Meðalfellsvatn

Í Heimilisblaðinu 1940 veltir B.J. fyrir sér örnefni “Kjós“:

“Hvað merkir það nafn? Og hvaðan er það örnefni komið?
Kjós
Það hefir flutzt hingað með landnámsmönnum frá Noregi. Upphafiega var það karlkennt orð: Kjósr (Kjóss, egf.: Kjóss eða Kjósar, flt. Kjósar), og svo kvað það vera í Noregi enn í dag. En í íslenzku er það nú kvenkyns og beygist eins og nafnorðið: drós (drósar, drósir). Liggur það mjög nærri, að úr Kjósr og Kjóss yrði Kjós (sbr. hausr — hauss — haus) og þar sem eignarfallsendingin forna var ar (Kjósar, jöfnum höndum við Kjóss, þá lá svo nærri að hafa myndina Kjósar (í Kjósarsýslu), eins og nafnið væri kvenkennt.
Í Noregi eru margir staðir kenndir við Kjóss: Kjósar heita inn af Farris-vatni, Kjóss er i Nessprestakalli í Raumaríki, Kjóss kirkjusókn er á Haðalandi, og Kjósarsókn (í Brandabú). Í Noregi nefnast Kjósarnir nú Kjoser eða. Kjöser.
Kjós
Hér á landi er Kjósin alkunnust sem Kjósarsýsla er við kennd. Á Vestfjörðum (Hornströndum) eru nokkrir staðir með því nafni, eða hafa verið: Kjós í Grunnavík, Kjós í Trékyllisvík, Kjós í Reykjarfirði; inn af Reykjarfirði kvað ganga Kersvogur, sem að fornu nefndist Kjósvogur (Kjörsvogur, Kesvogur og Kjósvogur). Kjóshóll er nefndur í Staðarsveit vestra. Veit ég ekki meira um þann hól, en geri mér í hugarlund, að hann muni vera svipaður Kerhól í Grímsnesi. Kjósarsker hét í Hvalfirði og Kjóssvík í Borgarfirði eystra þar sem seinna hét og heitir Kjólsvík og getur það verið afbökun á frumnafninu.
Í Noregi er Kjós fyrst og fremst haft um mjóa voga, sem eins og hverfa inn í land af fjörðum, eða stöðuvötnum. Því næst merkir það mýrlent dalverpi eða kvos, sem eins og hverfur inn í fjöllin, eða mýrarvik, sem liggja inn í holt og hæðir, eða inniluktar kringlumýrar eða ker.

Káranes

Laxá í Kjós, Káranes og Káraneskot.

Í þriðja lagi merkir það kjarr, þéttvaxið, helzt í votlendi. — Djúpir pyttir eða hyljir í lækjum eru líka Kjósar kallaðir. Nú mun allt þetta fara eða hafa farið saman, þar sem þessi staðanöfn haldast við enn, bæði hér og í Noregi,
Kermyndaðir hafa þessir Kjósar verið, og mætti af því geta þess til, að kjóss, ker og kjarr sé allt samstofna og sömu merkingar. Víða eru hér mýradældir vaxnar fjalldrapa og víði (sbr. Víðiker) eða smávöxnu birki. Allt eru það Kjósar eða Kerskógar. Kjarr (á norsku: Kjerr eða Kjerre) merkir smávaxinn skóg, einkum í mýrum (sbr. Kjarrmýrr eða ker).
Ef þetta er rétt, mætti nota orðið Kjós enn í almennu ritmáli, samkvæmt frummerkingunni.” -B.J.

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt; “Hvað gerir landsvæði að Kjós? Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?” Svarið var:

Hrafnsfjörður

Mynni Hrafnsfjarðar í Jökuldölum.

“Í Hvalfirði er landsvæði sem heitir Kjós. Nálægt Skaftafelli, inn af Morsárdal er líka landsvæði sem heitir Kjós.  Orðið kjós merkti í fornu máli ‚þröng vík‘ en merkir nú ‘kvos, dalur eða dæld’ (Íslensk orðabók, 778; Ásgeir Blöndal Magnússon, 468).

Kjós í mynni Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum stendur undir nafni sem þröng vík. Nú merkir orðið kjós ‘kvos, dalur eða dæld’.

Í Troms og víðar í Norður-Noregi merkir orðið kjos ‘þröngur dalur’ eða ‘laut’ (Norsk stadnamnleksikon, 183).
Auk Kjósar í Kjósarsýslu og í Skaftafellssýslu kemur nafnliðurinn meðal annars fyrir í örnefnum á Snæfellsnesi, í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu (Íslandsatlas).”

Heimild:
-Heimilisblaðið, 3.-4. tbl. 01.03.1940, bls. 50-51.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=71701

Kjós

Í Kjós.