Flekkudalur

Stefnan var tekin á, annars vegar Flekkudal í Kjós, og hins vegar Trönudal í sömu sveit. Möðruvellir munu hafa átt selstöðu í Trönudal, millum Svínadals og Eyjadals í Kjós, sem og í Svínadal skv. Jarðabókinni 1703. Trönudalurinn er fremur stuttur m.v. bræður hans, en ætlunin var að leita að hugsanlegum mannvistarleifum uppi í dalnum.

Trönudalur - loftmynd

Áður hafði FERLIR komið að tóftum neðanvert í dalnum. Efst í dalnum á hins vegar að vera svonefnd Dyngja (malarrani) og við hana Selflatir. Nafnið gefur vísbendingu um selstöðu. Trönudalsrétt er, skv. örnefnalýsingu, framan við dalsmynni Trönudals sem og tóftir Múlakots. Einnig var ætlunin að skoða Flekkudal, milli Eyjadals og Eilífsdals. Þar, fremst í dalnum, eru, skv. örnefnalýsingu, Selhólar, en örnefnið gefur einnig ákv. vísbendingu um selstöðu í dalnum. Báðar vísbendingarnar voru áhugaverðar, einkum vegna þess að slíkum er farið að fækka verulega eftir undangegna leit að slíkum í landnámi Ingólfs. Áður en þessi ferð var farin hafði verið skráð 151 selstaða á svæðinu.
ÞSeltóftir í Flekkudalegar FERLIR kom að Efri-Flekkudal og hafði knúið dyra birtist húsfrú – og síðan bóndi. Hann, Jóhannes Björnsson, barnabarn Guðna Ólafssonar er skráði örnefni í dalnum fyrrum, var borinn og barnfæddur á staðnum. Fyrstu viðbrögðin voru varfærinn. Hann kærði sig ekki um að einhver starfsmaður einhverrar stofnunar væri að vaða um dalinn. Þegar hann áttaði sig á að hér var aðeins um að ræða áhugafólk um fornar minjar og starfshætti fyrri tíma breyttist viðmótið. Hann brá sér í gönguskó og bauðst til að sýna því nálægar minjar, sem nóg væri af. Engar þeirra voru skráðar í örnefnalýsinguna.
Fyrst benti Jóhannes á gamla bæjarstæðið í Flekkudal, sem hann efaðist reyndar um að hafi fengið nafnið af Flekku gömlu, þeirri er Flekkuvík væri nefnd eftir og hefði síðar átt að flytjast í Flekkudal. Efasemdir hans virtust reyndar réttar miðað við þjóðsöguna því í henni er gamla konan sögð hafa verið heygð ofan við Flekkuvík. Þar má enn í dag sjá rúnastein ofan á gröf kerlingar.Tutlutættur sjást enn vestan við veginn að Flekkudalsbænum, en þar mun fyrsti Flekkudalsbærinn hafa verið byggður, og jarðirnar þá verið eitt býli. “Mun það nafn vera frá ofanverðri 19. öld, hét fyrr Neðri-Flekkudalur og Flekkudalur, Efri-Flekkudalur. Um 1840 var Neðri-Flekkudalur fluttur austur fyrir Flekkudalsá og fékk sá bær nafnið Grjóteyri, en kotbýli verið um skeið í Neðri-Flekkudal sem fékk þetta heiti. Flekkudalsbæinn brann 1948 en var endurbyggður á hól sem heitir Hjálmur.”
Rétt neðst í FlekkudalJóhannes sagðist um langa tíð hafa smalað Flekkudal og Torfdal, sem gengur suðaustanvert úr hinum fyrrnefnda. Dalsbotn og ofanverðar hlíðar Flekkudals snúa mót norðri. Efst í þeim hafa jafnan verið verið snjóhvítir flekkir (snjóskaflar í giljum) allt sumarið. Taldi hann nafngiftina hafa verið fremur dregna af því staðbundna náttúrufyrirbæri en einhverri þjóðsögu um einhverja kerlingu. Það má vel til sanns vegar færa – standandi þarna í miðjum dalnum með alla flekkina í suðri fyrir augnlitinu.
Jóhannes sagði að í Flekkudal hefðu verið tveir bæir, Efri- og Neðri Flekkudalur. Grjóteyri væri að austanverðu. Mörkin lægju um Flekkudalsána. Vestan og ofan við bæinn, Efri-Flekkudal, væri Paradísartindur (frá Eilífsdal nefnist hann Skálatindur). Undir Paradísartindi væru minjar um tvær selstöður.
Farið var á vettvang. Þar undir hlíðinni voru grónar mannvistarleifar á tveimur stöðum; sú austari var eitt hús með gerði að sunnanverðu, en sú vestari eitt rými með stekkslíki að vestanverðu. Kálfabanafoss í FlekkudalMiðað víð lýsingu Jarðabókarinnar 1703 af búskapnum í Flekkudal að dæma gætu hér vel verið um að ræða selstöður frá bæjunum. Stekkjargatan hefur að vísu verið stutt, en stekkirnir við tóftirnar gefa tilefni til að ætla að þarna hafi verið selstöður um tíma. Vel sér fyrir rýmum og grjóthleðslum í þeim, en veggir standa grónir.
Jarðabókin 1703 segir reynar ekkert um selstöður frá “Fleckudal”. Hins vegar segir að þar séu “tveir sundurdeildir bæir. Kvaðir eru á jörðunum og fátt um fénað. Silúngsveiði í lítilli á, sem nærri bænum liggur.” Jóhannes sagðist af því tilefni oft hafa veitt silung í læknum (Borgargili undir Skyggni (Stöðli)) er rennur í Flekkudalsána ofan við bæinn.
Þá var haldið upp eftir vestanverðri Flekkudalsánni frá Tutlutættum, áleiðis upp að Selhæðum. Vel sást móta fyrir stekk undir Borgargili (Grjóteyrarmegin), ofan við austanverða ána. Fljótlega var komið að hlaðinni rétt austur af Sauðatungulæk. Réttin er ferningslaga og hlaðin úr tilfallandi grjóti ofan við ána. Innar og ofar er grasgeiri, sem nær upp undir kletta, og heitir hann Stöðull.

Trönudalsrétt - Sandfell fjær

Haldið var áfram upp með ánni. Á tveimur stöðum þurfti að fara einstigi ofan þrengsla, hið fyrra móts við Kálfabanafoss, og þá var komið undir fyrrnefndar Selhæðir. Þar mátti sjá mannvistarleifar á tveimur stöðum; annars vegar leifar af hlöðnum stekk og hins vegar af óljósu mannvirki (of litlu til að geta talist sel). Þegar gengið var upp á hæðina ofanverða mátti einungis berja augum þýfi sem og mýrardrög. Í vestri blasti Grýlugil við með tilheyrandi fossmyndunum. Þaðan var hins vegar hin ágætasta útsýn, bæði inn og út dalinn. Innst blasi við Háifoss og yst Meðalfellsvatn. Staðurinn er tiltölulega stutt frá bænum. Líklega hefur verið haft þarna í seli um tíma, en án húsakosts því gert hefur verið út að heiman.
Þegar gengið var niður eftir Skyggni, sem Jóhannes sagði svo vera (Stöðli) birtist frábært útsýni yfir Meðalfellsvatn og Meðalfell.
Í örnefnalýsingu fyrir Flekkudal segir m.a.: “Austan og ofan við Austurlæk heitir Sauðatunga. Með henni að innan er annar lækur, sem heitir Sauðatungulækur. Innar er lægð, sem heitir Krókur. Neðan við Krók og norðan er Króksmelur, og austan hans er Krókmýri. Innar heitir Selhæðir, niðri í dalnum. Það er graslendi. Upp af þeirri hæð er gil, sem heitir Grýlugil. Brekkan frá Selhæðum og Grýlugili út að NTóftir Trönudalsréttar og Múlakots (Möðruvallasels)ónbungu heitir Kláusarbrekkur. Þær ná upp að brún, sem hér er klettalítil…. Austur af Sauðatungulæk, næst túni, er svonefndur Háhóll, grasivaxinn hóll. Austur af honum gengur smárani fram, sem heitir Snasi, fram að ánni. Bæjarmegin við hann er rétt.”
Austan Flekkudalsáar mátti sjá mannvistarleifar frá Grjótá. Heimsókn í þær mun bíða betri tíma. Bærinn er ekki nefndur í Jarðabókinni 1703, enda mun hann upphaflega hafa verið kotbýli frá Flekkudal.
Þá var haldið í Trönudal. Sigurður Guðmundsson, bóndi að Möðruvöllum I, Kjós, hafði áður aðspurður sagst vita af tóftum neðst í Trönudal, alveg undir Múlanum. Tóftirnar væru svo til við Trönudalsána. Hann hafði haldið að þetta hefði verið nafnlaust kot eða jafnvel beitarhús frá Möðruvöllum, en eftir á að hyggja væri ekki óraunhæft að ætla að þarna hefði einhvern tímann verið selstaða. Ummerkin gætu bent til þess.

Foss, einn af mörgum, í Trönudal

Með landskiptagerð 8. nóv. 1952 var heimalandi Möðruvalla skipt milli Möðruvalla I og II alls um 170 ha. Hið úrskipta land er næst Laxá og nær upp að Möðruvallahálsi en meginhluti lands jarðanna verður áfram óskiptur, þ.e. Svínadalurinn vestan megin, allur Trönudalur og Múlinn milli dalanna, Jafnframt taldist til hins óskipta lands fjallið Trana upp að vatnaskilum (þar sem vötnum hallar) og Möðruvallahálsinn að austanverðu alveg niður undir láglendi. Framangreint ætti þó ekki að rugla ummerkjum eftir mannvistarleifar á landssvæðinu.
Í örnefnalýsingu fyrir Möðruvelli segir m.a.: “Gildruholtslækur er hér innar. Hann rennur í Svínadalsá. Upp með honum að austan eru Brúnkublettir milli Gildruholts og Trönudalsár. Þar uppi er Gildruholtið. Mýri er þar austar nafnlaus, nema ofan til er valllendis- svæði nefnt Tunga, sem er ekki í neitt að neðan. Þar austur af er Trönudalsrétt. Þar upp af er nafnlaus hóll. Slóði er upp af Trönudalsrétt, gamall fjárslóði. Þar upp af er Sandhryggur, klappir og skriður. Þar vestur af er nafnlaust gil, og austur af er Trönudalsgil. Í því er foss, sem nefndur er Rjúkan. Næst eru Breiðubotnar, og efsta gilið heitir Pokagil. Það dregur nafn af lögun sinni í botninum. Ofan við Sandhrygg er nafnlaust. Breiðubotnar er aðallega botninn, ekki gilin sjálf. Framan við Pokagil eru Rauðshjallar, og framan þeirra er nafnlaust gil. Hryggur þar innar heitir Dyngja. Í henni er gróður, en ekki sjást þar selrústir. Gilið innar heitir Dyngjugil. Þar neðst við Dyngju við ána eru Selflatir, og handan þeirra austar eru Marteinsvellir. Framan við Dyngju er Trönudalsbotn. Marteinsvellirnir eru á móti Dyngju.” Í viðbót við örnefnalýsinguna segir m.a.: “Ekki er vitað um sel i sambandi við Selflatir vetan við Trönudalsá.”
Athyglisvert er að tóftir, sem síðar var gengið að skammt vestan Trönudalsréttar, er hvergi getið. En fyrst að upphafsreit göngunnar. Haldið var upp (suður) eftir Trönualsá. Haldið var yfir vað á ánni austan Trönudalsréttar. Réttin stendur í halllendi neðan við neðanverðan Trönudal. Má deila um hvort þar geti verið fyrrnefndur dalur eða Svínadalsmynnið norðvestanvert. Veggir eru grónir, en standa. Um er ræða nánast ferningslaga rétt. Vestan undir henni eru tóftir af húsi, sennilega afdrepi fyrir leitarmenn. Erfitt er að áætla aldur tóftanna.
Skammt vestan réttarinnar eru tóftir. Í örnefnalýsingunni segir að “í nesinu milli Trönudalsár og Svínadalsár eru þrír fossar í ánni. Nesið nær frá Múlakoti og upp að Múla. Þessir þrír fossar, sumir fallegir, eru nafnlausir.”  Í lýsingunni er Múli sagður efst í Trönudal; “efst á Múla”, handan Dyngju.

Skessan

Þegar svæðið var skoðað (byrjað við Trönudalsrétt) mátti vel sjá tóftir skammt vestan hennar. Um var að ræða eitt rými, auk rýmis skammt sunnar. Hér gæti vel hafa verið um að ræða selstöðu fyrrum. Tóftirnar eru helst of litlar til að geta hafa verið kot, hvað þá bær. Þó gæti kot hafa vaxið þarna upp úr selstöðu – og húsakynni takmarkast af því. Ef um selstöðu hefur verið að ræða hefur hún líklega verið í notkun áður en Trönudalsréttin var byggð skammt austan hennar. Hún, eftir að hafa orðið að kotbýli, gæti einnig hafa orðið tilefni að gerð réttarinnar á þessum stað – því réttin virðist nýrri en selið (kotið). Múlakot er ekki til skv. Jarðabókinni 1703 svo það gæti hugsanlega hafa vaxið upp úr selstöðu Möðrudals, sbr. Selkot í Seljadal, Vigdísarvellir og Straumssel.
Haldið var upp eftir ánni. Trönudalur hækkar ört. Ef “árleiðin er valin þarf oft að þvera ána. Ef efri leiðin er valin og tekið mið af gömlu fjárgötunni, sem þar er, er auðvelt að ganga í ofanverðan dalinn. Þegar komið var upp fyrir gróðurhrygg blasti Botninn við. Framundan var Dyngjan; augljós. Neðst við hana eiga að vera svonefndar Selflatir. Þar eru að vísu grónar mýrarflatir, en hvergi, þrátt fyrir þver- og langsumleit á svæðinu, sést móta fyrir tóftum. Þær geta, undirlendisins vegna, verið löngu horfnar, auk þess sem skriður gætu hafa hulið selminjar þarna efst í dalnum. Þegar staðið er á Dyngunni og horft niður Trönudal er Sandfell helsta augnkonfektið. En alvaran segir standandanum þarna skýringsort að þröngt hlyti að hafa verið í búi ef sækja hefði átt grasnýtinguna alla leið þangað uppeftir, í svo snóþungt svæði langt fram á sumartíð. Efst í hömrunum að vestanverðu er Skessa, “klettadrangur undir Hnúksbrún, allferðugur kvenmaður, áður en hún varð að steini”. Þar hjá er Skessuhellir.
Óskasteinn í TrönudalsánniÍ Jarðabókinni 1703 er lýst selstöðum frá Möðruvöllum: “Selstöður á jörðin, aðra þar sem heitir Trönudalur og eru þar hagar mjög fordjarfaðir af skriðum, aðra þar sem heitir Svínadalur og eru þar sumarhagar bæði góðir og miklir.” Líklegt má telja, af framangreindu, að mögulega hafi verið selstaða fyrrum efst í Trönudal. Hún hafi “fordjarfast” og því eru engin ummerki eftir hana í dag. Selstaða sú, sem nefnd er í Svínadal, gæti hafa verið þar sem sá dalur og Trönudalur koma saman, þar sem síðar var búið í svonefndu Múlakoti um skamma hríð. Ummerki þar benda a.m.k. til þess að um fyrrum selstöðu hafi verið að ræða.
Á leiðinni upp með Trönudalsánni þurfti að þvera hana sjö sinnum. Í þriðju þveruninni vakti rauðleitur steinn, hvítmiðjóttur, sérstaka athygli. Þegar hann var veginn upp úr ánni virtist vera um óskastein að ræða.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst. og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Flekkudal.
-Örnefnalýsing fyrir Möðruvelli.
-Jóhannes Björnsson í Flekkudal.
-Jarðabókin 1703.

Ármót í miðjum Trönudal