Færslur

Meðalfell

Ætlunin var að skoða land Hurðarbaks í Kjós í Laxárdal, norðan Meðalfells, og síðan hluta af landi Sands í Eyjakrókum. Gengið var um Hurðarbaksland með Jóhannesi Björnssyni, bónda í Flekkudal og að Hurðarbaki. Á svæðinu mátti eiga von á minjum selja og fleiri fornra mannvirkja. Í Jarðabókinni 1703 er þó ekki getið um selstöðu frá Hurðarbaki aðra en þá er nýtt var með Meðalfelli. Þá var og ætlunin að skoða undir hlíð Sanddalsfjalls, milli Eyjadals (Sands) og Flekkudals (Grjóteyrar), en þar eru sagnir um minjar, sem Jóhannes telur að gætu hafa verið selstaða.

Hurðin í Meðalfelli

Í sóknar- og sveitarlýsingum frá fyrri tímum virðist nafnið Kjós aðeins eiga við um dalinn milli Esju og Reynivallaháls. Hins vegar ber þess að gæta, að Kjósarhreppur nær yfir mun stærra svæði, þ.e.a.s. Brynjudal og suðurhluta Botnsdals að norðanverðu en Eilífsdal og eystri hluta Miðdals að suðvestan. Í daglegu tali virðist orðið Kjós notað um Kjósarhrepp allan.
Meginhluti byggðarinnar er þó í hinum forna Kjósardal, eins og svæðið milli Esju og Reynivallaháls er stundum nefnt í fornum textum. Í honum miðjum gnæfir Meðalfell og ber því vissulega nafn sem því hæfir. Í daglegu tali eru nöfnin Laxárdalur og Eyjakrókur eða Krókur (eða Eyjahverfi) notuð um þá tvo hluta, sem Meðalfell skiptir Kjósardalnum í, en þau heiti eru ekki að finna í eldri textum en frá þessari öld. Nú var ætlunin að skoða Hurðarbak í sunnanverðum Laxárdal (norðan Meðalfells) og Sand í sunnanverðum Eyjakrók.
Garður við HurðarbakKjósardalurinn, sem Björn Bjarnarson nefnir svo í sýslulýsingu sinni 1937, er grösugur dalur og frjósamur, undirlendi er mikið, einkum í norðurhluta dalsins, Laxárdal. Hins vegar gerir sr. Sigurður Sigurðsson langa sögu stutta í sóknarlýsingu sinni 1840 er hann segir „landslagið er víða rakasamt” og á það við um landið norðan og sunnan Laxár að miklu leyti þótt bakkarnir og nesin við ána séu víðast hvar góð slægjulönd og hafi ævinlega þótt svo. Á tímum áveitnanna snemma á þessari öld voru miklar slægjur á undirlendi dalsins.
Landnámsmaðurinn á þessu svæði var Valþjófur Örlygsson hinn gamli á Esjubergi er nam Kjós alla, segir Landnáma, og bjó að Meðalfelli. Eftir því sem skýrt er frá takmörkum nágrannalandnámsmanna má sjá að Valþjófur hefur numið landið á milli Eilífsdalsár og Laxár allt upp til fjalla.
Þegar ekið er að Hurðarbaki frá Vesturlandsvegi blasir vestanvert Meðalfellið við, stakt fjall. Vestasti hluti þess heitir Harðhaus. Fjallið er flatt að ofan.
Að norðan við fellið rennur Laxá, ein gjöfulasta laxveiðiá landsins. Hún á upptök sín í Stíflisdalsvatni, en það blasir við til vinstri af Mosfellsheiðinni, þegar ekið er til Þingvalla frá Mosfellsdal. Venjulega er Laxá auðveld yfirferðar. Á henni eru góð vöð, svo oftast er hún lítill farartálmi. En í stórrigningum og leysingum getur komið í hana ofsavöxtur. Þá flæðir hún yfir bakka sína og eirir engu. Árið 1556 fórst Oddur Gottskálksson í henni. Oddur var sonur Gottskálks hins grimma Hólabiskups, sem var nafnkenndur á sinni tíð. En frægð Odds er þó einkum bundin við það að hann þýddi
Nýja testamentið á íslensku fyrstur manna. Í umrætt skipti var Oddur á leið til Alþingis. Sagan segir að hestur Odds hafi hnotið í ánni, og féll Oddur af baki. Hann komst lifandi upp á eyri í ánni, en þegar hann ætlaði að standa upp þvældist kápan fyrir fótum hans, svo hann datt aftur í strauminn og varð það hans bani.
Garður eða hluti áveitu við HurðarbakLandslagið varð til á jökultímanum. Þá gengu miklir skriðjöklar innan frá hálendi til sjávar. Þeir surfu og skófu bergið. Fátt stóðst fyrir þessum heljarkrafti. Þá skreið feiknamikill jökull fram þar sem nú er Hvalfjörður. Annar kom austan að og skildi eftir þann dal sem við höfum verið að skoða í þessari ferð. Meðalfellið veitti það mikla mótstöðu að hann vann ekki á því. Svo komu minni skriðjöklar að sunnan frá hábrún Esjunnar. Þeirra verk eru litlu dalirnir þrír, sem fyrr eru nefndir.
Efst, norðvestan í Meðalfelli, er hurðin mest áberandi, mikill klettastandur. Frá bæjarstæðinu að Hurðarbaki virðist hún hvað tilkomumest.
Jóhannes Björnsson á ættir að rekja til Hurðarbaks. Þegar amma hans keypti jörðina á sjöunda áratug 20. aldra á 3.5 milljónir króna héldu flestir að nú væri gamla konan orðin galin. Húsakostur var lélegur og tún lítil. Hins vegar var jörðin stór, um 230 hektarar, ágæt beit, slægjur góðar og tekjur af laxveiði í Laxá. Sagan segir að bóndinn, sem búið hafði að Hurðarbaki, hafi átt tvær tíkur. Nefndi hann aðra Pólitík og hina Rómantík. Þegar hann var spurður um hvora hann mæti meira kvaðst hann jafnan hafa þótt meira til Rómantíkunnar koma.
Á vefsíðu Örnefnastofnunar Íslands í apríl 2004 segir m.a. um hurðar-örnefni: “Orðið hurð er á nokkrum stöðum sem örnefni hér á landi, t.d. Hurð, sem er hvilft í bergið neðst í Háubælum í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Auk þess er þekkt örnefnið Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla í Eyf. sem lítur út eins og hurð. (Mynd í Afmælisriti Jóns Helgasonar 1969, á móti bls. 431). Sama er að segja um Skessuhurð sem er innan við Höfða í Fáskrúðsfirði í S-Múl.
Skurðgrafa frá fyrri tíð í KjósinniOrðið hurð kemur líka fyrir í örnefninu Hurðarás sem er ás nærri Hellisheiði í Árn. Þegar komið er upp á hann opnast víð sýn um Suðurland; það er eins og opnist þar dyr. En sú samsetning sem er algengust í örnefnum er Hurðarbak. Það er bæði náttúrunafn og bæjarnafn. Um náttúrunafn má nefna þessi dæmi: Í fornbréfi frá 1486 var talað um að Skriða í Reykjadal í S-Þing. “ætti afriett að hurdarbaki”(DI VI:575). Á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum er Hurðarbak snið í hamra. Á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum er Hurðarbak, einnig í landi Ystaskála í sömu sveit. Hurðarbak er kór í landi Varmahlíðar í Holtshverfi, einnig í sömu sveit. Fjaran fyrir neðan Rauðubjörg í landi Hafnar í Skeggjastaðahr. í N-Múl. heitir Hurðarbak. Fleirtalan Hurðarbök eru ásar fyrir austan Geirlandshraun í V-Skaft. Hurðarbak(ur) er nafn á ás í landi Iðu í Árn. Styttri mynd nafnsins var fremur notuð. (Örnefnaskrár).
Um bæjarnafnið Hurðarbak eru þessi dæmi: 1) Í Villingaholtshr. í Árn. (í landamerkjabréfi: Hurðarbakur). 2) Í Kjósarhr. í Kjós. (Annálar 1400-1800). 3) Í Strandarhr. í Borg. 4) Í Reykholtsdal í Borg. 5) Í Hörðudal í Dal. (Bjarnar saga Hítdælakappa, Íslensk fornrit III:164). 6) Í Torfalækjarhr. í A-Hún. Hurðarbak merkir ‘staður/bær í hvarfi’, þ.e. væntanlega frá alfaraleið.”
Tóft við HurðarbakÞegar land Hurðarbaks var skoðað með Jóhannesi var fyrst haldið að gamla bæjarstæðinu. Núverandi bæjarstæði er senni tíma íbúðarhús á suðaustanverðri jörðinni, en eldra bæjarstæðið var uppi í miðri hlíð Meðalfells um miðbik þess. Gamli þjóðvegurinn, sem nú er gróinn, sést enn vel í hlíðinni. Hann lá beint að bænum og síðan upp og niður fyrir íbúðarhúsið, áleiðis að Þorláksstöðum skammt austan við Ásinn, rana, sem kemur út úr Meðalfelli. Íbúðarhúsið var byggt úr steypu á fyrri hluta 20. aldar, en var rifið og jafnað við jörðu um 1990. Nú sjást fá ummerki eftir það og í rauninni erfitt að sjá að þar hafi verið bæjarstæði. Þó móta fyrir grónu ferköntuðu svæði upp á létthallandi stalli í hlíðinni. Skammt norvestan við það hafa verið útihús, einnig jarðjöfnuð. Neðar eru leifar af kartöflukofa úr torfi, en reft hefur verið yfir með bárujárni. Austan við bæinn er hlaðinn mikill steingarður upp fyrir miðja fjallshlíð. Á móts við bæinn hefur lækur grafið undan garðinum svo hann er kominn í hann að mestu að neðanverðu. Nokkru austar eru tóftir útihúss, lítið fjárhús, sennilega hrútakofi og gerði. Vestan undir Ásnum eru tóftir af stóru tvískiptu beitarhúsi með heytóft aftan við. Hlaðinn garður sést eftir miðjum húsunum. Sennilega eru þetta beitarhús frá Hurðarbaki frá því í byrjun 20. aldar.

Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli

Neðan þjóðvegarins eru merkilegar minjar; leifar af áveitu frekar en túngarði. Um er að ræða garð gerðan úr torfi, sem nær niður að Laxá. Á einum stað við garðinn eru leifar af hlaðinni brú yfir keldu. Austan við garðinn virðist vera gömul gata, með svo til beina stefnu að Reynivöllum, þeim gamla kirkjustað. Hurðarbaksfólkið sótti hins vegar kirkju að Meðalfelli og jafnvel Eyjum áður, en heimildir eru um að þar hafi fyrrum verið lítil kirkja. Þó er ekki útilokað að kirkja hafi einnig verið sótt að Reynivöllum í sömu sveit, einkum þegar um var að ræða skírnir, brúðkaup og jarðarfarir. Þarna gætu því verið leifar af gömlu kirkjugötunni frá Hurðarbaki. Jóhannes sagðist jafnan lítið þurfa að bera á slétturnar niður við ána því þær greru vel. Áður fyrr hleyptu bændur ánni yfir slétturnar að vetrarlagi, en af þeim á vorin. Þannig grænkuðu þær fyrr en önnur svæði og því nýtanlegri á undan þeim.
Skurðir, sem þarna voru grafnir um miðmið síðustu aldar, voru grafnir með þeirra tíma skurðgröfum. Leifar af einni þeirra má sjá í sveitinni.
Meðalfellskirkja stóð á Meðalfelli allt til aldamóta 18. og 19. aldar en þá var hún lögð niður og hefur kirkjugarðurinn á Meðalfelli tilheyrt Reynivallasókn síðan. Í garðinum eru nokkur leiði og var síðast jarðsett í honum á níunda áratug síðustu aldar.
Rétt eða leifar selstöðu und Sandsfjalli - uppdrátturGæludýragrafreitur er að Hurðarbaki. Hann var tekinn í notkun sumarið 2003. Þar gefst fólki kostur á að greftra hús- og gæludýr. Sífellt meiri eftirspurn hefur verið um þess háttar þjónustu á síðustu árum þar sem gæludýraeign hefur aukist til muna og ekki eiga allir garð. Að baki núverandi íbúðarhúsi að Hurðarbaki má sjá leifar af hlaðinni rétt.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hurðarbak: “Eigandinn er Meðalfells kirkja. Snjóflóð tók fjós og fénað 1699. Hús jarðarinnar að falli komin. Selstöðu í Meðalfellslandi þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt..”. Um selstöðuna frá Meðalfelli segir einungis: “Selstaða í heimalandi og er þar mótak til eldingar”. Auk þess: “Selvegur erfiður yfir torfæru keldur”. Ekki er minnst á selstöðu frá Sandi, en það var næsta viðfangsefni þessarar ferðar að grennslast fyrir um hana. FERLIR hafði áður farið um Eyjadal, land Sands (sjá meira undir Eyjadalur) og dalina beggja vegna, Flekkudal og Trönudal.
Ætlunin var að skoða svæðið undir hlíð Sandsfjalls milli Grjóteyrar (Flekkudals) og Sands, en ekki vannst tími til að skoða það svæði í fyrrnefndri ferð um Eyjadal. Jóhannes gaf góðfúslegt leyfi til ferðarinnar. Rakin var gömul gata út með hlíðinni. Hún lá að lítilli hlaðinni rétt með leiðigarði og tveimur litlum rýmum. Líklega hefur þarna verið rúningsrétt frá Sandi í skjóli undir gróinni brekku með útsýni heim að Eyjabæjunum og Meðalfelli. Að öllum líkindum hefur þarnaa verið “heimaselstaða” um tíma, mögulega frá Eyjum. Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Eyjum: “Selstöðu á jörðin í heimalandi”. Erfitt er þó að ímynda sér hvar slík selstaða gæti hafa verið annars staðar en þarna. Landamerkin hafa þá væntanlega verið önnur en nú eru, enda munar litlu. Sambærilegar “heimaselstöður” má t.d. sjá að Mógilsá og Úlfarsá.
Loks benti Jóhannes á gömlu réttina norðan við Meðalfellsvatn. Enn sést móta fyrir henni inni á lóð austasta bústaðarins, sem þar er. Hann átti áður Jóhannes í Bónus.  Að göngu lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti að sveitasið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Í Kjósinni – Gunnar Kristjánsson.
-Jarðabókin 1703.
-Kjósarmenn – æviskrár ásamt sveitarlýsingu – Haraldur Pétursson, 1961.
-Örnefnalýsingar fyrir Hurðarbak og Sand.
-Jóhannes Björnsson.
-Mbl. 28. ágúst 1980
-Örnefnastofnun – vefsíða
www.ornefni.is – skoðað 17. nóv. 2007.

Hurðin í Meðalfelli efst til vinstri

Dyljársel

Í “Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II” árið 2010 er fjallað um bæina Hurðarbak, Morastaði, Eilífsdal, Flekkudal, Grjóteyri, Fremri Háls, Valdastaði, Fossá og Skorhaga.

Hurðarbak

Hurðarbak

20 hdr 1705, Meðalfellskirkjueign. JÁM III, 411. 1847: 20 hndr. Bændaeign. JJ, 99. Árið 1397 segir í máldaga Meðalfellskirkju: “a xxc j heimalandi. leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. so gropttur.” DI IV, 115-116. “Snjóflóð féll á bæinn 1699 og tók fjós og fé.” Hannes Þorsteinsson segir nafnið eiga að vera Hurðarbak en ekki Urðarbak eins og áður hafði verið lagt til að væri upprunaleg mynd þess. HÞ: “Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: Selstöðu í Meðalfellsland þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því að búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt geta þó ekki við varað að peningur gángi á Meðalfells og Þorláksstaða engi. Túnin eru merkilega fordjörfuð af snjóflóðum og skriðum, og er fyrir hvörutveggja þessum jafnan yfirhángandi voveiflegur mannháski manna og fjenaðar, gjörist og árlega í næstu 20 ár hjer af mein og skaði, og kostar það ábúendur stórerfiði sjerhvört ár og moka skriður, og hefur landsdrottinn það hingað til öngvu launað. Landþröng hin mesta.” JÁM III, 411. 1840: “Þar er heyskapur allgóður, en mikið lítið beitiland og ekkert mótak.” SSGK, 257. Túnakort 1917: Tún 5,4 teigar, garðar 2.160 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Túnið girti hann [Sveinbjörn Guðmundsson 1906-1939] með netgirðingu. … En sjerstaklega gott verk gerði hann [Gunnar Holm 1939-1946] á Hurðarbaki með því að láta sljetta árbakkana (Laxár) í Hurðarbakslandi og yfirhöfuð engjarnar þar og Hurðarbaksnes, og er svo komið, að engjarnar mestallar að Hurðarbaki eru orðnar vjeltækar og fjótunnar og ná yfir mun stærra svæði en í tíð Sveinbjarnar Guðmundssonar. Gunnar fjekk sjer dráttarvjel til heimilisnota og fjekk hann hana viðeigandi greiðu og með þeim tækjum eru engjarnar að Hurðarbaki ákaflega fljótslegnar. Venjulega eru engjarnar á Hurðarbaki mjög grasgefnar, en Gunnar bar mikið á þær af útlendum áburði og eru þær nú [1949] í fremstu röð. Einnig bætti hann heimatúnið allmikið og stækkaði það nokkuð.”
Gamli bæjarhóllinn á Hurðarbaki er norðan undir Múlafjalli um 500 m VNV við núverandi íbúðarhús á jörðinni og um 3,6 km norðaustan við bæinn Flekkudal. Bærinn er að mestu leiti í eyði þó nýlegt íbúðarhús sé á jörðinni og landið sé að hluta nýtt sem hagi fyrir hesta. Jörðin Hurðarbak er nú (2009) í eigu ábúenda Efri-Flekkudals. Á þessu svæði er sléttaður, grasigróinn hagi fyrir hross. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Fór hún [brúðkaupsveislan] fram [28. nóvember 1902] í nýju timburhúsi litlu, sem reist hafði verið sumarið áður og var Stefán Hansson yfirsmiður. Hafði þar áður verið gömul og mjög ljeleg baðstofa, en portbyggð. Niðri var lítið stofuhús. Í hinu nýja húsi var herbergi í báðum endum uppi á lofti, en portið mjög lágt. Þótti þetta samt á þeim tímum hin bezta híbýlabót. Nokkrum árum síðar var steypt utan um húsið og það lengt dálítið til austurs með skúr. Útihús voru mjög léleg á Hurðarbaki á þeim tíma og voru fjárhúsin þá vestan við svonefndan Þorláksstaðaás. En vegna þess, að þau þóttu of langt frá bænum, voru þau rifin niður og flutt heim á túnið vestast. Þar var þá byggð heyhlaða við fjárhúsin og stendur hvort tveggja enn, en hlaðan endurbætt og ný fjárhús byggð við með góðum viðum í tíð Gunnars Hólm [1939-1946, sjá einnig Kjósarmenn], … Nokkru bætti hann húsin á Hurðarbaki, sjerstaklega fjárhúsin, kom sjer upp vinnuherbergi til að geta unnið að húsgagnabólstrun heima, breytti nokkuð íbúðarhúsinu og byggði dágott fjós í stað hins eldra.” Alveg er búið að slétta úr bæjarhólnum en Hurðarbak fór í eyði um 1973. Erfitt er því að sjá nokkurn greinilegan bæjarhól en hann hefur trúlega verið að minnsta kosti um 65 m á lengd, um 35 m á breidd og snúið VNV-ASA. Nú (2009) virðist hann aðeins um 1-3 m á hæð í grasigróinni brekku sem hallar um 20-30° í NNA. Samkvæmt Pétri Lárussyni, heimildamanni og bónda í Káranesi, var tvíbýli að Hurðarbaki á tímabili og kemur fram í bókinni Ljósmyndir I að þar bjuggu frændur, Sveinbjörn Guðmundsson frá Valdastöðum og Benedikt Einarsson í sama húsi frá árinu 1906 fram til ársins 1939. Samkvæmt Pétri var að Hurðarbaki steinsteypt hús með bárujárnsþaki þegar bærinn fór í eyði 1973 en mjög líklegt er að hér sé um sama hús að ræða og byggt var fyrst sem timburhús árið 1901. Reiðingur var í þaki til einangrunar og líklega einnig í veggjum.
Steinsteypan var gróf þar sem hún var drýgð með stórum steinum. Húsin að Hurðarbaki voru jöfnuð við jörðu um 1990 en núverandi íbúðarhús er trúlega byggt í kring um eða eftir 1980.

Morastaðir

Morarstaðir

16 hdr 1705, konungseign. JÁM III, 389. 1847: 16 hndr. Kirkjueign. JJ, 99. 1705: “Landþröng er mikil. Skriður spilla úthögum. Hætt er peníngi fyrir fornum torfgröfum.” JÁM III, 389-390.
Túnakort 1917: Tún 3,2 teigar, að mestu slétt, garðar 600 m2. Í bókinni Ljósmyndir eftir Halldór Jónsson segir: “Þegar Einar [Jónsson] byrjar búskap [1908] á Morastöðum, hefir hann tjáð mjer, að túnið hafi gefið af sjer 120 hesta, en nú [1949] með nýræktinni um eða yfir 500 hesta, er bezt lætur. Er nú Morastaðatúnið að mestu orðið sljett og vjeltækt. Meir en helmingur af ræktuðu landi er nú túnauki, gerður í tíð þeirra feðga. … Þegar Einar kom að jörðinni, voru engar girðingar til, en nú er túnið girt með netgirðingu og nokkuð af engjum, röskir tveir kílómetrar.”
Gamli bærinn á Morastöðum var um 1,1 km ASA við Kiðafell og fast norðan og norðvestan við núverandi íbúðarhús á jörðinni. Þar sem gamli bærinn stóð áður stendur nú (2009) nýlegt timburhús og sléttað malarplan norðan og vestan við húsið. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir um bæinn á Morastöðum: “Hann [Einar Jónsson afi Bergmanns heimildamanns, á Morastöðum frá 1908-1946] keypti jörðina, rjeðst í stórframkvæmdir, en maðurinn bjartsýnn og stórhuga, byggði steinsteypt íbúðarhús í stað gamla bæjarins, steinsteypta heyhlöðu og fjós, steinsteyptar votheyshlöður, kjallara undir fjósinu fyrir áburðinn og stórbætti túnið og færði það út … Þegar Einar kom að Morastöðum, var þar eftir sögn hans heyhlaða með torfveggjum, er tók um 180 hesta heys. Nú [1949] er steinsteypt hlaða fyrir um 500 hesta og lítil hlaða með veggjum úr torfi og grjóti fyrir 70-80 hesta. Votheyshlöður hafa verið og gerðar á Morastöðum fyrir 150-200 hesta miðað við þurrhey. … Ýmsar fleiri framkvæmdir hafa verið gerðar á Morastöðum, steypt stórt hænsnahús og hesthús og settur upp setuliðsskáli til geymslu.” Ekkert er eftir af gamla bænum sem uppi var áður en steinsteyptu húsin sem lýst er hér að ofan voru byggð og enginn skýr bæjarhóll er greinanlegur á svæðinu. Hluti steinsteyptu húsanna stendur ennþá (2009) um 30 m VNV við núverandi íbúðarhús. Við austurenda íbúðarhússins á Morastöðum virðast vera leifar af hleðslugrjóti eða vegghleðslum svo ekki er ólíklegt að leifar af bæjarhól finnist einnig undir sverði austan við hús og undir malarplani. Bærinn stóð í brekku sem hallar um 10-20° í SSV á hjalla sem er um 30 m breiður, um 5 m hár og liggur austur-vestur í fjallshlíðinni norðan við Miðdalsá. Samkvæmt túnakorti frá 1917 hefur bærinn verið um 30-40 m langur og trúlega hefur verið gengið inn að sunnanverðu. Núverandi íbúðarhús hefur trúlega verið byggt ofan í kálgarð.

Eilífsdalur

Eilífsdalur

20 hdr. 1705, Eilífsdalskot 1/4 jarðarinnar 1705 þá í byggð. JÁM III, 399, 400. 1690: 20 hdr. jörðin seld fyrir 60 hdr í lausafé. Jarðabréf, 21. Í Kjalnesinga sögu segir: “Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvágs ok Botnsár ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. … Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á Þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á Tindsstöðum ok þar hverjum, sem honum þótti fallit vera.” ÍF XIV, 3. Nafnið Eilífsdalur kemur fyrst fyrir um 1220 í máldaga Saurbæjarkirkju: “[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. oc æilifsdals ar. nema af eyri. oc vr myrdal. ef þar bua landeigendr. þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. en ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. ef þav giora skiptingar tiund;” DI I, 402. 1352: Á Reynivallakirkja lambahöfn í Eilífsdal. DI III, 70-71.
1468: Landamerkjabréf milli Eilífsdals og Mýdals. DI V, 516. [1478]: Á Reynivallakirkja lambabeit í Lambatungum í Eilífsdal. DI VI, 178-179. 1847: 20 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
1705: “Engið er fordjarfað af skriuðum, en túnin brjóta árlega tvær ár, sem hjá þeim falla, er og háksi af þessum hvorutveggjum skaða jafnlega. Sandfjúk grandar ogso túnunum.” JÁM III, 401. Túnakort 1917: Tún 5,4 teigar, garðar 540 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: Engir voru kartöflugarðar í Eilífsdal, er hjer var komið sögu [1899-1912]. Kvað Oddur [Andrjesson], að reynt hafi verið að rækta kartöflur, en eigi lánazt vegna þess, hve jarðvegur er leirborinn þar sem til var sáð, og meiri hætta á næturfrostum þar í fjallakví að heita mátti. Fyrir allmörgum árum [texti skrifaður 1949] hefir þó verið hafizt handa í Eilífsdal um kartöfluræktun, en nokkuð fjær bænum, og gefizt yfirleitt allvel, enda í betri jarðvegi fyrir þann jarðargróða en heima við bæinn. … Í tíð Þórðar Oddssonar [1912-1941] var túnið girt með netgirðingu, en á árinu 1946 endurbættu bræðurnir [Oddur og Þorkell Þórðarsynir] girðinguna og stækkuðu hana, þannig, að hún nær um tún og engjar og er þa ð gott og mjög þarft verk.”
Gamli bærinn í Eilífsdal var um 3 km suðvestan við Flekkudal, um 320 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á jörðinni og um 100 m vestan við Dælisá. Við bæjarhólinn eru gömul steinsteypt útihús sem reist voru upp úr 1920, malarborin hestagirðing og grasigróin sléttuð tún og hagar.
Útihúsin eru nú (2009) notuð sem hesthús. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir m.a.: “Mjög voru byggingar ljelegar í Eilífsdal, er hjer var komið sögu [um aldamótin 1900], fornleg baðstofa, nokkuð stór, með glugga á báðum endum, aðrar byggingar voru eftir þessu, eiginlega á fallandi fæti.” Þar segir einnig: “Tók þá [1912] við búi Þórður Oddson, … Búa þau [Þórður og kona hans] í Eilífsdal, þangað til synir þeirra tveir, …, taka við búi árið 1941, … Á síðari búskaparárum Þórðar Oddssonar var byggt laglegt íbúðarhús úr steinsteypu í Eilífsdal, heyhlöður tvær, votheyshlöður tvær og fjárhús við aðra heyhlöðuna. Var heimahlaðan steypt.” Bæjarhúsin sem sýnd eru á túnakorti frá árinu 1917 hafa verið fast sunnan og suðaustan við steinsteypt útihúsin sem byggð voru rétt fyrir, eða í kring um, árið 1940. Samkvæmt lýsingu Halldórs Jónssonar hafa þau verið byggð eitthvað fyrir aldamótin 1900. Á þessu svæði er aðeins ógreinilegur sléttaður og hálf grasigróinn bæjarhóll sem er um 80 m á lengd, um 50 m á breidd og 1-3 m á hæð. Hóllinn snýr austur-vestur og er hann hæstur þar sem gömlu útihúsin standa. Ekkert sést til fornleifa vegna sléttunar en mjög líklegt er að fornleifar finnist undir sverði.

Eilífsdalskot

Eilífsdalur

Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 segir: “Jarðardýrleiki xx c. Er jörðin sundurdeild í tvö býli, og er afbýlið kallað Eilífsdalskot, fjórðúngur jarðarinnar.” Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var Eilífsdalskot um 265 m NNV við bæjarþyrpingu og var heimatúnið 40-140 m norðan við Kotá og 30-230 m vestan við Dælisá. Mjög líklega er þetta sama kot skráð í bókinni Kjósarmenn undir nafninu Eilífsdalshjáleiga en þar var búið að minnsta kosti frá árinu 1681 fram til ársins 1740. Á svæðinu þar sem bærinn og kálgarðurinn stóðu eru útihús og hlaða úr bárujárni og timbri á steinsteyptum grunni. Útihúsin eru á sléttum hjalla utan í grasigrónum mel. Hjallinn hefur verið grafinn að hluta inn í hlíðina en brekkan umhverfis útihúsin hallar 20-45° í suður.Austar þar sem útihúsin stóðu breytist landslagið í grófan en frekar flatan malarkamb sem er gróinn mosa og grasi hér og þar. Samkvæmt Huldu Þorsteinsdóttur, heimildamanni, hefur Vegagerðin tekið mikið af efni til vegagerðar af þessu svæði og hefur því verið mjög raskað í gegnum árin. Á túnakort frá árinu 1917 eru merkt inn tvö hús í heimatúni. Túnið umhverfis kotið var 0,9 teigar, og þar var einn kálgarður 110 m2 að stærð. Eins og áður sagði var kotið, A, teiknað um 265 m NNV við bæjarhól Eilífsdals. Kálgarður C var um 5 m vestan við kotið.
Útihús B voru svo samkvæmt túnakorti um 135 m ANA við kot A. Á vettvangi virðist það þó ekki mögulegt miðað við stöðu Kotár og Dælisár. Útihús B var við vettvangsskráningu staðsett ofan við ármótin þar sem Kotá og Dælisá mætast eins og sýnt er á túnakorti en sá staður er ekki nema um 115 m norðaustan við kot A. Hugsanlegt er að kot A hafi þá staðið lengra í burtu frá bæ suðvestar en útihúsin. Þá er ekki ómögulegt að leifar finnist undir malarveginum niður að útihúsunum eða undir sverði í grasigrónum hrossahaga suðvestan við veginn þó ekkert sjáist á yfirborðinu. Einnig er mögulegt að árfarvegirnir hafi breyst síðan 1917 vegna uppmoksturs úr Dælisá og efnistöku á svæðinu og útihúsin því verið um 20 m ANA en þau voru skráð. Ekkert sést til fornleifa á þessum slóðum vegna
rasks.

Flekkudalur (enn efri)

Flekkudalur

40 hdr 1705, þá tveir bæir (sjá GK-340:001 og GK-340:017). JÁM III, 403. 1483: Jarðarinnar getið í sölubréfi, þá kaupir Margrét Vigfúsdóttir 10 hdr í Flekkudal, þá í Reynivallakirkjusókn, DI V, 800. 1847: 40 hndr. Bændaeign. Í Jarðatali Johnsens segir einnig: “Báðir Flekkudalir eru þángað til 1802 taldir saman. Prestur nefnir Efri- og Neðri-Flekkudal, með 1 ábúenda hvorn, en sýslumaður 1 Flekkudal, einsog líka prestur, Grjóteyri, sem engin jarðabók getur um, en máske er það sama sem jarðabækurnar kalla Neðri-Flekkudal, hvarámóti prestur að líkindum aðgreinir býlin á Flekkudal sjálfum (enum efri), í Efri- og Neðri Flekkudal, því sýslumaður telur 1 Flekkudal 25 h., en Grjóteyri 15 h. Að dýrleika, alls 40 h., einsog jarðabækurnar.” JJ, 100. 1705: “Hætt er fyrir skriðum og snjóflóðum bæði húsum og túni. Á brýtur engjar og tún og ber grjót yfir til stórmeina. Hætt er fyrir foruðum og dýjum.” JÁM III, 403. 1840: “… hefir fallegt tún, ekki mikið ummáls, engi nokkuð til hlítar og veitiland á dalnum um sumar, en minnni útbeit vetrar.” SSGK, 257. Túnakort 1917: Tún 5,5 teigar allt slétt, garðar 1000 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Er Guðni [Ólafsson 1935 til a.m.k. 1949] að bæta jörðin, með stækkun og umbótum á túninu og með uppþurrkun með skurðgröfu með fyrirhugaða frekari túnrækt.”
“Í túninu, þar sem húsin eru nú, hét Hjálmur, en gamli bærinn var, þar sem nú eru fjárhúsin,” segir í örnefnaskrá Flekkudals. Í örnefnaskrá Grjóteyrar og Flekkudals segir einnig um Flekkudalsbæina: “Í Grjóteyrarlandi, vestan Flekkudalsár veit ég um þessi nöfn: Tutlutættur þar mun fyrsti Flekkudalsbærinn hafa verið byggður, og jarðirnar þá eitt býli, mun það nafn frá ofanverðri 19. öld, hét fyrr Neðri-Flekkudalur og Flekkudalur, Efri-Flekkudalur. Um 1840 var Neðri-Flekkudalur fluttur austur fyrir Flekkudalsá og fékk sá bær nafnið Grjóteyri, en kotbýli verið um skeið í Neðri-Flekkudal sem fékk þetta heiti. Þegar undirritaður fluttist að Grjóteyri 1905 gekk Grjóteyrartúnið vestan ár undir nafninu Tutlutún, móarnir neðan þess Flekkudalsmóar.” Gamli bærinn í Flekkudal var um 570 m suðvestan við Flekkudal (enn neðri) (nú Grjóteyri) og um 100 m vestan við núverandi íbúðarhús í Flekkudal Efri þar sem áður hét Hjálmur. Leifar af bæjarhól eru við rætur Paradísarhnúks (fjallsrætur Esjunnar) neðst í grasigróinni brekku sem hallar um 10-20° í norðaustur. Á þessu svæði eru aðeins gömul, steinsteypt útihús og hlaða og sléttaður grasigróinn bæjarhóll. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Mikið gerði Ólafur [Einarsson bóndi í Flekkudal 1895-1935] að húsabótum og talsvert, að jarðabótum. Um aldamótin [1900] var mjög ljeleg baðstofa í Flekkudal, bekkbyggð, en í hennar stað byggði hann íbúðarhús úr steinsteypu, og þó það sje engan veginn gallalaust, var það mjög mikil bót frá því sem var, einnig allstóra heyhlöðu við íbúðarhúsið fyrir töðuna, og fjós og hesthús, einnig úr steinsteypu, allt áfast hvert öðru og svo hlöðu fyrir útheyskapinn og fjárhús við.” Samkvæmt Guðnýju G. Ívarsdóttur, heimildamanni, var syðri hluti gömlu útihúsanna í Flekkudal sem enn eru uppistandandi eitt sinn hluti af gamla bænum. Veggir þeirra eru steyptir úr mjög grófri grjót- og malarsteypublöndu líkt og var í íbúðarhúsinu að Hurðarbaki. Steypt var með stórum grjóthnullungum til að drýgja steypuna. Húsið var með timburþaki og þremur burstum og var fjósið 002 eins byggt. Guðný vissi ekki hvenær húsin voru byggð en ef tekið er mið af túnakorti frá árinu 1917 virðast þau þegar hafa verið byggð þá. Líklegt er að þau hafi verið byggð um eða rétt eftir aldamótin 1900 þegar Ólafur Einarsson var bóndi eins og segir hér að ofan. Bærinn brann 1949 en þá var byggt aftur ofan á hann og honum breytt í hlöðu. Fjárhús voru svo steypt fast norðan við hlöðuna og nýtt íbúðarhús byggt á Hjálmi. Á ljósmyndum í eigu Guðnýjar frá því kring um 1925 má sjá að grjóthleðslur eru á milli steyptu húsanna (burstanna) líkt og í torfbæjum og var grjóthlaðin stétt fyrir framan húsið. Aðeins sést girðing umhverfis kálgarða 008. Búið er að raska bæjarhólnum mjög mikið en hann hefur verið um 60 m á lengd, um 50 m á breidd og snúið norðvestur-suðaustur. Aðeins eru greinanlegar leifar eftir af hólnum sunnan við gamla bæinn (hlöðuna) og þar er hann sléttaður, grasigróinn og 1-2 m á hæð. Hóllinn er ávalur vegna sléttunar en ekki er þó ólíklegt að fornleifar leynist þar undir sverði.

Getið er um mögulegt sel 

Flekkurdalur

Flekkudalur – mögulegt sel….

“Þegar kemur austur fyrir Bláberjagil, heitir Stekkur, og þar innar er lækur, sem heitir Borgagil [Borg er náttúruleg klettaborg ],” segir í örnefnaskrá. Austan við Bláberjagil á Stekk eru hvorki meira né minna en fimm tóftir. Tvær þeirra eru hér skráðar saman þar sem þær voru nálægt hver annarri og keimlíkar í útliti. Tóftirnar eru á svæði sem er um 480 m norðvestan við bæjarhól 001 ofan (suðvestan) við malarveg sem liggur norðvestur-suðaustur niður að sumarbústað við Meðalfellsvatn. Tóftirnar eru í þýfðum grasi- og mosagrónum móa í brekku sem hallar 5-10° í norðaustur við rætur Esju. Tóftirnar tvær eru á svæði sem er um 80×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Fremri Háls (Litli Háls)

Fremri-Háls

12 hdr 1705. Eyðibýli 1705 voru Sauðafell, Möngutóftir (Margrétarkot) og Hulstaðir. JÁM III, 418. 1847: 12 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
Hannes Þorsteinsson: Fremri-Háls réttnefni. HÞ:”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: “Túnin eru stórlega fordjörfuð af skriðum og enn hætt við meiri skaða bæði bænum og túnum, mönnum og fjenaði. Engjar öngvar í vissum stað, nema hvað slegið er vítt og dreift í heiðarlandi, og þó ekki í sama stað nema annaðhvört ár. En þær engjar, sem áður voru og nær liggja bænum, eru harnær eyðilagðar af skiðum og leir. Þverá, sem hjá túninu rennur, er kölluð Hálsá, brýtur túnið og ber grjót á. Hætt er bænum fyrir snjóflóði, og hefur það oft yfir fallið, so legið hefur við húsbroti.” JÁM III, 418. 1840: “Heyskapur er erfiður og reytingslegur, en landrými mikið og gott, helzt um sumartímann, vetrarþungt.” SSGK, 256. Túnakort 1917: Tún 6,8 teigar, að mestu sléttað, garðar 950 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Nokkrar umbætur hafa verið gerðar á túni jarðarinnar í Jóns tíð [á tímabilinu 1927-1949] með hjálp dráttarvjelar.”
Gamli bæjarhóll að Fremri-Hálsi var um 50 m SSA við núverandi íbúðarhús á jörðinni. Á þessu svæði eru malarplan og nýleg útihús og hlöður, steinsteypt og bárujárnsklædd. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Á Fremra-Hálsi voru í tíð þeirra hjónanna [Einars Ólafssonar og Jóhönnu Þorsteinsdóttur 1908-1922] ákaflega aumleg bæjarhús og síhrörnandi. Var þar loftbaðstofa og stofuhús lítið undir baðstofu, … Þegar Jóhanna fór frá Fremra-Hálsi, hófu þar búskap hjónin Sveinbjörn Jónsson … og Jónína Guðmundsdóttir … en þangað fluttu þau vorið 1922. Voru þessi hjón þar þangað til vorið 1927, …
Voru þessi hjón ákaflega dugleg bæði og efnahagur þeirra góður. Þau rifu eldri bæjarhúsin og byggðu bekkbaðstofu, sem var ólíku betri verustaður en gamla baðstofan. … Þegar þessi hjón fara frá Fremri-Hálsi, koma þangað hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Eyvindsdóttir [frá 1927 til dauðadags eða þar til Ingibjörg Jónsdóttir heimildarmaður tók við búi (?).] … Hefir Jón komið sjer upp allgóðu íbúðarhúsi [einhvern tíman á árunum 1927-1949, trúlega á fyrrihluta þessa tímabils]. Er það byggt úr steyptum steinum og hefir hann komið þar fyrir olíukyndingu. … Heyhlaða allgóð hefir verið byggð þar í hans tíð einnig [fyrir 1949].” Lítil sem ekkert er að sjá eftir af bæjarhólnum en samkvæmt túnakorti frá 1917 hefur hann verið að minnsta kosti um 60 x 60 m að stærð. Búið er að slétta allt svæðið í malarplan og byggja hlöðu og útihús úr bárujárni og timbri á steyptum grunni. Fast suðvestan og ofan við hlöðurnar er um 2 m hátt grasigróið barð sem hugsanlega gæti falið leifar bæjarhóls en ekkert sést þó á yfirborði. Búið er að bera möl í þetta svæði en ekki er óhugsandi að leifar finnist undir sverði. Fyrir árið 1927 var vatn fyrir heimafólk og skepnur tekið úr bæjarlækjunum og borið heim að bæ.

Heimild er um sel við Sauðafell

Fremri-Háls

Fremri-Háls; mögulegt sel við Sauðafell[skot]…

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: “Selstöðu á jörðin í heimalandi.” Þar segir einnig: “Saudafell hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi, bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda, áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið. […] Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru nú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. Er þar nú selstaða frá Hálsi.” Í örnefnaskrá Fremri-Háls segir svo frá: “Hálsá á upptök sín í Tjarnhólum, rennur eftir Seldal og áfram vestur með hlíðinni, sem síðar er nefnd, rennur skammt austan við bæ og út í Laxá. […].
Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.” Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: “Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel.” Sauðafell er um 2,1 km SSA við bæ 001 við sunnanvert mynni Seldals stutt frá austurbakka Hálsár og fast vestan við sléttað tún á Selflóa. Tóftirnar eru í þýfðum lyngi- og grasigrónum móa.

Valdastaðir

Valdastaðir

30 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. Munnmæli um að bænhús hafi verið á jörðinni. 1237 er jarðarinnar getið í Sturlungu. Sturlunga saga I, 406. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja kastar skurð í landi jarðarinnar. DI III 70-71; DI IV, 116-117; DI VI, 178-79. 1705 er forn eyðihjáleiga í túninu og einnig nefnd þar Bollastaðir sem forn lögbýlisjörð sem Valdastaðir og Neðriháls GK-352 hafa haft afnot af. JÁM III, 428. 1847: Kirkjueign. 30 hndr. JJ, 100. 1705: “Túnin liggja undir skriðum og so engið, og jafnlega verði fyrir þeim skaða, spillist og nokkuð ár frá ári. Landþröngt er heldur en ekki, og stendur jörðin á horni landsins.” JÁM III, 428. 1840: “… þar er tún í betra lagi, engi nokkuð, lítið beitarland og stopul vetrarútbeit, vantar mótak …” SSGK, 255. Túnakort 1917: Tún 8 teigar, meirihluti sléttað, garðar 1900 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Þegar Guðmundur byrjar búskap á Valdastöðum [1875], var allt túnið kargaþýft. Tók hann brátt að sljetta það. Fyrstu áhöldin við túnasljettun voru torfljáir til ofanafristu og skófla. Vildi ganga illa að láta bitið haldast í ljánum í malarjarðvegi, eins og víða er í túnum undir Reynivallahálsi. … Þá var talið, að túnið hafi gefið af sjer að meðaltali árlega um 120 hestburði. Allt var þá ógirt, bæði tún og engjar. Síðan girti hann tún og að nokkru leyti engjar, mest með grjótgörðum. Þegar hann hætti búskap [1908], mun túnið hafa gefið af sjer um 300 hestburði, þá var það orðið mikið sljett, en ekki þó nærri allt. … Árið 1944 var talið, að túnið fóðraði um 20 nautgripi, 15 hross og 250 sauðfjár, en síðan hefir það verið stækkað að mjög miklum mun.

Valdastaðir

Valdastaðir og nágrenni.

Nokkuð löngu áður en Guðmundur hættir búskap, var farið að nota ávinnsluherfi, eða nálægt aldamótum, en kerran kemur til sögunnar töluvert síðar. Sláttuvjel var næst fyrst farið að nota á Valdastöðum nálægt árinu 1928 og rakstarvjel nokkru seinna. Af ræktuðu landi fengust árið 1944 um 600 hestburðir.”
Það hús sem merkt er inn á túnakort frá árinu 1917 var timburhús byggt í kringum aldamótin 1900. Nú eru tvö íbúðarhús á Valdastöðum. Samkvæmt Ólafi Þ. Ólafssyni, heimildamanni, var gamli bærinn um 25 m ANA við vestara íbúðarhúsið á Valdastöðum og um 20 m norðan við það eystra. Líklega voru eldri bæir á svipuðum stað. Á þessu svæði er sléttað malarplan, steinsteypt gamalt fjós og bárujárnsklædd nýleg viðbygging. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson og Kjósarmenn eftir Harald Pétursson (ártal) segir: “Á Valdastöðum bjuggu um aldamótin merkishjónin Guðmundur Sveinbjarnarson og Katrín Jakobsdóttir. … Þá [1877] hóf hann [Guðmundur] búskap á allri jörðinni. Hafði áður verið tvíbýli og jafnvel þríbýli á Valdastöðum.” Í Kjósarmenn segir einnig: “Guðmundur átti heima í Kjós frá 11 ára aldri, fyrst í Eyrarkoti hjá Steina Halldórssyni og fluttist með honum að Valdastöðum [Austurbær] 1868, og þar átti hann heima síðan. Guðmundur hóf búskap á Valdastöðum 1875 í sambýli við Jakob tengdaföður sinn, en tók algerlega við hálflendunni í fardögum 1877, en hinni hálflendunni (vesturbænum) bætti hann við býli sitt 1882 og bjó upp frá því í einbýli á Valdastöðum til 1908, en þá brá hann búi og seldi jörðina sonum sínum tveimur. Þótt hann léti jörðina af hendi hafði hann þar fénað (sauðfé og hross) fram á elliár, stóðu fénaðarhús hans í aukatúni, þar sem nú standa Grímsstaðir.” Ekkert sést til fornleifa eða bæjarhóls vegna sléttunar og bygginga. Gamli bærinn sem merktur er inn á túnakort frá árinu 1917 var byggður í kringum aldamótin 1900. Samkvæmt Ólafi Þ. Ólafssyni heimildamanni var gamli bærinn timburhús á tveimur hæðum með grjóthlöðnum kjallara. Húsið var einangrað með heyi og grjóthleðslur í kjallara voru styrktar með steypu. Kjallarinn var undir öllu húsinu en þar var fyrsta eldhúsið í húsinu ásamt kartöflugeymslu, geymslu, búri, miðstöðvarherbergi og baðherbergi. Eftir að eldhúsið var flutt upp á jarðhæð var komið upp þvottahúsi í kjallara. Gengið var inn í kjallarann að sunnan verðu en einnig tengdu tveir timburstigar allar hæðirnar inni í húsinu. Þegar gengið var inn í kjallarann var komið inn í stórt herbergi sem var fyrst eldhús en seinna þvottahús.
Beint á móti innganginum var búrið en að austan verðu voru geymsla, miðstöð og bað. Í vesturenda kjallara var svo kartöflugeymslan. Á jarðhæð voru tvær íbúðir. Í íbúðunum voru tvö eldhús, tvær stofur, tvö svefnherbergi, gangur og búr. Hægt var að ganga inn í húsið að sunnaverðu og kom maður þá inn á ganginn. Austan við ganginn sem lá norður-suður í gegn um allt húsið var svefnherbergi að norðanverðu fjær inngangi en stofa að sunnanverðu nær honum. Vestan við ganginn voru eldhús að norðan og svefnherbergi að sunnan. Vestan við eldhúsið var svo annað eldhús en vestan við svefnherbergið stofa. Búr var svo í norðvesturhorni hússins vestan við eldhúsin. Einnig var hægt að ganga að utan inn í vestari stofu og búr að vestanverðu. Upp úr 1965 voru svo baðherbergi og forstofa byggð við húsið vestanvert en fyrir þann tíma var klósettið í kjallaranum. Á annarri hæð var ris með kvisti. Fjögur herbergi voru uppi, tvö í kvisti. Gengið var upp stiga upp á framloftið en þar var gangur og geymsluloft undir súð. Í austur- og vesturendum var sitt hvort herbergið og svo tvö herbergi á milli þeirra í kvisti sunnan við framloftið. Ekki er ólíklegt að leifar eldri bæja leynist undir malarplani. Til gamans má geta að þetta hús var notað í fyrstu leiknu talmynd á Íslandi, “Milli fjalls og fjöru”, eftir Loft Guðmundsson og er hægt að fá meiri upplýsingar um hana hjá Kvikmyndasafni Íslands. Húsið brann árið 1974. Í bókinni Ljósmyndir I segir svo um húsakost á Valdastöðum: “Snemma hóf Guðmundur húsbætur á Valdastöðum. Fjenaðarhúsin voru til og frá um túnið, en allt hey geymt heima í heygarði [staðsetning óþekkt]. Smám saman færði hann fjenaðarhúsin saman og síðar byggði hann heyhlöðu fyrir töðuna heima [003] og mun hún ein hin elzta í Kjósinni. Einnig byggði hann stóra og allvistlega baðstofu, eftir því sem þá gerðist, með kjallara undir. Mun baðstofan hafa verið 12 álna löng. Nokkru eftir aldamót, eða árið 1904, byggði hann íveruhús úr timbri, 12.10 álnir með íbúð í risi og kjallara undir. Var yfirsmiður Guðmundur Þórðarson, hreppstjóra á Neðri-Hálsi. Síðan hefir húsinu verið talsvert breytt og það stækkað að allmiklum mun.”

Fossá

Fossá

16 hdr 1705. JÁM, 436. 1847: 16 hndr. Bændaeign. JJ, 101. “Seljadalur: þar var búið fram til 1921. Á 17.öld sölsaði Reynivallaprestur undir sig Seljadal, en Fossá átti hann áður. Vindás átti þar líka sel, þess vegna er dalurinn kenndur við fleiri en eitt sel.” Ö-Fossá ath og viðb., 3 1840: “… ekki er hér heyskapur mikill, en hagkvisti gott og útigangur um vetur; partur norðan af Seljadal báðum megin liggur undir þessa jörð.” SSGK, 255. Túnakort 1917: Tún 5,9 teigar, mest sléttað, garðar 800 m2. Í bókinni Ljósmyndir I segir svo: “Um aldamótin, eða laust eftir þau, tekur við búi á Fossá Ólafur Matthíasson, … Um aldamótin mátti segja, að túnið á Fossá væri sljett að einum fjórða hluta, sumt af því af náttúrunni. Ólafur Matthíasson gerði mikið að því að sljetta túnið, auðvitað með hinum gömlu aðferðum og höndum sínum. … Árið 1939 fara bræðurnir Helgi og Björgvin Guðbrandssynir … að búa á Fossá og hafa búið þar síðan [skrifað 1949]. … Hafa þeir bætt túnið mjög mikið og haft til þess not af dráttarvjel. Eru báðir gefnir fyrir sauðfje og hafa mestmegnis haft þar sauðfjárbú og alifugla, en vegna veiki í sauðfjenu eru þeir farnir að leggja meiri rækt við að fjölga kúm og eru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur og flytja hana með mjólkurbílum, er flytja af Hvalfjarðarströnd. … Einnig áttu þeir, sem Skorhaga og Þrándarstaðamenn, rjett til reka fyrir landi jarðarinnar og fengu þeir mikið efni með þeim hætti, og gott, að því skapi.”
Bærinn Fossá er um 470 m sunnan við þjóðveg í Hvalfirði og um 240 m vestan við ána Fossá.
Land Fossár er nú skógræktar- og útivistarsvæði en samkvæmt minningargrein Björgvins Guðbrandssonar bónda á Fossá í Morgunblaðinu frá árinu 1988 og heimasíðum Skógræktarfélaga Kjósarsýslu og Kópavogs seldi Björgvin jörðina Skógræktarfélögum Kjósarsýslu og Kópavogs árið 1972, en hafði sjálfur ábúðarrétt á henni á meðan hann vildi búa.
Bæjarhóllinn er í sléttuðu graslendi við suðausturenda túns sem teygir sig til norðvestur frá bæ í átt að þjóðvegi 47. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Um aldamótin var á Fossá mjög ljeleg baðstofa og önnur bæjarhús af því skapi, baðstofan þröng og lítilfjörleg og einkum, er fjölskyldan stækkaði, en Ólafur [Matthíasson, bjó á Fossá 1899-1928] ljet reisa þar steinsteypt íbúðarhús, og var það talsverð híbýlabót, þótt þetta hús væri engan vegin svo vandað sem æskilegt hefði verið. Steypan reyndist illa. Fjekk nú þetta hús rækilegar umbætur á árinu 1946. Einnig reisti Ólafur heyhlöðu með járnþaki. … Árið 1939 fara bræðurnir Helgi og Björgvin Guðbrandssynir frá Hækisdal að búa á Fossá og hafa búið þar síðan. …
Þessir bræður hafa gert varanlegar umbætur á íbúðarhúsinu, einnig byggt heyhlöðu áfast því og fjós, hesthús og fleira, og vel byggð og stæðileg fjárhús með áfastri heyhlöðu. Var þeim mikil hjálp í því að gera fengið ódýrt timbur og járn, er setuliðið var farið, og eitthvað hjá því. … Enga votheystóft er til á Fossá til þessa [1949].” Búskaparár Ólafs hér að ofan fengust í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson.
Bæjarhóllinn er ávalur og sporöskjulaga, um 45 m á breidd, um 50 m á lengd, 2-3 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Gamalt steinhús stendur enn norðvestan í hólnum en ekki er vitað nákvæmlega hvenær það var byggt. Út frá lýsingum í Ljósmyndir I og Kjósarmenn hefur það verið byggt á tímabilinu frá 1899-1928. Öll önnur hús á hólnum hafa verið sléttuð svo ekkert sést til þeirra lengur. Samkvæmt Inga Steinari Ólafssyni, heimildamanni, voru torf- og grjóthlaðin fjós, hlaða og hesthús sem reft var yfir vestan við íbúðarhús á bæjarhól en hann treysti sér ekki til að gefa frekari lýsingu á þeim. Þessi útihús hafa trúlega verið fjarlægð þegar Helgi og Björgvin bæta húsakostinn á Fossá.

Í heimildum segir frá Dys ofan Fossár 

Gíslagata

Dysin.

“Fyrir framan Rauðsmýri og Stóradal eru Sperribrekkur, og fossinn fremst í þeim, við veginn, heitir Mígandi. Skammt fyrir framan Míganda, við þjóðveginn, er Dys, samanb. þjóðs,” segir í örnefnaskrá. Dysið er um 1,7 m sunnan við bæjarhól 001 fast vestan við vegslóða 026 og um 50 m norðan við Míganda. Dysin er milli tveggja lítilla lækja. “Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn [026] vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt.” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins segir: “Austan götunnar [Gíslagata] á landamerkjum Reynivalla og Vindáss eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld.” Dysið er 6-8 m hár náttúrulegur sporöskjulaga mosagróinn klettur sem er grýttur í toppinn. Ekkert sést til mannvirkja.

Gíslagata

Dysin.

Samkvæmt séra Gunnari Kristjánssyni sóknarpresti á Reynivöllum er hér um munnmæli frekar en þjóðsögu að ræða og benti hann skráningarmanni vinsamlegast á umfjöllun um Magnús Sighvatsson í Kjósarmönnum en Magnús var bóndi á Fossá frá árinu 1728 til dánardags 1779. Þar segir m.a.: “Um hann [Magnús] hefur margt misjafnt verið sagt og ritað, enda var hann óvinsæll og sagður misindismaður, en ekki sést af dómabókum sýslunnar að hann hafi sætt opinberum ákærum eða verið dæmdur til refsingar, má því telja víst að ýmsar af sögum þeim er af Magnúsi gengu hafi fremur verið sprottnar af óvinsældum hans en illverkum. T.d. segir ein sagan þannig frá að Magnús hafi verið á ferð með síra Einari Illugasyni á Reynivöllum (d.1758), hafi Magnús ráðizt á prestinn, drepið hann og síðan rænt líkið miklu fé. Hið sanna um dauða prests er, að hann var í kaupstaðarferð og reið kófdrukkinn frá lest sinni og samferðarmönnum, síðan hafi hann fallið af baki í Svínaskarði og annar fótur hans orðið fastur í ístaði hnakksins og hesturinn dregið prest áfram. Þannig leikinn fannst prestur dauður (Sjá ennfr. Annál Sæmundar lögrm. Gissurarsonar). Um peningahvarf af líki síra Einars geta hvorki annállinn né aðrar samtímaheimildir.” Út frá þessu má ráða að Dauðsmannbrekkur séu frekar nefndar eftir slysadauða prests frekar en illverkum Magnúsar. Ekki er þó hægt annað en að velta því fyrir sér hvers vegna Magnús hefur verið stimplaður sem illmenni og hvort einhver fótur var fyrir sögunum.

Getið er um Gvendarbrunn
“Gvendarbrunnur er í læknum er rennur vestan við þjóðveginn, móti Míganda,” segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er sagður vera í lítilli lækjarsprænu um 1,65 km sunnan við bæ og 20-30 m NNA við Dys. Nákvæm staðsetning hans er ókunn. Lækurinn sem um ræðir er náttúrleg lækjarspræna sem rennur fast norðan og norðvestan við Dys og þaðan í norðaustur niður í Fossá. Lækurinn rennur í grýttum farvegi sem er ekki nema 0,2-0,5 m djúpur og 0,5-1,5 m breiður á þessum slóðum. Bakkar lækjarins eru grónir grasi, mosa og lyngi og mjög lágir. Vatnið er tært og svalandi. Ekkert sést til fornleifa.

Skorhagi (Múli)

Skorhagi

10 hdr. 1705. Eyðibýlið Þórkötlustaðir nefnt 1705. JÁM III, 441. Jörðin hét áður Múli og er Múla getið í máldaga Reynivallakirkju frá 1352. DI III, 70-71. Múla er getið í landnámu en þar bjó Refur hinn gamli sonur Þorsteins landnámsmanns í dalnum. Þar segir: “Hvamm-Þórir nam land millim Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalr er við kenndr; … Son Þórólfs smjors var Solmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjorgu kotlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðastrond; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfús Elliða-Grímsson.” ÍF I, 57, 59 (H18 og H19). Hannes Þorsteinsson: telur að jörðin hafi áður heitið Skorrhagi. HÞ:”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi” Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: “Tún jarðarinnar brýtur Brynjudalsá. Engjunum spilla skiður, og hefur bærinn fluttur verið fyrir þann skuld, að skriður eyðilögðu hin fornu tún að ofan, en áin að framan.” JÁM III, 442. 1840: “… hér er heyskapur lítill, en góður útigangur vetur og sumar.” SSGK, 254. 1917: Tún 2,8 ha (meira en 1/2 þýft), garðar 729 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: “Nokkrar umbætur hefur Júlíus [Þórðarson 1922-1951] gert á túninu í seinni tíð. Litlir matjurtargarðar eru í Skorhaga og hefir bú þeirra hjóna jafna verið lítið og mjög treyst á beit með sauðfje. Kýr hafa verið þar fáar.”
Gamli bærinn í Skorhaga er um 2 m norðan við nýlegt steinsteypt íbúðarhús á jörðinni, um 210 m norðan við Brynjudalsá og um 1,3 km vestan við Þrándarstaði. Samkvæmt Séra Gunnari Kristjánssyni á Reynivöllum lést síðasti bóndinn í Skorhaga árið 1992 og lagðist þá niður búskapur. Gamli bærinn stendur enn á grasigrónu sléttlendi umkringdur húsagarði og sléttuðum túnum. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir svo um Skorhaga: “Vorið 1922 kemur að Skorhaga Júlíus bóndi Þórðarson … Í tíð þessara hjóna hefur verið byggð björt og hæfilega rúmgóð baðstofa, er það pallbaðstofa og allrúmgott eldhús við hlið hennar. Er þessi bygging með torfveggjum, en járnþaki, einnig hafa þau reist heyhlöðu litla með járnþaki [sjá 002]. Þeir feðgar hafa einnig reist geymsluhús úr timbri og fjárhús rjett við bæinn.” Í Skorhaga standa tvö íbúðarhús á um 20 m löngu og um 15 m breiðu svæði sem snýr norður-suður. Enginn bæjarhóll er greinilegur en þó má vera að leifar af eldri bæjum leynist undir sverði á svipuðu svæði og núverandi íbúðarhús eins og lýsing í bók Halldórs Jónssonar gefur til kynna, þar sem útihús var áður. Hugsanlegt er að mikill bæjarhóll hafi ekki náð að myndast á þessum stað þar sem heimildir segja frá því að bærinn hafi áður verið innar en verið færður utar í dalinn eitthvað fyrir 1600 vegna skriðufalla. Svæðið í kring um íbúðarhúsin hefur mjög líklega verið sléttað. Húsið er timburhús á tveimur hæðum sem er um 6 m á lengd, um 5 m á breidd og snýr norður-suður.
Þetta hús er nú (2009) notað sem geymsla. Á jarðhæð voru 3 (-4) herbergi og 2 uppi á lofti undir súð. Húsið er bárujárnsklætt timburhús. Steinsteyptur skorsteinn er sunnan við ás í miðju þaki og er þakgluggi eða kvistur um 0,4 m vestan við skorsteininn. Gengið er inn að vestan við suðvesturhorn hússins. Dyr hafa einhvern tíma einnig á austurhlið rétt sunnan við miðjan vegg en þeim hefur nú (2009) verið lokað og bárujárn neglt yfir. Ekki var hægt að fara inn í húsið en því virðist skipt í 3 herbergi niðri og 2 uppi í risi. Stiginn upp á loft er í austurenda húss fyrir miðju. Samkvæmt Sigurlaugu Júlíusdóttur, heimildamanni, voru 5 herbergi á neðri hæð þegar hún bjó í húsinu. Samkvæmt henni voru á neðri hæð stofa, eldhús, búr inn af eldhúsi, geymsla/herbergi og klósett. Tvö svefnherbergi voru uppi á lofti og er kvistur á því vestara á meðan gengið er upp stigann inn í hið eystra. Dyr eru á milli herbergja í miðju húsi. Þarna sváfu 2-3 manns í tíð Sigurlaugar. Húsið er mjög illa farið og þarfnast viðhalds. Nákvæmt byggingarár er ekki þekkt en líklegast er hér ekki um fornleif að ræða þar sem lýsingin á bæjarhúsunum í Skorhaga í Ljósmyndir I eru frá árinu 1949 og eiga greinilega við eldri bæjarhús í Skorhaga nema grjótveggirnir hafi verið fjarlægðir og járn sett í staðinn á seinni hluta 20.aldar.

Sagt er frá tóftum sels í landi Skorhaga

Múlasel

Múlasel í landi Skorhaga.

“Vestur af klettum er Seldalsholt, og þar vestur af er Seldalur,” segir í örnefnaskrá. Tvær ógreinilegar tóftir eru um 860 m VNV við bæ 001 og um 245 m norðaustan við Maríuhelli, fast suðvestur undir Seldalsholti. Á þessu svæði er frekar deigt graslendi. Um 4 m norðaustan og norðan við tóftirnar er um 1,5 m hár náttúrulegur grasigróinn bakki. Tóftirnar eru á um 30 löngu og um 20 m breiðu svæði í Seldal sem snýr austur-vestur. Tóft A er lítið annað en um 12 m langur og um 8 m breiður sporöskjulaga hóll sem snýr NA-SV. Hæð hólsins er 0,4-0,8 m. Engin greinanleg hólf eru greinileg í hólnum lengur. Um 20 m austan við tóft A undir náttúrulegum bakka er tóft B. Tóft B er einföld, um 5 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr austur-vestur. Innanmál hennar er 3 m á lengd og um 2 m á breidd. Veggir hennar eru mjög signir og grónir. Breidd þeirra er 2-3 m og hæð þeirra 0,4-0,6 m. Norðurveggur tóftarinnar er náttúrulegur bakki. Enginn inngangur er sjáanlegur. Tóftirnar virðast mjög fornar.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II: Hurðarbak, Morastaðir, Eilífsdalur, Flekkudalur, Grjóteyri, Fremri Háls, Valdastaðir, Fossá og Skorhagi. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2010.

Múlasel

Múlasel – uppdráttur ÓSÁ.