Krýsuvík – Magnús Ólafsson
Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarnar kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogósum þjónaði Krýsuvíkur prestakalli (margar sögur fara af síra Eiríki í Vogósum og göldrum hans).
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938). Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvik sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.
„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.
Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík, þar sem hann dvaldi í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Þóra bjó með Magnúsi í vestri enda Nýjabæja ásamt öðru vinnufólki á bænum. Þegar elsta barn (Ólafur Magnússon) þeirra hjóna var komið á skólaaldur flutti Þóra búferlum til Hafnarfjarðar. Magnús unni sér hins vegar ekki í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þóra bjó eftir sem áður í Hafnarfirði og heimsótti hún ásamt börnum sínum Magnús í Krýsuvík. Hún var atorkusöm kona sem bjó við lítil efni, en kom börnum sínum í gegnum skólagöngu og til mennta með sóma.
Þóra var dugleg kona og nýtin, börn þeirra hjóna komust vel á legg og skorti ekki andlega næringu né líkamlega. Hún kenndi börnum sínum að njóta lífsins án þess að þurfa mikið af veraldlegum gæðum. Frú Þóra gat gert veislumat úr hverju sem var og var þakklát fyrir góða heilsu og þá reynslu sem að lífið gaf henni. Gestir voru ævinlega velkomnir og bauð frú Þóra ævinlega til borðs er gesti bar að garði þótt efni hafi verið lítil.
Sonur þeirra hjóna, sem er yngstur, Þorvarður Magnússon, varð húsasmiðameistari í Hafnarfirði og kvæntist Áslaugu Einarsdóttur klæðskeradóttur í Hafnarfirði.
Þorvarður Magnússon, sonur Magnúsar einbúans í Krýsuvík. Hann vinnur sem húsasmíðameistari í Hafnarfirði.
Þorvarður kveðst ekki hafa búið með foreldrum sínum á Nýjabæ enda yngstur systkina sinna sem komin voru á skólaaldur er hann fæddist. Hann heimsótti þó föður sinn í Krýsuvík þegar að hann bjó á bænum og einnig í kirkjunni. Þorvarður man ekki mikið frá Nýjabæ enda var hann kornungur þegar faðir hans bjó enn þar. Bærinn lagðist í eyði árið 1938 og var Þorvarður einunigs 11 ára gamall þá.
Hann heimsótti hins vegar föður sinn í kirkjuna í Krýsuvík og man eftir henni og hvernig faðir hans bjó. Einsetumaðurinn í Krýsuvík var því fjölskyldumaður þó svo að hann hafi kosið að búa fjarri mannabyggðum. Þorvarður man eftir fátæktinni sem var á þessum árum, atvinnuleysinu og hvað húsakostur var misjafn eftir efnum manna. Faðir hans var vinnumaður allt sitt líf og þekkti ekki annað.
Húsasmíðameistarinn í Hafnarfirði, Þorvarður Magnússon, segir frásögnina rétta sem er í bókinni „Landið er fagurt og frítt“, sem að var gefinn út árið 1944 og er rituð af Árna Óla og gefin út Bókafellsútgáfunni. Í bókinni er viðtal við einbúan í Krýsuvík.
Sjá meira HÉR.
Heimildir m.a.:
-http://nemendur.khi.is/annaher/index.htm