Leggjarbrjótur – Þingvellir – Hvalfjörður

Glymur

Gengið var um Leggjarbrjót frá Þingvöllum yfir í Botnsdal í Hvalfirði. Þetta er forn þjóðleið milli Botnsdals og Þingvalla en einnig milli Brynjudals og Þingvalla.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – skilti.

Þegar farið er frá Þingvöllum er haldið upp vestan við túnin í Svartagili, en þar er nú engan bæ að sjá enda lagðist búskapur þar niður fyrir allmörgum árum. Farið er vestan við gil er nefnist Hrútagil upp á lágan ás. Þegar þangað er komið blasir við grösugur dalur, Botnssúlur gnæfa við himin í norðri og lengra til norðausturs sér inn í Svartagil, sem virðist bera nafn, sem því hæfir. Af gili þessu dregur bærinn nafn sitt. Á vinstri hönd gnæfir Búrfell, 783 metrar að hæð, formfagurt og hlýlegt. Gott er að líta í kringum sig og skoða útsýnið af Orrustuhól, sem er rétt austan við götuna. Ekki er vitað hvernig þetta örnefni er til komið. Gagnheiði er til landnorðurs, það er forn þjóðleið.

Leggjabrjótur

Leggjarbrjótur-Fossar í Hvalsskarðsá.

Framundan er svo Öxarárdalur og von bráðar kemur gatan að árgili, þar sem Súlnalækur rennur og hafnar að lokum í Öxará, sem sveigir örlítið til vesturs á þeim slóðum og kemur niður af hálendinu allmiklu vestar, þ.e.a.s. fyrir ofan Brúsastaði. Leiðin hefur verið vel vörðuð fyrrum. Sumar eru fallnar, en aðrar hafa verið endurhlaðnar. Með því að fylgja þeim er  auðvelt að rata um hálsana.

Öxarárdalur er grösugur dalur og fagur með Súlur á hægri hönd en Búrfell á þá vinstri. Leiðin er öll vel vörðuð og engin hætta á að villast af leið í björtu veðri. Þó ber að varast að fara langt frá slóðinni vegna mýrarfenja, sem sums staðar eru á leiðinni. Dalurinn hækkar skyndilega er komið er yfir Súlá (Súlnaá), sem rennur úr Súlnadal norðan við Systusúlu (1090 m á hæð). Súlnadalur er stuttur dalur hátt uppi í fjöllunum. Þar er Bratti, skáli Íslenska Alpaklúbbsins.

Glymur

Glymur.

Súlá getur verið allvatnsmikil. Hún rennur í Öxará á þeim slóðum, er vegurinn hættir að fylgja Öxará en fylgir Súlá um skeið. Verður leiðin nú grýtt mjög og seinfarin um skeið en þéttar vörður varða leiðina. Hér er komið að sjálfum Leggjarbrjóti, sem er nokkur hundruð metra langur kafli. Hér eru sýslumörkin. Efst í Leggjarbrjóti má vel sjá hvar erfiðasti hlutinn hefur verið lagaður til. M.a. hefur verið hlaðið í kanta götunnar. Norðar hefur stærsta grjótinu verið kastað úr henni.
Þegar halla tekur undan norður af blasir Biskupskelda við á hægri hönd fram undan og lækur, sem í hana rennur úr vestri. Yfir læk þennan er sérkennileg steinbrú. Það er vel þess virði að líta vel í kringum sig því að útsýni er hér hvað fegurst á þessari leið. Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt,
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en þar hefst hinn eiginlegri Leggjabrjótur.
Súlur byggja að vísu útsýn til austurs og norðurs en í suðri sér í norðurenda Þingvallavatns. Búrfell blasir við í vestri. Sé gengið upp á höfðann vestan við Biskupskeldu og raunar lítið eitt lengra vestur, sér í Myrkavatn, en þar eru upptök Öxarár. Í norðaustri skammt frá Biskupskeldu er Sandvatn, þar sem Brynjudalsá á upptök sín og ofan við vatnið er Sandvatnshlíðar.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða.

Þegar farið er áfram til norðurs er haldið sem leið liggur og vörðurnar varða fram hjá Biskupskeldu. Sandvatn er fagurt fjallavatn og lætur ekki mikið yfir sér en skyndilega breytir um svip í landslaginu, þegar komið er norður fyrir vatnið. Vestur af Sandvatni að norðanverðu eru Djúpadalsborgir eða Djúpadalshæðir og neðan þeirra er Djúpidalur. Þegar horft er niður dalinn blasa við þrengsli mikil, er Gljúfur nefnast. Í þeim eru þrír fossar, sem heita einu nafni Gljúfurfossar. Hér er hrikaleg náttúrufegurð.
Af Djúpadalsborgum er gott útsýni yfir innsta hluta Brynjudalsins. Syðst er Djúpidalur sem fyrr segir, vestan hans tekur við Lokhamragil og utan þess er Hestgil. Fjallið upp af giljunum er Bollafell sunnan til 510 m að hæð, en Suðurfjall stefnir til útnorðurs.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata.

Vegarslóðin liggur beint norður af Sandvatni austanverðu og brátt er komið að Sandhrygg, þaðan sem gott er að skoða útsýnið yfir Brynjudal, sem blasir héðan við í allri sinni dýrð. Innst í dalnum norðaustanverðum er eyðibýlið Hrísakot, þá Ingunnarstaðir. Utar sér í Þrándarstaði og yst Skorhaga. Þá sést vel út á Brynjudalsvog og Hvalfjörð og utar sér í Hvammsvíkurbæina.
Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og nú sést niður í Botnsdal, þangað sem ferðinni er heitið. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða Botnsdalsmegin.

Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.
Í Hvalskarði rennur Hvalskarðsá, fyrst í vestur en síðan meira til norðvesturs uns hún sameinast Botnsá rétt innan við Stórabotn.
Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Myrkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós. Í Hvalvatni endar þjóðsagan um Rauðhöfða, en þangað á hann að hafa synt í hvalslíki um Faxaflóa og úr Hvalfirði.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata í Botnsdal.

Vegarslóðin liggur nú þvert yfir Hvalskarð gegnum sauðfjárveikivarnagirðinguna og niður allgóðan veg niður í Botnsdal gegnum kjarr og skóg. Brátt sést Botnsá, þar sem hún kemur úr Stóragili en efst í því er hæsti foss landsins, Glymur. Í Botnsdal er skógrækt mikil, sem síðar verður vikið nánar að og sést hér vel, hve áhrifamikil friðunin hefur verið. Innst í dalnum er Stóribotn, nú í eyði; þaðan er forkunnarfagurt útsýni. Auðvelt er að komast yfir Botnsá, t.d. á stálbrú beint suður af Stórabotni.
Gangan tók 5 klst og 05 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Eftirfarandi er byggt á lýsingu eftir séra Gunnar Kristjánsson sóknarprest á Reynivöllum og birtist hún sem sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.Leggjarbrjotur