Kvarnarsteinar
Kvarnarsteinar hafa verið notaðir hér á landi frá fyrstu tíð, jafnvel fyrir norrænt landnám ef marka má frásögn Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings v/landnámsskálann í Vogi, Höfnum – sjá umfjöllun í Víkurfréttum 19. mars 2010.
Kvarnarsteinn er úr kvörn, sem korn var malað í. Skiptir þá ekki máli hvort kornið, sem malað var með honum, var innflutt eða ekki. Kvarnarsteinar voru tveir, hvor ofan á öðrum, og var smíðaður um þá trékassi. Kornið var látið í gatið í miðjunni og efri steininum snúið. Þá malaðist kornið milli steinanna og sáldraðist ofan í kassann.
Á Efri-hellu ofan við bæinn Hraun í Grindavík, sunnan Húsafells, má enn sjá hraunhellusvæði þar sem kvarnarsteinar Grindvíkinga voru unnir fyrrum (mynd að ofan). Þótt mikið hafi verið fjarlægt af hraunhellum þarna síðari árin í garða og „sólarvé“ má þó enn sjá leifar handverksins á staðnum. Í raun ætti að friða staðinn m.t.t. þessa.