Kuml á Kaldárhöfða
Í „Fornleifaskráningu í Grímsneshreppi I: Fornleifar á Kaldárhöfða, Efri-Brú, Syðri-Brú, Ásgarði og Miðengi„, skráða af Fornleifastofnun Íslands árið 1999 segir eftirfarandi um kumlið að Kaldárhöfða, nánar tiltekið við Efra-Torfunes, en fundur uppgötvun þess er talinn einn sá merkasti hér á landi hvað varðar fjölda og tegundir gripa er í því voru:
Efra-Torfnes – kuml/legstaður
„Vestur af Vaðhól var Efra-Torfnes. Það er nú komið undir vatn nema lítill hólmi, þar sem það var hæst. Vestan í því var fornmannadys, sem fannst 1946. Þar sem dysin var, er nú komið undir vatn“, segir í örnefnaskrá. Hólminn sést vel frá brúnni yfir Sog við Úlfljótsvatn. Þar sem hann er næst landi eru um 80-100 m í hann. Hátt rafmagnsmastur trónir á hólmanum. Lítill hólmi, u.þ.b. 70×40 m. Sléttur og gróinn.
Eftirfarandi kafli er tekinn úr bókinni Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn:
Kaldárhöfði er nyrzti bær í Grímsnesi. Í landi hans, rétt neðan við þann stað, þar sem Sogið rennur í Úlfljótsvatn, er lítill hólmi í vatninu og heitir Torfnes. Eins og nafnið bendir til, var hann áður landfastur, en þegar aflstöðin við Ljósafoss var reist (árið 1937), var vatnsborð Úlfljótsvatns hækkað nokkuð, svo að Torfnes losnaði frá landi og nýir bakkar mynduðust.

Grafið í kumlið á Torfunesi við Kaldárhöfða árið 1946. Fornleifafræðingar munu seint verða á ný svona töff í tauinu.
Maður, sem var að vitja um silunganet við hólmann – því að silungsgengd er þarna mikil – varð þess var, að fornleifar stóðu út úr bakkanum, og þótti líklegt, að fornt kuml væri. Rannsakaði ég kumlið samdægurs fyrir Þjóðminjasafnið. Reyndist þetta vera einn hinn glæsilegasti kumlfundur, sem fram hefur komið hér á landi.
Kumlið stóð mjög lágt, aðeins 2-3 m ofar hinu upprunalega vatnsborði, í stórþýfðum, rökum móa. Lík og haugfé var mjög lítið niðurgrafið, en orpinn hafði verið lágur haugur með miklu grjóti í. Haugurinn var mjög siginn og vakti ekki lengur neina athygli í stórþýfinu, og líklega hefur hann aldrei verið meira en 1 m í hæsta lagi. Grjótið hefur verið tekið hér og hvar í vatnsbökkunum. Þegar vatnið fór að þvo moldina úr kumlinu, hrundi grjót þetta niður og skemmdi nokkuð þá forngripi, sem voru vestast í kumlinu. Einnig gæti verið, að eitthvað hefði með öllu skolazt í vatnið, en það mun varla hafa verið mikið.
Að öðru leyti var kumlið algjörlega óhreyft frá upphafi vega. Höfðahlutinn einn er ekki alveg ljós vegna landbrotsins. Þá gerði það og myndina nokkru óskýrari, að allar líkamsleifar voru horfnar að undanteknum örlitlum beinögnum, er mettazt höfðu spanskgrænu. Fótleggir og lærleggir sáust þó sem svört strik í moldinni og sýndu, að þarna hafði verið grafinn fullorðinn maður, liggjandi á bakið, með höfuð til vesturs. Þetta mátti einnig að nokkru leyti ráða af niðurröðun haugfjárins. En við vatnsbakkann fundust tvær augntennur úr 7-8 ára barni, og má því víst þykja, að hér sé um tvíkuml að ræða, fullorðins manns og barns. Tennur hins fullorðna hljóta þá að hafa týnzt í vatnið, af því að þær voru vestast í kumlinu.
Óvíst er um afstöðuna milli líkanna tveggja, en þó hefur barnslíkið verið fremur vestarlega en austarlega í gröfinni. Ástæðan til þess, að bein fundust ekki í kumlinu, er eflaust sú, að jarðvegurinn hefur eytt þeim með öllu. Í kumlinu var mesti fjöldi gripa, enda má ætla þá haugfé tveggja manna. Þeir eru sem hér segir: Sverð af O-gerð, Sverd 104, knappur og hjölt silfurrekin, mjög fágætt vopn: Hafði verið við hægri hlið manninum, niður frá beltisstað. Spjót af I-gerð, Sverd 20, lá hægra megin við fætur og sneri oddi niður eftir. Leifar af skafti sáust. Örvaroddar, 5 heilir og tangi af þeim sjötta, af gerðinni Rygh 539. Tveir loða saman, og á þeim sjást leifar af leðri, líklega úr örvamæli. Heilu örvaroddarnir voru fjórir vestan við og einn austan við spjótið og sneru allir eins og það. Staki tanginn mun hafa verið í þeim hluta kumlsins, sem brotinn var.Öxi af G-gerð, Sverd 38, nú í brotum, af því að vatnið hafði fært hana úr stað og grjóthrunið brotið hana. Á öxinni sjást för eftir einskeftudúk, sams konar og einnig sjást á meðalkafla sverðsins. Leifar af skaftinu sjást í axarauganu.
Axarblað þetta virtist munu hafa legið ekki allfjarri mitti mannsins. Beltishringja úr bronsi, í Borróstíl, mjög lík Rygh 605 og hringjum frá Gokstad og Borró. Svipt hringjunnar er úr bronsblikki, og innan í henni eru leifar af leðri. Hefur því maðurinn verið gyrtur leðurbelti. Hringjan lá í mittisstað. Beltissproti úr bronsi, skreyttur upphleyptri pálmettu, sem er ættuð frá frankversku skrautverki. Lá niður frá hringjunni. – Við smáhluti þessa úr bronsi höfðu varðveitzt pjötlur af dúk þeim, sem föt mannsins höfðu verið úr að einhverju leyti. Vendin er hin sama og á svokölluðum vormeldúk, sem notaður var í yfirhafnir á seinni tímum. Á þessu svæði, í kringum hringjuna, var einnig töluvert af litlum glimmerflögum, sem minna á síldarhreistur. Ekki er ljóst, hvernig á þeim stendur. Silfurvír, lítil hönk, 2,78 g að þyngd, virðist vera sams konar og vafinn var um sverðsmeðalkafla, t.d. á Hafurbjarnarstaðasverðinu. Lá rétt hjá hringjunni. Tveir molar af rauðum jaspis, eldfæri. Lágu hjá silfurvírnum. 80-90 rær úr járni og naglabrot með áföstum, ryðmettuðum viðarbútum.

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða í Grímsnesi, sem grafnir höfðu verið í smábát ásamt veglegu haugfé. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum.
Gripir þeir, sem áður voru taldir, höfðu sýnilega allir legið hið næsta manninum. Rærnar og naglarnir lágu í breiðu norðan við þá og virtust augljóslega vera úr litlum bát, sem lagður hafði verið norðan við lík mannsins. Af bátnum var ekki annað eftir en saumurinn, og sennilega hafa aldrei verið í honum meira en um 100 járnnaglar. Aðeins 5 naglar eru heilir, og er lengd þeirra 2,4-8,0 sm. Vatnið hafði ekki þvegið burtu neitt af bátsleifunum, og kom svæði hans vel fram í odd í vesturendanum, en miður austast. Eftir nöglunum að dæma hefur bátslengdin verið um 2,80 m, en breiddin um 80 sm miðskips, mjög lítil fleyta. Öll smíði bátsins er annars óljós. Skjaldarbóla af gerðinni Rygh 562. Var við austurenda bátsins, líkt og skjöldurinn hefði verið reistur upp við hann.
Brot af annarri skjaldarbólu lá frammi við vatnið, fært úr stað. Annar skjöldur virðist því hafa verið nær vesturenda. Spjót, eins konar afbrigði af K-gerð, lá norðan við bátssauminn, líkt og hefði því verið smeygt inn undir bátssíðuna. Öxi af H-gerð, Sverd 39, lá einnig norðan við sauminn. – Þessi tvö vopn eru minni en hin, sem fyrr voru talin, og gæti verið, að þau væru vopn barnsins (drengsins?), enda er í kumlinu alvæpni tveggja manna. Járnkrókur af krókstjaka, sem fylgt hefur bátnum. Öngull úr járni, margbrotinn, þræði (færi) vafið um legginn. Blýsakka með einföldu skrautverki. Tveir litlir hnífar úr járni. Tveir tinnumolar. Járnkekkir, ókennilegir.

Sverð úr fornmannagröf á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Þrátt fyrir merkilegheitin er nákvæmlega ekkert á vettvangi sem bendir til fundarstaðarins.
Svona er fornleifafræðin í dag…
Kaldárhöfðakumlið er eitt hinna örfáu bátkumla, er fundizt hafa á Íslandi. Eftirtektarvert er, að hvorugur mannanna, sem heygðir voru í kumlinu, höfðu þó verið lagðir í bátinn, heldur virðist hafa verið litið á hann þarna eins og hvert annað haugfé, enda var hann mjög lítill. Yfirleitt benda forngripirnir til fyrri hluta 10. aldar.
(Rannsóknarskýrsla höfundar og safnaukaskrá, sem eftir henni er gerð. Frétt í Morgunblaðinu 21.5. 1946. Alþýðleg frásögn: Vopngöfgir Grímsnesingar, Gengið á reka, bls. 25-44. 31. Kaldárhöfði, Grímsneshreppur. Þjms. 20.5.1946).
Sjá einnig HÉR.
Heimild:
-Fornleifaskráning í Grímsneshreppi I: Fornleifar á Kaldárhöfða, Efri-Brú, Syðri-Brú, Ásgarði og Miðengi, Fornleifastofnun Íslands 1999.













