Lúsaborg og Hestaslóðin á Vatnsleysuströnd

Hestaslóðin

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir m.a. um fjárskýli á Vatnsleysuströnd:

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

„Alls voru skráð sjö fjárskýli á svæðinu, auk þess sem Gvendarstekkur var einnig notaður sem fjárskýli. Á öllum stöðunum nema einum voru sýnilegar minjar. Ekki tókst að staðsetja Byrgishól en mögulega dregur hann nafn sitt af smalabyrgi eða skotbyrgi. Þekktasta og stæðilegasta fjárborgin sem skráð var er án efa Staðarborg í landi Kálfatjarnar. Hún er hringlaga og hleðslur hennar standa enn. Pétursborg í landi Stóru-Voga er önnur heilleg borg. Hún er sporöskjulaga og eru hleðslur hennar hrundar að hluta. Skammt frá Pétursborg eru tvær tóftir sem eru skráðar með borginni.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þórustaðaborg er nokkuð hringlaga tóft en eins og áður segir hefur stekkur verið hlaðinn inn í hana. Með Þórustaðaborg var skráð fornleg, tvískipt tóft, garðlag, vatnsstæði og vörðubrot. Auðnaborg er ekki dæmigerð fjárborg en þar voru skráðar fjórar tóftir, þar af mögulega einn stekkur, renna og rétt. Gíslaborg er ekki heldur dæmigerð fjárborg. Innan hennar má greina 6 aðskilin hólf en vera má að þau hafi verið hlaðin eftir að hætt var að nýta hana sem fjárskýli. Enn er ónefnt fjárskýli í Kálffelli þar sem fjárskýli eru í tveimur hellisskútum og vörslugarður er í gíg fellsins. Þetta fjárskýli er heila 7 km frá bæ. Það var notað um aldamótin 1900 og er sennilega til marks um þverrandi beitarland þar sem sífellt þurfti að fara lengra frá bæ til að finna haglendi. Önnur fjárskýli sem hægt var að staðsetja eru 1-2,9 km frá bæjum.“

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um fjárskýlin:
„Engin beitarhús voru skráð á skráningarsvæðinu en þar voru skráð 12 fjárskýli. Flest þeirra, eða níu fjárskýli, voru skráð í landi Hvassahrauns. Í landi Hvassahrauns er mikið um hellisskúta sem nýttir hafa verið sem fjárskýli. Hefur Hvassahraun ákveðna sérstöðu í sveitarfélaginu hvað þetta varðar. Öll fjárskýlin í landi Hvassahrauns eru í skútum eða jarðföllum og sjást hleðslur við sex þeirra. Áður hefur komið fram að hringlaga tóft sem skráð er með Stekk í landi Hvassahrauns er að líkindum fjárskýli. Ekki tókst að staðsetja fjárskýli í Skógarnefsskúta og óvíst er að Sauðhólsskúti sé rétt staðsettur. Þar sáust engar hleðslur. Þrjú fjárskýli voru skráð í landi Brunnastaða. Þar eru fjárskýlin hlaðnar fjárborgir. Lúsaborg er nánast horfin en grjót úr henni hefur verið notað í vegagerð.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Hringurinn er grjóthlaðin tóft sem er reyndar ekki hringmynduð eins og nafnið gefur til kynna. Henni kann að hafa verið breytt í ferkantað mannvirki á síðari tímum. Á Grænhóli er gróin þúst sem líkur eru til að sé leifar af fjárborg. Það er hinsvegar óstaðfest. Þrjú fjárskýli í landi Hvassahrauns skera sig úr í þessari töflu. Það er annars vegar Skógarnefsskúti sem er líklega nærri 5 km frá bæ. Hins vegar eru tvö fjárskýli, Hjallhólaskýli og nafnlaust fjárskýli í jarðfalli sem eru um 200 m frá bæ. Önnur fjárskýli sem skráð voru á svæðinu eru 1-2 km frá bæ. Það er athyglisvert að engin beitarhús hafi verið skráð á svæðinu. Greinilega hafa fjárskýli frekar verið notuð en beitarhús fyrir fé að skýla sér í á úthagabeit um vetur. Eins hefur fjörubeit verið mikil á þessu svæði á veturna og því minni þörf á beitarhúsum í úthögum en í sveitum inn til landsins.“

 Í fornleifaskráningunni er getið um horfið fjárskýli (fjárborg), Lúsaborg. Þar segir: „Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Ógreinileg tóft af fjárskýli er á sunnanverðum hól um 20 m SSA við beygju á malbikaða Strandarveginum þar sem Strandavegur/Gamlivegur liggur á hann. Tóftin er um 1,4 km sunnan við Efri-Brunnastaði.
Hóllinn sem tóftin er á er í hraunmóa og er hann gróinn en ekki hár eða mikill um sig. Netagirðing liggur yfir suðaustanverða tóftina.
Tóftin sést mjög illa vegna þess að búið er að taka megnið af grjótinu úr henni. Það hefur sennilega verið notað í vegagerð. Hún er um 10×12 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Rof er komið í veggina þar sem grjótið var tekið en þar sem hún er gróin sést enn stöku steinn upp úr sverði. Innanmál tóftarinnar er um 6×3 m en hún hefur aflagast mikið og má ætla að hún hafi verið því sem næst hringlaga eins og algengt er með fjárborgir. Mesta hæð veggja er um 0,5 m en víðast eru þeir 0,2-0,3 m á hæð. Ekki sést hvar op hefur verið á tóftinni.“

Lúsaborg

Lúsaborg.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir um Lúsaborg: „Næst flytjum við okkur um set og höldum suður að vegamótum Gamlavegar og Strandarvegar, þar er kröpp beygja á Strandarveginum sem kölluð var Slysabeygja og er hún u.þ.b. miðja vegu milli Brunnastaðahverfis og Voga. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því dregur hún nafnið.

Lúsaborg

Lúsaborg.

Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað. Það má ekki gleyma því að vegagerðarmenn rifu hiklaust vörður og ónýtt mannvirki og endurnotuðu grjótið í vegina. Örnefnið er sérkennilegt og óvíst af hverju það er dregið. Nafnorðið lúsa (kv.), lúsur (ft.) er til og merkir smátt, þétt þýfi. Lúsalyng er orð yfir krækilyng og lúsamulningur er nafn á óþroskuðum berjum, bæði sortu- og krækilyngsberjum.
Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar.“

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Þegar nefndur hóll, grasi gróinn, er skoðaður má sjá augljós ummerki eftir fjárborgina. Í slíkum hlöðnum mannvirkjum voru stærstu steinarnir jafnan neðst. Vegagerðarmennirnir við Gamlaveg, sem er bæði púkkaður og kanthlaðinn langleiðina, hafa greinilega hirt allt meðfærilegt grjót úr nálægri borginni, en látið það neðsta eiga sig. Annað dæmi þar sem grjót var fjarlægt úr nálægum fjárborgum má nefna þrjár slíkar skammt suðvestan við Staðarborg. Grjótið úr þeim hefur væntanlega verið forfært yfir í þá tilteknu fjárborg, enda hefur hleðsla hennar krafist gnæðs grjóts á sínum tíma. Í stæðum hinna þriggja fyrrum borga má glögglega enn sjá neðstu steinaröðina.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Eftir að hafa skoðað Lúsaborgina var haldið eftir Gamlavegi að „Hestaslóðinni“ ofan Breiðagerðis skammt ofan Vatnsleysustrandarvegar. Um er að ræða u.þ.b. eitt hundrað metra langan vegbút, púkkaðan á kafla. Greinilega hefur þarna verið unnið í atvinnubótavinnu eitthvert sumarið um og eftir aldamótin nítján hundruð. Ekki er ólíklegt að búturinn hafi átt að vera hluti „Eiríksvegar“, púkkaðan vagnveg, sem en má sjá ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Vagnvegurinn sá var liður í úrbótum á Almenningsveginum frá Kúagerði áleiðis að Arnarvörðu. Slíkan „bútasaum“ má víða sjá á og við hinu fornu götur á Reykjanesskaganum. Svo er að sjá að lagt hafi verið í upphafi með stórtæk markmið í úrbótum í vegagerðarmálum fyrir gangandi og ríðandi, en bæði vegna breytts breytanda í atvinnumálum og samgöngum, virðast þau einfaldlega hafa gufað upp og önnur markmið verið sett í forgang. Vegakaflarnir í heiðinni ofan Vatnsleysubæjanna eru ágætt dæmi um framangreint. Þeir teljast til fornleifa, en einhverra hluta vegna er þeirra ekki gerð skil í fornleifaskráningu af svæðinu.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Í „Örnefni og gönguleiðir“ segir: „Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.
Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.“
Ljóst er að vegstubburinn hefur átt að verða samgöngubót um sveitina ofanverða, að öllum líkindum væntanlegt framhald Eiríksvegar (Almenningsvegar) til Voga. Vestan Voga, áleiðis upp á Vogastapa og áfram á kafla til Njarðvíkur má sjá slíkar vegabætur. Við nútímaframkvæmdir, því miður, eru þetta fyrstu fornleifarnar sem eru látnar lönd og leið.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.