Landsýn við Strandarkirkju – Gunnfríður Jónsdóttir

Strandarkirkja

Í bók Lofts Guðmundssonar „Á förnum vegi – rætt við samferðamenn“ frá árinu 1966 er m.a. fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og styttuna „Landsýn“, sem nú stendur framan við Strandarkirkju í Selvogi:

Gunnfríður Jónsdóttir

Gunnfríður Jónsdóttir.

„Þrjár kirkjur eru kunnustar á hér á landi; tvær á biskupsstólunum fornu, sú þriðja í hálfeyddri byggð á suðurströndinni, við lága vík fyrir opnu hafi. Sú vík á sér fegurst nafn staða hérlendis, sú kirkja dýrlegasta frægð hérlendra guðshúsa – Strandarkirkja við Engilsvík í Selvogi.
Á hól við kirkjuna stendur höggmynd af konu með kross í hendi og horfir yfir víkina. Yfirlætislaust en þróttmikið og hugnæmt listaverk, sem á heima á þessum stað. Fjarri sé mér að reyna að geta þess til hvaða hugsun höfundurinn, Gunnfríður Jónsdóttir, leggi í þetta verk sitt. En þegar ég hef staðið þarna á hólnum og virt fyrir mér konuna með krossinn, finnst mér ósjálfrátt að hún bjóði öllum byrginn í hljóðri ró – briminu, veðrunum, auðninni og einmanaleikanum. En fyrst og fremst hef ég furðað mig á því, að það skuli ekki koma manni neitt á óvart að sjá grásteinskonuna með krossinn standa þarna, heldur sætta sig ósjálfrátt við þá tilfinningu, að hún hafi staðið þarna marga áratugi, kannski öldum saman. Nafnið, sem listakonan hefur valið myndinni, „Landsýn“, styrkir þá tilfinningu. Hún er sammrunnin umhverfinu og sögu þess. Og mér kemur því ekki á óvart svar Gunnfríðar, þegar ég spyr hana um tildrögin að því að hún gerði myndina og að myndin stendur þarna.

Landsýn

Landsýn

-Ég sá fyrst kirkjuna við hafið ofan af Selvogsheiði, og einmanaleiki hennar hafði á mig djúplæg áhrif. Næstu þrjár vikurnar ásótti mig stöðugt þessi sýn – einmanaleiki kirkujunnar við hafið. En hugmyndin að myndinni vaknaði ekki með mér fyrr en nokkru seinna – það var þessi þrúgandi einmanaleiki, sem mér hafði birst ofan af heiðinni, sem lá á mér eins og mara. Svo var það í nóvembermánuði, 1940. Systir mín hafði kroppið upp að Álafossi og ég var alein heima. Þegar hún kom aftur, sagði ég henni að ég hefði verið að vinna að lítilli frummynd á meðan hún var í burtu, sem stæði að einhverju leyti í tengslum við Strandarkirkju. „Jæja, ekkert er það!“, varð systur minni að orði, og svo var ekki frekar á það minnst um hríð.

Landsýn

Landsýn – skjöldur á styttunni.

Ég lauk við frummyndina, sem var tólf sentímetrar á hæð, setti hana undir eldavélina og sat svo við að sauma fram yfir nýár. Þegar kom fram í miðjan janúar, dró ég myndina fram undan eldavélinni og gerði aðra eftir henni, mun stærri. Og enn leið ár, þangað til ég tók rögg á mig og stækkaði hana enn, eins og hún er nú. Sú mynd var á sýningunni í skálanum 1943. Ekki hafði ég þá ákveðið henni neinn framtíðarstað, en einhvernveginn fannst mér að hún ætti að standa á ströndu úti við hafið; helst einhvers staðar á Suðurnesjum og ekki langt frá Strandarkirkju, því sagan um Engilsvík hafði verið mér í huga, þegar myndin varð til.
-Hvað skar svo úr um það, að myndin yrði höggvin í granít og valinn staður, þar sem hún stendur ný?

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – mynd Gunnfríðar.

-Það yrði oflangt mál að segja þá sögu alla. Er þar naut ég meðal annars skilnings og áhuga Guðmundar bónda í Nesi í Selvogi, þess fjölgáfaða mannkostamanns. Og Strandarkirkja leysir vanda sinn; þó að ýmsir erfiðleikar yrðu á framkvæmdum, rættist úr öllu og stundum á óvæntan hátt. Myndin var höggvin í granít í Noregi, og gekk allt samkvæmt áætlun – þangað til granítmyndin var komin hingað á hafnarbakkann og ég hélt að nú væri öllum hindrunum rutt úr vegi. Ekki aldeilis – það kom á daginn, að ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum innflutningi við samningu tollskrárinnar og nú lá myndin í fullt misseri á hafnarbakkanum og enginn þóttist kunna ráð eða eiga með að fella nokkrun úrskurð í því sambandi. Loks spurði ég viðkomandi valdhafa, hvort það væri þá ætlun þeirra að taka myndina eignarnámi. Þá loks mátti Strandarkirkja sín betur en ákvæðin, sem ekki höfðu verið sett í tollskrána.

Heimleið

Á heimleið – stytta Gunnfríðar.

-En þá var komið fram á haust. Myndin hafði legið í kössum á hafnarbakkanum frá því í maí um vorið, og ég mátti ekki til þess hugsa, að hún lægi þar enn vetrarlangt. Hafði ég því samband við Selvogsbændur; vissi að mestu önnum þeirra var lokið í bili, en enginn þar hafði hins vegar tíma til neins þegar voraði. Ég spurði þá því hvort þeir vildu ekki vera mér hjálplegir við að koma myndinni upp, ef hún yrði flutt þangað suður eftir. Þeir tóku vel í það. Mér tókst að fá ágætan kranabílstjóra til að flytja myndina suður í Selvoginn – Sigurjón hét hann, prýðilegasti drengur – en við komum þangað ekki fyrr en klukkan sjö um kvöldið, og þá var eftir að taka myndina úr kössunum og koma henni á stallann, og það varð að gera strax, svo að kranabíllinn gæti haldið suður aftur.

Strandarkirkja

Strandarkirkja – Landsýn eftir Ginnfríði Jónsdóttur.

Nema hvað myndin var komin upp klukkan níu og mátti ekki heldur tæpara standa, því að þá var komið myrkur. Þeir kunnu að taka til hendinni í þann tíð, Selvogsbændur. Sjálf var ég svo þarna í fimm daga og gekk frá þrepunum – við tíndum hellur í fjörunni og fluttum að í hestvagni og ýmsu var að sinna. Bændurnir reyndust mér einstaklega hjálplegir, boðnir og búnir til alls. Loks var settur hjúpur yfir myndina og hún látin bíða þess að hún yrði afhjúpuð að vori. Sú athöfn fór fram á annan í hvítasunnu, 1950, fjölsótt og var hin ánægjulegasta.

Landnámskonan

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955. Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum.
Landnámskonan er síðasta stóra verkið sem Gunnfríður mótaði árið 1955. Það er að mörgu leyti mjög lýsandi verk fyrir listakonuna. Forfeður, formæður og almennt kvenskörungar íslenskra sagna voru henni hugleiknar. Verkið vísar til landnámskvenna í víðtækari merkingu og þá ekki síst til kvenna í heimi listanna, þar á meðal Gunnfríðar sjálfrar, fyrstu konunnar sem vann höggmyndir á Íslandi. Landnámskonan stendur bein og hnarreist og horfir fram fyrir sig.
Gunnfríður Jónsdóttir (1889–1968) var fyrsta konan sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi. Listsköpun hennar var íhaldssöm og klassísk myndlist henni efst í huga.

Gunnfríður sýnir mér grein í hinu kunna tímariti „Scandinavian Review“, 1958, þar sem segir frá Strandarkirkju og „Landsýn“, og fylgir ágæt mynd þaðan, en höfundur fer miklum viðurkenningarorðum um listaverkið.

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – verk Gunnfríðar Jónsdóttur í Ráðhúsinu í Stokkhólmi.

Það leynir sér ekki að Gunnfríði þykir vænt um „Landsýn“. Hún hefur gert tvær aðrar stórar myndir í áþekkum stíl, „Landnámskonu“ og „Biskup“, sem enn bíða þess að þeim verði valdir viðeigandi staðir. Loks eru það „Síldarstúlkurnar“ – það listaverk væri vel til þess fallið að prýða umhverfið í einhverjum síldarbænum. Núverandi borgarstjóri lét gera af þeim afsteypu í bronsi og gaf Stokkhólmsborg. Ein höggmynd eftir Gunnfríði stendur í Tjarnargarðinum, „Á heimleið“, stúlka, sem tyllt hefur sér niður til að varpa mæðinni, og starir fram undan sér eins og hún eigi enn langt heim. Loks hefur Gunnfríður gert „höfuð“ af ýmsum nafnkunnum mönnum og konum og þótt vel takast“.

Meira verður fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur síðar.

Heimild:
-Á förnum vegi – Loftur Guðmundsson – rætt við samferðamenn, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966 – „Frá Sæunnarstöðum í Selvoginn – rætt við Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara, – Landsýn, bls. 214-217.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.