Krýsuvíkurhraun

Arngrímshellir/Gvendarhellir

HINN 25. ág. 1838 skrifaði Jónas Hallgrímsson stjórn Bókmenntafjelagsins í Kaupmannahöfn og stakk upp á því að fjelagið kysi nefnd manna til þess að safna öllum fáanlegum skýrslum, fornumog nýjum, er lýsi Íslandi eða einstökum hjeruðum þess, og undirbúa svo til prentunar nýja og nákvæma lýsing á Íslandi. Stjórn var kosin og sendi hún prestum landsins 70 spurningar um efnið og óskaði svara. Í lýsingu Jóns Vestmanns frá Strönd segir m.a. um Krýsuvíkurhraun:

Opið á fjárhelli Arngrímshellis/Gvendarhellis.

„Vestur undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina,“ svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Fyrir hjer um bil 100 árum, eða máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hundruð.

Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grá kollóttar. Systir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni, en hún eftirljet honum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbergi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákolla alein er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Tekur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafn ótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám honum. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hef jeg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.*

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, helt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi alþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymslu hús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt í kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna) flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu sári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki.“
Frábært veður. Þrátt fyrir -8°C reyndust vera um +10°C í hellinum þennan þriðja dag desembermánaðar 2011.

*) Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvafjöru undir Krýsuvíkurbergi „og með honum karlmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr berginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekki að öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðma breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust (Vallaannáll). Öðrum annálum ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannáll segir: — „Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1945, (Úr sóknarlýsingu Jóns Vestmanns) bls. 646.

Hleðslur inni í Arngrímshelli/Gvendarhelli.

Hleðslur í hellinum.