Írafellssel II

Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi á Svínadal.” “Í Svínadal eru þessi örnefni: Harðivöllur heimastur að Rauðhúfugili (djúpt jarðfallsgil). Þá Selflatir og Selgil. (Þar var haft í seli áður fyrr),” segir í örnefnaskrá.

Írafellssel II

Írafellssel II – uppdráttur ÓSÁ.

Selið er ofarlega á smáþýfðri, grösugri og mosavaxinni tungu milli tveggja gilja sem hallar mót vestri. Svínadalur er víður og mjög grasgefinn en gróðurlausir melar eru sumsstaðar við árbakkann og gróðurlítið er í skriðum úr sumum gljúfrum.
Þrjár tóftir eru í selinu á svæði sem er alls um 48 x 16 m stórt og snýr A-V. Neðst á svæðinu og vestast er grænn og grösugur, stórþýfður hóll, um 20 x 15 m að stærð og snýr norður-suður. Á honum efst er hægt að greina einfalda tóft (A). Um 30 m þar ofan við til ASA er tvískipt tóft (B) á barmi gils sem lítill lækur rennur eftir. Í kringum hana er harðlent og slétt. Enn ofar, þar sem gilið mjókkar, um 10 m ASA við (B) er einföld lítil tóft (C) við stórt svart bjarg. Tóft A er um 5,5 x 3 m stór. Hún snýr norður-suður og er inngangur inn í hana í norðvesturhorni. Ekki er hægt að greina önnur greinileg hólf eða aðrar tóftir á hólnum en þó virðist lítið hólf framan við tóftina til vesturs, er um 1,5 x 1 m að innanmáli. Tóft B er 6 x 5,5 m og liggur austur-vestur.
Hún skiptist í 2 hólf og er það vestara að innanmáli 1,5 x 1 m og það austara um 2 x 1 m. Inngangur í tóftina er í norðvesturhorni. Þaðan er op til suðurs inn í vestara hólfið og til austurs í austara hólfið. Tóft C er um 4 x 3 m og snýr austur-vestur.
Grjóthleðsla sést í suðurvegg þessarar tóftar en annars sjást ekki gjóthleðslur í veggjum tóftanna. Tóft C er veigaminnst og líklegt að þar hafi verið aðhald. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008, bls. 126.
-Jarðabók Árna og Páls 1705.

Írafell

Írafell.