Lönguhlíð – Mígandagróf
Gengið var upp á Lönguhlíðar (512 m.y.s.) um Kerlingargil og ofan hlíðanna til suðurs að Mígandagróf.
Grófin, sem framdalur ofan við brúnina, var tóm vegna undanfarandi þurrka, en litadýrðin var söm við sig. Grænni litur er óvíða til hér á landi í bland við brúnan. Grófin er verðandi skál líkt og sjá má í Vestfjarðarfjöllunum. Þunnt lækkandi haft skilur hana frá hlíðinni. Vatn safnast saman í hana og myndar vænan poll. Þegar blár liturinn fer saman við þann fagurgræna verður til fegurð, sem hvorki sá guli né rauði ná að brjóta upp. Stutt stjórnmálalíking.
Grófin er stundum nefnd Mýgald og hún þá Mýgaldagróf.
Frá grófinni var haldið að reisulegri útsýnisvörðu fremst á Lönguhlíðum. Útsýni þaðan yfir láglendið og til vesturs með Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi og Keili er stórbrotið. Í austri blasi Hvirfill við (602 m.y.s.), þá Kistufell, Eldborg og Vörðufell og í suðri bar Æsubúðir við haf og himin.
Haldið var niður hraunfossinn í Fagradalshlíðum, niður í gróinn dalinn og síðan gengið með neðanverðum Lönguhlíðum til baka.
Veður var bjart, stilla og sólskin. Gangan tók 3 og 1/2 klst.