Lögberg á Þingvöllum
Í skrifum Birgirs Hermannssonar um „Þingvelli og íslenska þjóðernishyggju“ fjallar hann m.a. um staðsetningu Lögbergs á Völlunum:
Birgir Hermannsson.
Ein augljós vandkvæði við upphafningu þjóðveldisins var skortur á mannvistarleifum frá þessum tíma. Í samanburði við nágrannaríkin er Ísland óvenju fátækt af gömlum byggingum frá öllum tímum sögu sinnar. Hér eru engir gamlir herragarðar sem minna á ríkidæmi, vald eða afrek í menningarefnum. Engir eru hér kastalar frá miðöldum, gamlar kirkjur eða augljósar rústir. Íslensk menningararfleifð felst í bókmenntum, en þær hafa dugað vel sem aflvaki þjóðlegrar vakningar og sköpunar. Bókmenntir verða þó mun áhrifaríkari, í pólitísku samhengi, ef sögusviðið er annað og meira en ímyndaður heimur. Til þess þarf að jarðtengja þær. Með Íslendingasögurnar er þetta oftast auðvelt: hetjur riðu um tiltekin héröð og bjuggu á bæjum með nöfn. Það er einnig ljóst að Íslendingar tengdu tóftir og hugsanlegar mannvistarleifar í ríkum mæli við stofnanir þjóðveldisins: hof, þing, lögréttur og dómhringir eru næsta algeng nöfn á hugsanlegum fornleifum, en segja oft á tíðum meira um hugarfar þeirra sem gefa fornleifunum nafn en það sem leynist undir yfirborði jarðar.
Örn yfir Lögbergi á Þingvöllum.
Þingvellir eru í algjörum sérflokki þegar kemur að því að tengja saman bókmenntir, landsvæði, fornleifar og sögu. Þegar þjóðveldið var gert að gullöld Íslandssögunnar og Alþingi þar með miðpunktur athyglinnar, urðu tengslin við Þingvelli sjálfgefin. Á Þingvöllum voru þjóðveldið og Alþingi tengd með áþreifanlegum og sýnilegum hætti við ákveðið landssvæði, landslag, ummerki um mannvistir og örnefni. Það var því tilvalið að gera Þingvelli að sögulegu minnismerki.
Það er þó einnig ljóst að tengsl sjáanlegra mannvistarleifa á Þingvöllum og Alþingis á þjóðveldistímanum eru ekki skýr, enda erfitt að bera saman frásagnir frá 13. öld um enn eldri atburði og stofnanir við sýnilegar mannvistarleifar sem eru líklega flestar frá 18. öld. Umræða um forn mannvirki á Þingvöllum hefur því að miklu leyti snúist um ágiskanir og jafnvel hreinan tilbúning. Það sem skiptir máli hér er viðhorfið til staðarins fremur en staðurinn sjálfur.
Þingvellir – kort.
Hugmyndir og viðtekin söguleg þekking hefur mótast af þeim gleraugum sem Þingvellir voru skoðaðir í gegnum. Umræðan um staðsetningu Lögbergs er ágætt dæmi um vandkvæðin við að festa horfna sögulega stofnun við afmarkaðan stað á Þingvöllum. Íslenska lýðveldið var „endurreist“ að Lögbergi 1944. Þar blaktir nú ríkisfáni lýðveldisins og er án efa helgasti staður Þingvalla. Lögberg var ekki notað við þinghald eftir 1271 og með árunum munaði minnstu að staðurinn týndist, eins og Björn Th. Björnsson kemst að orði. Allnokkur umræða var meðal fræðimanna á nítjándu öld og fyrri hluta tuttugustu aldar um tilvist Lögbergs og hvar hin rétta staðsetning þess væri. Vinsæl og lífsseig skoðun var að Lögberg væri á Spönginni milli Flosagjár og Nikulásargjár. Þessi staður hefur oft verið kallaður Heiðna-Lögberg eða Gamla-Lögberg og því haldið fram að Lögberg hafi síðar verið flutt. Sigurður Vigfússon gróf eftir fornminjum 1879, bæði á Spönginni og á Hallinum þar sem margir töldu Lögberg vera, en fann engar afgerandi vísbendingar.
Þingvellir.
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður átti drjúgan hlut í því að „festa“ Lögberg við núverandi staðsetningu. Í ritgerðum í Árbók Hins íslenska forleifafélags frá 1911, 1921-22 og 1943 færir hann rök fyrir máli sínu og gagnrýnir nokkuð fræðimenn fyrri tíma. Í merkri bók sinni um Þingvelli frá 1945 finnur hann sig enn knúinn til að ræða staðsetningu Lögbergs með ýtarlegum hætti: „Á þessum stað á gjábakkanum […] var lögberg, – og er enn“. En af því að það virðist hafa verið orðið óljóst mönnum, „fallið í gleymsku og þá,“ á hinni síðustu öld, og af því að svo virðist enn fremur hins vegar, sem ýmsum sé enn ekki orðið það fullkomlega ljóst, að lögberg var á þessum stað, verður að gera hér nokkru frekari grein fyrir því, hvaða rök liggja fyrir þeirri vissu og fullyrðingu, að lögberg hafi verið einmitt þarna á gjábakkanum.
Þingvellir – minjakort.
Þessi orð – sér í lagi sá tónn sem sleginn er – segja langa sögu um þá óvissu sem ríkir um staðsetningu Lögbergs, sérstaklega ef haft er í huga að íslenska lýðveldið var stofnsett á þessum helga stað einu ári fyrr. Matthías færir skýr og skilmerkileg rök (fornar sögur, fornleifar og örnefni) fyrir máli sínu, þó hann sé á hálum ís í því að fullyrða að fornleifar – „þetta einkennilega og mikla mannvirki frá fornöld“ – veiti „hina áþreifanlegustu, óhrekjandi sönnun“ fyrir staðsetningu Lögbergs.80 Fornleifafræðin hefur enn sem komið er ekki veitt neina slíka vitneskju. Öll röksemdafærsla Matthíasar byggist á misjafnlega sannfærandi líkindum sem eðli málsins samkvæmt eru opin fyrir efasemdum og gagnrýni. Um örnefnin segir Matthías: „Ýmsir menn á vorum dögum hafa viljað líta svo á, að það sé ótrúlegt og jafnvel óhugsandi, að það hafi gleymzt, hvar lögberg var, eða að örnefnið Lögberg á Alþingis-staðnum hafi glatazt, og síðan hafi fengið það nafn annar staðar þar, sem aldrei var lögberg. Þessi skoðun manna hefur sennilega átt drjúgan þátt í því, að halda við, jafnvel allt fram á þessa öld […] þeirri trú, að lögberg hafi verið á Spönginni“.
Þingvellir – Alþingi til forna.
Niðurstaða Matthíasar var sú að örnefnið hafi „horfið af þeim stað, sem átti hann einn með réttu, horfið og dautt af vörum þjóðarinnar“ og „tímans tönn látin níða og naga bótalaust hið sýnilega minnismerki fullkomins frjálsræðis þjóðar vorrar.“ Með tilstuðlan fræðimanna á borð við Matthías hefur þó örnefnið Lögberg verið sameinað „heimastað“ sínum að nýju og lifir í huga þjóðarinnar, verndað og upphafið af íslenska ríkinu sem hinn upprunalegi helgistaður frelsis og sjálfstæðis þjóðarinnar. Þar blaktir nú ríkisfáninn íslenski sem endanleg staðfesting þessa. Fræðimenn og aðrir áhugasamir geta eflaust deilt lengi enn um staðsetningu Lögbergs, en það breytir litlu um opinbera staðsetningu staðarins. Staðsetning og merking Lögbergs hefur verið „fryst,“ enda geta opinberir helgistaðir þjóða ekki þolað óvissu um hugmyndalegan og landfræðilegan miðpunkt sinn.“
Heimild:
-Bifröst Journal of Social Science — 5-6 (2011-2012), Hjartastaðurinn: Þingvellir og íslensk þjóðernishyggja, Birgir Hermannsson, bls. 37-39.
Horft til norðurs yfir þingstaðinn.