landgönguleyfi.
Í Hvalfirði gekk lengi sú saga að við lendingu létt­báta, skammt innan við Hvítanes, hafi verkamenn verið látnir smíða forláta tröppur fyrir komu Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta, sem hafði viðdvöl á Íslandi eina dagstund sumarið 1941. Sagan er ólíkleg sökum þeirrar leyndar sem hvíldi yfir komunni og fullvíst er að Churchill steig alls ekki á land í Hvalfirði heldur einungis í Reykjavík.

Engir særðir hermenn að utan

Hernámið

Herspítalinn Cam Dailey á Vogastapa.

Um hríð var útbreidd sú saga að stórir herspítalar hefðu verið reistir á Íslandi fyrir hermenn sem særðust á meginlandi Evrópu eftir innrás bandamanna í Normandí sumarið 1944. Herliðið reisti reyndar braggaþyrpingar fyrir sjúkraskýli og spítala í herbúðum sínum en einungis í samræmi við fjölda hermanna í landinu hverju sinni. Liðsaflinn dróst skjótt saman árið 1943 og því ekki að undra þótt landsmenn hafi brotið heilann um tilgang svo umfangsmikilla salarkynna, sem skyndilega stóðu auð og yfirgefin.
Sömu vangaveltur eru þekktar í tengslum við bandarísku flugbækistöðina í Narsarsuaq á Grænlandi, þar sem allstór spítali reis fyrir herlið á stríðsárunum og var endurnýjaður í Kóreu­stríðinu, að sögn til líknarmeðferðar illa særðra hermanna, sem herinn vildi að leynt færi.

Draugur kveðinn niður

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Ýmsar sögur hafa einnig gengið af reimleikum tengdum hermönnum eða hjúkrunarkonum sem látist hafi á stríðsárunum og jafnvel spítalabröggum eða efni úr þeim sem flutt var á milli landshluta.

Stríðsár

Íslenskur drengur íhugar ástandið, sitjandi á reknu tundurdufli.

Þekkt er saga af bandarískri hjúkrunarkonu, ungri og myndarlegri, sem sögð er hafa látist í bifreiðaslysi í Mosfellssveit og gengið aftur á þeim slóðum. Dauðsföll í röðum herliðsins eru vel skilgreind í heimildum hernaðaryfirvalda og sýna að engin hjúkrunarkona hersins lést á Íslandi á stríðsárunum.
Ekki verða bornar brigður á frásagnir fólks af reimleikum en helst er að ætla að afturgengna hjúkrunarkonan unga og myndarlega hafi ef til vill ekki verið öll þar sem hún var séð.“

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins 3. jánúar 1999 er fjallað um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari“.
„Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni.

Hernaðarumsvif

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Umsvifum hers og flota bandamanna í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni er lýst ítarlega í bókinni „Vígdrekar og vopnagnýr – Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið“, eftir Friðþór Eydal sem kom út fyrir jóli 1997. Ekki var rými í bókinni fyrir umfjöllun um afdrif stöðva og mannvirkja hersins og umsvif í Hvalfirði að styrjöldinni lokinni og bætir bókarhöfundur úr því nú.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni, en Bandaríkjamenn tvo flugvelli suður með sjó til loftvarna og liðsflutninga til Bretlands. Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta áðu í Hvalfirði og Seyðisfirði. Um eins og hálfs árs skeið var kaupskipum frá Bretlandi og Bandaríkjunum safnað saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum norður fyrir land og um Smuguslóðir til rússneskra hafna. Hætt var að hafa þennan hátt á í árslok 1942 og sigldu Rússlandsskipalestirnar eftir það beint frá Skotlandi án viðkomu. Herskipadeildir og fylgdarskip skipalesta höfðu þó viðkomu hér á landi eftir sem áður.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Í Hvalfirði lá oft fjöldi skipa á kaupskipalæginu utan Hvammsvíkur og á móts við Ferstiklu og herskipalæginu sem var í firðinum annanverðum. Gat þar oft að líta stærstu herskip veraldar sem veittu skipalestunum vernd gegn orrustuskipum þýska flotans í Noregi. Bretar reistu flotastöð í Hvítanesi þar sem m.a. var gert við netalagnir, sem lágu þvert yfir fjörðinn utanverðan, til varnar gegn óvinaskipum og kafbátum, svo og tundurdufl sem girtu fjörðinn við Hálsnes í sama tilgangi. Í stöðinni voru birgðageymslur, verkstæði, íbúðaskálar, spítali, og annað til þjónustu við herskipaflotann ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Öflug flotkví lá innanvert við nesið ásamt viðgerðar- og birgðaskipum og lyfti skipum til botnviðgerðar.

Hvítanes

Hvítanes á stríðsárunum.

Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við fjörðinn norðanverðan. Þar tóku skip sem áðu í firðinum olíu og einnig olíuskip sem fylgdu flotadeildunum og gáfu þeim eldsneyti á hafi úti. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða.

Hvammsvík

Hvammsvík. Stjórnstöð hersins efst.

Í Hvammsvík reis birgðastöð fyrir skotfæri og djúpsprengjur flotans ásamt tómstundaheimili fyrir skipshafnir Bandaríkjaflota. Sams konar tómstundaheimili var reist fyrir áhafnir kaupskipanna í Hvammsey. Á Hvammshólum, sem gnæfir yfir Hvammsvíkina, var aðsetur hafnarstjórans í Hvalfirði, sem var breskur sjóliðsforingi, og stjórnuðu menn hans allri skipaumferð í firðinum.
Skipalægið og flotastöðvarnar í Hvalfirði voru vandlega varðar gegn óvinaárásum. Segulmælingalagnir á sjávarbotninum milli Seltjarnarness og Akraness gerðu viðvart um skipaumferð í myrkri eða dimmviðri og varðskip önnuðust eftirlit á innanverðum Faxaflóa. Hljóðsjárbúnaður lá á sjávarbotni beggja vegna álsins í firðinum utanverðum og var eftirlitsstöð með henni að Gröf í Skilamannahreppi. Á Kjalarnesi, Akranesi og í Borgarnesi var talsvert herlið sem hafði það hlutverk að verja óvinum leiðina landveginn. Stórar fallbyssur við bæinn Dalsmynni á Kjalarnesi vörðu innsiglinguna. Slíkar byssur voru einnig á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Úr krikanum utan Hvaleyrar og yfir að Grundartanga lá netalögn úr sverum vír sem stöðva skyldi skip og kafbáta á leið inn fjörðinn. Netunum var haldið uppi af fjölmörgum stórum duflum og lágu festar í akkeri á botninum. Hlið var á lögninni og varðskip við sem hleypti skipum í gegn. Fallbyssur og ljóskastarar á bökkunum undan Útskálahamri að sunnan, og að Klafastöðum að norðan, vörðu netalögnina. Að auki lá tundurduflagirðing með segulnemum þvert yfir fjörðinn undan Hálsnesi.

Hvalfjörður

Herskip við lægi í Hvalfirði.

Í varðstöð á nesinu mátti sprengja duflin, eitt eða fleiri, undir óboðnum kafbátum eða skipum sem kæmust svo langt. Þessi varnarviðbúnaður bandamanna í firðinum ásamt ströngu eftirliti á Faxaflóa var þýskum hernaðaryfirvöldum ljós og aftraði þeim frá að stefna skipum og kafbátum gegn þessum mikilvæga áningarstað. Til loftvarna var öflugum byssum komið fyrir undir Hvammshólum við Hvammsvík, á Hrafneyri handan fjarðarins og á Þyrilsnesi. Smærri loftvarnabyssur voru þar og í Hvítanesi og við olíustöðina á Söndum. Þýskar könnunarflugvélar lögðu oft leið sína með ströndum landsins í leit að skipum, loftmyndatöku af hernaðarmannvirkjum og til veðurathugana. Í einstaka tilfellum gerðu þær árásir á skip eða mannvirki. Oft lá leiðin yfir Hvalfjörð til að gæta að skipum á læginu. Flug þeirra var áhættusamt, enda margar loftvarnabyssur í firðinum bæði í landi og á skipum. Einnig voru flugvellirnir í Reykjavík og Keflavík skammt undan en þar var fjöldi orrustuflugvéla sem höfðu það hlutverk að granda hinum óboðnu gestum. Þýsku njósnaflugvélarnar flugu gjarna lágt yfir fjöllum svo loftvarnaskytturnar rétt grilltu í skotmarkið. Bandaríkjaher grandaði 5 þýskum flugvélum við landið í styrjöldinni, öllum með orrustuflugvélum og tveimur eftir að þær höfðu lagt leið sína yfir Hvalfjörð.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Er leið á styrjöldina og bandamenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann fór skipakomum fækkandi í Hvalfirði og viðbúnaður sömuleiðis. Breski flotinn starfrækti flotastöð sína í Hvítanesi til stríðsloka en hóf þá brottflutning. Dregið hafði verulega úr varnarviðbúnaði í firðinum er leið að styrjaldarlokum. Tundurduflagirðingin lá þó enn undan Hálsnesi uns henni var eytt í sprengingu í maí. Um líkt leyti var kafbátanetunum sökkt þar sem þau lágu þvert yfir fjörðinn og höggvið á landfestar þeirra.
Olíustöðin, sem Bandaríkjamenn reistu fyrir Breta á svokölluðum „láns og leigukjörum“ , var rekin af bresku olíufélagi frá ársbyrjun 1944. Réð fyrirtækið til þessa verks um 30 íslenska starfsmenn sem aðsetur höfðu í skálahverfinu á Miðsandi. Að styrjöldinni lokinni tók Bandaríkjafloti aftur við stöðinni og hugðist reka hana áfram samkvæmt áætlunum sem þeir þá höfðu uppi um herstöðvar til langs tíma.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Eftir stóðu í firðinum fjölmörg mannvirki sem reist höfðu verið í miklum flýti og með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Var komið að hernaðaryfirvöldum að losa sig við þessi mannvirki ásamt búnaði og birgðum sem ekki þótti ástæða til að nýta eða flytja af landi brott, enda flutningatæki, mannafli og farmrými af skornum skammti. Ljóst var að verðgildi mannvirkja á svo afskekktum stað gat ekki orðið í neinu samræmi við upphaflegan byggingarkostnað og varla að búast við að þau nýttust nema með flutningi annað.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Samkomulag hafði verið gert milli hernaðaryfirvalda og ríkisstjórnarinnar um að hún keypti og/eða yfirtæki mannvirki og búnað hersins og endurseldi einkaaðilum eftir atvikum. Í mörgum tilvikum var um að ræða greiðslu fyrir landspjöll sem orðið höfðu við umsvif herliðsins, einkum þegar um mannvirki var að ræða.

Í Hvítanesi var hafskipabryggja úr stáli og önnur smærri steinbryggja og heilt þorp íbúðarbragga og vöruskemma auk nokkurra hlaðinna steinhúsa. Þar var að finna vatnsveitu, rafstöð og kyndistöð og gatnakerfi með lýsingu. Í Hvammsvík og nágrenni voru vöruskemmur og skotfærageymslur og fjöldi íbúðarbragga. Þá voru braggahverfi að Dalsminni, Útskálahamri, á Hálsnesi, Þyrilsnesi, Hrafneyri, að Klafastöðum og Gröf. Nefnd setuliðsviðskipta annaðist ráðstöfun búnaðar og mannvirkja hersins fyrir hönd ríkissjóðs. Mannvirki og búnaður í Hvítanesi höfðu kostað breska flotann a.m.k. 270.000 sterlingspund, sem var jafnvirði 2,9 hundraðshluta af verðmæti útfluttra sjávarafurða árið 1945 og gæti með sömu viðmiðun numið rúmlega 2,7 milljörðum króna í dag. Stöðin á Hálsnesi hafði kostað 10.000 pund og í Hvammsvík átti flotinn mannvirki að verðmæti 7.000 sterlingspund. Greiðlega gekk að selja búnað og byggingar, enda flestar færanlegar.

Hvítanes

Hvítanes.

Helstu mannvirkin í Hvítanesi voru tvær stórar vöruskemmur og steypt plan við þær og bryggjurnar tvær. Fékk Vita- og hafnarmálastofnunin m.a. tvo stóra gufukrana sem gengu á járnbrautarspori fram á bryggjuna ásamt skemmunum tveimur. Greiddi stofnunin 3.000 sterlingspund fyrir þá stærri og flutti á lóð sinna við Vesturvör í Kópavogi.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í bryggjuna sjálfa, sem kostað hafði 126.000 pund að smíða, barst einungis eitt boð að upphæð 400 pund og var það einnig frá Vita- og hafnarmálastofnuninni. Mælti breski flotaforinginn í Reykjavík með því að boðinu yrði tekið, þótt lágt væri, enda vart að búast við öðru betra og stofnunin hefði reynst breska flotanum hjálpleg á ýmsan hátt og keypt mikið af búnaði og þ. á m. umrædda skemmu á fullu verði. Breska flotastjórnin ákvað hins vegar að gefa íslenska ríkinu bryggjuna gegn því að ríkisstjórn Bretlands væri þar með leyst undan allri ábyrgð vegna viðhalds hennar eða kröfum sem upp kynnu að koma síðar vegan þessa mannvirkis.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Ekki kom til þess að bryggjan yrði seld eða rifin og töldu íslensk stjórnvöld í fyrstu réttast að eiga hana þar uppistandandi ef til þyrfti að taka og greiddi Vitamálaskrifstofan landeiganda dálitla leigu fyrir aðgang að bryggjunni, a.m.k. fyrstu árin. Snemma fór þó að bera á því að tekið væri timbur úr bryggjunni. Hirti þá Vitamálaskrifstofan það sem hún náði upp af brautarsporinu og undirlagstrjám. Eigandi jarðarinnar óskaði eftir því árið 1949 að fá bryggjuna keypta af ríkissjóði og árið 1960 að ríkissjóður afsalaði honum bryggjunni til niðurrifs vegna þeirra búsifja sem hernámið í Hvítanesi hefði haft í för með sér og hversu takmarkaðar skaðabætur hefðu hlotist fyrir. Var það álit vitamálastjóra í bæði skiptin að ekki væri ástæða til að afsala bryggjunni, heldur bíða hentugs tækifæris í þeirri von að gera mætti úr henni frekari verðmæti en brotajárn. Má eflaust geta sér þess til að mannvirki þau sem eftir stóðu í Hvítanesi hefðu ef til vill fengið nýtt hlutverk ef síld hefði gefið sig oftar í eins ríkum mæli í Hvalfirði og hún gerði veturinn 1947-1948, þegar nánast engar síldarverksmiðjur var að finna á Suðvesturlandi. Þá má ætla að þróun heimsmála í kalda stríðinu hafi gefið mönnum tilefni til að halda að brátt yrði aftur þörf á hernaðaraðstöðu í firðinum.

Hvalfjarðarsíldin og hreinsun fjarðarins

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Veiðar á síld til beitu voru hefðbundnar í Faxaflóa á haustvertíð. Veturinn 1947 varð mikillar síldar vart í Kollafirði og á Sundunum og var talsvert veitt þar um veturinn af blandaðri síld í nót sem siglt var með í bræðslu til Siglufjarðar, enda hefðbundnar síldveiðihafnir á Norður-og Austurlandi og engar stórar síldarbræðslur að finna fyrir sunnan. Sumarsíldveiðarnar fyrir Norðurlandi brugðust illa þetta sumar, svo og veiðar reknetabátanna á Faxaflóa um haustið. Auk þeirrar óáranar sem síldarlaust sumar hafði í för með sér stefndi nú í alvarlegan beituskort um veturinn. Reknetabátarnir lömdu allan flóann um haustið, en án teljandi árangurs uns mikillar síldar varð vart inni í Hvalfirði í byrjun október. Var það upphaf stórfenglegra síldveiða í firðinum sem stóðu fram í marsmánuð árið eftir.

Hvítanes

Hvítanes – varðbyrgi.

Fljótlega kom þó í ljós að víða á veiðislóð síldveiðibátanna var að finna leifar af kafbátagirðingunni, sem sökkt hafði verið við brottför breska flotans, legufæri og víradræsur sem ollu síldarflotanum tilfinnanlegu veiðarfæratjóni. Kvartaði Landssamband íslenskra útvegsmanna yfir þessu ástandi til sjávarútvegsmálaráðherra í janúar 1948. Var vitaskipinu Hermóði falið að athuga hvort mögulegt væri að ná upp nokkru af þessum festum, en svo reyndist ekki vera og ljóst að til þyrfti að koma öflugt sérbúið skip. Samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu 25. febrúar þess efnis að nauðsynlegar ráðstafanir skyldu gerðar til hreinsunar á öllu því sem herliðið hefði skilið eftir á botni Hvalfjarðar sem truflun ylli við veiðar í firðinum og skemmdum á veiðarfærum. Skyldi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þau erlendu ríki sem hér ættu hlut að máli framkvæmdu hreinsun á sinn kostnað auk þess að greiða tjón sem fiskimenn hefðu beðið og kynnu að bera af þessum sökum. Varð að samkomulagi að skip frá breska flotanum, H.M.S. Barrage, sérbúið til lagningar og viðhalds netgirðinga og legufæra, skyldi annast verkið. Hóf skipið að slæða upp kafbátanetin utanvert við Hvalfjarðareyri í lok ágúst.

Hvítanes

Hvítanes – minjar.

Brátt kom í ljós að önnur tveggja lagna sem þar höfðu legið samhliða var enn í heilu lagi, en hin var í nokkrum hlutum og höfðu sumir m.a. verið dregnir inn í víkina innan við Hvalfjarðareyri. Þá héldu dufl, sem skilin höfðu verið eftir á lögnunum er þeim var sökkt, enn hlutum hennar nokkuð frá botni og víða lágu rytjur af nótum síldarbáta frá því um veturinn saman við víraflækjurnar ásamt legufærum skipa. Skipið hélt slæðingum áfram fram í nóvember og hafði þá losað í Hvítanesi 14 farma af netum, duflum og legufærum sem flest voru 6-8 tonna steypuklumpar. Mest af víraflækjunum setti skipið á land upp af bryggjunni í Hvítanesi, en nokkuð var látið í sjóinn og fjöruna upp með henni.
H.M.S. Barrage kom aftur til landsins í apríl 1949 og hóf slæðingu að nýju í maí. Verkið gekk nú mjög vel, enda réttur árstími. Stóð verkið fram í ágúst og taldi skipstjórinn þá að vírnetin sem upp hefðu verið tekin mundu nægja í fjögurra sjómílna samfellda lögn auk dufla og legufæra. Þó var línu yfir fjörðinn frá odda Hvalfjarðareyrar hlíft við slæðingu til að skemma ekki sæsímastreng sem þar hafði verið lagður. En Hvalfjarðarsíldin sást ekki meir.

Nýtt hlutverk

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Þótt Bretar hyrfu á brott úr Hvalfirði að stríðinu loknu starfrækti Bandaríkjafloti áfram olíustöðina á Söndum. Umsvifin voru þó ekkert í líkingu við það sem verið hafði, en Bandaríkjamenn höfðu uppi miklar áætlanir til að tryggja öryggi í þessum heimshluta að styrjöldinni lokinni og óskuðu eftir leyfi til að starfrækja áfram herstöðvar á Íslandi til langs tíma.

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

Hugmyndir Bandaríkjahers voru þær að rekstur Keflavíkurflugvallar yrði óbreyttur, þ. e. sem millilandaflugvöllur og að þar yrði einnig aðstaða fyrir sprengju- og orrustuflugsveitir flughersins eftir því sem þurfa þætti. Í herbúðum Bandaríkjaflota í Washington voru ýmsar hugmyndir viðraðar veturinn 1946 um staðsetningu flotaflugstöðvar eins og þeirrar sem rekin hafði verið í Skerjafirði og á Reykjavíkurflugvelli. Þaðan höfðu flugvélar flotans stundað eftirlitsflug og kafbátaveiðar á styrjaldarárunum. Þá var rætt um heppilegan stað fyrir flotastöð sem annaðist önnur verkefni og hýsa skyldi yfirstjórn flotans og verið hafði í Camp Knox í Reykjavík. Kom m.a. til álita að taka allt Kársnesið vestan Hafnarfjarðarvegar undir þessa aðstöðu, eða Skerjafjörð og Reykjavíkurflugvöll eins og verið hafði, og var rætt um innanverðan Kópavogsdal undir skotfærageymslur.

Álftanes

Camp Brighton – varðskýli á Álftanesi.

Einnig kom til álita að leggja flugvöll á Álftanesi með þremur flugbrautum og yrði þar öll aðstaða flotans utan Hvalfjarðar og næði um allt nesið inn í Hafnarfjörð. Loks kom til álita að flotaflugstöðinni yrði einnig valinn staður á Keflavíkurflugvelli.
Í Hvalfirði gerðu menn ráð fyrir að olíubirgðastöðin á Söndum yrði starfrækt áfram, en ný stöð reist innanvert við Hvítanes ef leyfi fengist ekki til áframhaldandi reksturs. Hvítanes var álitinn heppilegur staður fyrir yfirstjórn flotans og skotfærageymslur hans yrðu áfram í Hvammsvík, eða utanvert við stöðina á Miðsandi. Ekki var búist við því að mikið af þeim byggingum sem reistar höfðu verið á stríðsárunum yrðu nýttar til frambúðar, enda flestar þeirra braggar sem ekki var ætlað að standa lengi.

Hvítanes

Herminjar á Hvítanesi.

Vart er þó ástæða til að ætla að komið hefði til greina að reisa ofangreindar herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þótt rætt hafi verið um þá staði í upphaflegri tillögugerð. Í skjalasafni Bandaríkjaflota er að finna kort með hugmynd að flugvelli á Álftanesi og hefur þar verið ritað: „Nei, forsetinn býr þar.“ Sérstök staðarvalsnefnd á vegum flotans tók sér ferð á hendur til Íslands og kannaði aðstæður síðari hluta aprílmánaðar 1946. Auk hernaðarlegra atriða hafði nefndin þrjú meginatriði að leiðarljósi við tillögugerð sína.
a. Af pólitískum og diplómatískum ástæðum væri óæskilegt að reisa herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
b. Sökum skorts á ræktarlandi væri æskilegt að halda sig við óræktuð svæði þar sem því yrði við komið.
c. Hátt verð á fasteignum mælti með því að valin væru svæði þar sem sem fæstar byggingar væru fyrir.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að flotastöðin skyldi rísa í Hvítanesi; sprengju- og skotfærageymslur fyrir herskipaflotann í Hvammsvík; olíustöðin skyldi vera á sama stað, en austan Hvítaness til vara; Fjarskiptastöð á Kjalarnesi, eða austan Hvítaness til vara; hafnarskrifstofa flotans í Reykjavík sem verið hafði á efstu hæð hafnarhússins á stríðsárunum, yrði best rekin þar áfram; flotaflugstöð og aðstaða öll fyrir flugvélar flotans skyldi vera á Keflavíkurflugvelli.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Er skemmst frá því að segja að ofangreindar áætlanir Bandaríkjamanna komu aldrei til framkvæmda, enda kveðið á um brottför Bandaríkjahers í Keflavíkursamningnum sem undirritaður var 8. október 1946.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – olíustöðin (nú Hvalstöðin).

Er Bandaríkjafloti tók aftur við olíustöðinni í Hvalfirði af Bretum sumarið 1945 hætti Shell olíufélagið breska rekstrinum og við tók bandaríska félagið Standard Oil (ESSO) í gegn um umboðsaðila sinn hér á landi, Hið íslenska steinolíufélag. Sameinuðu þar krafta sína smæsta íslenska olíufélagið og stærsta olíufélag í heimi. Daglegur rekstur stöðvarinnar var áfram í höndum íslenskra starfsmanna. Olíufélagið hf. sem stofnað var vorið 1946 keypti þá um haustið meirihlutann í Hinu íslenska steinolíufélagi, en það félag hafði þá tekið við eldsneytisafgreiðslu á flugvélar á Keflavíkurflugvelli.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – bryggja olíustöðvarinnar.

Við brottför Bandaríkjahers bauðst stóru olíufélögunum Olíuverslun Íslands og Skeljungi að kaupa olíustöðina í Hvalfirði. Að könnun lokinni var það niðurstaða beggja félaganna að stöðin mundi ekki henta fyrir starfsemi þeirra, enda áttu bæði félögin aðstöðu í Reykjavík. Olíufélaginu var þá boðin stöðin til kaups, en félagið átti ekkert umtalsvert geymarými og þótti henta að kaupa stöðina og reka hana a.m.k. þar til nýrri og fullkomnari aðstöðu yrði komið upp annarsstaðar. Er hér var komið höfðu bæði Hvalur hf., sem þá var nýstofnað fyrirtæki til hvalveiða, og Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda sýnt áhuga á að eignast aðstöðuna. Fjöldi nýsköpunartogara var í smíðum og brenndu langflestir svartolíu sem ekki var neitt geymarými fyrir á útgerðarstöðum þeirra. Samdist svo með togaraeigendum og Olíufélaginu, en meðal þeirra er stóðu að stofnun félagsins voru allmargir útvegsmenn, að hinir fyrrnefndu afsöluðu sér tilkalli til kaupa á olíustöðinni eða hluta hennar ef Olíufélagið fengi hana keypta og félagið skyldi sjá útgerðum hinna nýju skipa fyrir brennsluolíu á hagkvæmu verði. Sóttu togarar olíu í stöðina í Hvalfirði allt fram yfir 1950 og þaðan var olíuvörum lengi dreift út um landið. Með kaupum á stöðinni varð fyrst grundvöllur fyrir kaupum á stórum olíuförmum til landsins sem voru miklu hagkvæmari viðskipti en áður höfðu tíðkast.

Hernám

Herspítalahverfi Breta umhverfis Gamla-Garð. Spítalinn rúmaði 200 sjúklinga og 130 starfsmenn.

Við Nefnd setuliðsviðskipta samdist svo vorið 1947 að Oíufélagið og Hvalur keyptu stöðina og skiptu félögin með sér bryggjunni, vatnsveitu, legufærum o.fl., en önnur mannvirki tilheyrðu hvoru félagi um sig. Var mikið af tækjabúnaði stöðvarinnar, sem ekki nýttist félögunum tveimur, selt öðrum, þ. á m. lítið olíuskip af þeirri gerð sem Bandaríkjafloti notaði til flutninga í höfnum og á skipalægjum, sem lá þar með bilaða vél. Gert var við skipið og því gefið nafnið Þyrill. Fékk Skipaútgerð ríkisins Þyril til afnota og var skipið í olíuflutningum innanlands næstu tvo áratugina og síðar, m.a. í síldarflutningum til ársins 1970 er það var selt úr landi.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest Nato 2022 til að minnast atburða Seinni heimstyrjaldarinnar.

Er Bandaríkjaher kom aftur til landsins árið 1951 má segja að olíustöðin á Söndum hafi gengið í endurnýjun lífdaga. Varnarliðið þarfnaðist mikils geymarýmis fyrir eldsneytisbirgðir sínar, en samið var um leigu á megninu af geymarými stöðvarinnar fyrir eldsneyti á flugvélar og herskip. Mikill hluti birgðanna í Hvalfirði voru reyndar varabirgðir, einkum fyrir Bandaríkjaflota. Auk þess var þar geymt allt flugvélaeldsneyti Varnarliðsins og það flutt í smærri skömmtum sjóleiðina til Keflavíkur eftir því sem gekk á birgðirnar þar. Var þessi háttur hafður á allt til ársins 1990, er ný olíubirgðastöð Varnarliðsins og NATO í Helguvík var komin í notkun.
Með komu Varnarliðsins var herlið á ný staðsett í Hvalfirði. Reis lítið braggahverfi á ásnum vestan Miðsands þar sem dvöldu rúmlega 100 liðsmenn landhersins og önnuðust gæslu olíubirgðastöðvarinnar. Stöðin var nú rekin af sérstöku dótturfyrirtæki Olíufélagsins, Olíustöðinni í Hvalfirði hf., sem stofnað var í því skyni. Landherinn hvarf að mestu af landinu árið 1959 og liðsmenn hans í Hvalfirði síðastir í janúar árið eftir. Önnuðust herlögreglumenn flughersins gæslustörfin uns landgönguliðar flotans tóku við sumarið 1961.

Olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins

Hernám

Orrustuskipið Prince of Wales liggur við festar í Hvalfirði þar sem það bíður meðan forsætisráðherrann bregður sér til Reykjavíkur og nágrennis. Í baksýn er Akrafjall. Í nóvember þetta sama ár, aðeins um fjórum mánuðum eftir að þessi mynd var tekin, sökktu japanskar flugvélar skipinu í Suður-Kínahafi. Af áhöfninni fórust 327 menn.

Bandaríkjafloti tók við hlutverki flughersins við rekstur mannvirkja og þjónustu við Varnarliðið sumarið 1961 í samræmi við aukinn þátt flotans í vörnum á austanverðu Norður-Atlantshafi. Taldi Atlantshafsherstjórn NATO brýnt að tryggja að nægar birgðir eldsneytis væru til staðar í Hvalfirði.

Hvalfjörður

USS Mississippi og RN tunduspillir í Hvalfjirði 4. óctober 1941.

Var hafinn undirbúningur að endurnýjun geyma og lestunaraðstöðu ásamt lagningu legufæra í firðinum sem nýtast mættu herskipum Atlantshafsbandalagsríkjanna á ófriðartímum. Íslenskir aðalverktakar önnuðust framkvæmdir við nýju olíustöðina sem tekin var í notkun árið 1968. Framkvæmdum lauk að fullu árið eftir, en verkið var fjármagnað að mestu leyti af Mannvirkjasjóði NATO. Í stöðinni eru fjórir rúmlega 12.000 tonna svartolíugeymar sem grafnir voru niður í brekkuna upp af Gorvík vestan Miðsands, olíubryggja, dælu- og hitunarbúnaður auk húsnæðis fyrir rekstur stöðvarinnar.
Samkomulag varð um að Íslenskir aðalverktakar önnuðust rekstur nýju stöðvarinnar í samræmi við samning milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá árinu 1966 sem kvað á um að fyrirtækinu, sem sérhæfði sig í vinnu fyrir Varnarliðið, skyldu tryggð lágmarks verkefni er umsvif í varnarliðsverkefnum væru lítil. Þá tóku starfsmenn aðalverktaka einnig við gæslu olíubirgðanna og mannvirkja í Hvalfirði og leystu landgönguliðana af hólmi vorið 1967.

Hernám

Winston Churchill og Hermann Jónasson ganga hér um götur Reykjavíkur í heimsókn Churchill hingað til lands 16. ágúst 1941.

Hlutverk olíustöðvar NATO breyttist á öndverðum níunda áratugnum eftir að breytingar höfðu orðið á vélbúnaði herskipa. Eru flest herskip nú knúin dísilvélum eða þotuhreyflum sem krefjast léttara eldsneytis en svartolíunnar sem tankarnir voru upphaflega gerðir fyrir. Voru þeir tæmdir árið 1991 og endurnýjaðir og búnir til geymslu á léttari steinolíublöndu fyrir þotuhreyfla. Þessari framkvæmd lauk nýlega, en ekki liggur fyrir hvenær geymarnir verða fylltir að nýju.
Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi. Er það með heillegustu minjum um þau miklu umsvif sem voru í Hvalfirði og víðar á landinu á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína, og hefur þeim verið vel við haldið, enda í fullri notkun fram á síðari ár.
Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út.

Braggar

Braggi  og dátar á stríðsárunum.

Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út. Hvalfjörður var mikilvægur frá hernaðarsjónarmiði og risu herstöðvar á Miðsandi að norðanverðu og á Hvítanesi að sunnanverðu. Þegar er ekið inn eftir Hvalfirði sunnanverðum og komið fram hjá Hvammsvík liggur vegurinn ofan við Hvítanes, sem hallar niður að firðinum, grasi vafið. Ofan frá þjóðveginum er þar ekkert sérstakt að sjá en útsýnið er fagurt frá þessum stað inn eftir Hvalfirði.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – útsýni frá Hvítanesi.

Gegnt Hvítanesi skagar Þyrilsnes fram í fjörðinn og sundið á milli er aðeins hálfur annar kílómetri. Til austurs sést inn í Brynjudal, en fyrir suðrinu gnæfir Reynivallaháls. Á Hvítanesi var bújörð, en langt mun vera síðan hún fór í eyði.
Afleggjari liggur frá þjóðveginum niður eftir nesinu. Þegar þangð er komið má víða sjá hvar vegir hafa legið um nesið, en grasið sem víðast hvar er hnéhá beðja, hefur miskunnað sig yfir hinar smærri minjar. Eftir standa steinsteyptar tóftir uppi á nesinu og hálffallin, steinhlaðin hús niðri við bryggjuna sem enn hangir uppi. Það af henni sem stendur upp úr sjó er heillegast en sá hluti hennar sem alveg er uppi á ströndinni hefur molnað niður.

Heimildir:
-Fréttablaðið – Friðþór Eydal, Laugardagur 9. maí 2020.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/440784/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/580576/

Hernám


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943. Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.

Steðji

Í Kjós ofan Kjalarness er fátt minnismerkja. Þau eru þó þar fleiri en engin.

Neðri-Háls

Kjós

Kjós – minnismerki.

Við þjóðveginn ofan við Neðri-Háls í Kjós er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur með áletrun: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum. Þar búa ekki framan neinar sogir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ – Heimsljós H.K.L.
Hornsteinn Umhverfis- og náttúruverndar, 7. júní 1998 – Sól í Hvalfirði“.

Í mbl.is 7.6.1998 er fyrirsögn; „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa minnisvarða“: Undir henni segir: „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa í dag hornstein að Hálsnesi í Kjós, sem er tileinkaður umhverfis- og náttúruvernd.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að hornsteinninn sé minnisvarði um þá baráttu sem íbúar Hvalfjarðar háðu fyrir umhverfi sínu og jafnframt áminning um það umhverfisslys sem staðsetning álvers á Grundartanga er. Hornsteinninn er ekki síst ætlað að marka upphaf aukinnar sóknar í umhverfismálum á Íslandi í framtíðinni.“

Kjós

Kjós – minnismerki.

Kjós

Tvö skilti eru við þjóðveginn ofan Hvítaness í Hvalfirði. Annað er um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ og hitt „Útsýni frá Hvítanesi„.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Á skiltinu um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ má lesa eftirfarandi texta: „Hvammsvík var miðstöð Bandaríkjaflota með skotfærageymslur herskipa og tómstundaheimili sjóliða. Í Hvammsey var tómstundaheimili fyrir sjómenn á kaupskipum. Þeir fengu ekki annað landgönguleyfi enda Hvalfjörður skipalægi en ekki viðkomuhöfn. Stjórnstöð á Hvammshöfða stýrði umferð skipa og úthlutaði legustöðum í firðinum. Skipalægi kaupskipa var utan við Hvammsvík.

Kjós

Hvammsvík á stríðsárunum.

Bækistöð Bandaríkjaflota, Falcon Camp, var í Hvammsvík (Falcon Landing). Bretar settu upp loftvarnabyssur og reistu skálahverfi í Hvammshólum sem Bandaríkjaher tók síðan við. Lengst til vinstri eru byssustæðin, þá íbúðarskálar og tómstundaheimili sjóliða, vöruskemmur og tómstundaheimili liðsforingja austast. Sunnan vegar stendur stjórnstöð skipalægisins á Hvammshól og skotfærageymslur flotans til hægri. Á Miðsandi og Litlasandi handan fjarðarins stóð stór eldsneytisbirgðastöð sem þjónaði skipum bandamanna og herliðinu á Íslandi.

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Hvítanes var bækistöð breska flotans. Á nesinu voru 250 byggingar; birgðageymslur, verkstæði, íbúðarskálar, spítali og annað til þjónustu við herskipaflotann, ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Einnig verkstæði til viðhalds kafbátagirðingar og tundurduflalagnar sem vernduðu skipalægið. Viðgerðar- og birgðaskip lágu innan við Hvítanes og önnuðust viðhald herskipa ásmat öflugri flotkví. Gat þar oft að líta stærstu bryndreka veraldar sem vernduðu skipalestir fyrir orrustuskipum þýska flotans í Noregi.

Kjós

Vagn frá Hvítanesi.

Akvegir og lítil járnbraut með flutningavögnum lágu um nesið og þar var rafstöð og götulýsing, vatnsveita, fjarvarmaveita og fráveitulögn. Stálbryggja var gerð til að landa netum og búnaði kafbátagirðingarinnar við Hvalfjarðareyri sem þarfnaðist stöðugs viðhalds. Skip voru einnig afgreidd við bryggjuna en flutningabátar notuðu steinbryggju á vestanverðu nesinu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Hvalfjörður var mikilvæg flotabækistöð í síðari heimsstyrjöld. Kaupskip frá Bretlandi og Bandaríkjunum söfnuðust saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum um afar hættulega leið til rússneskra hafna. Þýskar könnunarflugvélar lögðu stöðugt leið sína með ströndum landsins en bandarískar orrustuflugvélar grönduðu fjórum þeirra í grennd við Hvalfjörð. Bandaenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann á Atlantshafi 1943. Síðasta herliðið yfirgaf bækistöðvar sínar í stríðslok og var tundurduflagirðingu við Hálsnes eytt með sprengingu en kafbátagirðingu við Hvalfjarðareyri sökkt í fjörðinn.“

Á skiltinu „Útsýni frá Hvítanesi“ er eftirfarandi texti: „

1. Hvammsvík

Kjós

Hvammsvík – skipalægi.

Í Hvammsvík fæddist Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari. Hann gerði fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru, sem var m.a. tekin upp í Kjós á 5. áratug 20. aldar. Myndin var frumsýnd árið 1949.

2. Saurbær

Kirkjustaður og prestsetur, kunnast af dvöl sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674), en hann var prestur og orti Passíusálmana. Hallgrímskirkja í Saurbæ er helguð minningu séra Hallgríms.

3. Ferstikla

Kjós

Útsýni yfir Hvalfjörð frá Hvítanesi.

Landnámsjörð. Fjórir af fimm tindum Botnssúla sjást þaðan og er talið að nafnið sé dregið af því. Þar dvaldi séra Hallgrímur Pétursson síðustu æviárin og andaðist þar.

4. Miðsandur

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Bandaríkjamenn reistu olíubirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands í síðari heimsstyrjöld. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða. Stöðin var starfrækt áratugum saman í þágu varnarliðsins ásamt hvalstöð sem hóf rekstur árið 1948 og var árið 2009 aftur í rekstri eftir 20 ára hlé. Þarna er enn braggahverfi frá því í heimsstyrjöldinni síðari.

5. Geirshólmi

Kjós

Geirshólmi í Hvalfirði.

Kletthólmi sem segir í harðar sögu Grímkelssonar að ránsmannahópur undir forystu Harðar Grímkelssonar hafi dvalist um skeið. Byggðamenn hafi síðan ginnt Hólmverja í land með loforðum um sættir en svikið þá og fellt þá alla.
[Allir, sem í land komu að ráðum byggðamanna, voru felldir. En það voru allir er trúðu loforðum þeirra.]

6. Þyrill

Þyrill

Þyrill í Hvalfirði.

Sérkennilegt hömrum girt basaltfjall, 399 m. Þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Í fjallið er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að helga Jarlsdóttir hafi klifið upp með syni sína á flóttanum eftir víg Hólmverja þegar hún hafi synt með þá til lands úr Geirshólma. Undir fjallinu er samnefndur bær er kemur við harðar sögu. Í Þyrilsklifi er unnið líparít til sementsgerðar.

7. Botnsá

Botnsá

Botnsá.

Í Botnsá er fossinn Glymur, um 200 m, hæsti foss landsins. Þar eru vinsælar gönguleiðir. Við Botnsá eru sýslumörk Gullbringu- og Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu.

Á Hvítanesi má enn sjá mannvirki breska flotans frá umsvifum hans í Hvalfirðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Umsvif hersins voru mikil í Hvalfirði og höfðu í för með sér mikla röskun á lífi fólks í nágrenninu. Sumir fengu vinnu hjá hernum. Innan við Hvítanes eru leifar af tröppum sem gerðar voru þegar Winston Churchill kom til landsins árið 1941. Mannvirki hersins voru rifin að loknu hernámi.“

Hvítanes

Hvítanes – leifar hernaðarmannvirkjanna.

Reyndar voru ekki öll mannvirki hersins rifin, þau voru flest fjarlægð til þjóðþrifa og notuð til útihúsa, fjósa, geymsla, verkstæða og jafnvel mannabústaða víðs vegar um land. Eftir stóðu hlaðin hús, sem síðan hafa ýmist verið rifin með stórvirkum vinnuvélum eða verið látin drabbast niður þar sem tímans tönn hefur náð að jafna þau við jörðu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um „Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar“ má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jónas Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.

Íslandskort

Íslandskort 1824.

4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

„Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeir oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.

Staður

Staður 1925.

Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.“

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

„Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagst í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis“].

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp; flestar frá um og eftir 1880.

Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn).

Kistugerði

Kistugerði – rúnasteinn.

Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.“

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.“

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur /Jónsbúð – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupm(aður) í Keflavík A. Gunnarsson hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.

Þessir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskarðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp við fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.

Flókaklöpp

Flókaklöpp við Hvaleyri.

Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparholt og Árbæ.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómhringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.“

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði varleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.“

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Hálssel

Háls; Fremri-Háls er bær í ofanverði Kjós. Einungis Fellsendi er ofar (vestar). FERLIR hafði áður skoðað umhverfi bæjarins. Nú var markmiðið að líta á tóftir og minjar Sauðafells (Sauðfellskots) og nágrennis.

Sauðafell

Sauðafell og nágrenni. Bæjartófrin er neðan gamla Kjósaskarðsvegar og Sauðhóll ofan hans. Vestan hólsins er Hálssel.

Í heimildum hafði komið fram að Sauðakot væri fornt bæjarhróf í landi Fremra-Háls. Kotið hafi snemma farið í eyði og upp úr því hafi byggst selstaða frá bænum. Þetta þótti grunsamlegt því selstöður frá höfuðbýlum eiga sér langa fortíð. Ástæða þótti því til að skoða nánar tóftir kotsins og umhverfis þess, bæði vegna takmarkaðra upplýsinga í opinberri fornleifaskráningu af svæðinu og mögulegra áður óskráðrar selstöðu á svæðinu.

FERLIRsfélagar gengu að tóftum Sauðafells undir austanverðu Stóra-Sauðafelli. Heimildir eru um að sel frá Fremri-Hálsi, Hálssel, hafi byggst upp úr kotinu sem var komið í eyði fyrir 1705.
Við skoðun á bæjartóftunum kom í ljós að rýmin hafi a.m.k. verið þrjú; baðstofa, eldhús og búr. Garður var norðan við húsin, en gamli Kjósaskarðsvegurinn, fyrsti bílvegurinn upp með Stóra-Sauðafelli að Þingvallavegi, hafði verið lagður í gegnum hann. Engin ummerki eru eftir nýlegri selstöðu í bæjartóftunum.

Sauðafell

Sauðafell – bæjartóftir.

Ofan við veginn er Sauðhóll. Vestan hans eru tóftir Hálssels; þrjú rými og stekkur. Tvö rýmin eru samstæð; búr og eldhús, og baðstofan stök fast við hólinn. Skammt ofar, upp með Hálsá, er hlaðið gerði. Gerðið er á skjólsælum stað, gæti annað hvort verið stekkur er rúningsrétt.

Eftirfarandi upplýsingar um Fremri-Háls, Sauðafell(skot) og Hálssel má lesa í örnefnalýsingu:

Hálssel

Hálssel – Sauðhóll fjær.

„Eftirfarandi upplýsingar veitti Haraldur Jónsson bóndi á Fremra-Hálsi 25.8.1976. Páll Bjarnason skráði. Til hliðsjónar var höfð örnefnaskrá, án lýsingar, (heimildarmaður ókunnur), sem til er í Örnefnastofnun. Haraldur er fæddur 1930 og hefur alið allan aldur sinn á Fremra-Hálsi. Áður höfðu foreldrar hans búið þar.

Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi [austurendi] fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.

Hálssel

Hálssel – stekkur eða rétt ofan selsins.

Fyrir vestan Stóra-Sauðafell er Seldalur. Við botn hans eru Tjarnhólar. Þar er tjörn og upptök Hálsár, sem síðan rennur niður Seldal. Laugin er volg uppspretta við Hálsá í Seldal, um 200 m. sunnan við Hrútagil, það gil gengur í boga úr Seldal í suður og síðan í vestur.“

Í örnefnaskrá Stardals í Kjalarneshreppi segir: “Frá Rjúpnagili austur eru flóar með smáhólum og tjörnum. Þetta svæði heitir Tjarnhólar. Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel. Í Selgilið kemur Hrútagil frá vinstri. Seldalur heitir lægðin með gilinu.”

Hálssel

Hálssel – stekkur.

Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi II frá 2010 segir um Fremri-Háls:
„12 hdr 1705.
Eyðibýli 1705 er Sauðafell.
JÁM III, 418. 1847: 12 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
Hannes Þorsteinsson: Fremri-Háls réttnefni. „Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð af skriðum og enn hætt við meiri skaða bæði bænum og túnum, mönnum og fjenaði. Engjar öngvar í vissum stað, nema hvað slegið er vítt og dreift í heiðarlandi, og þó ekki í sama stað nema annaðhvört ár. En þær engjar, sem áður voru og nær liggja bænum, eru hartnær eyðilagðar af skiðum og leir. Þverá, sem hjá túninu rennur, er kölluð Hálsá, brýtur túnið og ber grjót á.

Hálssel

Hálssel.

Hætt er bænum fyrir snjóflóði, og hefur það oft yfir fallið, so legið hefur við húsbroti.“ JÁM III, 418.
1840: „Heyskapur er erfiður og reytingslegur, en landrými mikið og gott, helzt um sumartímann, vetrarþungt.“ SSGK, 256. Túnakort 1917: Tún 6,8 teigar, að mestu sléttað, garðar 950 m2.
Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Nokkrar umbætur hafa verið gerðar á túni jarðarinnar í Jóns tíð [á tímabilinu 1927-1949] með hjálp dráttarvjelar.“

Um Sauðafell segir í sömu skráningu:

Hálssel

Hálssel – uppgefið farartæki við gamla Kjósarskarðsveginn við Hálssel.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi.“ Þar segir einnig: „Saudafell hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi, bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda, áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið. […] Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru nú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. Er þar nú selstaða frá Hálsi.“ Í örnefnaskrá Fremri-Háls segir svo frá: „Hálsá á upptök sín í Tjarnhólum, rennur eftir Seldal og áfram vestur með hlíðinni, sem síðar er nefnd, rennur skammt austan við bæ og út í Laxá. […]

Hálssel

Hálssel og Sauðafell – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.“ Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: „Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel.“
Sauðafell er um 2,1 km SSA við bæ við sunnanvert mynni Seldals stutt frá austurbakka Hálsár og fast vestan við sléttað tún á Selflóa. Tóftirnar eru í þýfðum lyngi- og grasigrónum móa. Fast vestan við tóft A er gamall malarvegur sem lá upp á Þingvallaveg. Vegurinn var lagaður með jarðýtu í kring um 1958 en þá var hluta af vesturhlið tóftarinnar ýtt út. Þrjár tóftir eru á þessu svæði sem er um 80 m á lengd, um 40 m á breidd og snýr norðaustur-suðvestur. Tóft A er í norðausturenda svæðisins á meðan tóftir B og C eru í suðvesturenda þess. Tóft A er stæðilegasti hóllinn en virðist þó vera yngstur. Tóft A er sigin og um 1 m hár ávalur grashóll. Hóllinn er um 18 m langur, um 15 m á breiður og snýr austur-vestur.

Sauðafell

Sauðafell – tóftir.

Í hólnum eru fjórar óljósar dældir en vegna þúfnamyndunar og grasgróðurs var erfitt að segja til um lögun hólsins með vissu. Vestan í hólnum eru tvö ógreinileg hólf (dældir). Hólf I er ferkantað og um 4×4 m að stærð. Hólf II er 3 m sunnan við hólf I, ferkantað og um 3 m á lengd og 2 m á breidd, snýr norður-suður. Hólf III er um 4 m austan við hólf I og um 5 m ANA við hólf II. Hólf III er aðeins óljós um 1 m breið og 7 m löng dæld sem liggur norður-suður. Um 1 m austan við dæld III er önnur dæld sem skráð var sem hólf IV. Hólf IV er mjög óreglulegt að lögun (slaufulaga), 2-3 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr einnig norður-suður. Hólf IV er um 3,5 m vestan við austurenda hólsins. Hugsanlegur, 1 m breiður, inngangur inn í hólf IV sést í austurenda hólsins.

Hálssel

Hálssel.

Öll hólfin eru grunn eða <0,5 m á dýpt. Aðeins glittir í grjóthleðslur í norðurenda hólfs IV. Tóft B er um 65 m VSV við tóft A sunnan undir náttúrulegum 1,5-2 m háum berghól sem er stakur á austurbakka Hálsár. Tóft B er einföld, um 5 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr austur-vestur. Gengið var inn að austan um 0,5 m breiðan inngang. Innanmál tóftar er 2 x 1 m og snýr norður-suður. Norðurveggur tóftar er byggður upp að hólnum og er því aðeins um 1 m á meðan austur-, vestur- og suðurveggir eru um 2 m á breidd. Veggirnir eru um 1 m á hæð og greinilegri að innan en utan. Út frá austurvegg, fast norðan við inngang er 2 m langt og 1 m breitt garðlag sem trúlega hefur átt að koma í veg fyrir að gripir færu upp á hólinn frekar en inn í tóft. Tóftin er öll gróin lyngi og mosa en grasigróin í botninn.

Hálssel

Hálssel.

Engar grjóthleðslur eru greinilegar og tóftin virðist eldri en tóft A. Tóft C er um 20 m sunnan við tóft B fast undir um 5 m háum bakka í norðurenda suðausturhlíðar Selgils. Tóft C er tvískipt, um 9 m á lengd, um 5 m á breidd og snýr austur-vestur. Veggir tóftar eru um 2 m á breidd, um 0,5 m á hæð og lyngi- og mosagrónir. Botn tóftar er grasigróinn. Inngangur er á bæði hólf á norðurvegg, við norðvesturhorn hólfa. Þeir eru báðir um 0,5 m á breidd. Hólf I er um 2 m á lengd, um 1 m á breidd og snýr austur-vestur. Hólf II er austan við hólf I, um 1 x 1 m að stærð. Tóftin lítur út fyrir að vera á svipuðum byggingarskeiði og tóft B en tóftir B og C virðast eldri en tóft A. Ekki er ólíklegt að tóftir B og C séu hluti af hinu upprunalega Sauðafelli/Sauðafellskoti en tóft A sé byggð seinna sem sel eftir að Sauðafell/Sauðafellskot er farið í eyði.“

Ekki er minnst á framangreindar selminjar í fornleifaskráningunni.

Sjá meira um Sauðafell HÉR.

Heimildir:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II: Reykjavík, 2010.
-Örnefnalýsing fyrir Fremri-Háls; Haraldur Jónsson bóndi á Fremra-Hálsi 25.8.1976.
-Örnefnalýsing fyrir Fellsenda.
-Örnefnalýsing fyrir Stardal.

Hálssel

Stelkur í Hálsseli.

Sandfell

Gengið var norður gamla Svínadalsveginn upp frá Vindáshlíð að Sandfelli og þaðan beygt til austurs að Blautaflóða. Ofan hans átti Hækingsdalsselið að vera í gróinni skriðu. Síðan var gengið niður með Uxagili og skoðað heimasel undir gilinu áður en gengið var að tóftum Sauðhúss, sem ku hafa verið kot byggt upp úr seli frá Hækingsdal.

Hækingsdalssel (sel)

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel.

„Upp af Blautaflóa var gamalt sel og má rétt marka það í brekkunni,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá.
Norðaustan og upp af Blautflóa við rætur Hornafells er þúfnaþyrping um 2,3 km NNV við bæ og um 2 km norðaustan við Vindáshlíð. Á þessu svæði er grasigróin mýri og þurrlendi á gróinni aurkeilu lækjar sem rennur í suðvestur ofan úr Hornafelli, nokkuð sléttlent en þúfur hér og þar. Brekkunni hallar 5-10° til vesturs. Engar greinilegar tóftir eru á svæðinu. Þar er hins vegar um 0,2-0,4 m há þúfnaþyrping á svæði sem er um 16 x 14 m stórt og snýr gróflega norðvestursuðaustur. Engin greinileg hólf er hægt að sjá út úr þúfunum en þó glittir þar víða í
grjót.

Saudhus (sel/kot)

Sauðhús

Sauðhús.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Saudhus hefur til forna í Hækingsdalslandi kallað verið þar sem stundum hefur í manna minni selstaða brúkast, og halda menn bygt ból hafi í gamalli tíð verið, og hafa til líkinda þar um girðinga og fóta leifar, ekkert vita menn til þess annað og kann ei aftur að byggjast, því túnstæði alt er komið í mosa, mó og mýri, og mjög brotið af á þeirri, sem þar rennur, kölluð Selá,“ „Utan við Lágamýri er Selármói. Þar fyrir utan Selárflatir. Í Selármóa voru dældir. Sú þeirra, sem var einna mest áberandi, hét Grænadæld. Og svo kemur Selá.

Hækingsdalur

Hækingsdalur – gamla réttin.

Fyrir utan Selá er fyrst Borgarmýri. Á henni efst er mikil móaþyrping, er heitir Fjárborgir,“ segir í örnefnaskrá. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir svo: „Sauðabyrgi var til frá því gamla daga á svæði þar sem heitir Sauðaborg og Borgarmýri.“ Hóllinn Fjárborgir er um 155 m suðvestan við stekk og um 1,7 km VNV við bæ. Á þessu svæði er mikill grasigróinn hóll í brekku sem hallar 5-20° í suður. Hóllinn er 10-20 m ofan og NNA við sléttað tún á vesturbakka Selár. „Það hafði verið hlaðið en var mjög innfallið þegar Hannes sá það fyrst og á geysistóru svæði. Þar er nú stór gróinn hóll núna, það sést aðeins hvað það hefur verið víðáttumikið. Þessi byrgi voru hlaðin úr sniddum þannig að veggirnir voru látnir hallast inn og mætast í toppinn. Það var ekki nokkur spýta notuð í það. Þetta var notað yfir fé, aðallega sauði, yfir veturinn svo ekki þyrfti að smala þeim því þeir fóru þarna inn sjálfir.“

Hækingsdalur

Hækingsdalur – Sauðhús.

Umræddur hóll er í nú (2011) mjög hlaupinn í þúfur og vel grasigróinn. Hóllinn er gróflega hringlaga, um 45×45 m að flatarmáli og um 0,5-3 m á hæð. Aðeins ein greinileg hringlaga tóft er norðarlega og efst á hólnum en frekari mannvistarleifar leynast örugglega undir sverði. Tóftin er einföld, hringlaga og snýr NNA-SSV. Hún er <0,5 m á hæð, um 10 m í þvermál en innanmál er ferkantað og um 4×1 m. Líklegast hefur verið gengið inn að sunnan. Þúfnaþyrpingar eru bæði norðan og austan við tóftina en ekkert greinilegt er hægt að lesa út úr þeim. Um 70 m ASA við tóft A í Fjárborgum, nær Selánni, er önnur þúst B sem hugsanlega gæti einnig leynt fornleifum. Þústin er óregluleg, um 12×10 m að flatarmáli, <0,5 m á hæð og snýr gróflega norðaustur-suðvestur. Engin greinileg dæld er í miðju þústar.

Frábært veður.

Hækingsdalur

Hækingsdalur – stekkur undir Uxagili.

Dyljáarsel

Þegar horft var inn í Eilífsdal til suðurs frá bænum mátti sjá brattar hlíðar á þrjá vegu. Vinstra megin bar Skálatindur við himinn, hægra megin Þóreyjartindur og Eilífstindur innst og efst. Hann trjónir efst á láréttu standbergi, líkt og að um Vestfjarðardal væri að ræða. Vinstra megin við Eilífstind er Geldfjárhlíð með háum fossum (heita Fossar). Gunnlaugsskarð er hægra megin við hann. Þessi kennileiti setja mestan svip á ofanverðan dalinn, auk mikilla gilja, sem minnst verður á síðar.

Eilífsdalur - loftmynd

Innst í Eilífsdal, undir Eilífstindi, er Eilífshaugur, fornmannagröf. Fremst í dalnum, vestan við bæinn, er Orrustuhóll. Ætlunin var að ganga frá hólnum inn í botn á Eilífsdal og huga að mannvistarleifum á leiðinni. Í örnefnalýsingum er t.d. sagt frá Meðalfellsseli framan við dalinn og Dyljáarseli inni í dalnum. Eilífsdalsáin (Dælisáin, rennur um miðjan dalinn og skiptir hún merkjum Meðalfells og Eilífsdals. Annarra mannvirkja er ekki getið á þessu svæði.
Áður en lagt var af stað lýsti Aðalsteinn, bóndi, aðstæðum fyrir FERLIR. Sagði hann t.d. hlaðinn stekk vera innst í dalnum. Hann vissi ekki til þess að seltóftir væru þarna. Þó hafi hann smalað dalinn margoft, en þá ekki verið að skima eftir öðru en fé. Hlíðarnar væru brattar og féð færi langleiðina upp undir brúnir. Það hefði því oft verið erfitt að rekja giljaðar hlíðarnar, upp og niður. Um Meðalfellsland handan við ána vissi hann lítið sem ekkert. Selmýrin væri hins vegar rétt handan við ána. Aðalsteinn, bóndi, bar erindið undir eiginkonu sína, Huldu, en hún hafði alist upp í Elífsdal. Hún sagðist ekki hafa séð Dyljáarsel, en skv. lýsingunni myndi það eiga að vera á gróðurrenningi milli tveggja stærstu giljanna vestan árinnar. Það ætti því að verða auðvelt að sjá það, ef það væri þá til.

Orrustuhóll

Orrustuhóllinn er vestan bæjarins, áberandi afrúnaður bólstabergshóll, gróinn að mestu. Í 11. kafla Kjalnesingasögu segir að Esja vildi að „Búi haldi utan og viti hvað þar bíði hans, enda dæmdum skóggangsmanninum varla vært heima fyrir. Ólöf skyldi bíða hjá föður sínum Kolla í þrjú ár eftir honum. Á leiðinni norður í Hrútafjörð þaðan sem hann átti að sigla frétta þeir bræður Helgi og Vakur bróðursynir Þorgríms goða af ferð hans og ráðast gegn honum tólf saman. Búi verst þeim drengilega og byrjar á því að grýta fjóra þeirra til bana. Aðra tvo drepur hann og særir fleiri. Þá kemur þar Eilífur úr Eilífsdal og gengur í milli. Búi heldur utan og það gera þeir Vakur og Helgi einnig. Gerast þeir bræður handgengir Haraldi konungi hinum hárfagra. Segja þeir
Haraldi frá viðskiptum þeirra Búa og kallar konungur það níðungsverk að Búi skyldi brenna hofið“.
Talið hefur verið að bardaginn hafi farið fram á nefndum Orrustuhól. Engin ummerki þessa er þó að sjá á hólnum núna.
Skammt frá Orrustuhól er Engjahóll. Þar eiga að vera heygðir menn þeir, sem áttu að hafa fallið fyDyljáarselrir Búa á Orrustuhól.
Jörðin Eilífsdalur (Eileifsdalur) er næst vestan Meðalfells og nær land hennar yfir vesturhluta Eilífsdals á fjall upp og teygir sig yfir dalinn þar sem hann er lægstur og þar sem sjálfur bærinn stendur og upp á Múla sem er austan Sandfells. Samkvæmt landamerkjabréfi dags. 20. maí 1890 skilur Dælisá á milli jarðarinnar og Meðalfells upp Dalinn, svo Fossá upp á Fossabrún, þaðan eru merkin til há Esju, svo þaðan vestur á Gunnlaugsskarð, síðan norðvestur fjall á Þórnýjartind, svo ofan Sandhrygginn, sem liggur vestanvert niður frá Tindinum, úr honum neðanverðum beint niður í svonefndan Festarhrygg (sem skilur Miðdalslönd frá Eilífsdalslandi) að norðanverðu í dalnum.
Þá var gengið inn Eilífsdal að vestanverðu. Dalurinn er breiður, gróinn í botninn og einkar aðgengilegur til göngu, þrátt fyrir brattar hlíðar. Gróinn hóll yst (syðst) innan girðingar er einkar áhugaverður. Ekki er ólíklegt að þar kunni að leynast fornt bæjarstæði. Hóllinn er afrúnaður, en virðist samt ekki af náttúrulegum uppsprettum kominn.
Kví við Lambatanga í EilífsdalÆgifagurt útsýni var inn dalinn (sannkallað augnkonfekt), enda er hann með styttri Esjudölunum. Inngangan í botn tekur einungis 30-45 mín. FERLIR þurfti hins vegar að staldra við, skoða gögn, meta aðstæður, mæla vettvang og mynda sem og að spá á leiðinni. M.a. var staldrað við og umhverfið borið saman við meðfylgjandi gögn. Í örnefnalýsingu fyrir Eilífsdal segir m.a.: „Landamerki milli Eilífsdals og Meðalfells eru Dælisá. Upphaflega hét hún Eilífsdalsá og dalurinn, sem hún á upptök sín í og rennur eftir, Eilífsdalur. Hún hefur aðalupptök sín að austanverðu í dalbotninum hátt upp í fjalli, og heita þar Fossar, en áin Fossá. Skammt fyrir neðan upptökin fellur hún niður í hrikalegt gljúfur. Rétt vestan við, þar sem hún fellur niður, er allstór stallur með lítilsháttar gróðri. Heitir hann Geldfjárhlíð. Vestan við hana taka við afarháir þverhníptir klettar, sem eru fyrir botni dalsins. Vestan við þá er Gunnlaugsskarð. Austan til í þeim er skörp klettagnípa: Eilífstindur. Niður undan honum, nokkuð fyrir neðan kletta, er allhár hóll eða bali, sem nær niður undir láglendi: Eilífshóll. Munnmæli telja, að Eilífur sé heygður þar.
Önnur kví efst í Eilífsdal, MeðalfellsmeginFyrir neðan Gunnlaugsskarð eru upptök Þverár, (þar eru líka nefndir Fossar, Vestri-Fossar). Hún rennur í Fossá, neðan við Lambatungurnar, en svo heitir landið milli ánna. Eftir það er áin nefnd Dælisá. Norðan við Þverá, nokkuð ofarlega, er stórgrýtt urð: Þormóðsurð (þar höfðu tófur oft átt greni áður fyrr). Neðan við urðina er grasivaxin laut: Hestalág. Litlu neðar tekur við nokkuð stórt grasivaxið flatlendi, sem liggur norður eftir dalnum, nefnt Flatir. Norðan til í því er lækur, sem kemur hátt ofan úr fjalli. Þar sem hann fellur af háum klettum niður á láglendi, lítur út fyrir að séu húsarústir og heitir þar Dyljáarsel, en lækurinn Dyljáarselslækur. Þar litlu norðar er Hrafnagil hrikalega stórt, ofan frá Esjubrún niður að láglendi, en þaðan stór skriða niður að á….. ….Þá tekur við samfelld mýri. Næst við lækinn er hún nefnd Aur, austur að Engjahól, en hann er lítið móabarð, ofan til við mýrina, á móti Stekkjarlæknum. Munnmælin segja að þar séu heygðir menn þeir, sem áttu að hafa fallið fyrir Búa á Orrustuhól.“
Þarna er m.a. minnst á Dyljáarsel og skv. upplýsingum Eilífsdalsbónda ættu tóftirnar að verða nokkurn veginn um miðjan dalinn að vestanverðu – enda kom það á daginn. Þær birtust fremst á gróðurbrúninni ofan við ána. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar, en þó mótar enn fyrir hleðslu í veggjum miðrýmisins. Tvö rými eru augljós, en það þriðja, eldhúsið, hefur ef af líkum lætur, verið utan við þau. Tóftirnar eru mjög grónar og ekki augljósar, sbr. viðbrögð Eilífsdalsbónda. Þær gátu hins vegar ekki leynst fyrir árvökulu auga FERLIRsfólksins.

Eilífsdalur

Meðalfellssel II í Eilífsdal.

Í Jarðabókinni 1703 er ekki minnst á selstöðu. Það bendir til þess að selið hafi þá verið aflagt, enda benda ummerki til þess. Eilífsdalur var þá í eign Hlíðarendabónda svo útgerð þaðan hefur án efa verið stýrt annars staðar frá. Leifar selstöðunnar í dalnum gætu því verið fornar, enda bendir lögun rýmanna til þess.
Eilífsdalur er þriðji stærsti dalur Esju. Í hömrum innst í dalnum er að finna eina erfiðustu ísklifurleið á Íslandi, Þilið, en lagt hefur verið til að hamrarnir taki nafnið Eilífshamar. Eilífsdalur er mjög vinsælt ísklifurvæði. Dalurinn hentar mjög vel til skíðagöngu en snjóa leysir oft seint á vorin og reyndar stundum ekki fyrr en í júní. Þegar horft er á lóðrétt standbergið lárétt er ekki að undra að þangað sæki áskorunarofurhugar. Fyrir venjulegan göngumann væri það afrek að fara um Gunnlaugsskarð, svo brött er hlíðin. Víst er að leiðin er ekki fyrir lofthrædda.

Dyljáarsel

Dyljáarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Innst í dalnum, upp og innan við Þverá, er hlaðið gerði, líklega kvíaból. Annað svipað átti eftir að koma í ljós í austanverðum dalnum. Millum þeirra er Eilífshóll eða Eilífshaugur („allhár hóll eða bali, sem nær niður undir láglendi“). Frá balanum er fagurt útsýni út dalinn. Sá, sem á rananum hefur dvalið, hefur haft útsýni yfir allan dalinn – og rúmlega það. Staðsetninginn er hin ákjósanlegasta grafstæði fyrir mann, sem unni landi sínu.
Austan í dalnum er Þormóðsurðin fyrrnefnda. Ofan hennar er hlaðið brygi refaskyttu, enda átti þar að hafa verið greni fyrrum. Byrgið er umleikis stórra steina, sem hlaðið hefur verið ofan á. Sæti er í byrginu og hið ágætasta útsýni til suðvesturs niður að Lambatanga.
Skammt neðar og norðar er varða. Skammt frá henni er annað hlaðið kvíaból. Líklega eru kvíabólin tengd örnefninu Lambatangi, sem þarna er. Enn ofar eru leifar af vörðu. Hún gæti gefið vísbendingu hvar grenið var að finna í dalnum.
Haldið var niður Eilífsdal að austanverðu. Rifjuð var upp örnefnalýsing fyrir Meðalfell. „Á móti Eilífsdal, austan við Dælisá, er allstórt sund, sem Eilísdalssund heitir. Við norðvestur horn þess í bugðunni, sem þar er á Dælisá, er topplagaður malarhóll hár, sem heitir Sandhóll. Sunnan við Holtin og Sundin er allstór mýri, sem heitir Selmýri. Framan við hana er Selið á valllendisbala, sem þar er.

Meðalfellsel II

Meðalfellssel II – uppdráttur ÓSÁ.

Selið er næstum beint niður undan upptökum Drápskriðulækjarins. Þarna fyrir framan hækkar landið nokkuð. Tekur nú við önnur allstór mýri, sem nær neðan frá árbakka og upp undir brekkur, hún heitir Háamýri fyrir framan Sel.“
Ljóst var að ganga þurfti niður að Selmýri, framst í dalnum austanverðum. Á leiðinni var svæðið skoðað mjög vel, en það var ekki fyrr en komið var að grónum hólarana syðst í Selmýrinni að komið var að tóftum, Meðalfellssel I, þeim syðsta. Þar mótaði fyrir hleðslum, en rými voru ekki greinanleg. Stekkur virðist hafa verið norðvestan undir hólnum, rétt ofan við mýrina. Lækur, Drápuskriðulækur, virðist hafa breytt um farveg og rennur nú svolítið norðar. Ljóst er að selstígurinn hefur verið bæði langur frá bænum og blautlegur hið næsta selinu. Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um selstöðu frá Meðalfelli: „Selstaða í heimalandi og er þar mótak nóg til eldingar.“ Jafnframt er þess sérstaklega getið að selvegur væri erfiður yfir torfærar keldur. Þar sem staðið var á selstæðinu virtist augljóst að staðsetning selsins var byggð á tveimur ástæðum; annars vegar að gefa til kynna yfirráð yfir landinu á ystu mörkum og hins vegar til að nýta valllendið neðanvert. Í Jarðabókinni er þess einnig getið að Hurðarbak hafi haft selstöðu með Meðalfelli.
Í norðaustur frá selinu virtust augljósar tóftir sels; aflíðandi gróinn hóll ofan mýrinnar, Meðalfellssel II. Þegar að var komið reyndist vera um hólmyndun að ræða. Af þúfnamyndun og sléttun að dæma á hólnum var augljósar steinaraðir er mynduðu stekk. Sunnan við hann mótaði fyrir þremur  fremur óljósum tóftum.
Til að taka af allan vafa um að aðrar selminjar kynnu að vera nálægt Drápuskriðulæk eða nágrenni var svæðið kannað af nákvæmni. Engar aðrar minjar fundust.
Að sögn Aðalsteins Grímssonar, bónda í Eilífsdal, hefur hann búið þar í tæp 40 ár. Hann benti á tóftir Eilífsdalskots skammt norðaustan bæjarins, en þar eru nú sumarhúsalóðir. Kotsins er ekki getið í Jarðabókinni 1703.
Skammt norðaustar eru Valshamrar, tveir bergstandar. Þeir hafa verið vinsæl bergklifursvæði.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Eilífsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Meðalfell.
-Loftmyndir.

Dyljáarsel

Í Dyljárseli.