Steðji

Í Tímanum 1976 eru sögð  “Nokkur orð um Kjósarsýslu – Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?”.

“Sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu eru við Botnsá i Hvalfirði, en Kjós nefnist sveitin frá Hvalfjarðarbotni til Kiðafellsár. Kjós þýðir í raun kvos eða dæld, enda kemur það vel heim og saman við landslag þar í sveit.

Kjós

Ferð okkar um landnám Ingólfs hefst við Botnsá í Hvalfirði, og þar eru, eins og fyrr segir, sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, 160 m djúpt. Er sagt, að vatnið heiti eftir hval, sem teymdur var í það upp eftir Botnsá. Í Botnsá er fossinn Glymur, hæsti foss á Íslandi, rúmir 200 m að hæð.
Þegar yfir Botnsá er komið, sveigir vegurinn út með Múlafjalli, bröttu og hömrum girt í sjó fram, og er vegastæðið tæpt á kafla. Botnsvogur heitir vogurinn, sem við sjáum á hægri hönd.
Við ökum út með Múlafelli og yfir Brynjudalsá, sem fellur um lítið dalverpi, Brynjudal, og til sjávar í Brynjudalsvogi. Ofan við brúna á Brynjudalsá var foss, sem sprengdur hefur verið, og við hann er Maríuhellir.
Skammt norðan Laxár komum við að vegamótum Kjósarskarðsvegar, en hann liggur á milli Kjósar og Þingvallavegar, u.þ.b. 22 km langur. Við Kjósarskarðsveg eru meðal annarra bæirnir Reynivellir, sem er kirkjustaður og prestssetur, og Vindáshlíð, þar sem eru sumarbúðir KFUK. Írafell heitir innsti bær í Kjós, og við þann bæ er kenndur Írafells-Móri, frægur draugur í eina tíð.
Kjós
Við ökum yfir Laxá og höldum fram hjá Félagsgarði. Áður en við vitum af komum við að vegamótum Meðalfellsvegar, sem liggur upp með Meðalfelli að sunnan. Áin Bugða fellur úr Meðalfellsvatni, og rennur í Laxá, ekki langt frá bænum Ásgarði, Bærinn að Meðalfelli er á vinstri hönd, ef haldið er eftir Meðalfellsvegi.
Ef við höldum fram hjá vegamótum Meðalfellsvegar, komum við brátt að þriðju vegamótunum, að þessu sinni að vegamótum Eyrarfjallsvegar. Tilvalið er að bregða út af vananum og taka nú beygjuna til vinstri í stað þess að halda beint áfram. Þá höldum við fyrst um grasi gróið undirlendi fram hjá búsældarlegum býlum, yfir Skorá og síðan eftir berangurslegum ruðningsöldum, allt til þess er við komum að mótum Eilífsdals, en Í þeim dal stendur samnefndur bær. Undirlendi er töluvert á þessum slóðum.
Eilífsdalur er tilkomumikill og hrífandi í senn hið innra, girtur hamrafjöllum á þrjá vegu, Þórnýjartindi að austan, Skálatind að vestan, en Eilífstindi fyrir botni dalsins.
Við höldum fram hjá bænum Eilífsdal, og þegar Miðdalur, Tindastaðir og Mórastaðir eru að baki, komum við til Kiðafells, landnámsjarðar Svartkels hins katneska. Ef við hefðum ekki beygt til vinstri og ekið eftir Eyrarfjallsvegi, hefði leið okkar legið áfram eftir þjóðbrautinni, eins og vaninn er að fara, þegar haldið er til Reykjavíkur. Leiðin liggur þá út með Eyrarfjalli og framhjá bænum Eyri. Til hægri sjáum við Hvalfjarðareyrina, langa og flata, en þaðan liggur sæsímastrengurinn yfir í Katanes á Hvalfjarðarströnd. Á sínum tíma var rætt um að gera þaðan bílferjustað yfir Hvalfjörð, og var nokkur undirbúningur hafinn að því, en ekkert varð meira úr framkvæmdum.

Írafell

Írafell.

Við höldum fram hjá bænum Kiðafelli, förum yfir Kiðafellsá og sjáum brátt niður að Hjarðarnesi.
Nú erum við komin á Kjalarnesið, en svo heitir nesið milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Vegurinn liggur um Tíðaskarð, sem svo er nefnt, og brátt opnast okkur mikilfengleg sýn suður um Seltjarnarnes og Faxaflóa.
Þjóðvegurinn liggur fram hjá heimavistarskólanum á Klébergi, og litlu sunnar er félagsheimilið Fólkvangur. Gegnt Fólkvangi er bærinn Vallá, en þaðan var Benedikt Magnússon, sá er stofnsetti steypustöðina B.M. Vallá. Hofsvík heitir víkin fram undan Fólkvangi.
Kollafjörður
Brátt komum við á steyptabraut og ökum eftir henni framhjá Mógilsá, þar sem Skógrækt ríkisins hefur reist rannsóknarstöð skógræktar fyrir þjóðargjöf Norðmanna. Þar er kalknáma, sem um skeið var unnin, og einnig fannst þar vottur gulls, en því miður ekki nógu mikið. Kalkið, sem unnið var við Mógilsá, var flutt til Reykjavíkur og brennt þar. Heitir Kalkofnsvegur, þar sem brennslan fór fram.
Mógilsá
Bærinn Kollafjörður stendur skammt frá Mógilsá og þar hefur ríkið sett upp fiskeldisstöð. Í Kollafirði bjó Kolbeinn Högnason, alþýðuskáld, landskunnur fyrir snjallar lausavísur og ferskeytlur. Fjörðurinn allur milli Seltjarnarness og Kjalarness heitir Kollafjörður, og á honum eru eyjarnar, Viðey, Engey, Akurey, Þerney og Lundey.
Við höldum fram hjá byggingum kaupfélags Kjalarnesþings, og til hægri blasir við okkur Leiruvogurinn.
Brátt sér heim að Hulduhólum, íbúðarhúsi Sverris Haraldssonar, listmálara , en í túninu framan við hús sitt hefur listamaðurinn komið nokkrum verka sinna fyrir. Lágafell er á vinstri hönd, en þar er kirkja og fagurt íbúðarhús, sem Thor Jensen reisti. Effersöeættin færeyska á rætur sínar að rekja til Lágafells. Þaðan var og ættaður Oddgeir Stephensen, sem meðal annars gegndi starfi forstöðumanns íslenzku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Hlíðartún nefnist lítið þorp í Lágafellslandi. Þar er vistheimili fyrir vangefin börn. Leið okkar liggur nú með Úlfarsfelli á vinstri hönd, en til hægri sjáum við heim að Blikastöðum, miklu stórbýli í Mosfellssveit.”

Heimild:
-Tíminn; Nokkur orð um Kjósarsýslu, Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?, 222 tbl. 03.10.1976, bls. 16-17.
Kjós