Tag Archive for: Kjós

Írafellssel II

Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir um Írafell: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi á Svínadal.“ „Í Svínadal eru þessi örnefni: Harðivöllur heimastur að Rauðhúfugili (djúpt jarðfallsgil). Þá Selflatir og Selgil. (Þar var haft í seli áður fyrr),“ segir í örnefnaskrá.

Írafellssel II

Írafellssel II – uppdráttur ÓSÁ.

Selið er ofarlega á smáþýfðri, grösugri og mosavaxinni tungu milli tveggja gilja sem hallar mót vestri. Svínadalur er víður og mjög grasgefinn en gróðurlausir melar eru sumsstaðar við árbakkann og gróðurlítið er í skriðum úr sumum gljúfrum.
Þrjár tóftir eru í selinu á svæði sem er alls um 48 x 16 m stórt og snýr A-V. Neðst á svæðinu og vestast er grænn og grösugur, stórþýfður hóll, um 20 x 15 m að stærð og snýr norður-suður. Á honum efst er hægt að greina einfalda tóft (A). Um 30 m þar ofan við til ASA er tvískipt tóft (B) á barmi gils sem lítill lækur rennur eftir. Í kringum hana er harðlent og slétt. Enn ofar, þar sem gilið mjókkar, um 10 m ASA við (B) er einföld lítil tóft (C) við stórt svart bjarg.

Írafellssel

Írafellssel – uppdráttur í fornleifaskráningu.

Tóft A er um 5,5 x 3 m stór. Hún snýr norður-suður og er inngangur inn í hana í norðvesturhorni. Ekki er hægt að greina önnur greinileg hólf eða aðrar tóftir á hólnum en þó virðist lítið hólf framan við tóftina til vesturs, er um 1,5 x 1 m að innanmáli. Tóft B er 6 x 5,5 m og liggur austur-vestur.
Hún skiptist í 2 hólf og er það vestara að innanmáli 1,5 x 1 m og það austara um 2 x 1 m. Inngangur í tóftina er í norðvesturhorni. Þaðan er op til suðurs inn í vestara hólfið og til austurs í austara hólfið. Tóft C er um 4 x 3 m og snýr austur-vestur.
Grjóthleðsla sést í suðurvegg þessarar tóftar en annars sjást ekki gjóthleðslur í veggjum tóftanna. Tóft C er veigaminnst og líklegt að þar hafi verið aðhald. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008, bls. 126.
-Jarðabók Árna og Páls 1705.

Írafell

Írafell.

Meðalfell

Ætlunin var að skoða land Hurðarbaks í Kjós í Laxárdal, norðan Meðalfells, og síðan hluta af landi Sands í Eyjakrókum. Gengið var um Hurðarbaksland með Jóhannesi Björnssyni, bónda í Flekkudal og að Hurðarbaki. Á svæðinu mátti eiga von á minjum selja og fleiri fornra mannvirkja. Í Jarðabókinni 1703 er þó ekki getið um selstöðu frá Hurðarbaki aðra en þá er nýtt var með Meðalfelli. Þá var og ætlunin að skoða undir hlíð Sanddalsfjalls, milli Eyjadals (Sands) og Flekkudals (Grjóteyrar), en þar eru sagnir um minjar, sem Jóhannes telur að gætu hafa verið selstaða.

Hurðin í Meðalfelli

Í sóknar- og sveitarlýsingum frá fyrri tímum virðist nafnið Kjós aðeins eiga við um dalinn milli Esju og Reynivallaháls. Hins vegar ber þess að gæta, að Kjósarhreppur nær yfir mun stærra svæði, þ.e.a.s. Brynjudal og suðurhluta Botnsdals að norðanverðu en Eilífsdal og eystri hluta Miðdals að suðvestan. Í daglegu tali virðist orðið Kjós notað um Kjósarhrepp allan.
Meginhluti byggðarinnar er þó í hinum forna Kjósardal, eins og svæðið milli Esju og Reynivallaháls er stundum nefnt í fornum textum. Í honum miðjum gnæfir Meðalfell og ber því vissulega nafn sem því hæfir. Í daglegu tali eru nöfnin Laxárdalur og Eyjakrókur eða Krókur (eða Eyjahverfi) notuð um þá tvo hluta, sem Meðalfell skiptir Kjósardalnum í, en þau heiti eru ekki að finna í eldri textum en frá þessari öld. Nú var ætlunin að skoða Hurðarbak í sunnanverðum Laxárdal (norðan Meðalfells) og Sand í sunnanverðum Eyjakrók.
Garður við HurðarbakKjósardalurinn, sem Björn Bjarnarson nefnir svo í sýslulýsingu sinni 1937, er grösugur dalur og frjósamur, undirlendi er mikið, einkum í norðurhluta dalsins, Laxárdal. Hins vegar gerir sr. Sigurður Sigurðsson langa sögu stutta í sóknarlýsingu sinni 1840 er hann segir „landslagið er víða rakasamt” og á það við um landið norðan og sunnan Laxár að miklu leyti þótt bakkarnir og nesin við ána séu víðast hvar góð slægjulönd og hafi ævinlega þótt svo. Á tímum áveitnanna snemma á þessari öld voru miklar slægjur á undirlendi dalsins.
Landnámsmaðurinn á þessu svæði var Valþjófur Örlygsson hinn gamli á Esjubergi er nam Kjós alla, segir Landnáma, og bjó að Meðalfelli. Eftir því sem skýrt er frá takmörkum nágrannalandnámsmanna má sjá að Valþjófur hefur numið landið á milli Eilífsdalsár og Laxár allt upp til fjalla.
Þegar ekið er að Hurðarbaki frá Vesturlandsvegi blasir vestanvert Meðalfellið við, stakt fjall. Vestasti hluti þess heitir Harðhaus. Fjallið er flatt að ofan.
Að norðan við fellið rennur Laxá, ein gjöfulasta laxveiðiá landsins. Hún á upptök sín í Stíflisdalsvatni, en það blasir við til vinstri af Mosfellsheiðinni, þegar ekið er til Þingvalla frá Mosfellsdal. Venjulega er Laxá auðveld yfirferðar. Á henni eru góð vöð, svo oftast er hún lítill farartálmi. En í stórrigningum og leysingum getur komið í hana ofsavöxtur. Þá flæðir hún yfir bakka sína og eirir engu. Árið 1556 fórst Oddur Gottskálksson í henni. Oddur var sonur Gottskálks hins grimma Hólabiskups, sem var nafnkenndur á sinni tíð. En frægð Odds er þó einkum bundin við það að hann þýddi
Nýja testamentið á íslensku fyrstur manna. Í umrætt skipti var Oddur á leið til Alþingis. Sagan segir að hestur Odds hafi hnotið í ánni, og féll Oddur af baki. Hann komst lifandi upp á eyri í ánni, en þegar hann ætlaði að standa upp þvældist kápan fyrir fótum hans, svo hann datt aftur í strauminn og varð það hans bani.
Garður eða hluti áveitu við HurðarbakLandslagið varð til á jökultímanum. Þá gengu miklir skriðjöklar innan frá hálendi til sjávar. Þeir surfu og skófu bergið. Fátt stóðst fyrir þessum heljarkrafti. Þá skreið feiknamikill jökull fram þar sem nú er Hvalfjörður. Annar kom austan að og skildi eftir þann dal sem við höfum verið að skoða í þessari ferð. Meðalfellið veitti það mikla mótstöðu að hann vann ekki á því. Svo komu minni skriðjöklar að sunnan frá hábrún Esjunnar. Þeirra verk eru litlu dalirnir þrír, sem fyrr eru nefndir.
Efst, norðvestan í Meðalfelli, er hurðin mest áberandi, mikill klettastandur. Frá bæjarstæðinu að Hurðarbaki virðist hún hvað tilkomumest.
Jóhannes Björnsson á ættir að rekja til Hurðarbaks. Þegar amma hans keypti jörðina á sjöunda áratug 20. aldra á 3.5 milljónir króna héldu flestir að nú væri gamla konan orðin galin. Húsakostur var lélegur og tún lítil. Hins vegar var jörðin stór, um 230 hektarar, ágæt beit, slægjur góðar og tekjur af laxveiði í Laxá. Sagan segir að bóndinn, sem búið hafði að Hurðarbaki, hafi átt tvær tíkur. Nefndi hann aðra Pólitík og hina Rómantík. Þegar hann var spurður um hvora hann mæti meira kvaðst hann jafnan hafa þótt meira til Rómantíkunnar koma.
Á vefsíðu Örnefnastofnunar Íslands í apríl 2004 segir m.a. um hurðar-örnefni: „Orðið hurð er á nokkrum stöðum sem örnefni hér á landi, t.d. Hurð, sem er hvilft í bergið neðst í Háubælum í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Auk þess er þekkt örnefnið Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla í Eyf. sem lítur út eins og hurð. (Mynd í Afmælisriti Jóns Helgasonar 1969, á móti bls. 431). Sama er að segja um Skessuhurð sem er innan við Höfða í Fáskrúðsfirði í S-Múl.
Skurðgrafa frá fyrri tíð í KjósinniOrðið hurð kemur líka fyrir í örnefninu Hurðarás sem er ás nærri Hellisheiði í Árn. Þegar komið er upp á hann opnast víð sýn um Suðurland; það er eins og opnist þar dyr. En sú samsetning sem er algengust í örnefnum er Hurðarbak. Það er bæði náttúrunafn og bæjarnafn. Um náttúrunafn má nefna þessi dæmi: Í fornbréfi frá 1486 var talað um að Skriða í Reykjadal í S-Þing. „ætti afriett að hurdarbaki“(DI VI:575). Á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum er Hurðarbak snið í hamra. Á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum er Hurðarbak, einnig í landi Ystaskála í sömu sveit. Hurðarbak er kór í landi Varmahlíðar í Holtshverfi, einnig í sömu sveit. Fjaran fyrir neðan Rauðubjörg í landi Hafnar í Skeggjastaðahr. í N-Múl. heitir Hurðarbak. Fleirtalan Hurðarbök eru ásar fyrir austan Geirlandshraun í V-Skaft. Hurðarbak(ur) er nafn á ás í landi Iðu í Árn. Styttri mynd nafnsins var fremur notuð. (Örnefnaskrár).
Um bæjarnafnið Hurðarbak eru þessi dæmi: 1) Í Villingaholtshr. í Árn. (í landamerkjabréfi: Hurðarbakur). 2) Í Kjósarhr. í Kjós. (Annálar 1400-1800). 3) Í Strandarhr. í Borg. 4) Í Reykholtsdal í Borg. 5) Í Hörðudal í Dal. (Bjarnar saga Hítdælakappa, Íslensk fornrit III:164). 6) Í Torfalækjarhr. í A-Hún. Hurðarbak merkir ‘staður/bær í hvarfi’, þ.e. væntanlega frá alfaraleið.“
Tóft við HurðarbakÞegar land Hurðarbaks var skoðað með Jóhannesi var fyrst haldið að gamla bæjarstæðinu. Núverandi bæjarstæði er senni tíma íbúðarhús á suðaustanverðri jörðinni, en eldra bæjarstæðið var uppi í miðri hlíð Meðalfells um miðbik þess. Gamli þjóðvegurinn, sem nú er gróinn, sést enn vel í hlíðinni. Hann lá beint að bænum og síðan upp og niður fyrir íbúðarhúsið, áleiðis að Þorláksstöðum skammt austan við Ásinn, rana, sem kemur út úr Meðalfelli. Íbúðarhúsið var byggt úr steypu á fyrri hluta 20. aldar, en var rifið og jafnað við jörðu um 1990. Nú sjást fá ummerki eftir það og í rauninni erfitt að sjá að þar hafi verið bæjarstæði. Þó móta fyrir grónu ferköntuðu svæði upp á létthallandi stalli í hlíðinni. Skammt norvestan við það hafa verið útihús, einnig jarðjöfnuð. Neðar eru leifar af kartöflukofa úr torfi, en reft hefur verið yfir með bárujárni. Austan við bæinn er hlaðinn mikill steingarður upp fyrir miðja fjallshlíð. Á móts við bæinn hefur lækur grafið undan garðinum svo hann er kominn í hann að mestu að neðanverðu. Nokkru austar eru tóftir útihúss, lítið fjárhús, sennilega hrútakofi og gerði. Vestan undir Ásnum eru tóftir af stóru tvískiptu beitarhúsi með heytóft aftan við. Hlaðinn garður sést eftir miðjum húsunum. Sennilega eru þetta beitarhús frá Hurðarbaki frá því í byrjun 20. aldar.

Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli

Neðan þjóðvegarins eru merkilegar minjar; leifar af áveitu frekar en túngarði. Um er að ræða garð gerðan úr torfi, sem nær niður að Laxá. Á einum stað við garðinn eru leifar af hlaðinni brú yfir keldu. Austan við garðinn virðist vera gömul gata, með svo til beina stefnu að Reynivöllum, þeim gamla kirkjustað. Hurðarbaksfólkið sótti hins vegar kirkju að Meðalfelli og jafnvel Eyjum áður, en heimildir eru um að þar hafi fyrrum verið lítil kirkja. Þó er ekki útilokað að kirkja hafi einnig verið sótt að Reynivöllum í sömu sveit, einkum þegar um var að ræða skírnir, brúðkaup og jarðarfarir. Þarna gætu því verið leifar af gömlu kirkjugötunni frá Hurðarbaki. Jóhannes sagðist jafnan lítið þurfa að bera á slétturnar niður við ána því þær greru vel. Áður fyrr hleyptu bændur ánni yfir slétturnar að vetrarlagi, en af þeim á vorin. Þannig grænkuðu þær fyrr en önnur svæði og því nýtanlegri á undan þeim.
Skurðir, sem þarna voru grafnir um miðmið síðustu aldar, voru grafnir með þeirra tíma skurðgröfum. Leifar af einni þeirra má sjá í sveitinni.
Meðalfellskirkja stóð á Meðalfelli allt til aldamóta 18. og 19. aldar en þá var hún lögð niður og hefur kirkjugarðurinn á Meðalfelli tilheyrt Reynivallasókn síðan. Í garðinum eru nokkur leiði og var síðast jarðsett í honum á níunda áratug síðustu aldar.
Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli - uppdrátturGæludýragrafreitur er að Hurðarbaki. Hann var tekinn í notkun sumarið 2003. Þar gefst fólki kostur á að greftra hús- og gæludýr. Sífellt meiri eftirspurn hefur verið um þess háttar þjónustu á síðustu árum þar sem gæludýraeign hefur aukist til muna og ekki eiga allir garð. Að baki núverandi íbúðarhúsi að Hurðarbaki má sjá leifar af hlaðinni rétt.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hurðarbak: „Eigandinn er Meðalfells kirkja. Snjóflóð tók fjós og fénað 1699. Hús jarðarinnar að falli komin. Selstöðu í Meðalfellslandi þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt..“. Um selstöðuna frá Meðalfelli segir einungis: „Selstaða í heimalandi og er þar mótak til eldingar“. Auk þess: „Selvegur erfiður yfir torfæru keldur“. Ekki er minnst á selstöðu frá Sandi, en það var næsta viðfangsefni þessarar ferðar að grennslast fyrir um hana. FERLIR hafði áður farið um Eyjadal, land Sands (sjá meira undir Eyjadalur) og dalina beggja vegna, Flekkudal og Trönudal.
Ætlunin var að skoða svæðið undir hlíð Sandsfjalls milli Grjóteyrar (Flekkudals) og Sands, en ekki vannst tími til að skoða það svæði í fyrrnefndri ferð um Eyjadal. Jóhannes gaf góðfúslegt leyfi til ferðarinnar. Rakin var gömul gata út með hlíðinni. Hún lá að lítilli hlaðinni rétt með leiðigarði og tveimur litlum rýmum. Líklega hefur þarna verið rúningsrétt frá Sandi í skjóli undir gróinni brekku með útsýni heim að Eyjabæjunum og Meðalfelli. Að öllum líkindum hefur þarnaa verið „heimaselstaða“ um tíma, mögulega frá Eyjum. Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Eyjum: „Selstöðu á jörðin í heimalandi“. Erfitt er þó að ímynda sér hvar slík selstaða gæti hafa verið annars staðar en þarna. Landamerkin hafa þá væntanlega verið önnur en nú eru, enda munar litlu. Sambærilegar „heimaselstöður“ má t.d. sjá að Mógilsá og Úlfarsá.
Loks benti Jóhannes á gömlu réttina norðan við Meðalfellsvatn. Enn sést móta fyrir henni inni á lóð austasta bústaðarins, sem þar er. Hann átti áður Jóhannes í Bónus.  Að göngu lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti að sveitasið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Í Kjósinni – Gunnar Kristjánsson.
-Jarðabókin 1703.
-Kjósarmenn – æviskrár ásamt sveitarlýsingu – Haraldur Pétursson, 1961.
-Örnefnalýsingar fyrir Hurðarbak og Sand.
-Jóhannes Björnsson.
-Mbl. 28. ágúst 1980
-Örnefnastofnun – vefsíða
www.ornefni.is – skoðað 17. nóv. 2007.

Hurðin í Meðalfelli efst til vinstri

Hvalfjarðareyri

Gengið var um innanverðan Ósmel að Hvalfjarðareyri.
Á leiðinni voru skoðaðar minjar, fjörur, jarð- Hestaþingshóllog bergmyndanir, fuglar og selir, sjávarlón, grunnsævi og strandlengja utan ræktaðs lands neðan þjóðvegar frá Norðurkoti, inn að vík neðan við Eyrarkot og áfram að Eyrinni. Ósmelur er stór og fagur jökulgarður frá síðjökultíma. Meðfram ströndinni eru mikil set og öskulög sem og jarðlög með fornskeljum. Óvíða finnast jafn margar steintegundir á einum stað á landinu. Hvalfjarðareyri er fundarstaður baggalúta. Ofan við hana er Hestaþingshóll og undir honum Karl og Kerling. Svæðið, sem er í nánd við þéttbýli, hefur einstaklega mikið útivistar- og fræðslugildi.
Viti er yst á 
Hvalfjarðareyri. Hann var reistur þar árið 1948. Eldri menn minnast þess að vitinn hafi staðið utar, á grasbakka sem þá var. Eftir að uppdæling malarefna hófst við eyrina uppúr 1960 fór landið að brotna niður sem endaði með því að verja þurfti hann með grjóti.
Fyrst í stað var Vitinngrjótvörnin umlukin fjöruborðinu, en er nú eftir að landið hefur enn rýrnað, sem grjóthaugur umhverfis vitann.
Vitinn er í raun svokallað ljóshús sambærilegt og ljóshús sem er ofaná steyptum vitum. Það er áttstrent norskt mannvirki úr steypujárni á steyptum sökkli. Miðaldra fólk minnist þess, að þegar það voru börn, gerðu þau sér að leik að ganga á mjóum sökklinum og var keppikeflið að komast hringinn um vitann án þess að detta af sökklinum Var þá erfiðast að komast fyrir hornin átta. Ljóshúsið var upphaflega reist á Bjarntöngum 1913 en flutt í Hvalfjarðareyri eftir stríð.
Baggalútar [spherolites] nefnast smákúlur sem myndast í rýólítkviku þegar nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Talið er að þeir myndist við hraða kristöllun kvikunnar. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5 til 3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri.
Skel í fornu setlagiÖrnefnið Hestaþingshóll bendir til þess að þar hafi farið fram hestaþing, -kaup eða -at.
Hestaþings-örnefni er að finna á nokkrum stöðum á landinu og fylgir þeim mörgum sú sögn að þar hafi farið fram hestaat, hestavíg eða hestaþing. Þannig segir Árni Magnússon frá: „Sunnan undir Sólheimajökli, í tungunni milli eystri kvíslarinnar og þeirrar, sem undir jökulinn rennur, heitir Hestaþingsháls. Þar segja menn, fyrrum hestavíg brúkuð verið hafa, sem og líklegt er af nafninu“ (Chorographica, bls. 33). Höfundur Holta-Þóris sögu, sem sennilega var samin á 19. öld, notaði nafnið í sögunni (bls. 495), en það virðist ekki þekkt á síðustu tímum og er ekki í örnefnaskrám.
Árni nefnir líka að Hestaþingstaðir heiti pláss einhvers staðar í Skaftártungu nærri Flögu (sama rit, bls. 25). Það er heldur ekki í Berggangurörnefnaskrám. Hestaþingshóll er við Rangá norðan við Völl í Hvolhreppi í Rang. og Hestaþingsflöt í Hróarsholti í Árn., tilvalinn leikvangur frá náttúrunnar hendi. Hún mun draga nafn sitt af því, að þar mun hafa verið att hestum til forna (Örnefnaskrá). Þar voru líka haldin hestamannamót á síðustu öld. Hestaþingsflatir eru í Hlíð í Grafningi. Þær eru nokkuð stórar valllendisflatir, niður undan Hellisgili, með gulvíðisrunnum í kring. Þar var áður haldið hestaþing. Hestaþingshóll er í landi Kaldaðarness í Flóa. Þar voru háð hestaþing til forna. Ef til vill hefur það einmitt gerst þar að Jóra bóndadóttir trylltist er hún sá hest föður síns bíða lægra hlut fyrir öðrum (sbr. Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur I, 173-175). Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru tveir Hestaþingshólar þekktir, annar í landi Varmár, tangi út í Leiruvog. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera (Örnefnaskrá). Hinn Hestaþingshóllinn er á Eyri í Kjós. Bendir þetta örnefni á, að þarna á eyrinni hafi verið höfð hestaöt til forna (Örnefnaskrá). Hestaþingseyrar eru við Norðurá í landi Kalmanstungu í Borgarfirði (Chorographica, bls. 44). Þessir staðir eru allir á Suður- og Vesturlandi en aðeins er hægt að nefna hestaþingstaði utan þess svæðis í Skagafirði. Annar er Hestaþingshamar á Víðilæk í Seyluhr. í Skag. Í sóknalýsingu frá 1842 er talað um Hestaþingshamar (eða Hestavígshamar) í Víðimýrarhvarfi og segir að þar hafi „oft verið fundir áður, og þar hafa Skagfirðingar og aðrir kosið Brand Kolbeinsson yfir sig“ (Sókn., bls. 58, sbr. Sturlungu).

Set- og öskulög

Í annarri sóknalýsingu er talað um Hestavígshamar á Flugumýri (Sókn., bls. 105). Hann er nefndur Hestaþingshamar í ritinu Landið þitt Ísland II, 61. Orðið hestaþing kemur fyrir í nokkrum fornsögum (sbr. Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson, bls. 32).
Hestaöt voru einnig þekkt í Noregi og víðar á norrænu svæði til forna (sjá Svale Solheim, Hestekamp í KLNM VI, d. 538-540). Hestaþing voru ekki vel séð af kirkjunnar mönnum. Árið 1592 hélt Oddur Einarsson Skálholtsbiskup prestastefnu á Kýraugastöðum í Landsveit, þar sem gerð var löng samþykkt, og stendur þar í 6. gr.: „Item fyrirbjóði prestarnir hestaþing, vökunætur og smalabúsreiðir á helgum dögum hvort það sker nótt eður dag“ (Alþingisbækur II, bls. 255). Í annarri gerð sömu samþykktar er bætt við á eftir „á helgum dögum“: „og aðra slíka heiðinglega háttu“ (sama rit, bls. 258).
Síðasta hestavíg á Íslandi fór fram á Vindhólanesi í Fnjóskadal um 1625 að sögn Jóns Espólíns (1769-1836) og greinir hann frá því í Árbókum sínum (VI, bls. 21-22). Frásögn hans af hestavíginu er birt í lestrarbók Sigurðar Nordals (Íslenzk lestrarbók 1750-1930, bls. 28-29). Í Hestaþings-örnefnum er því varðveittur vitnisburður um einn þátt í skemmtanahaldi fornmanna.

För eftir sækýr

Kiðafell er fremsti bærinn í Kjós. Kjósarörnefni eru a.m.k. níu á landinu, ef dæma má eftir Örnefnaskrá Íslands, og staka örnefnið kemur fyrir á nokkrum stöðum. Orðið kjós merkir ‘þröngur dalur’ eða ‘þröng vík’. Í Noregi kemur örnefnið Kjos eða Kjose fyrir a.m.k. allvíða: Kjos í Akershus, Buskerud, Sogn og Fjordane, Vest Agder og Kjose á Vestfold og Kjosen á Finnmörku, Telemark og í Troms bæði sem fjörður og bær við þennan fjörð en upp af bænum er Store Kjostind.
Sem fyrr segir var gengið um Ósmel. Um er að ræða fornan sjávargranda, sem gefur til kynna að sjávarstaðan hafi fyrrum, líklega á fyrra hlýskeiði, verið mun hærri en nú er. Utan við melinn eru langir öskuhraukar, líklega leifar goss á fyrra jökulskeiði. Undir þeim eru setlög með skeljaleifum, líklega frá þeim tíma er jökullinn hopaði. Neðan við, á ströndinni, eru jökulrispuð hvalbök.
Þegar ströndinSelur var gengin mátti víða sjá stulaðbergsganga frá þeim tíma er landið myndaðist þarna. Ýmist skiptast á hraunlög og setlög.
Einstaka selur stakk upp hausnum til að fylgjast með tvífætlingum á landi. Aðrir hvíldust á nálægum skerjum. Í sandinum mátti sjá för eftir sækýr, ef vel var að gáð og grannt var skoðað. Þær virtust hafa gengið á land, spígsporað um stund á ströndinni og síðan horfið aftur jafn skyndilega til sjávar. Þær höfðu borið með sér sjávarþang úr botni Hvalfjarðar.
Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli, sagði að það kæmi fyrir að sækýr gengju á land undir háum bökkunum neðan við bæinn, einkum þó á vorin, a.m.k. hefði hann heyrt slíkar sögur. Ekki væri haft orð á því, bæði til að koma í veg fyrir átroðning forvitinna og til að minnka ekki líkur á komu þeirra þarna því sjónin sú mun jafnan vera tilkomumikil. Oftast mætti sjá það á nautunum í girðingunni ofanverðri þegar sækýrnar gengju á land því þá héldu þeim engar girðingar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnun Íslands.

Í Hvalfirði

Reynivellir

Stefnt var að því að reyna að rekja svonefndan Borgarstíg upp úr Borgardal austan (sunnan) Reynivalla í Kjós. Reynivallaháls heitir hæðarraninn þar fyrir ofan. Tvær aðrar götur liggja upp á Hálsinn beggja vegna, annars vegar Kirkjustígur frá Reynivöllum að Fossá í Hvalfirði og hins vegar Gíslagata frá Gíslastöðum, næstu jörð innan við Reynivelli, yfir í Seljadal þar sem hún kemur inn á Svínaskarðsveg er liggur þar vestan dalsins milli Fossár og Sandfells (Vindáshlíðar).
Reynivellir - ornefniReynivellir er jörð í Kjósarhreppi, næst norðan við Vindás, kirkjustaður um margar aldir. Upplýsingar hér að neðan eru úr örnefnalýsingu frá sr. Halldóri í tvennu eða þrennu lagi. Einnig eru viðtöl við ýmsa og þá mest frá Sigurjóni í Sogni.
Í nefndri örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Reynivöllum í Kjós má finna framangreint örnefni; „Borgarstígur“. FERLIR hefur áður farið fetið um Kirkjustíg, Gíslagötu og einnig um Selstíg skammt austar (sunnar) upp á Hálsinn, en á milli fyrrnefndu leiðanna á Borgarstígur að liggja sbr.: „Sunnan eða austan við Þinghúsgil taka við nafnlausar brekkur að næsta gili, sem heitir Stekkjargil. Þar austur af heita Miðmorgunsbrekkur, og niður af þeim er Gerðistún, þar sem nú eru fjárhúsin. Þar fyrir vestan og neðan er túnið nefnt Nýrækt. Austan við Stekkjargil eru í brekkunni Stekkjarklettar. Næsta gil hér austur af heitir Kaplagil, og Kaplagilsmýri er þar á brún fyrir ofan. Deplhálsar eru hæðir neðst í brekkunum. Þar vestur af er dalur, sem heitir Borgardalur, og austur við þann dal er klapparholt, sem heitir Gíslholt. Það holt er alveg á merkjum. Upp af holtinu er Gíslagata, og Gíslalækjardrög eru þar uppi á hálsi ofan við brúnir. Þaðan kemur Gíslalækurinn, sem er á merkjum.
BorgardalsgilÞá er bezt að halda aftur vestur brúnirnar. Niður í Borgardalinn kemur stórt gil, sem heitir Borgardalsgil, og vestan við það liggur Borgarstígur upp á fjallið.“
Staðarhaldari á kirkjustaðnum Reynivöllum, séra Gunnar Kristjánsson, tók fagnandi á móti FERLIRsfélögum. Benti hann austur með Reynivallahálsi, áleiðis að skógræktinni á Gíslastöðum. Þar í hlíðinni er, að því er virtist, gróinn hóll. Þetta er fjárborg, sem fyrrnefndur stígur dregur nafn sitt af; Borgarstígur. Gunnar sagðist hafa gengið upp með gilinu tvisvar eða þrisvar, en ekki orðið var við eiginlegan stíg eða götu. Þarna væri nokkuð bratt, en þó auðveldlega hægt að komast upp gilið og síðan upp með því að -verðu.
borgardalsgilsvardaÁður en gengið var af stað þótti ástæða til að rifja upp sögu Reynivallakirkju í stuttu máli: „
Séra Gísli Jóhannesson lét reisa kirkjuna 1859 en yfirsmiður var Bjarni Jónsson frá Brúarhrauni. Fyrr á öldum voru Reynivellir kirkjustaður í þjóðbraut þegar helsta hafskipahöfn landsins var Maríuhöfn í Hvalfirði og um hlaðið lá leiðin til Þingvalla og Skálholts.
Kirkjan var reist í svonefndri Kirkjubrekku, skammt austan við kirkjugarðinn. Áður hafði kirkjan staðið vestar í landareigninni, væntanlega í sjálfum kirkjugarðinum. Reynivellir eru ævaforn kirkjustaður, kirkjunnar er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.
MidmorgunsvardaÁ Reynivöllum var Maríukirkja í kaþólskum sið. Kirkjan sem nú er á staðnum er byggð í hefðbundnum stíl timburkirkna um miðja nítjándu öld. Henni hefur að vísu verið breytt dálítið. Skömmu fyrir 1930 var prédikunarstóllinn, sem upphaflega var fyrir ofan altari, færður að suðurvegg. Þá voru pílárar í skilrúmi milli kórs og framkirkju fjarlægðir og lágur veggur settur í staðinn. Fyrir hundrað ára afmælið 1959 var hún lengd um rúma þrjá metra, gerð geymsla norðan við kórinn en skrúðhús að sunnanverðu, settir nýir bekkir o.fl.
Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-Reynivallakirkja-31891) smíðaði Reynivallakirkju, hann byggði einnig Útskálakirkju. Hann var sagður „fæddur snillingssmiður“ og einn helsti forsmiður í Reykjavík á sinni tíð. Miklar viðgerðir á kirkjunni hófust sumarið 1997 með því að sökkull var endurhlaðinn og styrktur og leiddur var rafmagnskapall inn í kirkjuna.
Sumarið 1999 var kirkjan klædd að utan, gert var við forkirkju, nýtt timburgólf var sett í kirkjuna í sömu hæð og það var upphaflega, það kallaði á hækkun dyra og dyraumbúnaðar og jafnframt smíði nýrra hurða, innri og ytri, þá voru bekkir einnig smíðaðir að nýju í stíl eldri kirkjubekkja. Kirkjan var máluð að innan með línoleummálningu. Við val á litum var tekið mið af þeim litum sem í ljós komu þegar farið var að skrapa gömlu málninguna af.
Prestar sem þjónað hafa Reynivallakirkju frá 1859 eru: séra Gísli Jóhannesson (1852-1866), séra Björn Jónsson (1866-1867), séra Þorvaldur Bjarnarson (1867-1877), séra Þorkell Bjarnason (1877-1900), séra Halldór Jónsson. (1900-1950), séra Kristján Bjarnason (1950-1975 ), séra Einar Sigurbjörnsson dr. theol. (1975-1978) og séra Gunnar Kristjánsson dr. theol. (frá 1978).“

Borgin - Reynivollum -2

Áður hefur Kirkjustíg og Gíslagötu verið lýst hér á vefsíðunni, sem og Selstígnum skammt sunnar.
Gengið var að borginni í Borgardal undir Borgardalsgili, yst á austurmörkum (suður-) Reynivalla. Þar eru greinilegar grasigrónar tóftir aflangrar þyrpingar; efst (næst fjallshlíðinni) virðist hafa verið hús (norður/suður), neðan hennar aflangt hús (vestur/austur), sennilega beitarhús, og neðast hringlaga fjárborg. Mannvirki þessi virðast hafa við hlaðin úr grjóti í gamalli skriðu úr hlíðinni. Þau eru annað hvort mjög gamlar eða misgömul og gæti það verið skýringin á að minjarnar hafa með tímanum myndað þennan gróna aflanga hól.

prestsvarda á prestas

Skammt vestar eru fyrrnefndir Stekkjarklettar og vestan þeirra stekkurinn, ferhyrndur og hlaðinn úr grjóti.
Og þá aftur að Borgarstíg. Áður en byrjað var að leita að stígnum var hús tekið á séra Gunnari og frú, sem tóku ljúfmannlega á móti FERIRsfélögum með kaffi og meðlæti. Eftir að hafa lagst yfir loftmynd af svæðinu var stefnan tekin á „Borgina“ í Borgardal. Hlaupið var yfir framangreinda málsgrein og strikið tekið upp í hlíðina vestan Borgardalsgils. Leitað var að mögulegum stíg í bergstallaðri hlíðinni, en án árangurs. Neðst er hún gróin, en eftir því sem ofar dregur er bergið bert á köflum og brattar smámalar- og sand(deiguls)skriður gera göngufólki erfitt um örugga fótfestu. Það ætti því enginn að gera það að gamni sínu að fara þarna upp án sérstaks tilefnis.

Teitsvordur

Á leiðinni upp kom jafnvel í hugann ljóð Tómasar Guðmundssonar, Urð og grjót. Gangan upp reyndi vissulega á, en til baka varð varla komist án harmkvæla.
Ef Borgarstígur hefur legið þarna upp fyrrum þá hefur hann nú afmáðst með öllu. Reyndar er það mjög líklegt því sambærilegur kafli á Gíslastíg, þar sem sanddeigull hefur legið utan á klöpp, hefur nú þurrkast út á kafla. Mögulegt væri að endurvekja stíginn þarna í hlíðinni með nokkurri fyrirhöfn, en sú framkvæmd myndi varla endast um langa tíð. Stallar í hlíðinni geta gefið tilefni til götu fyrrum, auk þess sem kindaspor lágu upp hana. Ofan gilsins eru vel grasi grónar flatir og skjólgóðir bakkar svo ætla megi að Borgarstígur hafi fyrst og fremst verið beitargata í tengslum við fjárborgina neðra og önnur fjármannvirki henni tengdri.

Thrivordur

Varðan efst á vesturbrún gilsins bendir a.m.k. til þess að þar hafi stígur legið fyrrum. Hún virðist hafa verið til annarra nota en t.a.m. Kirkjustígur og Gíslagata. Skýringin á hvarfi götunnar gæti einfaldlega verið sú að borgin og nærliggjandi mannvirki hafi lagst af fyrir löngu síðan og viðhaldi hennar því verið sjálfhætt. Söguleg notkun hinna gatnanna tveggja fram á 20. öld gæti hins vegar skýrt skýrleika þeirra enn þann dag í dag, auk þess sem þær hafa jafnan verið notaðar sem reiðleiðir milli undirhálsa. Um Borgarstíg hafa menn ekki farið með hesta.
Þegar upp var komið var gengið inn með sunnanverðum Hálsinum, að hálffallinni vörðu austan Kaplagils; Miðmorgunsvörðu. Hana mætti að ósekju endurhlaða við fyrsta tækifæri.
ThrivordurÞá var ferðin notuð til að skoða mögulega götur um Reynivallaháls með viðkomu á Prestási og Langási.
Á Prestási eru leifar af þremur vörðum. Á fyrri ferð FERLIRs um Kirkjustíginn náðist einungis að skoða eina þeirra (þá er myndin er af á tilvísaðri vefsíðu) en skammt sunnar á ásnum er hins vegar fallin fyrrum myndarleg varða og önnur heilleg skammt suðaustar. Líklegast má telja (þegar horft er yfir ásinn) að fyrrnefnda varðan geti hafa verið nafngreind „Prestsvarða“. Þangað gæti prestur annað hvort hafa gengið til að taka á móti sóknarbörnum sínum úr Hvalfjörðunum og eða fylgt þeim þangað á leið eftir messu.
Teitsvörður eru augljósar við Kirkjustíg á Langamel efst á miðjum hálsi, en örugg staðsetning Þrívarðanna er aftur á móti meiri erfiðleikum háð. Þó má ætla að tvær áberandi vörður nyrst á Langási og önnur, nú gróin, á honum miðjum, kunni að hafa leikið hlutverk þeirra fyrrum. A.m.k. er þessarra augsýnulegra minja á hálsinum hvergi getið að öðru leyti í örnefnalýsingum af svæðinu.

Hvalfell

Þegar gengið var niður af Hálsinum um Gíslagötu kom í ljós að hún er í raun þrjár götur þegar upp úr gilinu ofan við bæinn er komið; hin eiginlega Gíslagata yfir í Seljadal, selstígur í Sognaselið norðanvert við Sandfellstjörn, og loks leið svo til beina leið yfir hálsinn að Fossá þar sem gatan kemur inn á Kirkjustíginn neðan og norðaustan undir Þrívörðum.
Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-Ari Gíslason, örnefnalýsing fyrir Reynivelli.
-séra Gunnar Kristjánsson, prestur að Reynivöllum.
-www.kirkjukort.net

Reynivellir

Reynivellir í byrjun 20. aldar.

Flekkudalur

Stefnan var tekin á, annars vegar Flekkudal í Kjós, og hins vegar Trönudal í sömu sveit. Möðruvellir munu hafa átt selstöðu í Trönudal, millum Svínadals og Eyjadals í Kjós, sem og í Svínadal skv. Jarðabókinni 1703. Trönudalurinn er fremur stuttur m.v. bræður hans, en ætlunin var að leita að hugsanlegum mannvistarleifum uppi í dalnum.

Trönudalur - loftmynd

Áður hafði FERLIR komið að tóftum neðanvert í dalnum. Efst í dalnum á hins vegar að vera svonefnd Dyngja (malarrani) og við hana Selflatir. Nafnið gefur vísbendingu um selstöðu. Trönudalsrétt er, skv. örnefnalýsingu, framan við dalsmynni Trönudals sem og tóftir Múlakots. Einnig var ætlunin að skoða Flekkudal, milli Eyjadals og Eilífsdals. Þar, fremst í dalnum, eru, skv. örnefnalýsingu, Selhólar, en örnefnið gefur einnig ákv. vísbendingu um selstöðu í dalnum. Báðar vísbendingarnar voru áhugaverðar, einkum vegna þess að slíkum er farið að fækka verulega eftir undangegna leit að slíkum í landnámi Ingólfs. Áður en þessi ferð var farin hafði verið skráð 151 selstaða á svæðinu.
ÞSeltóftir í Flekkudalegar FERLIR kom að Efri-Flekkudal og hafði knúið dyra birtist húsfrú – og síðan bóndi. Hann, Jóhannes Björnsson, barnabarn Guðna Ólafssonar er skráði örnefni í dalnum fyrrum, var borinn og barnfæddur á staðnum. Fyrstu viðbrögðin voru varfærinn. Hann kærði sig ekki um að einhver starfsmaður einhverrar stofnunar væri að vaða um dalinn. Þegar hann áttaði sig á að hér var aðeins um að ræða áhugafólk um fornar minjar og starfshætti fyrri tíma breyttist viðmótið. Hann brá sér í gönguskó og bauðst til að sýna því nálægar minjar, sem nóg væri af. Engar þeirra voru skráðar í örnefnalýsinguna.
Fyrst benti Jóhannes á gamla bæjarstæðið í Flekkudal, sem hann efaðist reyndar um að hafi fengið nafnið af Flekku gömlu, þeirri er Flekkuvík væri nefnd eftir og hefði síðar átt að flytjast í Flekkudal. Efasemdir hans virtust reyndar réttar miðað við þjóðsöguna því í henni er gamla konan sögð hafa verið heygð ofan við Flekkuvík. Þar má enn í dag sjá rúnastein ofan á gröf kerlingar.Tutlutættur sjást enn vestan við veginn að Flekkudalsbænum, en þar mun fyrsti Flekkudalsbærinn hafa verið byggður, og jarðirnar þá verið eitt býli. „Mun það nafn vera frá ofanverðri 19. öld, hét fyrr Neðri-Flekkudalur og Flekkudalur, Efri-Flekkudalur. Um 1840 var Neðri-Flekkudalur fluttur austur fyrir Flekkudalsá og fékk sá bær nafnið Grjóteyri, en kotbýli verið um skeið í Neðri-Flekkudal sem fékk þetta heiti. Flekkudalsbæinn brann 1948 en var endurbyggður á hól sem heitir Hjálmur.“
Rétt neðst í FlekkudalJóhannes sagðist um langa tíð hafa smalað Flekkudal og Torfdal, sem gengur suðaustanvert úr hinum fyrrnefnda. Dalsbotn og ofanverðar hlíðar Flekkudals snúa mót norðri. Efst í þeim hafa jafnan verið verið snjóhvítir flekkir (snjóskaflar í giljum) allt sumarið. Taldi hann nafngiftina hafa verið fremur dregna af því staðbundna náttúrufyrirbæri en einhverri þjóðsögu um einhverja kerlingu. Það má vel til sanns vegar færa – standandi þarna í miðjum dalnum með alla flekkina í suðri fyrir augnlitinu.
Jóhannes sagði að í Flekkudal hefðu verið tveir bæir, Efri- og Neðri Flekkudalur. Grjóteyri væri að austanverðu. Mörkin lægju um Flekkudalsána. Vestan og ofan við bæinn, Efri-Flekkudal, væri Paradísartindur (frá Eilífsdal nefnist hann Skálatindur). Undir Paradísartindi væru minjar um tvær selstöður.
Farið var á vettvang. Þar undir hlíðinni voru grónar mannvistarleifar á tveimur stöðum; sú austari var eitt hús með gerði að sunnanverðu, en sú vestari eitt rými með stekkslíki að vestanverðu. Kálfabanafoss í FlekkudalMiðað víð lýsingu Jarðabókarinnar 1703 af búskapnum í Flekkudal að dæma gætu hér vel verið um að ræða selstöður frá bæjunum. Stekkjargatan hefur að vísu verið stutt, en stekkirnir við tóftirnar gefa tilefni til að ætla að þarna hafi verið selstöður um tíma. Vel sér fyrir rýmum og grjóthleðslum í þeim, en veggir standa grónir.
Jarðabókin 1703 segir reynar ekkert um selstöður frá „Fleckudal“. Hins vegar segir að þar séu „tveir sundurdeildir bæir. Kvaðir eru á jörðunum og fátt um fénað. Silúngsveiði í lítilli á, sem nærri bænum liggur.“ Jóhannes sagðist af því tilefni oft hafa veitt silung í læknum (Borgargili undir Skyggni (Stöðli)) er rennur í Flekkudalsána ofan við bæinn.
Þá var haldið upp eftir vestanverðri Flekkudalsánni frá Tutlutættum, áleiðis upp að Selhæðum. Vel sást móta fyrir stekk undir Borgargili (Grjóteyrarmegin), ofan við austanverða ána. Fljótlega var komið að hlaðinni rétt austur af Sauðatungulæk. Réttin er ferningslaga og hlaðin úr tilfallandi grjóti ofan við ána. Innar og ofar er grasgeiri, sem nær upp undir kletta, og heitir hann Stöðull.

Trönudalsrétt - Sandfell fjær

Haldið var áfram upp með ánni. Á tveimur stöðum þurfti að fara einstigi ofan þrengsla, hið fyrra móts við Kálfabanafoss, og þá var komið undir fyrrnefndar Selhæðir. Þar mátti sjá mannvistarleifar á tveimur stöðum; annars vegar leifar af hlöðnum stekk og hins vegar af óljósu mannvirki (of litlu til að geta talist sel). Þegar gengið var upp á hæðina ofanverða mátti einungis berja augum þýfi sem og mýrardrög. Í vestri blasti Grýlugil við með tilheyrandi fossmyndunum. Þaðan var hins vegar hin ágætasta útsýn, bæði inn og út dalinn. Innst blasi við Háifoss og yst Meðalfellsvatn. Staðurinn er tiltölulega stutt frá bænum. Líklega hefur verið haft þarna í seli um tíma, en án húsakosts því gert hefur verið út að heiman.
Þegar gengið var niður eftir Skyggni, sem Jóhannes sagði svo vera (Stöðli) birtist frábært útsýni yfir Meðalfellsvatn og Meðalfell.
Í örnefnalýsingu fyrir Flekkudal segir m.a.: „Austan og ofan við Austurlæk heitir Sauðatunga. Með henni að innan er annar lækur, sem heitir Sauðatungulækur. Innar er lægð, sem heitir Krókur. Neðan við Krók og norðan er Króksmelur, og austan hans er Krókmýri. Innar heitir Selhæðir, niðri í dalnum. Það er graslendi. Upp af þeirri hæð er gil, sem heitir Grýlugil. Brekkan frá Selhæðum og Grýlugili út að NTóftir Trönudalsréttar og Múlakots (Möðruvallasels)ónbungu heitir Kláusarbrekkur. Þær ná upp að brún, sem hér er klettalítil…. Austur af Sauðatungulæk, næst túni, er svonefndur Háhóll, grasivaxinn hóll. Austur af honum gengur smárani fram, sem heitir Snasi, fram að ánni. Bæjarmegin við hann er rétt.“
Austan Flekkudalsáar mátti sjá mannvistarleifar frá Grjótá. Heimsókn í þær mun bíða betri tíma. Bærinn er ekki nefndur í Jarðabókinni 1703, enda mun hann upphaflega hafa verið kotbýli frá Flekkudal.
Þá var haldið í Trönudal. Sigurður Guðmundsson, bóndi að Möðruvöllum I, Kjós, hafði áður aðspurður sagst vita af tóftum neðst í Trönudal, alveg undir Múlanum. Tóftirnar væru svo til við Trönudalsána. Hann hafði haldið að þetta hefði verið nafnlaust kot eða jafnvel beitarhús frá Möðruvöllum, en eftir á að hyggja væri ekki óraunhæft að ætla að þarna hefði einhvern tímann verið selstaða. Ummerkin gætu bent til þess.

Foss, einn af mörgum, í Trönudal

Með landskiptagerð 8. nóv. 1952 var heimalandi Möðruvalla skipt milli Möðruvalla I og II alls um 170 ha. Hið úrskipta land er næst Laxá og nær upp að Möðruvallahálsi en meginhluti lands jarðanna verður áfram óskiptur, þ.e. Svínadalurinn vestan megin, allur Trönudalur og Múlinn milli dalanna, Jafnframt taldist til hins óskipta lands fjallið Trana upp að vatnaskilum (þar sem vötnum hallar) og Möðruvallahálsinn að austanverðu alveg niður undir láglendi. Framangreint ætti þó ekki að rugla ummerkjum eftir mannvistarleifar á landssvæðinu.
Í örnefnalýsingu fyrir Möðruvelli segir m.a.: „Gildruholtslækur er hér innar. Hann rennur í Svínadalsá. Upp með honum að austan eru Brúnkublettir milli Gildruholts og Trönudalsár. Þar uppi er Gildruholtið. Mýri er þar austar nafnlaus, nema ofan til er valllendis- svæði nefnt Tunga, sem er ekki í neitt að neðan. Þar austur af er Trönudalsrétt. Þar upp af er nafnlaus hóll. Slóði er upp af Trönudalsrétt, gamall fjárslóði. Þar upp af er Sandhryggur, klappir og skriður. Þar vestur af er nafnlaust gil, og austur af er Trönudalsgil. Í því er foss, sem nefndur er Rjúkan. Næst eru Breiðubotnar, og efsta gilið heitir Pokagil. Það dregur nafn af lögun sinni í botninum. Ofan við Sandhrygg er nafnlaust. Breiðubotnar er aðallega botninn, ekki gilin sjálf. Framan við Pokagil eru Rauðshjallar, og framan þeirra er nafnlaust gil. Hryggur þar innar heitir Dyngja. Í henni er gróður, en ekki sjást þar selrústir. Gilið innar heitir Dyngjugil. Þar neðst við Dyngju við ána eru Selflatir, og handan þeirra austar eru Marteinsvellir. Framan við Dyngju er Trönudalsbotn. Marteinsvellirnir eru á móti Dyngju.“ Í viðbót við örnefnalýsinguna segir m.a.: „Ekki er vitað um sel i sambandi við Selflatir vetan við Trönudalsá.“
Athyglisvert er að tóftir, sem síðar var gengið að skammt vestan Trönudalsréttar, er hvergi getið. En fyrst að upphafsreit göngunnar. Haldið var upp (suður) eftir Trönualsá. Haldið var yfir vað á ánni austan Trönudalsréttar. Réttin stendur í halllendi neðan við neðanverðan Trönudal. Má deila um hvort þar geti verið fyrrnefndur dalur eða Svínadalsmynnið norðvestanvert. Veggir eru grónir, en standa. Um er ræða nánast ferningslaga rétt. Vestan undir henni eru tóftir af húsi, sennilega afdrepi fyrir leitarmenn. Erfitt er að áætla aldur tóftanna.
Skammt vestan réttarinnar eru tóftir. Í örnefnalýsingunni segir að „í nesinu milli Trönudalsár og Svínadalsár eru þrír fossar í ánni. Nesið nær frá Múlakoti og upp að Múla. Þessir þrír fossar, sumir fallegir, eru nafnlausir.“  Í lýsingunni er Múli sagður efst í Trönudal; „efst á Múla“, handan Dyngju.

Skessan

Þegar svæðið var skoðað (byrjað við Trönudalsrétt) mátti vel sjá tóftir skammt vestan hennar. Um var að ræða eitt rými, auk rýmis skammt sunnar. Hér gæti vel hafa verið um að ræða selstöðu fyrrum. Tóftirnar eru helst of litlar til að geta hafa verið kot, hvað þá bær. Þó gæti kot hafa vaxið þarna upp úr selstöðu – og húsakynni takmarkast af því. Ef um selstöðu hefur verið að ræða hefur hún líklega verið í notkun áður en Trönudalsréttin var byggð skammt austan hennar. Hún, eftir að hafa orðið að kotbýli, gæti einnig hafa orðið tilefni að gerð réttarinnar á þessum stað – því réttin virðist nýrri en selið (kotið). Múlakot er ekki til skv. Jarðabókinni 1703 svo það gæti hugsanlega hafa vaxið upp úr selstöðu Möðrudals, sbr. Selkot í Seljadal, Vigdísarvellir og Straumssel.
Haldið var upp eftir ánni. Trönudalur hækkar ört. Ef „árleiðin er valin þarf oft að þvera ána. Ef efri leiðin er valin og tekið mið af gömlu fjárgötunni, sem þar er, er auðvelt að ganga í ofanverðan dalinn. Þegar komið var upp fyrir gróðurhrygg blasti Botninn við. Framundan var Dyngjan; augljós. Neðst við hana eiga að vera svonefndar Selflatir. Þar eru að vísu grónar mýrarflatir, en hvergi, þrátt fyrir þver- og langsumleit á svæðinu, sést móta fyrir tóftum. Þær geta, undirlendisins vegna, verið löngu horfnar, auk þess sem skriður gætu hafa hulið selminjar þarna efst í dalnum. Þegar staðið er á Dyngunni og horft niður Trönudal er Sandfell helsta augnkonfektið. En alvaran segir standandanum þarna skýringsort að þröngt hlyti að hafa verið í búi ef sækja hefði átt grasnýtinguna alla leið þangað uppeftir, í svo snóþungt svæði langt fram á sumartíð. Efst í hömrunum að vestanverðu er Skessa, „klettadrangur undir Hnúksbrún, allferðugur kvenmaður, áður en hún varð að steini“. Þar hjá er Skessuhellir.
Óskasteinn í TrönudalsánniÍ Jarðabókinni 1703 er lýst selstöðum frá Möðruvöllum: „Selstöður á jörðin, aðra þar sem heitir Trönudalur og eru þar hagar mjög fordjarfaðir af skriðum, aðra þar sem heitir Svínadalur og eru þar sumarhagar bæði góðir og miklir.“ Líklegt má telja, af framangreindu, að mögulega hafi verið selstaða fyrrum efst í Trönudal. Hún hafi „fordjarfast“ og því eru engin ummerki eftir hana í dag. Selstaða sú, sem nefnd er í Svínadal, gæti hafa verið þar sem sá dalur og Trönudalur koma saman, þar sem síðar var búið í svonefndu Múlakoti um skamma hríð. Ummerki þar benda a.m.k. til þess að um fyrrum selstöðu hafi verið að ræða.
Á leiðinni upp með Trönudalsánni þurfti að þvera hana sjö sinnum. Í þriðju þveruninni vakti rauðleitur steinn, hvítmiðjóttur, sérstaka athygli. Þegar hann var veginn upp úr ánni virtist vera um óskastein að ræða.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst. og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Flekkudal.
-Örnefnalýsing fyrir Möðruvelli.
-Jóhannes Björnsson í Flekkudal.
-Jarðabókin 1703.

Ármót í miðjum Trönudal

Eyjarétt

Ætlunin var að staðsetja tvær fyrrum lögréttir Kjósverja með sögulegu ívafi. Um var að ræða grjóthlaðnar réttir.

Stykkisvellir

Landnámabók segir um landnám í Kjósinni: „Ingólfur nam land milli Ölvisár og Hvalfjarðar, fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár og öll nes út“. Orðin “fyrir utan Brynjudalsá” benda að vísu ekki til, að allur Brynjudalur hafi tilheyrt landnámi Ingólfs, en þó er Þorsteinn Sölmundarson, er nam Brynjudal allan, talinn nema í landnámi Ingólfs. Bústaður þeirra feðga, Þorsteins og Refs gamla, sonar hans er talinn í Múla, sem er norðan árinnar. Má því ætla að norðurtakmörk Ingólfslandnámsins hafi verið hin sömu, sem voru sýslutakmörk um aldir. (Með nýlegri lagabreytingu eru stjórnsýslumdæmi sýslumanna miðuð við sveitarfélagamörk og sveitarfélög voru samsett af landi þeirri jarða, sem í sveitarfélaginu voru. Við þetta breyttust sýslumörk á þessum stað, þar sem land Stóra Botns var áður bæði í Borgarfjarðarsýslu og Kjós, en eru nú einungis í stjórnsýsluumdæmi sýslumanns í Borgarnesi).

Heimildir um landnám – og réttir.
EyjaréttSvartkell hinn katneski nam land fyrir innan Mýdalsá (Miðdalsá), milli hennar og Eilífsdalsár, sem gengur nú undir nöfnunum Dælisá og Bugða og fellur í Laxá nokkurn spöl frá sjó. Svartkell bjó fyrst á Kiðjafelli, en síðan á Eyri.
Valþjófur Örlygsson hins gamla á Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma, og bjó að Meðalfelli. Eftir því sem skýrt er frá takmörkum nágrannalandnámsmanna má sjá að Valþjófur hefur numið landið á milli Eilífsdalsár og Laxár allt upp til fjalla.
Hvamm Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Mörkin að landnámi Þóris eru greinileg.
Þorsteinn Sölmundarson nam land frá Fossá að Botnsá, Brynjudal allan. Nokkuð af landnámi hans það sem milli er Brynjudalsár og Botnsár, liggur utan landnáms Ingólfs. Þess er ekki getið í Landnámu hvar Þorsteinn hafi búið, en í Harðar sögu segir, að Refur hinn gamli sonur hans, hafi búið á Stykkisvelli í Brynjudal, en Þorbjörg katla móðir Refs hafi búið í Hrísum. Bæði þessi bæjarnöfn eru nú löngu týnd, en Hrísar munu vera sami bær, sem nú nefnist Hrísakot.

Afréttarmál og ítök:
FossárréttÍ lýsingu Reynivallarsóknar 1840 eftir séra Sigurð Sigurðssona er fjallað um afréttarmál í sókninni. Segir þar að eftirfarandi svæði séu notuð fyrir geldfé á sumrum: Múlafjallið, dalnotnar í Botnsdal og Brynjudal, Kjölfjallið með tilheyrandi dölum og dældum. Seljadalur og landið fyrir framan Hækingsdal og í kringum Stíflisdal.
Í lýsingu Björns Bjarnarsonar (1937) á Kjósarsýslu segir að afréttarland eigi sveitin ekki, en landrýmisjarðir séu nokkrar og aflögufærar um sumarhaga, mest Ingunnarstaðir. Þá segir að sauðfjárréttir í Kjós séu tvennar, Fossárrétt fyrir norðursveitina og Eyjaréttir fyrir sveitina sunnan Laxár.

Fossárrétt

Í bókinni “Göngur og réttir” II eftir Braga Sigurjónsson er fjallað um afréttarmál í Kjós. Segir þar eftirfarandi: “Göngur og réttir í Kjósarhreppi munu hafa verið með líku móti svo öldum skiptir, svo sem þær voru á fyrstu tugum þessarar aldar (tuttugasta öldin) og hér verður lýst í stórum dráttum.”
Þá er lýst fjallahring Kjósar, sem er Esjan að Svínaskarði, þá Skálafell og Sauðafell að Kjósarskarði, þá Brattfell og Kjölur að Leggjabrjót, þá Botnssúlur að Hvalskarði og Múlafjall að Botnsá. Bragi segir að sauðfé hafi fyrrum verið haldið meir til fjalla en þegar hann ritar bók sína, þar sem lítið var um girðingar um tún og engjar. Leitardagur var eftir fjallskilareglugerð ákveðinn í 22. viku sumars og varð að nota hann, hvernig sem viðraði. Sveitarstjórn gaf út fjallskilaboð, sem gekk boðleið um sveitina. Þetta var mikið skjal því leitarsvæðin voru mörg og hver einasti bóndi sveitarinnar um 50 talsins, þurftu að gera fjallskil. Leitarstjórar voru skipaðir á hvert leitarsvæði.
Laxá skipti sveitinni í tvo hluta. Sunnan Laxár voru leitarsvæðin Eyrarfjall, Meðalfell og dalir Esjunnar ásamt umhverfi; Eilífsdalur, Flekkudalur, Eyjadalur og Svínadalur og Fremrahálsland að sýslumörkum Árnessýslu, en þau eru um hæstu toppa Sauðafells og Brattafells.
Norðan Laxár voru tvö samfelld leitarsvæði. Var annað FossárréttBrynjudalsfjalllendi frá Þverá austan Þrándarstaða að Botnsá, þ.e. norðurhluti Kjalar, Botnssúlur, Hvalfell og Múlafjall og Brynjudalur allur. Þá var stór hluti af landi Stóra Botns á þessu leitarsvæði, þ.e. allt land þeirrar jarðar sunnan Botnsár.
Hitt leitarsvæðið norðan Laxár var frá sýslumörkum við Árnessýslu í Kjósarskarði milli Sauðafells og Brattafells, Hækingsdals-, Þrándarstaða-, og Fossárlönd og allur Reynivallaháls. Nú á dögum eru göngur og réttir ekki nema svipur hjá sjón hjá því sem áður var. Hver bóndi smalar sitt umráðaland og kemur úrgangi til lögréttar, en hún er í Möðruvallalandi og heitir Kjósarrétt.
Með bréfi sýslumanns þann 18. júlí 1977 var þeim Tryggva Einarssyni bónda í Miðdal, Mosfellshreppi og Oddi Andréssyni, Neðra Hálsi, Kjósarhreppi falið af sýslunefnd Kjósarsýslu að gera afréttarskrá fyrir sýsluna með tilvísun til 6. gr. laga 42/1969. Í svarbréfi þeirra til sýslumanns kemur þetta fram: “Við nána athugun höfum við komist að þeirri niðurstöðu að afréttur hafi ekki verið til í Kjósarsýslu samkvæmt skilingi okkar á merkingu þess orðs, þar sem öll lönd innan sýslunnar“.

FossárréttFossárréttin er auðfundin við Fossá skammt fyrir ofan (ca. 250 m) þar frá sem þjóðvegurinn um Hvalfjörð liggur nú. Hún er hlaðinn og stendur vel, notuð fram undir 1960. Vel má greina dilka og almenning í réttinni. Nú er búið að planta furutrjám í réttina og umhverfis hana. Yngri hlaðin rétt er neðar, undir Fossinum rétt ofanvið þjóðveginn.
Eyjaréttin er torræðari. En með aðstoð Páls Ingólfssonar á Eyjum I var hægt að ganga að henni vísri. Páll sagðist oft hafa leikið sér í réttinni á unga aldri og hann myndi vel eftir henni. Þetta hafi verið hlaðin rétt, en þegar Jóhannes, kennur við Bónus, hefði byggt sér sumarbústað við vestanverða réttina, norðan Meðalfellsvatns, hafi mest af grjótinu verið tekið úr réttinni og sett undir bústaðinn. Í dag (árið 2008 er FERLIR fór í vettvangsferð á staðinn) má þó enn sjá leifar réttarinnar og lögun hennar í túni innan girðingar er umlykur sumarbústaðinn. Leitt er til þess að vita að þarna hafi fornt mannvirki farið forgörðum fyrir lítið án þess að nokkur hafi gert athugasemd við það á þeim tíma. Varla er þó ástæða til að forviðrast því slíkt virðist vera að gerast víða um land enn þann dag í dag. Að sögn Sigurbjörns Hjaltasonar að Kiðafelli var þjóðvegurinn lagður yfir efri hlutann á réttinni árið 1953.
Kjósarréttin fyrrnefnda er nýleg, steinsteypt rétt nálægt Möðruvöllum, en þarfnast viðhalds.
Fossárrétt

Reynivallasel

Í „Úrskurði Óbyggðanefndar“ árið 2004 má lesa eftirfarandi um „Lýsingu Kjósarhrepps„:

Reynivellir

Reynivellir í Kjós.

„Sigurður Sigurðsson, prestur á Reynivöllum lýsti mörkum Reynivallasóknar svo árið 1840: „Takmörk Reynivallasóknar eru að norðanverðu: Botnsheiði og sá partur Hvalfjarðar, sem frá Neðra-Hálshólum liggur inn í landið fyrir norðan þann hluta sóknarinnar, er liggur fyrir norðan þann hluta sóknarinnar, er liggur fyrir norðan Reynivallaháls. Að sunnanverðu er Esjufjallið. Að austan er Sýsluhólmi, milli Hækingsdals og Stíflisdals, – hólmi þessi heitir öðru nafni Þinghólmi, og við hann skiptast sýslurnar, Kjósar- og Árnesssýsla, – og Sandafelli, fjall fyrir sunnan Laxá. Að vestan Hvalfjörður og áin Bugða fyrir sunnan Laxá.“

Botnssúlur

Botnssúlur.

Engin sóknarlýsing er til fyrir Saurbæjarsókn (innan Kjalarnesþinga) í safni Hins íslenska bókmenntafélags en Kjós vestan Bugðu er í Saurbæjarsókn.
Í fasteignamatinu 1916-1918 er að finna svohljóðandi lýsingu á Kjósarsveit: „Hún liggur milli Hvalfjarðar og Esju. Sveitarlandamerkin eru: Frá innanverðum Botnsvogi þverbeint upp á Múlafjall, eftir því austur á Botnssúlur, þaðan suður á Kjöl, vestur það fjall ofan í Kjósarskarð (Þrengsli) [Strikað yfir: um, og ofan línu skrifað með blýanti: fyrir ofan] Þórufoss, þaðan eftir suðurtakmörkum Fremra-Hálslands og Írafells vestur á Skálafell, norður yfir Svínaskarð um Smaladys og upp á Móskarðahnjúka, síðan vestur Esju til Lokufjalls að austurtakmörkum Tindsstaðalands (í Kjal.) þar (um Kerlingargil) ofan í Kiðafellsá (=Mýrdalsá), sem síðan er sveitamörk til sjávar.

Brynjudalur

Brynjudalur – Ingunnarstaðir.

Nyrzti hluti sveitarinnar er Brynjudalur, þá suðurströnd Hvalfjarðar út að Hálsnesi, norðan við Reynivallaháls. Sunnan Hálsness gengur Laxárvogur inn. Á honum er Maríuhöfn, löggilt. Austur og suður frá þeim vegi er dalur mikill, hin eiginlega Kjós, og er þar aðalbygðin, og í smádölum suður í Esjuna út úr aðaldalnum. Um miðju er Kjósardalurinn tvískiftur, því Meðalfell er þar eins og eyja í dalnum. Eyrarfell (=Kiðafell) er einnig sérstætt út móts við Laxárvog og bygð umhverfis það. Mun dalur sá, er skilur það frá Esju, rétt nefndur Mýrdalur; á það [strikað yfir: nafn] bendir bæjarnafnið Mýdalur [Eftirfarandi setningu á neðri spássíu er vísað hér inn: Nefndur Mýrdalur í fornu bréfi (Fbrs.); þá var þar kirkja.] (r-ið fallið burt?).
Sveitin á ekki upprekstarland; en margar jarðirnar eiga land til fjalls, og eru sjálfum sér nógar um sumarland, en frá hinum landþrengri er rekið í hin rúmu lönd Brynjudalsjarðanna, einkum sameiginlegt land Ingunnarstaða og Hrísakots. Reynivallakirkja á og land gott í Seljadal og vestanverðum Kili; en á síðari árum er Seljadalur bygður (1 bær).“

Litla-Sauðafell

Litla- (Syðra-) Sauðafell; sýslusteinn.

Björn Bjarnarson lýsir mörkum Kjósarsýslu þannig árið 1937: „Takmörk Kjósarsýslu landmegin eru: Frá Botnsvogi innanverðum suður og upp á (Hrísháls-) Múlann, er nú er nefndur Múlafjall, en er endi Hrísháls; þá eftir Hríshálsi sunnanverðum (þar hallar öllum vötnum norður), upp eftir Súlnahrygg og upp á Súlnatind, þá suðvestur til Sandvatns, er Brynjudalsá fellur úr (litlum spöl sunnar er Myrkavatn, er Öxará fellur úr), þá suðvestur um Kjalfjall (Kjölinn) og vestur af því ofan í efra hluta Kjósardalsins um Þórufoss í Laxá, skammt fyrir neðan Stíflisvatn, sem Laxá fellur úr, þá yfir Seldal, vestur í Rjúpnagilsbotna, þá gilið, unz gljúfur þess þrýtur hið neðra, þá yfir Syðra-Sauðafell, um Sýslustein, sem er uppi á fellinu, þá stefna til Þrívarða (nú sæluhússtóftar, er byggð var úr varðagrjótinu á miðri næstliðinni öld), …“

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðanendar, mál nr. 3-4/2004. 31. maí 2006. bls. 25-26.

Þórufoss

Þórufoss.

Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um „Landnám í Kjós„:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

„Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.“

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.

Dyljáarsel

Kjósin er á bak við Esjuna, en hvað vita þeir svo meira um þessa sveit, svona rétt við bæjarvegginn.
Kjos-22Jú, margir vita að heldur leiðinlegur kafli af Vesturlandsvegi, sunnan Hvalfjarðar, liggur um Kjósina, að þar fellur falleg, hvítfyssandi á til sjávar og heitir Laxá, að innan við hana stendur óvenju mynd arlegt býli, í brekku undir brattri hlíð og gengur almennt undir nafninu Háls (að réttu Neðri-Háls). Veiðimenn vita að Laxá ber nafn með rentu og að í sveitinni er einnig Bugða og Meðalfellsvatn. Hestamenm eiga margar uppáhalds reiðgötur í þessari sveit og göngumenn vita þar um fagrar leiðir til allra átta.
Líklegastur er þó sá hópurinn fjölmennastur, sem veit ekkert meira um Kjósina en það, sem sést út um bilrúðurnar af þjóðveginum.
Við höfum ekki áttað okkur fyllilega á því ennþá, hve sá hópur er orðinn stór, sem horfir á landið út um Kjos-23rúðurnar á sínum eigin bíl, lætur hestafjöldann oft og einatt tæla sig langt yfir skammt og missir þannig af margri nærliggjandi matarholu. Fram að þessu hefur kunnugleiki minn af Kjósinni verið heldur takmarkaður og mér var farið að leiðast það. Því var það að ég fór í ökuferð um hana nú um daginn, með sæmilega kunnugum manni og nú ætla ég að reyna að segja frá því, sem fyrir augun bar, í stórum dráttum. Áttatákn hefi ég reynt að hafa í sem mestu samræmi við áttavitann en tel líklegt að heimamenn hafi ýmislegt við þær að athuga því að þeirra áttir (sama í hvaða sveit það er), vilja stundum stangast á við hann.
Norðan við Kiðafellsá tekur Kjósin við af Kjalarnesi en brúin á þeirri á er heldur viðsjálverður forngripur. Rétt neðan við hana beygir áin norður um fallega gróið dalverpi og er brattur sandhryggur sjávarmeginn (Ósmelur).

Kjos-24

Bærinn Kiðafell (landnámsjörð Svartkeis hins Katneska, sem síðar fluttist að Eyri), stendur á hjalla undir Eyrarfjalli (Kiðafelli), sem er klofið frá Esjunni af sveigmynduðum dal, eða skarði, er nefnist Miðdalur (Mýdalur eldra). Rétt norðan við brúna liggur hliðarvegur til hægri, inn þennan dal og hann ókum við. Dalsmynnið er raunar aðeins þröngt skarð en svo breikkar dalurinn töluvert og er fallega gróinn á kafla. Þar er bærinn Morastaðir til vinstri en Tindstaðir handan árinnar, undir Esjunni. Það eru fyrst og fremst norðurhlíðar Esjunnar, sem setja svip á þennan dal, brattar og víða hömrum girtar með hjarnfannir í brúnum. Hér urðu tölu verð landspjöll af völdum skriðu falls fyrir 2—3 árum. Rétt innan við Tindstaði er fjallshlíðin klofin af hrika gljúfri, sem á kortinu ber nafnið Kerlingargil. Fyrir innan þessa tröllageil er Tindstaðahnúkur og inn af honum mikilúðleg hamraskál, er nefnist Hrútadalur. Bærinn Miðdalur er næst á vinstri hönd, innaf honum verður dalurinn hrjóstugri og þrengist, unz hann mætir Eilífsdal. Þar, á dala mótunum, er töluvert undirlendi og bærinn Eilífsdalur. Þar eru tveir strýtumyndaðir ruðningshólar og nefnist sá vestari Orrustuhóll. Þar segir Kjalnesinga saga að kappinn Búi Andríðsson, sá er Esja fóstraði, hafi átt í mannskæðum bardaga við ofurefli liðs, en fór þó með sigur af hólmi. Hann fór svo til Noregs, hvar hann fékk mun hlýlegri móttökur hjá heimasæt unni í Dofrafjöllum.

Kjos-26

Eilífsdalur gengur suður í Esjuna og er mjög tilkomumikill, girtur snarbröttum hamrahlíðum á þrjá vegu, sem gnæfa 5—600 m. yfir dalbotninn. Vestan dalsins er Þórnýjartindur, austan hans Skálatindur en Eilífstindur fyrir botni. Þar segir sagan að sé legstaður Eilífs, þess er gaf dalnum nafn. Frá Eilífsdal sveigir vegurinn norður sveitina, með bæina Bæ og Þúfu á vinstri hönd en Litlabæ og Blönduholt til vinstri, unz við komum á Vesturlandsveg hjá bænum Felli. Hann ókum við stuttan spöl til austurs að Kjósarskarðsvegi og hann til suðurs. Bráðlega varð áin Bugða á leið okkar og svo komum við að Meðalfellsvatni. Þar stendur bærinn Meðalfell við vatnið, sunnan undir vesturenda fellsins.
Þetta er landnámsjörð Valþjófs Örlygssonar og oft höfðingjasetur. Hún mun nú Medalfell-21hafa verið í ábúð sömu ættar hátt á aðra öld. Vegurinn liggur í brekkurótum austur með vatninu og er umhverfið vinalegt, enda eru þar margir sumarbústaðir (sumir til lítillar prýði, eins og víðar). Sunnan við vatnið eru 2 bæir, Efri-Flekkudalur og Grjóteyri, og þar liggur Flekkudalur til suðurs, frekar grunnur en með hamraþil fyrir botni.
Bærinn Eyjar er við Austurenda vatnsins og enn einn dalur til suðurs. Heitir hann Eyjadalur og er bærinn Sandur í mynni hans. Austan við þann dal er Möðruvallaháls og þar liggur vegurinn austur um breitt skarð, milli norðurenda hans og austurenda Meðalfells, en Sandfell er framundan, nakið og strýtumyndað. Svo sveigir vegurinn suður með Möðruvallahálsi og nokkuð sunnan við bæinn Möðruvelli opnast Svínadalur til suðurs en suður úr botni hans er Svínaskarð til Þverárdals.

Irafell-21

Vestan við skarðið lýsir á Móaskarðshnúka en austan þess er Skálafell, þar sem fjarskiptamöstur Landssímans báru við himin. Hér sveigir vegurinn austur yfir Svínadalsá (Möðruvallarétt til vinstri) og mætir austurálmu Kjósarvegs rétt sunnan við syðri brúna á Laxá. Áin fellur þarna í snotru gljúfri, (þar er Pokafoss) og norðan hennar er all víðlent skógakjarr í brekkunum suður af Sandfelli. Þar uppi í hlíðinni er Vindáshlíð, sumarbúððir KFUK. Hér fannst okkur álitlegur áningastaður, fundum fallega laut í kjarrinu neðan við veginn og herjuðum á nestið. Hér um lá hin forna þjóðleið frá Reykjavík til Hvalfjarðar. Hún lá inn Mosfellsdal og yfir lægðina innan við Mosfell. Svo inn Þverárdal, yfir Svínaskarð og norður Svínadal. Héðan lá hún svo upp brekkurnar austan við Sandfell, norður yfir hálsinn og niður Seljadal og Fossárdal til Hvalfjarðar.

Kjos-27

Mér telst til að þessi leið muni vera um 15 km. styttri en núverandi þjóðvegur, aftur á móti eru á henni tveir fjallvegir og annar nokkuð hár (Svínaskarð)! Þó hefi ég það fyrir satt að eitt sinn hafi verið uppi ráðagerðir hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli um að tengja hann við Hvalfjörð með hraðbraut og fara með hana þessa leið.
Eftir hvíldina ákváðum við að kanna dalinn til suðurs. Varð þá fyrst fyrir okkur bærinn Hækingsdalur í fallegu grónu dalverpi á vinstri hönd en til hægri bærinn írafell, sem stendur allhátt norðan undir samnefndu felli. Við þann bæ er kenndur einn magnaðasti draugur í þjóðsögum okkar, Írafells-Móri.
Þetta var uppvakningur, sem átti að fylgja sömu ættinni í 9 liði og Kjos-28svo magnaður fyrst í stað að það varð að skammta honum mat og jafnvel rúm til að sofa í. Margar furðulegar sögur eru til um klæki hans og skráveifur en líklegast er hann farinn að letjast nú orðið, enda búinn að vera á róli frá því um aldamótin 1800. Inn af þessum bæjum þrengja fjöll in að á báðar hendur og svo endar vegurinn rétt norðan við innsta bæinn, Fremri-Háls. Ógreiðfær jeppavegur mun liggja þaðan áfram suður að bænum Fellsenda og þaðan svo akfært á Þingvallaveg á Mosfellsheiði. Þessa leið létum við eiga sig en fórum til baka að Laxárbrú og svo áfram norður. Kjósin er á þessu svæði óneitanlega heldur hrjóstrug og þröngt milli fjalla norður að bænum Vindási. En þar opnast fallegur, sveigmyndaður dalur, sem Reynivallaháls skýlir fyrir norðanáttinni. Dalbotninn er samfellt fróðurlendi, þar sem Laxá liðast fram í ótal bugðum.
Kjos-30Austan undir Miðfelli (máske ætti ég að segja norðan) eru bæirnir Þorláksstaðir og Hurðarbak en kirkjustaðurinn Reynivellir fyrsti bær undir hálsinum. Þar hafa setið margir merkir kennimenn, t.d. á þessari öld séra Halldór Jónsson, sem þjónaði þar í háltfa öld og var landskunnur á sinni tíð fyrir rit störf og tónsmíðar. Nokkru utar eru bæirnir Sogn og Valdastaðir, undir hálsinum, en Káranesbæir niðri á sléttlendinu, handan við ána. Dalbotninn er um 30 m. yfir sjó, marflatur og heldur blautlendur því að framan við hann er lágur klapparás. Þar hefur Laxá sorfið sér farveg og steypist svo í fossaföllum niður hjallann, út í Laxárvog. Myndarlegur heimavistar skóli stendur þarna í hjallanum við ána.

Kjos-31

Við komum á þjóðveginn rétt norðan við brúna á Laxá og tókum stefnuna til Reykjavikur. Í dálitlum hvammi ofan vegar er félagsheimilið Félagsgarður en bærinn Laxanes niður við sjóinn. Nú höfðum við fyrir augum okkar þann hluta Kjósarinnar sem flestum er kunnur en vissum einnig af eigin raun hversu ófullkomna mynd hann gefur af sveitinni í heild. Norðan undir Eyrarfjalli eru bæirnir Eyri og Eyrarkot, sitt hvoru megin vegar og þar niður undan skagar Hvaleyri út í fjörðinn, marflöt og gróðurlítil. Mikið hefur verið rætt um bílferju þar yfir fjörðinn en litla trú hefi ég á því fyrirtæki. Það væri nær að fullgera veginn kring um fjörðinn, taka af honum beygjur og brekkur og stytta hann um leið með uppfyllingum þvert yfir grynningarnar við vogabotnana (Laxárvog, Brynjudalsvog, Botnsvog). Bærinn Útskálahamar stendur undir Eyrarf jalli nokkru utan og svo kom Kiðafell. Þar lauk ferð okkar um Kjósina, sem hafði staðið í 3 stundir og verið í senn ánægjuleg og fróðleg.
Á heimleiðinni datt okkur í hug að athuga veginn inn með Esjunni að sunnan. Hjá verzluninni Esju á Álfsnesmelum tókum við vegarslóð til vinstri austur melana og komum bráðlega að Leirvogsá, þar sem hún rennur í mjög sérkennilegu gljúfri. Vegurinn var torfærulaus inn að Grafará en þar beið okkar meiriháttar þröskuldur. Í miklum vatnavöxtum hefur áin grafið utan úr vesturbakkanum og þar endaði vegurinn í þverhnýptum, mannhæðarháum stalli. Við vorum á tveggja drifa bil og gátum því krækt fyrir þetta og slarkað austur yfir ána en ég tel útilokað að nokkur fólksbíll komist óskemmdur yfir þá vegleysu. Ef mikið er í ánni yrði það einnig ófært jeppum. Frá Grafará var mjög stirður vegur inn að Hrafnhólum en þaðan greiðfært austur yfir hálsinn á Þingvallaveg hjá Seljabrekku. Þeir, sem ætla inn að Tröllafossi verða því að aka þá leið.“

Heimild:
-Morgunblaðið, Gils Guðmundsson, Ferðaspjall, 2. ágúst 1967, bls. 15.

Kjos-21

Flekkudalur

Stefnan var tekin á ný á Flekkudal í Kjós. Ætlunin var að skoða ofanverðan dalinn, en FERLIR hafði áður gengið um hann neðanverðan (sjá síðar).
Guðný Ívarsdóttir tók vel á móti Réttinviðstöddum. Hún virtist þekkja þarna hverja þúfu og örnefnin las hún eins og staf á bók. Þegar henni var kynnt tilefni ferðarinnar, þ.e. leit að hugsanlegum minjum í ofanverðum Flekkudal, sagði hún strax að slíkar minjar væru ekki þar að finna. Hún þekkti dalinn það vel.
Að fenginni reynslu fara ekki alltaf saman fyrirliggjandi vitneskja og innliggjandi mannvistarleifar á tilteknum svæðum. Haft var í huga að í Jarðabókinni 1703 segir að Flekkudalur hafi haft „selstöðu í heimalandi“. Heimalandið er ekki mjög stórt, en þess nærtækara. Ólíklegt mátti telja að jörðin hafi ekki nýtt Flekkudalinn fyrrum m.v. hversu undirlendur og grasgjöfulur hann er. Ætlunin var m.a. að grennslast fyrir um hvort í dalnum ofanverðum kynnu að leynast gleymdar mannvistarleifar.

TóftÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Flekkudal segir m.a.: „Jörð í Kjósarhreppi næst austan Eilífsdals, en Meðalfell á land þar á milli. Upplýsingar gaf Guðni Ólafsson bóndi þar og Ólafur Einarsson, nú að Króki í Flóa.
Jörð þessi er í samnefndum dal á láglendinu, en var áður tvær jarðir, sem hétu Efri- og Neðri-Flekkudalur. Nú er sá neðri horfinn, en í stað hans er býlið Grjóteyri.

Norðan við land jarðarinnar er Meðalfellsvatn. Suður frá því liggur dalurinn suður í fjallið og heitir hann Flekkudalur. Eftir honum rennur Flekkudalsá. Vestan við dalinn gengur allmikill háls lækkandi til norðurs. Nyrzt á honum er hnúkur, sem heitir Miðmundahnúkur, öðru nafni Arnbjargarhnúkur, og er þarna í skógivaxinni hlíðinni.

KvíTveir lækir koma þarna niður, sem heita Vesturlækur og Austurlækur eftir legu sinni og afstöðu. Milli lækjanna eru smágil, sem heita Gilklofar, og þar upp af er háfjallið nefnt Nónbunga. Austan við túnið, austan við Vesturlæk, er gata niður, sem heitir Nautastígur.“ Ábúandinn í Flekkudal benti FERLIR á nefndan Nautastíg. Sagði hann (sem reyndar er hún) að hrossin færu stundum upp eftir stígnum, en þó aðallega geiturnar, sem hún hefði í vistun. Í þessum orðum sögðum birtust geiturnar ofan við brúnina. Uppi væri flói, sagði hún, sem hefði verið sleginn í gamla daga. Þá hefði fólkið farið upp eftir Nautastígnum og í flóann, heyjað, bundið í bagga og reitt þá fram á brúnina. Þaðan hefðu baggarnir verið látnir rúlla niður hlíðina, áleiðis niður að bænum. Stundum gáfu böndin sig í veltunni og þótti það slæmt. Ætlunin er að skoða GrafarfossNautastíginn  og flóann fljótlega.
„Austan og ofan við Austurlæk heitir Sauðatunga. Með henni að innan er annar lækur, sem heitir Sauðatungulækur. Innar er lægð, sem heitir Krókur. Neðan við Krók og norðan er Króksmelur, og austan hans er Krókmýri. Innar heitir Selhæðir, niðri í dalnum. Það er graslendi. Upp af þeirri hæð er gil, sem heitir Grýlugil.
Austur af Sauðatungulæk, næst túni, er svonefndur Háhóll, grasivaxinn hóll. Austur af honum gengur smárani fram, sem heitir Snasi, fram að ánni. Bæjarmegin við hann er rétt. Næst túni, norðvestan við Háhól með ánni, er Stöðull. En í gljúfrunum norður af Háhól með ánni er Stöðulhvammur. Þar fram er hár klettur, sem heitir Hrafnaklettur. Með gljúfrinu þar fyrir framan er hvammur, sem heitir Kúahvammur, en nær ekki alveg upp að Hrafnakletti. Þar fyrir framan er annar, sem heitir Skvompa. Þar fyrir framan er foss, sem heitir Grafarfoss og er beint niður undan Selhæðum, sem fyrr er getið.“
HáifossÁbúandinn þekkti öll framangreind örnefni og gat bent á þau af bæjarhlaðinu. Háhóll er t.d. beint upp af bænum suðaustanvert. Undir honum er nefndur Snasi. Þar kúrir lítil réttin, ferhyrnd, hlaðin og heilleg. Handan árinnar er Stöðullinn og sést enn móta fyrir honum (grónar ferhyrndar hleðslur). Selhæðir eru lengra upp með ánni að vestanverðu (sjá meira HÉR).
„Innan við Selhæðir neðst í dalnum er nafnlaust svæði inn að Djúpagilsskriðu. Þar upp af er gil, (sem heitir Djúpagil og er næsta gil innan við Grýlugil. Djúpagil er djúpt á kafla, en klettalaust. Þó nokkuð framar er gil, sem heitir Hnúksgil. Milli Djúpagils og Hnúksgils nokkuð uppi í brekkunum heita Flár. Uppi í brún er klettalítið, og framan við Hnúksgil er svonefndur Paradísartindur). Tindur þessi ber þetta fallega nafn að norðan, en frá vestri og suðri heitir hann Skálatindur. Í honum blasir við Skál frá Meðalfellsdal. Í Hnúksgili er alltaf snjór. Í Paradísarhnúk er annað gil, sem heitir Fossgil. Framan við Hnúkinn, upp undir klettum, er smáklettur með miklum urðum. Heitir hann Grjótdalur og úr honum er mikið gil, sem heitir Grjótdalsgil.“
StöðullBæði dalurinn og gilið eru augljós þegar komið er innst í Flekkudal. Að þessu sinni voru enn (í lok júní) stórir snjóskaflar í gilinu. Fossadýrðin er einstök efst í dalnum. Staðurinn er og dýrðarinnar tækifæri fyrir ljósmyndara.
„Í botni Flekkudals er allmikið svæði, stallar og lækir neðst. Þar er Suðurdalsfoss. „Flekka“ vildi meina að þar væri nefndur Háifoss, enda rökrétt. “ Þar upp af er spilda með fossum, Lægrifossar, og svo Hærrifossar. Stallur er milli þeirra, sem aðskilur þá. Út með Flekkudalsá að austanverðu er fyrst mikil grasbrekka sem heitir Kinn. Fjallið þar upp af heitir Miðfjall. Inn í Miðfjall gengur smádalur, fyrst til austurs, beygir svo til suðurs, og heitir hann Þverárdalur. Eftir honum rennur Þverá í Flekkudalsá, nálægt efstu grösum.
Bungan milli Þverárdals og Flekkudals heitir Hryggur. Vestan í honum, utan við Kinn, sem fyrr getur, heitir Fláar. FlekkudalsáÞverárdalur er ofan við Kinnina, og eftir honum er svo Þverá. Beggja vegna árinnar heita Þverárklettar.
Miðfjallið heldur svo áfram, þar til kemur að dal þeim, sem heitir Torfdalur. Eftir dalnum rennur á, sem heitir Torfdalsá og fellur í Flekkudalsá nokkuð suður frá bæ. Fellið hér er nefnt Miðfell. Niður af því er Miðtunga, en Miðtunguhjallinn er neðstur, um það bil þar sem þær koma saman. Í miðjum Torfdal suðvestan árinnar er Böltur. Það eru grasbörð niður að á. Hár melur er þar fyrir ofan. Fremst í Torfdal er kallað Torfdalsbotn, og innst heitir dalurinn Þrengsli. Fremst eru gilin tvö. Austan við Torfdalsá er fjallið nefnt Sandsfjall.
Neðst í Torfdal móti Miðtunguhjalla er Hjalli. Þar á móti er klettur við ána, sem heitir Kálfabani, og þar er Kálfabanafoss. Fremst á Sandfjalli heitir Sandhnúkur. Efst á Sandfjalli eru FlekkudalsáEsjuflóar og Esjuhorn.
Svæðið niður við ósinn heitir Flekkudalsnes. Í nesinu er Ólafstóft. Hún er nú horfin, því gert var tún úr valllendinu efst í nesinu. Í túninu, þar sem húsin eru nú, hét Hjálmur, en gamli bærinn var, þar sem nú eru fjárhúsin. Hóll er þar austur við gilbarm, sem heitir Kerlingarhóll. Annar hóll er niður af Hjálmi, sem heitir Harðhaus. Mýrarblettur þar neðar heitir Kringla, slakki sem erfitt er að rækta. Blettur suðaustur af gamla túni heitir Dísutún.“
Í bakaleiðinni var farið yfir Flekkudalsána og inn í Torfdal og yfir Torfdalsá. Hvergi á leiðinni, utan mannvistarleifa undir Selbrekkum, var að sjá að mannshöndin hefði komið þar að verki. Þess stórbrotnari var hönd náttúrunnar á listaverkinu öllu. Það sem virtist áhugaverðast, auk umhverfisáhrifanna, var meint seltóft undir Selbrekkum, framan við Grafarfoss. Guðný sagðist hafa heyrt að þar hefði amma hennar dvalist í selstöðu og haldið ánum til haga. Ummerki benda til þess að svo hafi verið, bæði kvíin og tóftirnar.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Flekkudal.
-Guðný G Ívarsdóttir, bóndi í Flekkudal.

Háifoss