Landmælingar Íslands – koparskildirnir?
Víða um land má bæði sjá koparskildi á landmælingavörðum og steypustöplum með áletrun Landmælinga Íslands, auk málmpunkta eða -skrúfur í klöppum og á steinbjörgum. Bæði eru til dæmi um að fyrstu landmælingarmenn 20. aldar hafi nýtt sér fyrirliggjanfi vörðuhleðslur eða jafnvel hlaðið nýjar. Margar þeirra standa enn í dag.
Koparskjöldur á landmælingavörðu (1958).
Á koparskjöldunum segir að „Röskun varði refsingu„. Hins vegar er hvergi að finna laga- eða reglugerðarbókstaf um það hver refsingin gæti verið. Hvorki er getið um refsiákvæði í „Lögum um landmælingar og kortagerð“ frá árinu 1997 né í „Lög um landmælingar og grunnkortagerð“ frá 2006. Í 12. gr. fyrrnefndu laganna segir að „Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara“ og í 9. grein þeirra síðarnefndu er samskonar texti. Þær meintu reglugerðir er ekki að finna í Reglugerðarsafni ráðuneytanna, sbr. Island.is.
Margir þeirra sem leggja land undir fót um víðáttur landsins hafa eflaust rekist á framangreinda skildi á fjöllum og við forna vegi.
Landmælingar – koparskjöldur á steinsteypustöpli.
Í því tilviki snertir röskun mannvirki en orðið röskun höfðar engu að síður til haga almennings og hinna margvíslegu verka hans og reglna. Siðmenntuð þjóðfélög setja vissar hömlur á athafnir þegna sinna og mynda lagalegan ramma um starfsemi og framferði þeirra, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í Biblíunni er t.d. varað við röskun landamerkja. Sama má segja um viðfangsefni íslenskra þjóðsagna. Í þeim er beinlínis bent á að sá eða þeir sem raska eða færa til vörður á merkjum verði refsað að afloknu þessu jarðlífi með því að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er þegar yfrum er komið. Sennilega á koparskjaldaviðvörunin á landmælingamerkjunum að höfða til slíks, enda hvoru tveggja jafn mikilvægt, bæði landeigendunum og landmælingafólkinu.
Ekki hefur verið ritað um hvenær Landmælingar Íslands byrjuðu að nota nefnda koparskildi, þrátt fyrir ítarlegt rit Ágústs Böðvarssonar, fyrrum forstjóri Landmælinga Íslands, um „Sögu landmælinga og kortagerðar Dana hér á landi“ og kom afraksturinn út á bók sem gefin var út í tilefni 40 ára afmælis Landmælinga Íslands árið 1996. Í bókinni er ekki minnst á merkingarnar, sem þó hefði verið merkilegur fróðleikur út af fyrir sig. Eflaust leynast innan LÍ frekari gögn um skildina þá ‘arna eða jafnvel á Þjóðskjalasafninu, en greinarhöfundur nennti ekki, að fenginni reynslu, að hafa samskipti við starfsfólk þessara stofnana. Viðbrögðin hafa oftar en ekki verið heldur neikvæð. Áletranirnar ÞR og MS á merkjunum ættu a.m.k. að vekja upp einhverjar spurningar.
Sum bæjarfélög létu hlaða vörður á mörkum og koma fyrir koparskjöldum með áletrun, s.s. Hafnarfjörður 1956. Á skildinum segir „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ með nr. og ártali. Það var endurtekið 1978, en í stað þess að hlaða vörður voru steyptir stöplar á mörkunum með áföstum skjöldum.
Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1978.
Dæmi var um að einhverjir landeigendur hafi ekki viljað sætta sig við staðsetninguna, einkum þegar um breytingar var að ræða, og fjarlægðu koparskildina – líkt og gerðist á Setbergshamri. Setberg hafði áður tilheyrt Garðabæ, en við breytingarnar varð hálf landareignin færð undir Hafnarfjörð í skiptum fyrir hraunspildu.
Þegar koparskildirnir á vörðunum og steinsteypustöplunum eru skoðaðir, a.m.k. á Reykjanesskaganum, má t.d. sjá á þeim ártölin 1957, 1958 og 1959. Dæmi eru þó til um eldri gerð slíkra skjalda annars staðar á landinu, jafnvel frá konungstímabilinu millum 1919-1044. Margir þeirra eru þó án ártala, einungis með skráðu númeri. Hafa ber a.m.k. tvennt í huga. Annars vegar að Landmælingar Íslands urðu til sem sjálfstæð stofnun árið 1956 og hins vegar að á skjöldum stofnunarinnar er skjaldarmerki Íslands frá 1944.
Kóróna í skjaldarmerki Íslands, hinu eldra af landvættaskjaldarmerkjunum og tók við af fálkamerkinu og þar áður því með útflatta þorskinum. Merkið var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani.
Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins, þ.e. það skjaldarmerki sem vér þekkjum í dag.
Þessir kopaskildir eru vandlega boltaðir, stundum með einu og jafnvel með þremur hnoðum hver og hafa því flestir staðist mjög svo veðraða tímans tönn. Fáir hafa verið fjarlægðir með handafli, a.m.k. hingað til.
Sennilega hefur verið talin ríkari ástæða til að merkja og/eða viðhalda mikilvægum fyrrum mælipunktunum bæði fyrir og á fyrstu árum stofnunarinnar, ekki síst í hinu sögulega samhengi landmælinga í landinu, þegar einungis var stuðst við þrívíddamælingar en er síðar varð með tilkomu nútímalegri mæliaðferða þar sem hæðir og lægðir réðu meiru. Enda má segja að upp frá því hafi föstum hnoðpunktum og skrúfum fjölgað til mikilla muna á landinu. Við flesta þá punkta er stuðst við GPS-mælingarnar enn þann dag í dag.
Skjaldarmerki Íslands.
Eftirfarandi samantekt er að hluta unnin upp úr “Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006” sem Svavar Berg skrifaði, án þess þó að minnst sé á fyrrnefnda kopaskildi eða „refsinguna“ þeim til handa:
Mælingar og kortagerð Dana á Íslandi
Árið 1956 urðu Landmælingar Íslands til sem sjálfstæð stofnun. Sögu þeirra verkefna sem stofnunin tók við árið 1956 má þó rekja aftur til aldamótanna 1900 þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins (síðar Geodætisk Institut) hóf landmælingar og kortagerð hér á landi. Verkefnið stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900 til 1940. Afraksturinn var 670 kortatitlar en af þeim voru 227 útgefnir m.a. Atlaskortin og Herforingjaráðskortin sem margir þekkja.
Landmælingar- herforingjakort af Álftanesi frá 1904.
Í tengslum við mælingarnar urðu til mikill fjöldi frumgagna sem geymdar voru hjá Geodætisk Institut s.s. teikningar, ljósmyndir og mælingabækur.
Ágúst Böðvarsson (seinna forstjóri LMÍ) lagði áherslu á að Íslendingar fengju þessi gögn til varðveislu og eignar. Samningar milli Landmælinga Íslands og Geodætisk Intstitut leiddu til þess að frumgögnin voru send til Íslands, í áföngum, sú síðasta árið 1985.
Loftmyndataka af Íslandi Danir höfðu einnig tekið ljósmyndir úr lofti af Íslandi árin 1937 og 1938 til að auðvelda gerð korta af hálendinu, en fyrirkomulag þeirrar myndatöku var annars eðlis en þeirrar sem almennt er notuð til kortagerðar (skámyndir).
Árið 1951 hófst nýr kafli í kortagerð á Íslandi; taka og gerð loftmynda til kortagerðar. Þar með hófst hjá Landmælingum Íslands tímabil þessarar sérhæfðu myndatöku sem stóð til ársins 2000 en alls voru teknar um 140.000 loftmyndir af landinu.
Landmælingar NATO og nýtt þríhyrningamælinet Hjörsey 1955
Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).
Árið 1955 hófust umfangsmiklar landmælingar á Íslandi að frumkvæði Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO), en þær voru liður í stærra mælingaverkefni landa við Norður-Atlantshafi. Mælingunum lauk sumarið 1956 og hafði Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins, AMS, yfirumsjón verksins á Íslandi en samstarfsaðilar voru Landmælingar Íslands og Geodætisk Institut.
Afurðirnar úr þessu verkefni voru meðal annars nýtt og aukið þríhyrningamælinet af öllu Íslandi sem kennt var við Hjörsey á Mýrum og flokkur staðfræðikorta af Íslandi í mælikvarða 1:50 000. Kortin voru gerð í samvinnu við AMS og fór vinnan fram bæði vestanhafs og hér heima. Samkvæmt yfirliti yfir kortin þekja um það bil 200 kortblöð allt landið.
Landmælingar Íslands í Reykjavík 1956-1998
Landmælingar á frumstigi.
Landmælingar Íslands voru stofnaðar árið 1956 og tóku við verkefnum á sviði landmælinga, loftmyndatöku og gerð korta af Íslandi. Fyrsti forstjóri stofnunarinnar var Geir G. Zoëga og tilheyrði stofnunin fyrst samgönguráðuneytinu.
Landmælingar hér á landi höfðu fram til þessa verið hluti Vegagerðar ríkisins en við stofnun Landmælinga Íslands var starfsemin flutt í hús Vitamálastofnunarinnar að Seljavegi 32 í Reykjavík. Árið 1961 flutti stofnunin í stærra húsnæði að Laugavegi 178 en árið 1959 hafði Ágúst Böðvarsson tekið við sem forstjóri stofnunarinnar.
Fara á alla punkta
Landmælingar á nútíma við göml stöplana.
Þrátt fyrir alla tækni þurfa landmælingamenn eftir sem áður að fara um allt land og mæla eins og gert hefur verið frá því mælingar hófust hér á landi fyrir rúmri öld. „Við förum á alla punkta og setjum upp tækin. Við þurfum minna að klöngrast upp á fjöll en áður eftir að GPS-tæknin kom til. Punktarnir okkar eru ýmist steyptir stöplar eða koparboltar steyptir niður í klöpp. Við stillum
loftneti yfir þessa punkta, mælum hæðina og tækið er láta ganga. GPS-tæknin er mesta byltingin sem orðið hefur í þessum mælingum en síðan eru ýmsar aðrar breytingar eins og fjölgun gervitungla. Annars er mikil þróun í þessu um allan heim.
Landmælingastöpull á Krýsuvíkur-Mælifelli.
Maður sér þetta kannski helst á því hve allar upplýsingar eru meira notaðar en áður eftir að GPS-tæknin kom í símana. Þeir eiga eftir að verða enn nákvæmari en núna er skekkjan í þeim um fimm metrar. Staðsetningatæki skipta gríðarlegu máli í nútíma samfélagi, ekki bara á landi heldur líka til sjós og í lofti.“ Guðmundur segir 3-4 menn frá Landmælingum Íslands verða við mælingarnar í sumar. „Það er komin mikil reynsla á GPS-mælingar hér. Tækin eru orðin betri og með endingarbetri rafhlöðum, þannig að nú getum við keyrt þetta á mun færri mönnum en við gerðum áður.“
Gerðir fastmerkja
Landmælingar – bolti á Sýslusteini sunnan Lyklafells.
Algengustugerðir fastmerkja í landshæðarnetinu eru: bolti, láréttur bolti,bolti í steini og bolti í röri. Þegar talað er um bolta er átt við fastmerki sem steypt er niður á stað sem talist getur varanlegur s.s. klöpp, brúarundirstöður o.fl. Þegar því er ekki komið við er reynt að finna mannvirki þar sem hægt er að setja láréttann bolta. Á landsvæðum þar sem lítið er um klappir og byggingar hefur reynst nauðsynlegt að setja bolta í jarðfasta steina eða reka niður galvaniserað rör og steypa bolta í það. Möguleiki er á að hæð þessara fastmerkja hafi breyst frá því að þeir voru mældir t.d. vegna frostlyftingar.
Landmælingar – mælistöpull.
Mælt er með því að notast sé við fastmerki á varanlegum stað sé þess kostur. Sé annað valið ber að kanna gaumgæfilega hvort ætla megi að fastmerkið hafi haggast síðan það var mælt. Á nokkrum stöðum var notast við skrúfur sem fast merki. Hæð þessara fastmerkja miðast alltaf við hæsta punkt skrúfunnar og ber að haga mælingu eftir því. Þá hafa verið mældir þeir stöplar í grunnstöðvanetinu sem mögulegt var að tengja við hæðarkerfið með ásættanlegum tilkostnaði og fyrirhöfn.“
Í „Lögum um landmælingar og grunnkortagerð“ frá árinu 2006 segir í 2.gr.: „Meðal hugtaka sem hér eru skilgreind er hugtakið hæðarkerfi. Er hugtakið skilgreint sem net eða kerfi fastra hæðarmælipunkta, t.d. málmbolta, á yfirborði jarðar. Venjulega eru þessir málmboltar úr kopar sem steyptir eru í klappir eða stöplar með koparboltum„.
Heimildir:
-https://www-gamli.lmi.is/wp-content/uploads/2016/11/saga_lmi_56_16-1.pdf
-Lög um landmælingar og grunnkortagerð, 2006.
-Lög um landmælingar og kortagerð 1997 nr. 95 26. maí.
-Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands, Ágúst Böðvarsson, Landmælingar Íslands 1996.
– Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006, Svavar Berg.
Landmælingar – koparskjöldur í Hvassahrauni (1959).