Húshólmi

“Austan við Grindavík, í miðju Ögmundarhrauni skammt austan Selatanga, er að finna afar merkilegar fornminjar, svonefndan Húshólma, þar sem glögglega má sjá fornar rústir, hús og garða en talið er að þær geti verið frá fyrstu tíð landnáms. Líklega hefur þar verið búseta fram á miðja 12. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á rústunum en þær eru friðlýstar.

Hush

Þær litlu rannsóknir sem þar hafa verið gerðar benda til þess að þorpið geti verið með elstu þekktu mannvistarleifum á landinu.
„Sennilega eru þetta almerkilegstu fornminjar á landinu. Ég hef reynt að vekja athygli Fornleifaverndar ríkisins á þessu. En þeir virðast álíta að fornminjar séu best geymdar niðurgrafnar. Þetta er stórmerkilegt svæði, að sjá garðana og tóttir gömlu kirkjunnar sem líklega hefur staðið þarna fram á 15. öld. Bærinn fór í eyði um 1150 og þetta hlýtur að vera einstakt tækifæri fyrir fornleifafræðinga að geta flétt ofan sögunni frá miðri 12. öld og niður,” segir Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík í samtali við Víkurfréttir. Aðspurður telur hann fjárskort helst hafa hamlað því að ráðist yrði í fornleifauppgröft í Húshólma auk þess sem önnur svæði hafi verið ofar á forgangslistanum. „En þetta hlýtur að teljast afskaplega forvitnilegt svæði. Það veit enginn hversu stór hluti þorpsins fór undir hraunið,” segir Ólafur.
HusholmTalið er að hraunið hafi runnið yfir allnokkra byggð en skyldi eftir óbrennishólma í miðju hraunrennslinu. Í dag má sjá þar leyfar nokkurra húsa og hefur eitt þeira líklega verið kirkjan en örnefnið Kirkjulág bendir eindregið til þess. Sjá má hleðslur fornra garða, fjárborgar, lítillar réttar eða stekks og fleira.
Ómar Smári Ármannson hefur tekið saman ýmsar heimildir um þetta svæði sem lesa má um á vefnum ferlir.is. Hann telur ekki ólíklegt að rannsóknir á Húshólma „gætu haft áhrif á hina stöðluðu ímynd af landnámi hér á landi,” eins og hann kemst að orði í einum pistla sinna. „Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu,” segir Ómar Smári ennfremur.
Svæðið hefur oft verið nefnt Gamla Krýsuvík en elstu skráðar heimildir um minjarnar eru frá byrjun 17. aldar. Í Óbrennishólma, sem er skammt norðvestar í Ögmundarhrauni eru einnig minjar stórrar fjárborgar, tóft og garðar sem hraunið stöðvaðist við.
Á þessum loftmyndum Oddgeir Karlssonar sést glögglega hvernig hraunið hefur runnið allt í kringum kirkjustæðið forna. Engin veit í rauninni hversu stór byggðin var og hve mikið af henni fór undir hraunið. Né heldur hvaða fólk bjó þarna. Sagan bíður eftir því að vera rannsökuð.”
Við þetta má bæta að gerðar hafa verið skýrslur um svæðið sem og tillögur um rannsóknir, aðgengi, merkingar og upplýsingar á vettvangi – fyrir daufum eyrum hingað til a.m.k.

Heimild:
http://www.grindavik.is/v/5049

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.