Letursteinar á Reykjanesskaga

Garður

Á Reykjanesskaganum eru 128 letursteinar (áletranir á grjót) frá ýmsum tímum, allt frá því að fyrstu landnámsmennirnir settust þar að og síðar.

Básendar

Básendar – letursteinn.

Framangreindir steinar eru langflestir varðveittir á vettvangi undir berum himni, en auk þeirra er talsverður fjöldi letursteina í geymslum Þjóðminjasafnsins, sem fáum nýtast sem slíkir. Þeir hafa verið fjarlægðir af þeim stöðum er uppruni og tilgangur þeirra eiga rætur – slitnir úr samhengi sögunnar og rýrt gildi þeirra sem því nemur.

Áletranirnar á steinunum eru af ýmsu tagi en algengast er þó að finna ártöl og upphafsstafi, fangamörk eða nöfn. Stundum fylgja þeim einnig vísur eða aðrar stuttorðar upplýsingar, jafnvel myndlíkingar. Steinarnir eru fjölbreytilegir og má skipta þeim í nokkra flokka. Sumir tengjast höfnum og verslunarstöðum en aðrir hafa verið notaðir í tengslum við siglingar og fiskveiðar.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – letursteinn.

Einn flokkur letursteina eru ýmis konar minningarmörk og legsteinar. Þá hafa steinar verið áletraðir til að merkja mannvirki og leiðir og landamerkjasteinar og -áletranir eru algengir. Áletranir alþýðufólks eru af ýmsu tagi og meðal þeirra eru líka áletranir frá hermönnum sem hér voru á stríðsárunum og telja má til herminja. Loks eru sumir steinar alveg sér á báti.

Yfirleitt er letrið höggvið í steinana fremur en rist enda hafa þau sem þannig merktu klappir og grjót ætlað að skilja eftir eitthvað varanlegt. En tíminn á það til að eyða ummerkjum slíkra minja með aðstoð veðurs og vinda.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – rún á letursteini.

Skoðaðir voru einkum letursteinar frá síðustu tæplega 500 árum þannig að ljóst er að þessi hefð nær langt aftur. Væntanlega hefur þetta tíðkast hér á landi í einhverju formi frá upphafi byggðar en eldri áletranir hafa, sem fyrr segir, veðrast af steinunum í tímans rás. Ártöl eru mjög oft gefin upp og virðist yfirleitt mega treysta þeim þannig að marga letursteina er auðvelt að tímasetja.
Letursteinarnir eru ýmist jarðfastir eða lausir og hafa flestir mikið minjagildi og sumir eru í hættu vegna ágangs náttúruafla. Öðrum hefur því miður verið bjargað á söfn í stað þess að varðveita þá við menningarstaðina þar sem saga þeirra á uppruna sinn.

Á Mbl.is 20. mars 2002 birtist eftirfarandi undir fyrirsögninni; „Leita að letusteinum„.

Þingvellir

Þingvellir – áletrun.

„FERLIR, ferða- og útivistarhópurinn, hefur að undanförnu verið að skoða og leita letursteina nálægt Keflavík og vill fá upplýsingar um fleiri. Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum. Nefna þeir t.d. sálmavers sem er klappað á steinhellu við Prestsvörðuna (séra Sigurðar Sívertsen) ofan við Leiru, áletranir á steinum við Básenda, stafi sem klappaðir eru í bergið við Helguvík og á klöpp á Keflavíkurbjargi, ártal og stafi á klöpp í Másbúðarhólma, ártöl og stafi á klapparsteini ofan við Þórshöfn, stafi á hellu yfir fornmannagröf í Garði, rúnir á steini við Kistugerði og ártal á steini í Fuglavík sem og stafi sem eru á klöpp þar í fjörunni og ártal og stafi undir Stúlknavörðunni á Njarðvíkurheiði.

Kistugerði

Kistugerði – rúnir.

Þá eru allnokkur dæmi um svonefnda LM-steina (landamerkjasteina) sem og leturhellur, ýmist táknaðar með LM, L, M eða X.
Að sögn FERLIRs kemur fram að auk þessara áletrana séu til heimildir um letur á klöpp eða hellu yfir smalagröf innan við forna túnhliðið á Hólmi, leturstein á Draughól við Garð, en áletrunin á að vera tengd handtöku manna Kristjáns skrifara á Kirkjubóli, áletrun við eða á Dauðsmannsvörðu norðan Vegamótahóls (við Sandgerðisveginn forna) og ártal á steini í eða við Kolbeinsvörðuna á mörkum Voga og Njarðvíkur.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa – áletrun.

Áletranir á steinum eða klöppum geta verið minningarmörk, ártöl, ártöl sögulegra viðburðir, allt annað en grafskriftir í kirkjugörðum.
Þjóðminjasafnið hefur dregið til sín allnokkra steina með áletrunum þar sem þeir eru jafnan geymdir í hinum myrkustu dýflissum safnsins. Að sjálfsögðu ættu slíkir steinar að vistast á þeim stöðum, sem þeir áttu uppruna sinn í hinu sögulega samhengi eða hjá hlutaðeigandi svæðisbundnu byggða- eða minjasafni.

Másbúðir

Letursteinn í Másbúðarhólma.

Af þessum 128 þekktum letursteinum á Reykjanesskaganum, í mismunandi ásigkomulagi, er nauðsynlegt að viðhalda þeim ásamt því að varðveita vitneskjuna um sögu þeirra. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að skrá staðsetningu, munnmæli og sögur þeirra sem þekkja til steinanna ásamt því að halda utan um og taka saman helstu heimildir um þá.

Þótt Flókaklöppin á Hvaleyrarholti sé skráð sem einn letursteinn er á honum sem og nálægum klöppum að finna fjölmargar áletranir, bæði upphafsstafi og táknmyndir, flestar sennilega eftir sjófarendur er heimsótt hafa Herjólfshöfn í Hafnarfirði í um aldir.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri.

Við Básenda, þann fyrrum verslunarstað, eru skráðir með leturstein, en í raun eru þar fjölmargir steinar með áletrunum sem og á klöppum, s.s. í Arnbjargarskeri. Sennilega eru þær flestar eftir sjófarendur er þar komu til hafnar.
Eldri áletranir, flestar í formi rúnarleturs má t.d. finna á leiði Flekku við Flekkuvík á Vatnsleysuströnd, við Kistugerði austan Rafnkelsstaða í garði og á hellu ofan við svonefnt Fornmannaleiði í sömu byggð.

Í Alinmálssteininn framan við Þingvallakirkju er klappaðar rákir er tákna átti löggilta mælieiningu þess tíma. Ofan við Þórshöfn við Ósa er klappað fangamerkið „HP“. Fangamarkið „HPD“ fannst klappað á stein í grunni Duus-húss í Keflavík, fangamerkið „HPS“ 1628 var klappað á stein í vörðu við gömlu götuna milli Þórshafnar og Básenda og fangamarkið „HPP“ var klappað í bergstálið ofan Helguvíkur í Keflavík.

Suðurnesjabær

Þórshöfn – letursteinn.

Telja má mjög líklegt að allar þessar áletranir tengist Hans Perer Duus kaupmanni og afkomendum hans, það síðastnefnda Hans Peter Petersen, sem síðar varð þekkur kaupmaður í Reykjavík undir nafninu Hans Petersen þar sem hann rak m.a. ljósmyndavöruverslun.

Áletranir fyrri tíðar fóru ekki á mis við það sem líkja má við „falsfréttir“ vorra tíma. Dæmi um slíkt er áletrun á svonefndri Markhellu ofan við Búðarvatnsstæðið. Í heimildum (landamerkjalýsingum) segir að landamerki Krýsuvíkur, Óttarsstaða og Hvassahrauns hafi verið í vörðu á hól við Búðarvatnsstæðið. Einhverra hluta vegna hefur einhver séð sig knúinn til að setja áletrunina „KRYS-ÓTTA-HVASSA“ á hellu hraunshóls í ca. 1.5 km fjarlægð frá mosagróinni landamerkjavörðunni til suðausturs, þ.e. inn í Krýsuvíkurland?

Fuglavík

Fuglavík – elsti ártalssteinninn á Reykjanesskagnum.

Elsti svonefndi ártalssteininn er við Fuglavík vestan Sandgerðis, 1581. Heimildir eru um hann frá enskum ferðamanni, en þá var steinninn í brunnbrún við bæinn. Þegar gamli bærinn var rifinn var steinninn settur í stétt og týndist. Hann fannst svo aftur eftir leit FERLIRsfélaga með góðri eftirfylgni húsfreyjunnar og er nú sýnilegur við hlið hennar. Annar letursteinn, 1627, er glataðist eftir að sjóbúð, sem hann hafði dvalið um stund sem hornsteinn í sjóbúð ofan Kálfatjarnarvarar á Vatnsleysuströnd, hvarf í öldurót fyrir allmörgum árum fannst síðar aftur þegar félagarnir höfðu ítrekað leitað hans í fjörunni.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinninn 1672.

Steinninn sá er nú í vegg við inngöngudyr endurhlaðinnar hlöðu, Skjöldu“, á Kálfatjörn.

Vísur má t.d. sjá á steinum á Skjónaleiði við Hlið í Garðahverfi í Garðabæ og við steinhlaðinn garð að Stóra-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Ás - letursteinn

Steinar kunna að lifna við og eiga það til að senda skilaboð úr fortíðinni þegar nánar er að gáð…

Auðveldast er að lesa letur á steinum að vetrarlagi, með því að nudda snjó í „sárin“…

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju – 1790.