Meðalfell

Ætlunin var að skoða land Hurðarbaks í Kjós í Laxárdal, norðan Meðalfells, og síðan hluta af landi Sands í Eyjakrókum. Gengið var um Hurðarbaksland með Jóhannesi Björnssyni, bónda í Flekkudal og að Hurðarbaki. Á svæðinu mátti eiga von á minjum selja og fleiri fornra mannvirkja. Í Jarðabókinni 1703 er þó ekki getið um selstöðu frá Hurðarbaki aðra en þá er nýtt var með Meðalfelli. Þá var og ætlunin að skoða undir hlíð Sanddalsfjalls, milli Eyjadals (Sands) og Flekkudals (Grjóteyrar), en þar eru sagnir um minjar, sem Jóhannes telur að gætu hafa verið selstaða.

Hurðin í Meðalfelli

Í sóknar- og sveitarlýsingum frá fyrri tímum virðist nafnið Kjós aðeins eiga við um dalinn milli Esju og Reynivallaháls. Hins vegar ber þess að gæta, að Kjósarhreppur nær yfir mun stærra svæði, þ.e.a.s. Brynjudal og suðurhluta Botnsdals að norðanverðu en Eilífsdal og eystri hluta Miðdals að suðvestan. Í daglegu tali virðist orðið Kjós notað um Kjósarhrepp allan.
Meginhluti byggðarinnar er þó í hinum forna Kjósardal, eins og svæðið milli Esju og Reynivallaháls er stundum nefnt í fornum textum. Í honum miðjum gnæfir Meðalfell og ber því vissulega nafn sem því hæfir. Í daglegu tali eru nöfnin Laxárdalur og Eyjakrókur eða Krókur (eða Eyjahverfi) notuð um þá tvo hluta, sem Meðalfell skiptir Kjósardalnum í, en þau heiti eru ekki að finna í eldri textum en frá þessari öld. Nú var ætlunin að skoða Hurðarbak í sunnanverðum Laxárdal (norðan Meðalfells) og Sand í sunnanverðum Eyjakrók.
Garður við HurðarbakKjósardalurinn, sem Björn Bjarnarson nefnir svo í sýslulýsingu sinni 1937, er grösugur dalur og frjósamur, undirlendi er mikið, einkum í norðurhluta dalsins, Laxárdal. Hins vegar gerir sr. Sigurður Sigurðsson langa sögu stutta í sóknarlýsingu sinni 1840 er hann segir „landslagið er víða rakasamt” og á það við um landið norðan og sunnan Laxár að miklu leyti þótt bakkarnir og nesin við ána séu víðast hvar góð slægjulönd og hafi ævinlega þótt svo. Á tímum áveitnanna snemma á þessari öld voru miklar slægjur á undirlendi dalsins.
Landnámsmaðurinn á þessu svæði var Valþjófur Örlygsson hinn gamli á Esjubergi er nam Kjós alla, segir Landnáma, og bjó að Meðalfelli. Eftir því sem skýrt er frá takmörkum nágrannalandnámsmanna má sjá að Valþjófur hefur numið landið á milli Eilífsdalsár og Laxár allt upp til fjalla.
Þegar ekið er að Hurðarbaki frá Vesturlandsvegi blasir vestanvert Meðalfellið við, stakt fjall. Vestasti hluti þess heitir Harðhaus. Fjallið er flatt að ofan.
Að norðan við fellið rennur Laxá, ein gjöfulasta laxveiðiá landsins. Hún á upptök sín í Stíflisdalsvatni, en það blasir við til vinstri af Mosfellsheiðinni, þegar ekið er til Þingvalla frá Mosfellsdal. Venjulega er Laxá auðveld yfirferðar. Á henni eru góð vöð, svo oftast er hún lítill farartálmi. En í stórrigningum og leysingum getur komið í hana ofsavöxtur. Þá flæðir hún yfir bakka sína og eirir engu. Árið 1556 fórst Oddur Gottskálksson í henni. Oddur var sonur Gottskálks hins grimma Hólabiskups, sem var nafnkenndur á sinni tíð. En frægð Odds er þó einkum bundin við það að hann þýddi
Nýja testamentið á íslensku fyrstur manna. Í umrætt skipti var Oddur á leið til Alþingis. Sagan segir að hestur Odds hafi hnotið í ánni, og féll Oddur af baki. Hann komst lifandi upp á eyri í ánni, en þegar hann ætlaði að standa upp þvældist kápan fyrir fótum hans, svo hann datt aftur í strauminn og varð það hans bani.
Garður eða hluti áveitu við HurðarbakLandslagið varð til á jökultímanum. Þá gengu miklir skriðjöklar innan frá hálendi til sjávar. Þeir surfu og skófu bergið. Fátt stóðst fyrir þessum heljarkrafti. Þá skreið feiknamikill jökull fram þar sem nú er Hvalfjörður. Annar kom austan að og skildi eftir þann dal sem við höfum verið að skoða í þessari ferð. Meðalfellið veitti það mikla mótstöðu að hann vann ekki á því. Svo komu minni skriðjöklar að sunnan frá hábrún Esjunnar. Þeirra verk eru litlu dalirnir þrír, sem fyrr eru nefndir.
Efst, norðvestan í Meðalfelli, er hurðin mest áberandi, mikill klettastandur. Frá bæjarstæðinu að Hurðarbaki virðist hún hvað tilkomumest.
Jóhannes Björnsson á ættir að rekja til Hurðarbaks. Þegar amma hans keypti jörðina á sjöunda áratug 20. aldra á 3.5 milljónir króna héldu flestir að nú væri gamla konan orðin galin. Húsakostur var lélegur og tún lítil. Hins vegar var jörðin stór, um 230 hektarar, ágæt beit, slægjur góðar og tekjur af laxveiði í Laxá. Sagan segir að bóndinn, sem búið hafði að Hurðarbaki, hafi átt tvær tíkur. Nefndi hann aðra Pólitík og hina Rómantík. Þegar hann var spurður um hvora hann mæti meira kvaðst hann jafnan hafa þótt meira til Rómantíkunnar koma.
Á vefsíðu Örnefnastofnunar Íslands í apríl 2004 segir m.a. um hurðar-örnefni: “Orðið hurð er á nokkrum stöðum sem örnefni hér á landi, t.d. Hurð, sem er hvilft í bergið neðst í Háubælum í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Auk þess er þekkt örnefnið Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla í Eyf. sem lítur út eins og hurð. (Mynd í Afmælisriti Jóns Helgasonar 1969, á móti bls. 431). Sama er að segja um Skessuhurð sem er innan við Höfða í Fáskrúðsfirði í S-Múl.
Skurðgrafa frá fyrri tíð í KjósinniOrðið hurð kemur líka fyrir í örnefninu Hurðarás sem er ás nærri Hellisheiði í Árn. Þegar komið er upp á hann opnast víð sýn um Suðurland; það er eins og opnist þar dyr. En sú samsetning sem er algengust í örnefnum er Hurðarbak. Það er bæði náttúrunafn og bæjarnafn. Um náttúrunafn má nefna þessi dæmi: Í fornbréfi frá 1486 var talað um að Skriða í Reykjadal í S-Þing. “ætti afriett að hurdarbaki”(DI VI:575). Á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum er Hurðarbak snið í hamra. Á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum er Hurðarbak, einnig í landi Ystaskála í sömu sveit. Hurðarbak er kór í landi Varmahlíðar í Holtshverfi, einnig í sömu sveit. Fjaran fyrir neðan Rauðubjörg í landi Hafnar í Skeggjastaðahr. í N-Múl. heitir Hurðarbak. Fleirtalan Hurðarbök eru ásar fyrir austan Geirlandshraun í V-Skaft. Hurðarbak(ur) er nafn á ás í landi Iðu í Árn. Styttri mynd nafnsins var fremur notuð. (Örnefnaskrár).
Um bæjarnafnið Hurðarbak eru þessi dæmi: 1) Í Villingaholtshr. í Árn. (í landamerkjabréfi: Hurðarbakur). 2) Í Kjósarhr. í Kjós. (Annálar 1400-1800). 3) Í Strandarhr. í Borg. 4) Í Reykholtsdal í Borg. 5) Í Hörðudal í Dal. (Bjarnar saga Hítdælakappa, Íslensk fornrit III:164). 6) Í Torfalækjarhr. í A-Hún. Hurðarbak merkir ‘staður/bær í hvarfi’, þ.e. væntanlega frá alfaraleið.”
Tóft við HurðarbakÞegar land Hurðarbaks var skoðað með Jóhannesi var fyrst haldið að gamla bæjarstæðinu. Núverandi bæjarstæði er senni tíma íbúðarhús á suðaustanverðri jörðinni, en eldra bæjarstæðið var uppi í miðri hlíð Meðalfells um miðbik þess. Gamli þjóðvegurinn, sem nú er gróinn, sést enn vel í hlíðinni. Hann lá beint að bænum og síðan upp og niður fyrir íbúðarhúsið, áleiðis að Þorláksstöðum skammt austan við Ásinn, rana, sem kemur út úr Meðalfelli. Íbúðarhúsið var byggt úr steypu á fyrri hluta 20. aldar, en var rifið og jafnað við jörðu um 1990. Nú sjást fá ummerki eftir það og í rauninni erfitt að sjá að þar hafi verið bæjarstæði. Þó móta fyrir grónu ferköntuðu svæði upp á létthallandi stalli í hlíðinni. Skammt norvestan við það hafa verið útihús, einnig jarðjöfnuð. Neðar eru leifar af kartöflukofa úr torfi, en reft hefur verið yfir með bárujárni. Austan við bæinn er hlaðinn mikill steingarður upp fyrir miðja fjallshlíð. Á móts við bæinn hefur lækur grafið undan garðinum svo hann er kominn í hann að mestu að neðanverðu. Nokkru austar eru tóftir útihúss, lítið fjárhús, sennilega hrútakofi og gerði. Vestan undir Ásnum eru tóftir af stóru tvískiptu beitarhúsi með heytóft aftan við. Hlaðinn garður sést eftir miðjum húsunum. Sennilega eru þetta beitarhús frá Hurðarbaki frá því í byrjun 20. aldar.

Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli

Neðan þjóðvegarins eru merkilegar minjar; leifar af áveitu frekar en túngarði. Um er að ræða garð gerðan úr torfi, sem nær niður að Laxá. Á einum stað við garðinn eru leifar af hlaðinni brú yfir keldu. Austan við garðinn virðist vera gömul gata, með svo til beina stefnu að Reynivöllum, þeim gamla kirkjustað. Hurðarbaksfólkið sótti hins vegar kirkju að Meðalfelli og jafnvel Eyjum áður, en heimildir eru um að þar hafi fyrrum verið lítil kirkja. Þó er ekki útilokað að kirkja hafi einnig verið sótt að Reynivöllum í sömu sveit, einkum þegar um var að ræða skírnir, brúðkaup og jarðarfarir. Þarna gætu því verið leifar af gömlu kirkjugötunni frá Hurðarbaki. Jóhannes sagðist jafnan lítið þurfa að bera á slétturnar niður við ána því þær greru vel. Áður fyrr hleyptu bændur ánni yfir slétturnar að vetrarlagi, en af þeim á vorin. Þannig grænkuðu þær fyrr en önnur svæði og því nýtanlegri á undan þeim.
Skurðir, sem þarna voru grafnir um miðmið síðustu aldar, voru grafnir með þeirra tíma skurðgröfum. Leifar af einni þeirra má sjá í sveitinni.
Meðalfellskirkja stóð á Meðalfelli allt til aldamóta 18. og 19. aldar en þá var hún lögð niður og hefur kirkjugarðurinn á Meðalfelli tilheyrt Reynivallasókn síðan. Í garðinum eru nokkur leiði og var síðast jarðsett í honum á níunda áratug síðustu aldar.
Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli - uppdrátturGæludýragrafreitur er að Hurðarbaki. Hann var tekinn í notkun sumarið 2003. Þar gefst fólki kostur á að greftra hús- og gæludýr. Sífellt meiri eftirspurn hefur verið um þess háttar þjónustu á síðustu árum þar sem gæludýraeign hefur aukist til muna og ekki eiga allir garð. Að baki núverandi íbúðarhúsi að Hurðarbaki má sjá leifar af hlaðinni rétt.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hurðarbak: “Eigandinn er Meðalfells kirkja. Snjóflóð tók fjós og fénað 1699. Hús jarðarinnar að falli komin. Selstöðu í Meðalfellslandi þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt..”. Um selstöðuna frá Meðalfelli segir einungis: “Selstaða í heimalandi og er þar mótak til eldingar”. Auk þess: “Selvegur erfiður yfir torfæru keldur”. Ekki er minnst á selstöðu frá Sandi, en það var næsta viðfangsefni þessarar ferðar að grennslast fyrir um hana. FERLIR hafði áður farið um Eyjadal, land Sands (sjá meira undir Eyjadalur) og dalina beggja vegna, Flekkudal og Trönudal.
Ætlunin var að skoða svæðið undir hlíð Sandsfjalls milli Grjóteyrar (Flekkudals) og Sands, en ekki vannst tími til að skoða það svæði í fyrrnefndri ferð um Eyjadal. Jóhannes gaf góðfúslegt leyfi til ferðarinnar. Rakin var gömul gata út með hlíðinni. Hún lá að lítilli hlaðinni rétt með leiðigarði og tveimur litlum rýmum. Líklega hefur þarna verið rúningsrétt frá Sandi í skjóli undir gróinni brekku með útsýni heim að Eyjabæjunum og Meðalfelli. Að öllum líkindum hefur þarnaa verið “heimaselstaða” um tíma, mögulega frá Eyjum. Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Eyjum: “Selstöðu á jörðin í heimalandi”. Erfitt er þó að ímynda sér hvar slík selstaða gæti hafa verið annars staðar en þarna. Landamerkin hafa þá væntanlega verið önnur en nú eru, enda munar litlu. Sambærilegar “heimaselstöður” má t.d. sjá að Mógilsá og Úlfarsá.
Loks benti Jóhannes á gömlu réttina norðan við Meðalfellsvatn. Enn sést móta fyrir henni inni á lóð austasta bústaðarins, sem þar er. Hann átti áður Jóhannes í Bónus.  Að göngu lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti að sveitasið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Í Kjósinni – Gunnar Kristjánsson.
-Jarðabókin 1703.
-Kjósarmenn – æviskrár ásamt sveitarlýsingu – Haraldur Pétursson, 1961.
-Örnefnalýsingar fyrir Hurðarbak og Sand.
-Jóhannes Björnsson.
-Mbl. 28. ágúst 1980
-Örnefnastofnun – vefsíða
www.ornefni.is – skoðað 17. nóv. 2007.

Hurðin í Meðalfelli efst til vinstri