Kristjánstangi – Andrésarborg
Kristjánstangi skagar út í Vogavíkina sunnan Voga. Ofan hans er tjörn sem gengur inn úr Síkinu svonefnda. Kallast hún Síkistjörn. Ofan við tjörnina er hesthúsahverfi.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Voga segir m.a. um þetta svæði: „Nú er að halda áfram með sjó og neðan við þjóðveg. Þegar komið er inn fyrir Brekkulón er þar tangi sem heitir Kristjánstangi þar var einnig útgerð áður fyrr. Inn í þennan tanga, tvö smávik inn í fjöruna, þau eru nafnlaus, nema af sjó hafa þau nöfn og eru þá nefnd Litla-Molda og Stóra-Molda. Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin. Tangi gengur fram af Kristjánstanga og heitir þar Svartiklettur, er það eins með hann og Moldurnar að hann heitir það af sjó en öðru nafni heitir hann Brimarhólmur og sker fram af honum heitir Brimarhólmstangar en þarna eru nokkur sker. Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll. Innan við Síkið og Kristjánstanga tekur við svonefndur Vogasandur.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir: „Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör. Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu.“
Á aðalskipulags-uppdrætti Voga er örnefnið Andrésarborg ofan við Kristjánstanga. Einu tóftirnar sem þar sjást er hlaðin gróin gerði á hól og hlaðin smátóft. Niður undir bakkanum, skammt sunnar, má sjá hringlaga hleðslur, sem sjórinn hefur verið að taka til sín smám saman, og a.m.k. tveir garðar út frá henni og utan hennar skammt suðvestar. Þegar Viktor Guðmundsson, Vogamaður nr. 1, var spurður um nefnda borg, svaraði hann: „Andrés í Nýjabæ var með hænur í tóttunum á hólnum. Andrésarborg var tóttin kölluð. Hvaðan borgarnafnið er komið veit ég ekki.“
Viktor hafði vísað FERLIR á hringlaga gerðið framan við Kristjánstanga sem og veggina, sem þar eru og hleðslur lítillar tóttar sem stendur undan bakkanum. Beint neðan við hana er gömul vör; Kristjánstangavörin. Þegar umhverfið er skoðað gagnrýnum augum er augljóst að landið hefur tekið verulegum breytingum á umliðnum öldum og áratugum. Bæði hefur sjórinn verið að brjóta smám saman af ströndinni og auk þess hefur landið lækkað þarna frá því sem áður var. Fyrrnefndur Brimahólmur hefur áreiðanlega verið landfastur sem og Svartiklettur.
Ljóst er að á Kristjánstanga var útræði á tímum árabátanna, áður en útgerð hófst í Hólminum (Hólmabúðum) framan við Brekku undir Stapanum. Litlar heimildir eru hins vegar til um útgerðina þar, líkt og reyndar um aðra sambærilega útgerðarstaði á Reykjanesskaganum.
Vogaréttin fyrrnefnda var, að sögn, þar sem fiskeldisstöðin skammt sunnan Kristjánstanga er nú. Henni hefur nú verið raskað með öllu. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvaða hlutverki leifarnar undan Kristjánstanga hafa þjónað fyrrum. Hringlaga gerðið, ca. 9 m í ummál, hefur verið vandlega hlaðið. Neðsta steinaröðin sést enn. Veggbreiddin hefur verið um 1 1/2 m. Út frá því hefur legið garður til suðvesturs og annar samhliða honum sunnar. Þarna gæti hafa verið geymslusvæði innan gerðisins tilheyrandi útgerðinni og garðarnir þurrkgarðar, en þarna gæti samnefnd Vogarétt einnig hafa verið fyrrum og nefndar Moldir þá verið tvö smávik framar í fjörunni. Þegar horft er á umhverfið þeim augum er slíkt alls ekki útilokað.
Hvað sem framangreindu líður er ljóst að ástæða er til að skoða Kristjánstangann og minjanar þar mun nánar. Augljóst er að verulegar minjar kunna að leynast undir sandinum ofan strandarinnar þegar tekið er mið af þeim minjum sem þegar sjást í sjávarmálinu.
Frábært veður. Gangan tók 25 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Voga.
-Viktor Guðmundsson.