Krýsuvík – messa
Eftirfarandi grein skrifaði Hrafnkell Ásgeirsson í Morgunblaðið eftir að hafa setið messu í Krýsuvíkurkirkju árið 2000. Innihaldið gefur ágætar upplýsingar af sögu svæðisins. Á fyrri hluta tuttugustu aldar lagðist kirkjusókn í Krýsuvík niður og var kirkjan afhelguð á árinu 1929. Hrafnkell Ásgeirsson segir hér frá messu í Krýsuvíkurkirkju.
„Á HVÍTASUNNUDAG, 11. júní sl., sóttum við hjónin messu í Krýsuvíkurkirkju. Hér var um að ræða upphaf árþúsundaverkefnis Hafnarfjarðarbæjar. Prestur var síra Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfjarðarkirkju.
Presturinn skýrði frá því að skv. ákvörðun þjóðminjavarðar hefði verið fest upp mynd í kirkjunni af Birni Jóhannessyni, velgjörðarmanni kirkjunnar, eins og komið verður að hér á eftir og hengd yrði upp eftir vetrarsetu altaristafla, máluð af Sveini heitnum Björnssyni, listmálara og rannsóknarlögreglumanni í Hafnarfirði. Þá hefði kirkjunni verið afhent frá móðurkirkjunni í Hafnarfirði biblía, skrautrituð af Ingólfi P. Steinssyni, tengdasyni Björns Jóhannessonar.
Kirkjan var þéttsetin enda ekki stór. Þegar ég leit yfir hópinn gerði ég mér grein fyrir að stór hluti kirkjugesta voru afkomendur síðustu ábúenda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hjónanna Kristínar Bjarnadóttur og Guðmundar Jónssonar. Þau voru mikið dugnaðarfólk, eignuðust 18 börn, eitt lést í æsku en öll hin 17 komust til manns. Eiginmaðurinn tók sjálfur á móti mörgum barnanna í fæðingu enda ekki um marga íbúa að ræða í sveitinni. Þegar þau brugðu búi á fyrri hluta síðustu aldar fluttust þau til Hafnarfjarðar og flest barna þeirra fluttust einnig til Hafnarfjarðar.
Á mínum yngri árum vann ég með nokkrum sona þeirra hjóna í fiski. Þetta voru dugnaðarmenn sem höfðu frá ýmsu að segja. Ég var í barnaskóla og Flensborg með nokkrum barnabörnum þeirra hjóna og þetta var hörkunámsfólk.
Kirkjan var byggð árið 1857, smiður var Beinteinn Stefánsson, afi Sigurbents heitins Gíslasonar, byggingarmeistara í Hafnarfirði, sem bjó lengst af við Suðurgötuna, en sá endurbyggði kirkjuna. Á fyrri hluta tuttugustu aldar lagðist kirkjusókn í Krýsuvík niður og var kirkjan afhelguð á árinu 1929.
Þegar ég sat í kirkjunni kom mér í hug að eftir afhelgun kirkjunnar notaði Magnús Ólafsson í Hafnarfirði, faðir byggingarmeistaranna Ólafs og Þorvarðar Magnússona, kirkjuhúsið sem íverustað. Ekki var þar mikið rými fyrir sex manna fjölskyldu.
Björn Jóhannesson, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, var mikill hugsjónamaður. Hann helgaði líf sitt verkalýðs- og bæjarmálum í Hafnarfirði. Hann hafði næmt auga fyrir því sem ekki mátti farga og var reiðubúinn að leggja sinn skerf fjárhagslega til þess þótt hann hafi aldrei verið neinn efnamaður.
Ég nefni þar aðeins tvö dæmi: Varða hafði lengi staðið á Ásfjalli og sást hún vel frá Hafnarfirði. Einhverra hluta vegna hafði varðan fallið. Beitti hann sér fyrir því að smala saman hópi manna til þess að leggja fram fé til að endurhlaða vörðuna og fékk síðan hagleiksmann til verksins. Björn sagði að það vantaði stórt í ásýnd bæjarins þegar varðan væri ekki til staðar.
Á sjötta áratug síðustu aldar fékk Björn heimild bæjaryfirvalda í Hafnarfirði til þess að endurbyggja kirkjuna í Krýsuvík en Krýsuvík var þá orðin eign Hafnarfjarðarbæjar. Kostaði hann sjálfur endurbyggingu hennar og réð smiðinn Sigurbent Gíslason, mikinn völundarsmið, til verksins.
Fórst Sigurbent verkið vel úr hendi eins og vænta mátti. Kirkjan var síðan endurvígð 31. maí 1964 af þáverandi biskupi, Sigurbirni Einarssyni, að viðstöddu fjölmenni og var þá um leið afhent þjóðminjaverði til varðveislu.
Að lokinni messu neyttu kirkjugestir súpu í Krýsuvíkurskóla þar sem nú er unnið merkt og fórnfúst starf.
Vinnustofa Sveins heitins Björnssonar listmálara í Krýsuvík var þennan dag opnuð almenningi. Kirkjugestir skoðuðu vinnustofu Sveins undir leiðsögn sona hans. Sveinn lést árið 1997 og var grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Það var friðsæl og hátíðleg stund á hvítasunnudag í kirkjunni í Krýsuvík.“
Heimild:
-Hrafnkell Ásgeirsson, mbl.is, Laugardaginn 1. júlí, 2000.