Krýsuvík – jarðfræði
Í Krýsuvík eru alsnægtir jarðfræðiáhugafólks – jarðhiti, ísaldarmyndun fjalla, jökulsorf og bergmyndanir í ólíklegasta formi, Má þar nefna bólstraberg, móberg og hnyðlinga, að ónefndum einsökum bergmyndunum í norðanverðu Bæjarfelli.
Einhverju sinni skrifaði spakmælt dóttir föður sínum, eftir að hún hafði farið til framhaldsmenntunar í fjarlægðri heimsálfu, eftirfarandi: „Sæll pabbi minn, fór í heimsókn og bar úr bítum lús. Tók eftir því er ég lagðist í rúmið mitt um kvöldið. Segja má því að nú sé ég loksins komin í skóla lífins“. Það má sama hæti segja að enginn jarfræðingur eða áhugamaður/-kona um jarðfræði hafi numið í skóla lífsins fyrr en hann/hún hafi skoðað og gaumgæft Krýsuvíkursvæðið.
Jarðfræðiskóli lífsins er því í Krýsuvík. Þar má sjá með eigin augum ferðalög efnis og áfangastaði þess um allnokkurn tíma, afleiðingar jarðskjálfta og eldsumbrota og þar má auðveldlega geta sér til um hvert framhaldið kann að verða.
Í Krýsuvík er ágætt dæmi um ker, þ.e. sprengigíg með lágum gígrima og þar sem nær eingöngu koma upp gosgufur. Oft er og stöðuvatn í slíkum gígum. Ker þetta er Grænavatn.
Ker, sem á vísindamáli kallast maar, verða til við gufusprengingar á sívalri gosrás þegar eingöngu gýs gosgufum og bergmylsnu sem rifnað hefur úr gosrásinni. Oft er sprengikrafturinn svo mikill að upphleðslan verður lítil sem engin á börmunum. Kerin eru yfirleitt svo djúp að þau ná niður fyrir grunnvatnsborð og vatn safnast því fyrir í gígnum að gosi loknu.
Strangt tiltekið fellur líklega enginn íslenskur sprengigígur undir þessa skilgreiningu því þeir hafa flestir gosið gjósku eða hraunspýjum úr ferskri kviku. Grænavatn í Krýsuvík kemst því líklega næst því að kallast ker. Í þennan flokk er einnig venja að flokka gígvötnin í Veiðivötnum, Ljótapoll og Hnausahyl. Heiti sitt dregur þessi gerð eldfjalla af Kerinu í Tjarnarhólum í Grímsnesi sem lengi vel var líka talið til þeirra þó síðar hafi komið í ljós að það er venjulegur gjall- og klepragígur sem hraun hefur runnið frá.
Grænavatn er einnig ágætt dæmi um svonefnd gígvötn.
Hnyðlingar eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins eins og til dæmis í hrauninu í Hrólfsvík austan Grindavíkur. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.
Þekktur fundarstaður gabbróhnyðlinga á Íslandi eru t.d. við Grænavatn í Krýsuvík og Miðfell og Mælifell við Þingvallavatn. Greina má ólivín (grænt) og plagíoklas (grár) í hnyðlingnum á myndinni auk þess sem greinilega má sjá næstum hvítan hvarfarima á milli hnyðlings og grannbergs. Riminn er svo til eingöngu úr plagíóklas sem hefur vaxið hornrétt á hyðlingana.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.
Hverasvæðin í Krýsuvík hafa um aldir haft mikið aðdráttarafl. Stærsti leirhver landsins er í Krýsuvík og þar má reyndar finna flest allt er prýtt getur slík svæði. Fjölbreytnin er ótrúlega mikil. Brennisteinn var m.a. unninn á svæðinu á 19 öld. Hverasvæðunum er gerð skil í annarri umfjöllun á vefsíðunni.
Helstu skjálftasvæðin á Íslandi eru tvö. Á Suðurlandi er jarðskjálftasvæði sem nær eftir Reykjanesskaga um Ölfus og
Suðurlandsundirlendið austur að Heklu. Úti fyrir Norðurlandi er annað skjálftasvæði. Það nær frá mynni Skagafjarðar og austur að Melrakkasléttu. Á báðum þessum svæðum eru þverbrotabelti með þvergengjum á Atlantshafshryggnum. Á Suðurlandi er vinstra sniðgengi en hægra sniðgengi úti fyrir Norðurlandi.
Vegna ármilljóna langrar sögu af jarðskjálftum og jarðummyndunum á svæðum sem Reykjanesinu þarf enginn í raun að hafa áhyggjur. Ef eithvað áhugavet gerist verður að án efa einhverjum, og jafnvel fleirum, til framdráttar. Eldgos hér á landi hafa ávallt orðið til að auka við landið, sem náttúruöflin hafa reynt að brjóta niður með einum eða öðum hætti. Sjórinn nagar strandirnar, jöklar, vindur og vatn sverfa fjöll og hlíðar og ár og lækir reyna að fletja út bakka og fjallshlíðar.
Lúsin kemur og hverfur. Það gera fjöllin einnig – jafnvel þótt þau virðist tilkomumikil um stund.