Straumur

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021” fyrir Hvaleyri og Straum segir:

“Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta (bærinn er frá 1777).

Hvaleyri er ein af elstu bújörðum í Hafnarfirði og sýndi fornleifarannsókn, sem Dr. Bjarni F. Einarsson gerði árið 2005, að þar væru minjar sem hægt var að segja með 95% öryggi að væru frá tímabilinu 780-980 (líklega voru minjarnar frá því um 900) og að landnámsbýli megi finna á Hvaleyri eða Hvaleyrarholtinu.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

Elstu heimildir um Hvaleyri er að finna í Hausbók Landnámu en þar segir frá því að Hrafna Flóki hafi fundið hval á eyri einni og kallað hana Hvaleyri. Í Jarteinabók var Teitur bóndi
sagður búa á Hvaleyri 1300-132511 og árið 1395 var Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr.12 Þá sagði í vitnisburði Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja.

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 sagði að á Hvaleyri hafi verið hálfkirkja og embættað þaðan þrisvar á ári. Þá var jörðin í konungseign og jarðadýrleikinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum. Þá var landskuldin eitt hundruð sem greiddist með sex vættum fiska í kaupstað, sem áður greiddist til Bessastaða. Til forna hafði landskuld verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Jörðin átti selstöðu þar sem hét Hvaleyrarsel, þar voru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrísrif var nokkurt á jörðinni en þegar Jarðabókin var skrifuð var það að mestu eytt en að öðru leyti hafði jörðin hrísrif til eldiviðar í almenningnum og til kolagerðar.

Hvaleyri

Hvaleyri 1942. Hermannvirki áberandi.

Torfrista og stunga var í lakasta lagi og nærri ónýt en lyngrif, fjörugrastekja og rekavon var nokkur. Jörðin gat nýtt bæði hrognkels- og skelfiskfjöru og heimræði var allt árið um kring og lending góð og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum. Þá var sagt að túnin spilltust af sandágangi, engar engjar fylgdu jörðinni og vatnsból var ekki gott en það þraut bæði vetur og sumar. Þá var hjáleigan Hvaleyrarkot, sem var byggð eftir að hafa verið í eyði svo lengi sem menn mundu, aftur komin í eyðu fyrir þrem árum, þ.e. árið 1700.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á þau. Mikill lausamosi var í túninu og hélt það áfram að skemmast, árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefur eingöngu verið landskemmdunum að kenna.
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og var líklegt að það var ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust.16 Í Jarðatali Johnsens frá 1847 segir í skýringum að árið 1803 séu á Hvaleyri fjórar byggðar hjáleigur: Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir. Í jarðatalinu fær Hvaleyri númerið 168, þar segir að jörðin hafi verið í bændaeign, dýrleikinn var 20 hundruð, landskuldin var 0,100, kúgildin voru 2 og eigandinn var einn.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Árið 1815 keypti Bjarni riddari Sívertsen jörðina af konungi og síðan keypti Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna. Jón Illugason seldi svo jörðina til Jóns Hjartarsonar í Miðengi í Árnessýslu og við andlát Jóns tók ekkja hans, Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri. Þórunn gaf svo Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar árið 1868.
Jörðin var svo seld séra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870 og gaf hann jörðina til stofnunar alþýðu- og gagnfræðiskólans Flensborg í Hafnarfirði árið 1881.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði og var einn við Hvaleyrartjörn, hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þeim tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi Breta var á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1972.

Vitað er með vissu hvar síðasti Hvaleyrarbærinn stóð en hann var rifinn í kringum 1970 og líkur eru taldar að hann hafi verið nokkurvegin á sama svæði í gegnum aldirnar.
Þó er ekki hægt að staðsetja hvar kirkjan með kirkjugarði hefur staðið og ekki hægt að sjá það í landinu í dag. Í heimildum segir að kirkjan hafi staðið norður af Hvaleyrarbænum án þess að það sé staðfært eitthvað nánar. Hvaleyrarkirkju var fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar af kirkjunni og gripum hennar: í eldri lýsingunni frá 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum, sem þýðir að hún var á bilinu 5,7 – 6,8m að lengd og 2,85–3,4m að breidd.
Hvaleyrarbænum og svæðinu í kring var lýst í Örnefnalýsingu Hafnarfjarðarlands:

Hvaleyri

Hvaleyri – Hvaleyrarbærinn. Baðhús h.m.

„Hvaleyrarbærinn stóð í miðju Hvaleyrartúni, rétt norðan við byggingu fjóss og hlöðu er þar var reist 1916. Bærinn stóð þar á hrygg er lá sunnan úr holtinu. Hvaleyrartraðir lágu í suður frá bænum að Hvaleyrartúngarði. Túngarðurinn lá austan eða neðan frá tjörn vestur og niður undi sand og norðvestur í Hvaleyrarkletta. Traðargarðurinn eystri og vestri lágu meðfram tröðunum. Sunnan frá Traðarhliði lá þríhyrnd túnskák norður að Brunngötunni er nefndist Pétursvöllur með Pétursvallagarði. Suðurvöllur er utan hans og sunnan. Hestasteinninn stóð á hlaðinu. Hvaleyrarfjárhúsin stóðu hjá Bæjarhólnum nyrðri. Bæjarhólarnir voru gamlir öskuhaugar. Sandbrekknatún lá niður frá Túngarðinum vestri og skiptis í Sandbrekknatúnið syðra og nyrðra. Kirkjugarðurinn var norður frá bænum til hliðar við fjárhúsin.“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann þar heila mannsbeinagrind með föður sínum þegar hann var unglingspiltur í kringum 1890. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru svo grafin aftur ofar í túninu.23 30 árum seinna, eða um 1925, fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörskoti á Hvaleyri. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi að ekki væri þörf á því að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu en þau voru grafin í kirkjugarði Hafnarfjarðar.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var að til ársins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekinn í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsum sem stóðu í Vesturkoti.

Hvaleyri

Hvaleyri – leifar skotbyrgis.

Mikið hefur verið átt við landslagið á Hvaleyri vegna golfvallarins, það hefur verið sléttað og átt við það vegna ýmissa framkvæmda og flest ummerki um byggðina sem áður var horfin. Þessvegna verður að sýna fyllstu varúð við allar framkvæmdir sem þar eiga sér stað en stutt getur verið niður á fornminjar.
Enn sjást þó nokkur ummerki um byggðina, túngarðar og útihúsatóftir, og veita þessar minjar góða, en brotakennda, sýn á hvernig lífshættir voru á Hvaleyri á fyrri öldum.
Ummerki eftir breska herinn, ýmis skotbyrgi og skotgrafir, flokkast undir stríðsminjar og eru enn vel sjáanlegar, t.d. er uppistandandi þvottahús frá stríðsárunum mjög áberandi í landslaginu, og ætti að varðveita þessar minjar.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Á Hvaleyrarhöfða er að finna stóran stein og nokkrar klappir með áletrunum, bæði rúnir og latínustafir, sem voru friðlýstar árið 1938.25 Jónas Hallgrímsson var líklega fyrstur til að rannsaka klappirnar árið 1841 og vildi hann eigna Hrafna-Flóka og skipshöfn hans elstu risturnar í klöppunum og hefur stærsti steinninn verið kallaður Flókasteinn (2202-7) síðan.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.

Kristian Kålund minntist á Hvaleyri í drögum að staðsögulýsingu Íslands árið 1877 og sagði þar að hægt væri að lesa ártölin 1628 og 1777. Kålund sagði einnig að „almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar.“27 Sigurður Skúlason minntist einnig á steinana í Saga Hafnarfjarðar og sagði hann steinana vera fjóra talsins. Á fletinum á Flókastein sá hann ártölin 1657 (á þrem stöðum), 1673, 1681, 1697 og 1781, auk þess að sjá töluna 87 sem gæti annaðhvort þá verið 1687 eða 1787.

Hvaleyri

Leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Á hliðum steinsins sá hann einnig þessi ártöl: 1678, 1681, 1707 og 1723, auk þess stóð þar A 81, A 91 og 17C. Leiddi hann að líkum að þar var verið að meina Anno 1681, Anno 1691 og 1700.28 Ómögulegt er að segja hversu gamlar risturnar á klöppunum eru með vissu en líklegt þykir að ártölin sem rist hafa verið á þær á þeim árum.
Eitt flak var skráð á vettvagni við vestanverðan Hvaleyrarhöfða. Líklega er þetta flak Fjarðarkletts GK 210. Skipið var smíðað í Svíþjóð 1946 úr eik og hét fyrst Ágúst Þórarinsson SH 25. 1953 keypti Fiskaklettur H/f skipið og nefndiþað Fjarðarklett. Eldur kviknaði í skipinu skammt út af Eldey árið 1967 og skemmdist skipið mikið við það en sökk ekki, eftir það lá skipið lengi í höfn í Hafnarfirði og endaði svo daga sína með því að það var brennt út af Hvaleyri og rak þaðan í land. Árið 1970 var skipið talið ónýtt og tekið af skrá.
Samkvæmt 3. grein laga um menningarminjar teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 sem fornminjar.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Straumur er ein af svonefndum Hraunajörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar var getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumsel – hús skógavarðar.

Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.

Straumssel

Straumssel.

Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:

Markhella

Markhella – áletrun.

Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi [Markhellu].

Fremstihöfði

Fremstihöfði – landamerki Straums.

Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsivíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IV; Hvaleyri og Straumur, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-IV-Hvaleyri-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.