Krýsuvík – Sefið
Sefið í Krýsuvík er norðan þjóðvegarins, skammt sunnan við Augun, vestan Grænavatns. Það lætur ekki mikið yfir sér en þar gerðist atburður árið 1801 er nú skal greint frá:
“Uppvíst er orðið, að ógift stúlka nokkur, Steinunn Árnadóttir, frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hefur borið út barn sitt. Segir hún, að barnsfaðir sinn, sem er kvæntur maður, hafi ógnað sér, barið sig og hótað að ganga sem næst lífi sínu, ef hún lýsti hann föður. Er þetta fjórða barnið, sem maður þessi á framhjá konu sinni, og hefur hann tvívegis reynt að fá barnsmæður sínar til að rangfeðra börnin.
Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu skýrir svo frá, að Steinunn hafi nóttina milli 24. og 25. nóvember s.l. fætt barn í dulsmáli, án þess að leita þeirrar hjálpar, sem henni og fóstrinu kynnu að verða til bjargar. Leyndi hún síðan fóstrinu í rúmi sínu, uns henni tókst nokkrum dögum síðar að varpa því í tjörn skammt frá bænum. Saga þessarar ógæfusömu stúlku er í stuttu máli á þessa leið: „Fyrir tveimur árum átti Steinunn barn með kvæntum manni, Jóni Snorrasyni í Krýsuvík. Kom hann henni þá til að lýsa ranglega föður að því barni giftum manni, Jón Oddsson á Svalbarða, en hið rétta faðerni komst þó upp.
Þegar Steinunn varð í annað sinn ólétt af völdum Jóns Snorrasonar, kveður hún hann hafa ógnað sér, ef hann lýsti hann föður. Er hún færðist undan að leyna barnsþunganum, hafði Jón barið hana, svo að blánaði undir auga, og hert á hótunum sínum. Ámálgaði hann oftlega, að hún kæmi fóstrinu leynilega undan.
Þegar að fæðingu kom, var Steinunn í rúmi sínu og foreldrar í næsta rúmi. Leitaði hún engrar hjálpar né gaf vandræði sín til kynna með neinu móti, en kæfði niður öll hljóð. Ekki veitti hún fóstrinu neina rækt, batt ekki fyrir naflastreng né skildi á milli. Tróð hún því síðan með fylgju og öllu saman ofan í rúm sitt.
Þegar er Steinunn gat því við komið eftir fæðinguna, fór hún á fund Jóns Snorrasonar og bað hann að koma fóstrinu undan í kirkjugarðinn. Kveður hún hann hafa neitað því, en ráðið sér að lauma því niður í tjörn eina, skammt norður af bænum. Sá hún sér ekki færi á því fyrr en eftir nokkra daga, líklega 2. desember. Tók hún þá fóstrið og fór með það að tjörninni, sem var ísi lögð, pjakkaði vök á hana og sökkti því þar niður með viðbundnum steini.
Kvis um þennan atburð komst á loft daginn eftir, og hinn 4. desember var barnslíkið slætt með öngulkrókum upp úr vökinni. Skoðunarvottorð benti til þess að barnið hafi verið fullburða og sennilega fætt lifandi, en að líkindum dáið af illri meðferð.
Eftir að barnið fannst, játaði Steinunn fyir sóknarpresti sínum, en hélt því þó fram að barnið hefði fæðst andvana.
Jón Snorrason hefur einnig verið handtekinn og yfirheyrður. Neitaði hann flestu því, sem Steinunn hefur á hann borið, en kveðst þó vera faðir barnsins. Hann var einnig ákærður fyrir þjófnað og grunur leikur einnig á honum um sauðaþjófnað.”
Landsyfirréttur dæmdi í dulmálssök Steinunnar Árnadóttur. Var hún dæmd til lífláts.
Úr Öldinni okkar 1802.