Færslur

Stardalur

Hér á eftir verður fjallað um fyrrum 12 selstöður í landi Stardals skv. skráðum heimildum sem og sögu bæjarins. FERLIRsfélagar hafa skoðað og skráð allar selstöðurnar, auk þeirrar þrettándu, sem grunur er um að hafi verið selstaða fá Vík, bæ Ingólfs Arnarssonar.

Stardalur

Stardalur – loftmynd 1954.

I.    Helgafell í Mosfellssveit voru ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ (Jarðabók, III. b., bls. 317).

Stardalur

Stardalur – seltóft lengst t.h..

II.   Lágafell í Mosfellssveit var ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ (Jarðabók, III. b., bls. 315).

Varmársel

Varmársel.

III. Blikastaðir í Mosfellssveit voru ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ (Jarðabók, III. b., bls. 309).

IV. Korpúlfsstaðir í Mosfellssveit voru ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ (Jarðabók, III. b., bls. 308).

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

V.   Gufunes í Mosfellssveit var ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ (Jarðabók, III. b., bls. 301).

VI. “Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.” (Ö.St.1).

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

VII. Múlasel í Sámsstaðastað
Í “Skrá um friðlýstar fornleifar”, (fyrsta útgáfan 1990) segir: “Hrafnhólar. Sámsstaðarústir, suðvestanundir Stardalsfjalli, fast uppi við brekkuna. Sbr. Árb. 1908: 11-12. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938. Fornleifum þessum er friðlýst á jörðina Stardal, Kjalarneshr., þótt þær séu í landi Hrafnhóla”.
Hallur goðlausi Helgasonar nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla”, sbr. lýsingu í 11. kafla Landnámubókar.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafjelags árið 1908 lýsir Brynjúlfur Jónsson t.a.m. Sámsstöðum: “Suðvestanundir Stardalsfjalli, stuttri bæjarleið fyrir ofan Tröllafoss í Leirvogsá, er eyðibýli, sem heitir Sámsstaðir og segja munn mæli, að þar hafi verið kirkjustaður. Þesa sjást þó eigi merki svo fullyrt verði… Bygðin mun hér hafa lagzt snemma niður, og er þessa bæjar hvergi getið, svo eg hafi séð.”

Sámsstaðir

Tóftir Sámsstaða.

Í afrakstri af einni af könnunarferðum FERLIRS má sjá eftirfarandi á vefsíðunni www.ferlir.is um Sámsstaði: “Bæði nafnið og ummerki á vettvangi bentu í fyrstu til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og gott skjól fyrir flestum veðrum. Þegar “bæjarstæðið” var skoðað af nákvæmni og þekkingu mætti strax ætla að þarna hafi verið sel, eða nokkar kynslóðir selja, a.m.k. eru tóftirnar allar verulega “seljalegar”; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð, en mismunandi gerð og sjá má í seljum á þessu svæði (Reykjanesskaganum). Vitað er að margir bæir í Mosfellssveit og Kjalarnesi áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp (Sámsstaðir) gætu því hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna um tíma, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum”.

Mosfellssel

Mosfellssel (Þórðarsel).

VIII.  Þórðarsel undir Illaklifi er einnig skráð á Stardal, en það ku hafa verið eitt fjögurra selja frá Mosfelli, sbr.; “Norðan undir klifinu [Illaklifi] er Þórðarsel sunnan við Selflá. Þar var haft í seli frá Mosfelli. Þar af eru Selfláarnöfnin dregin. Selið var byggt úr grásteini og er urð þar.” (Ö.St.1). “Þórðarsel er kennt við sr. Þórð á Mosfelli, sem var á undan sr. Magnúsi Grímssyni. M.G. byggði það upp og endurbætti.” (Ö.St.2:1 og athugasemdir Jónasar Magnússonar við örnefnaskrá).

IX.    “Norðan við Tröllalágar sunnan í Þríhnúkum er Þerneyjarsel, tóttamyndir.” (Örnefnskrá Ara Gíslasonar yfir Stardal. (Ö.St.1).

Esjubergssel

Esjubergssel.

X.      “Austur og norður af Þríhnúkum er flóaspilda, er heitir Esjubergsflói. Í honum er Esjubergssel, er vel sést fyrir tóftum.” (Ö.St.1). “Austan í honum [Esjubergsflóa] eru tóttir sem nefnast Esjubergssel og sjást þær enn greinilega. Flói þessi nær norður að Skarðsá er kemur úr Svínaskarði og fellur í Þverá norðan við Haukafjöll.” (Ö.St.3).

XI.     Móasel – “Selstöðu hafði jörðin hjá Esjubergsseli að eign eða láni”. (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, III. b., bls. 347-348.)

Esjubergssel

Esjubergssel / Móasel – uppdráttur ÓSÁ.

XII.   Lambhagi í Mosfellssveit var ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ (Jarðabók, III.b., bls. 317).

Skáli Ingólfs

Skáli Ingólfs í Skálafelli?

XIII. Skáli Ingólfs – Skála Ingólfs Arnarssonar í Skálafelli er bæði getið í Íslendingabók Ara fróða og í Landnámu.
Í Íslendingabók segir um skála Ingólfs í Skálafelli: Ingólfr fór um vorit ofan um heiði hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komit hann bjó í Reykjarvík þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi En Ingólfr nam land millum Ölvusár ok Hvalfjarðar fur utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út þá mælti Karli til ills fórum vèr um góð heröð er vèr skulum byggja útnes þetta hann hvarf á brott ok ambátt með honum Vífli gaf Ingólfr frelsi ók bygði hann á Vífilsstöðum við hann er kendt Vífilsfelt þar bjó hann lengi ok var skilríkr maðr Ingólfr lèt gera skála á Skálafelli þaðan sá hann reyki við Ölvusvatn ok fann þar Karla.”

Ef framangreint er rétt mun Ingólfur haft í seli í Stardal, fyrstur norrænna manna.

Skálafell

Skáli Ingólfs?

Í Landnámsbók segir: “Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.
Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.”

Stardalur – E[gill] J[ónasson] S[tardal].

Egill Jónason Stardal

Egill Jónason Stardal.

“Jörðin Stardalur er austasta ábýlisjörð í Kjalarnesshreppi og er á mörkum fjögurra hreppa: Kjalarness- Kjósar- Þingvalla- og Mosfellshrepps. Jörðin er mjög landstór en meginhluti landsins er fjalllendi og góðir fjárhagar á sumrum en vetrarríki mikið. Samkvæmt mælingum er bæjarstæðið í 147 m hæð yfir sjó og því á mörkum þess sem byggilegt má teljast. Nafnið Stardalur er ef til vill jafngamalt byggð í landinu, a.m. k. kemur það fyrir í máldaga Þerneyjarkirkju frá um 1220 sem settur er af Magnúsi Gissurasyni biskupi í Skálholti. Þar segir að Þerneyjarkirkja eigi selför í Stardal svo og afrétt. Svo er að skilja að þá sé engin byggð önnur á þessum slóðum.

Stardalur hefur samkvæmt Landnámabókum verið hluti af landnámi Halls goðlauss, sem þær segja að hafi numið með ráði Ingólfs í Reykjavík allt land millum Mógilsár og Leirvogsár og búið í Múla. Ýmsir fræðimenn og aðrir hafa gert því skóna að hið forna landnámsbýli Múli hafi staðið þar sem nú er bærinn Stardalur, en hér verður ekki tekin afstaða til þessara staðhæfinga. Fyrir þeim eru engin rök önnur en þau að örnefnið Múli er ekki til annarastaðar í landnámi Halls. Í landnámi því, sem honum er eignað, hafa verið í byggð á ýmsum tímum 15-20 býli, stór og smá, og hafa nöfn þeirra flestra varðveist og eru reyndar flest í byggð enn. Geta má þess að í túni umhverfis núverandi hús í Stardal eru miklar rústir eftir einhvers konar byggð, sumar mjög fornar, en einungis fornleifarannsóknir gætu skorið úr því hvort þær rústir varðveita leifar landnámsbyggar eða eru minjar eftir selstöðu sem þar var í margar aldir.

Jónas Magússon

Jónas magnússon.

Nafnið Stardalur er að því er heimildarmanni þessa greinarkorns er best kunnugt all einstakt á Íslandi. Þó eru til Stardalir eða Starardalir (höf. hefur heyrt bæði nöfnin af munni innfæddra Kjósaringa) uppi á Eyrarfjalli í Kjósarhreppi. Þessir „dalir“ eru mýrarflesjur með tjörnum milli melholta og þar vex víða stör. Dalur sá sem verður upp af núverandi bæjarstæði Stardals, flatur í botn og allur vafinn grasi, nær alveg umluktur fjöllum: í norðri Skálafell, í vestri Stardalshnjúkur og frá austri til suðurs Múli; hefur af ýmsum, þ. á. m. föður undirritaðs, verið álitinn hinn rétti Stardalur og nafnið dregið af starargróðri þar. Þessi skoðun er þó umdeilanleg því af þeim fáu rituðu heimildum, sem geta Stardals, er helst svo að sjá að þá sé átt við lægð þá eða grunnan dal sem myndast milli fjalla Stardalshnjúks, Skálafells og Múla annarsvegar og heiðasporðs Mosfellsheiðar hinsvegar. Ekki eru nú kunnar eða finnanlegar rústir eftir neina byggð eða mannvirki svo víst sé í efri dalnum og flestar mýrlendisjurtir aðrar en stör einkenna flóru dals þessa, enda eru þar engar tjarnir eða samfellt votlendi sem stör vex í.

Magnús Jónasson

Magnús Jónasson.

Nafnið Stardalur er þekkt í Noregi og gæti, e.t.v. hafa flust þaðan með landnámsmönnum, en hér verður ekki reynt að rökstyðja þetta neitt nánar, aðeins bent á, sem fyrr greinir, að nafnið er býsna fornt.

Um upphaf byggðar og búsetu undir bæjarnafninu Stardalur er m.a. fjallað í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Þar segir m.a.: “Stardalur: Nýlega uppbygð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram, sem þykirst vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið… Hitt er almennilega kunnugt úngum og gömlum, þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney…”.

Egill Jónasson Stardal f. 14. sept. 1926 í Stardal, var sonur Jónasar Magnússonar, bónda þar og Kristrúnar Eyvindsdóttur k. h. Hér er notast við þá þekkingu sem hann nam af föður sínum frá barnæsku en Jónas dvaldi frá fjögurra ára aldri í Stardal til elliára, var bóndi þar frá 1914 til 1965 að hann afhenti jörðina syni sínum Magnúsi. Magnús Sigurðsson, faðir Jónasar, bjó einnig í Stardal, frá árinu 1894 til dauðadags árið 1910, en faðir hans Sigurður Guðmundsson frá Breiðavaði í Langadal í Húnavatnssýslu eignaðist jörðina og bjó þar á undan um nokkurt skeið eða frá 1871-1888. Fyrir daga Sigurðar árin 1850-1871, sat og átti jörðina annar Húnvetningur, Jónas Jónasson frá Gafli í Svínadal, og voru þeir Sigurður og Jónas áður kunnir að norðan.

Stardalur

Stardalur – túnakort 1916.

Jörðin hefur þannig verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1871 og þar á undan í eigu vinafólks hennar í nær aldarfjórðung eða frá 1850. Líklegt verður að telja að flest merkustu örnefni hafi varðveist mann fram af manni á þessu tímabili en ógjörningur er að segja um aldur þeirra fyrir þann tíma, nema þeirra fáu sem varðveist hafa í rituðum eldri heimildum. Þessi skrá hefur verið borin undir bræður skrásetjara, Magnús Jónasson, bónda og eiganda jarðrinnar, og Eyvind Jónasson verkstjóra, Glæsibæ 3 Reykjavík. Auk þess hefur verið haft til hliðsjónar handrit um örnefni í eigu Magnúsar Jónassonar, samið eftir lýsingu og drögum að örnefnaskrá Jónasar Magnússonar. Þá hefur verið stuðst við skrá í eigu Örnefnastofnunar sem samin er af Ara Gíslasyni, að því hann segir eftir forsögn Jónasar Magnússonar, en sú skrá er full af missögnum og auk þess er þar grautað saman örnefnum jarðarinnar og annarra jarða eða landareigna utan marka hennar án þess að sjáist glöggt hvað sé hvað.”

Stardalur

Bærinn í Stardal brann í janúar 1918.

Stardalsbærinn brann til kaldra kola að morgni laugardagsins 6. janúar 2018. Þá hafði ekki verið búið þar um nokkurt skeið.

Heimildir:
-Stardalur – E[gill] J[ónasson] S[tardal].
-Árni Magnússon (1923-1924). Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þriðja bindi. Kaupmannahöfn. Hið íslenska fræðafjélag í Kaupmannahöfn.
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Stardal.
-Landnáma – 8. kafli.
-Íslendingabók, bls. 33.

Stardalur

Stardalur.

Meðalfellsvatn

Í Heimilisblaðinu 1940 veltir B.J. fyrir sér örnefni “Kjós“:

“Hvað merkir það nafn? Og hvaðan er það örnefni komið?
Kjós
Það hefir flutzt hingað með landnámsmönnum frá Noregi. Upphafiega var það karlkennt orð: Kjósr (Kjóss, egf.: Kjóss eða Kjósar, flt. Kjósar), og svo kvað það vera í Noregi enn í dag. En í íslenzku er það nú kvenkyns og beygist eins og nafnorðið: drós (drósar, drósir). Liggur það mjög nærri, að úr Kjósr og Kjóss yrði Kjós (sbr. hausr — hauss — haus) og þar sem eignarfallsendingin forna var ar (Kjósar, jöfnum höndum við Kjóss, þá lá svo nærri að hafa myndina Kjósar (í Kjósarsýslu), eins og nafnið væri kvenkennt.
Í Noregi eru margir staðir kenndir við Kjóss: Kjósar heita inn af Farris-vatni, Kjóss er i Nessprestakalli í Raumaríki, Kjóss kirkjusókn er á Haðalandi, og Kjósarsókn (í Brandabú). Í Noregi nefnast Kjósarnir nú Kjoser eða. Kjöser.
Kjós
Hér á landi er Kjósin alkunnust sem Kjósarsýsla er við kennd. Á Vestfjörðum (Hornströndum) eru nokkrir staðir með því nafni, eða hafa verið: Kjós í Grunnavík, Kjós í Trékyllisvík, Kjós í Reykjarfirði; inn af Reykjarfirði kvað ganga Kersvogur, sem að fornu nefndist Kjósvogur (Kjörsvogur, Kesvogur og Kjósvogur). Kjóshóll er nefndur í Staðarsveit vestra. Veit ég ekki meira um þann hól, en geri mér í hugarlund, að hann muni vera svipaður Kerhól í Grímsnesi. Kjósarsker hét í Hvalfirði og Kjóssvík í Borgarfirði eystra þar sem seinna hét og heitir Kjólsvík og getur það verið afbökun á frumnafninu.
Í Noregi er Kjós fyrst og fremst haft um mjóa voga, sem eins og hverfa inn í land af fjörðum, eða stöðuvötnum. Því næst merkir það mýrlent dalverpi eða kvos, sem eins og hverfur inn í fjöllin, eða mýrarvik, sem liggja inn í holt og hæðir, eða inniluktar kringlumýrar eða ker.

Káranes

Laxá í Kjós, Káranes og Káraneskot.

Í þriðja lagi merkir það kjarr, þéttvaxið, helzt í votlendi. — Djúpir pyttir eða hyljir í lækjum eru líka Kjósar kallaðir. Nú mun allt þetta fara eða hafa farið saman, þar sem þessi staðanöfn haldast við enn, bæði hér og í Noregi,
Kermyndaðir hafa þessir Kjósar verið, og mætti af því geta þess til, að kjóss, ker og kjarr sé allt samstofna og sömu merkingar. Víða eru hér mýradældir vaxnar fjalldrapa og víði (sbr. Víðiker) eða smávöxnu birki. Allt eru það Kjósar eða Kerskógar. Kjarr (á norsku: Kjerr eða Kjerre) merkir smávaxinn skóg, einkum í mýrum (sbr. Kjarrmýrr eða ker).
Ef þetta er rétt, mætti nota orðið Kjós enn í almennu ritmáli, samkvæmt frummerkingunni.” -B.J.

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt; “Hvað gerir landsvæði að Kjós? Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?” Svarið var:

Hrafnsfjörður

Mynni Hrafnsfjarðar í Jökuldölum.

“Í Hvalfirði er landsvæði sem heitir Kjós. Nálægt Skaftafelli, inn af Morsárdal er líka landsvæði sem heitir Kjós.  Orðið kjós merkti í fornu máli ‚þröng vík‘ en merkir nú ‘kvos, dalur eða dæld’ (Íslensk orðabók, 778; Ásgeir Blöndal Magnússon, 468).

Kjós í mynni Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum stendur undir nafni sem þröng vík. Nú merkir orðið kjós ‘kvos, dalur eða dæld’.

Í Troms og víðar í Norður-Noregi merkir orðið kjos ‘þröngur dalur’ eða ‘laut’ (Norsk stadnamnleksikon, 183).
Auk Kjósar í Kjósarsýslu og í Skaftafellssýslu kemur nafnliðurinn meðal annars fyrir í örnefnum á Snæfellsnesi, í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu (Íslandsatlas).”

Heimild:
-Heimilisblaðið, 3.-4. tbl. 01.03.1940, bls. 50-51.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=71701

Kjós

Í Kjós.

Steðji

Í Tímanum 1976 eru sögð  “Nokkur orð um Kjósarsýslu – Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?”.

“Sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu eru við Botnsá i Hvalfirði, en Kjós nefnist sveitin frá Hvalfjarðarbotni til Kiðafellsár. Kjós þýðir í raun kvos eða dæld, enda kemur það vel heim og saman við landslag þar í sveit.

Kjós

Ferð okkar um landnám Ingólfs hefst við Botnsá í Hvalfirði, og þar eru, eins og fyrr segir, sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, 160 m djúpt. Er sagt, að vatnið heiti eftir hval, sem teymdur var í það upp eftir Botnsá. Í Botnsá er fossinn Glymur, hæsti foss á Íslandi, rúmir 200 m að hæð.
Þegar yfir Botnsá er komið, sveigir vegurinn út með Múlafjalli, bröttu og hömrum girt í sjó fram, og er vegastæðið tæpt á kafla. Botnsvogur heitir vogurinn, sem við sjáum á hægri hönd.
Við ökum út með Múlafelli og yfir Brynjudalsá, sem fellur um lítið dalverpi, Brynjudal, og til sjávar í Brynjudalsvogi. Ofan við brúna á Brynjudalsá var foss, sem sprengdur hefur verið, og við hann er Maríuhellir.
Skammt norðan Laxár komum við að vegamótum Kjósarskarðsvegar, en hann liggur á milli Kjósar og Þingvallavegar, u.þ.b. 22 km langur. Við Kjósarskarðsveg eru meðal annarra bæirnir Reynivellir, sem er kirkjustaður og prestssetur, og Vindáshlíð, þar sem eru sumarbúðir KFUK. Írafell heitir innsti bær í Kjós, og við þann bæ er kenndur Írafells-Móri, frægur draugur í eina tíð.
Kjós
Við ökum yfir Laxá og höldum fram hjá Félagsgarði. Áður en við vitum af komum við að vegamótum Meðalfellsvegar, sem liggur upp með Meðalfelli að sunnan. Áin Bugða fellur úr Meðalfellsvatni, og rennur í Laxá, ekki langt frá bænum Ásgarði, Bærinn að Meðalfelli er á vinstri hönd, ef haldið er eftir Meðalfellsvegi.
Ef við höldum fram hjá vegamótum Meðalfellsvegar, komum við brátt að þriðju vegamótunum, að þessu sinni að vegamótum Eyrarfjallsvegar. Tilvalið er að bregða út af vananum og taka nú beygjuna til vinstri í stað þess að halda beint áfram. Þá höldum við fyrst um grasi gróið undirlendi fram hjá búsældarlegum býlum, yfir Skorá og síðan eftir berangurslegum ruðningsöldum, allt til þess er við komum að mótum Eilífsdals, en Í þeim dal stendur samnefndur bær. Undirlendi er töluvert á þessum slóðum.
Eilífsdalur er tilkomumikill og hrífandi í senn hið innra, girtur hamrafjöllum á þrjá vegu, Þórnýjartindi að austan, Skálatind að vestan, en Eilífstindi fyrir botni dalsins.
Við höldum fram hjá bænum Eilífsdal, og þegar Miðdalur, Tindastaðir og Mórastaðir eru að baki, komum við til Kiðafells, landnámsjarðar Svartkels hins katneska. Ef við hefðum ekki beygt til vinstri og ekið eftir Eyrarfjallsvegi, hefði leið okkar legið áfram eftir þjóðbrautinni, eins og vaninn er að fara, þegar haldið er til Reykjavíkur. Leiðin liggur þá út með Eyrarfjalli og framhjá bænum Eyri. Til hægri sjáum við Hvalfjarðareyrina, langa og flata, en þaðan liggur sæsímastrengurinn yfir í Katanes á Hvalfjarðarströnd. Á sínum tíma var rætt um að gera þaðan bílferjustað yfir Hvalfjörð, og var nokkur undirbúningur hafinn að því, en ekkert varð meira úr framkvæmdum.

Írafell

Írafell.

Við höldum fram hjá bænum Kiðafelli, förum yfir Kiðafellsá og sjáum brátt niður að Hjarðarnesi.
Nú erum við komin á Kjalarnesið, en svo heitir nesið milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Vegurinn liggur um Tíðaskarð, sem svo er nefnt, og brátt opnast okkur mikilfengleg sýn suður um Seltjarnarnes og Faxaflóa.
Þjóðvegurinn liggur fram hjá heimavistarskólanum á Klébergi, og litlu sunnar er félagsheimilið Fólkvangur. Gegnt Fólkvangi er bærinn Vallá, en þaðan var Benedikt Magnússon, sá er stofnsetti steypustöðina B.M. Vallá. Hofsvík heitir víkin fram undan Fólkvangi.
Kollafjörður
Brátt komum við á steyptabraut og ökum eftir henni framhjá Mógilsá, þar sem Skógrækt ríkisins hefur reist rannsóknarstöð skógræktar fyrir þjóðargjöf Norðmanna. Þar er kalknáma, sem um skeið var unnin, og einnig fannst þar vottur gulls, en því miður ekki nógu mikið. Kalkið, sem unnið var við Mógilsá, var flutt til Reykjavíkur og brennt þar. Heitir Kalkofnsvegur, þar sem brennslan fór fram.
Mógilsá
Bærinn Kollafjörður stendur skammt frá Mógilsá og þar hefur ríkið sett upp fiskeldisstöð. Í Kollafirði bjó Kolbeinn Högnason, alþýðuskáld, landskunnur fyrir snjallar lausavísur og ferskeytlur. Fjörðurinn allur milli Seltjarnarness og Kjalarness heitir Kollafjörður, og á honum eru eyjarnar, Viðey, Engey, Akurey, Þerney og Lundey.
Við höldum fram hjá byggingum kaupfélags Kjalarnesþings, og til hægri blasir við okkur Leiruvogurinn.
Brátt sér heim að Hulduhólum, íbúðarhúsi Sverris Haraldssonar, listmálara , en í túninu framan við hús sitt hefur listamaðurinn komið nokkrum verka sinna fyrir. Lágafell er á vinstri hönd, en þar er kirkja og fagurt íbúðarhús, sem Thor Jensen reisti. Effersöeættin færeyska á rætur sínar að rekja til Lágafells. Þaðan var og ættaður Oddgeir Stephensen, sem meðal annars gegndi starfi forstöðumanns íslenzku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Hlíðartún nefnist lítið þorp í Lágafellslandi. Þar er vistheimili fyrir vangefin börn. Leið okkar liggur nú með Úlfarsfelli á vinstri hönd, en til hægri sjáum við heim að Blikastöðum, miklu stórbýli í Mosfellssveit.”

Heimild:
-Tíminn; Nokkur orð um Kjósarsýslu, Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?, 222 tbl. 03.10.1976, bls. 16-17.
Kjós