Lýsing Kjósarhrepps

Reynivallasel

Í „Úrskurði Óbyggðanefndar“ árið 2004 má lesa eftirfarandi um „Lýsingu Kjósarhrepps„:

Reynivellir

Reynivellir í Kjós.

„Sigurður Sigurðsson, prestur á Reynivöllum lýsti mörkum Reynivallasóknar svo árið 1840: „Takmörk Reynivallasóknar eru að norðanverðu: Botnsheiði og sá partur Hvalfjarðar, sem frá Neðra-Hálshólum liggur inn í landið fyrir norðan þann hluta sóknarinnar, er liggur fyrir norðan þann hluta sóknarinnar, er liggur fyrir norðan Reynivallaháls. Að sunnanverðu er Esjufjallið. Að austan er Sýsluhólmi, milli Hækingsdals og Stíflisdals, – hólmi þessi heitir öðru nafni Þinghólmi, og við hann skiptast sýslurnar, Kjósar- og Árnesssýsla, – og Sandafelli, fjall fyrir sunnan Laxá. Að vestan Hvalfjörður og áin Bugða fyrir sunnan Laxá.“

Botnssúlur

Botnssúlur.

Engin sóknarlýsing er til fyrir Saurbæjarsókn (innan Kjalarnesþinga) í safni Hins íslenska bókmenntafélags en Kjós vestan Bugðu er í Saurbæjarsókn.
Í fasteignamatinu 1916-1918 er að finna svohljóðandi lýsingu á Kjósarsveit: „Hún liggur milli Hvalfjarðar og Esju. Sveitarlandamerkin eru: Frá innanverðum Botnsvogi þverbeint upp á Múlafjall, eftir því austur á Botnssúlur, þaðan suður á Kjöl, vestur það fjall ofan í Kjósarskarð (Þrengsli) [Strikað yfir: um, og ofan línu skrifað með blýanti: fyrir ofan] Þórufoss, þaðan eftir suðurtakmörkum Fremra-Hálslands og Írafells vestur á Skálafell, norður yfir Svínaskarð um Smaladys og upp á Móskarðahnjúka, síðan vestur Esju til Lokufjalls að austurtakmörkum Tindsstaðalands (í Kjal.) þar (um Kerlingargil) ofan í Kiðafellsá (=Mýrdalsá), sem síðan er sveitamörk til sjávar.

Brynjudalur

Brynjudalur – Ingunnarstaðir.

Nyrzti hluti sveitarinnar er Brynjudalur, þá suðurströnd Hvalfjarðar út að Hálsnesi, norðan við Reynivallaháls. Sunnan Hálsness gengur Laxárvogur inn. Á honum er Maríuhöfn, löggilt. Austur og suður frá þeim vegi er dalur mikill, hin eiginlega Kjós, og er þar aðalbygðin, og í smádölum suður í Esjuna út úr aðaldalnum. Um miðju er Kjósardalurinn tvískiftur, því Meðalfell er þar eins og eyja í dalnum. Eyrarfell (=Kiðafell) er einnig sérstætt út móts við Laxárvog og bygð umhverfis það. Mun dalur sá, er skilur það frá Esju, rétt nefndur Mýrdalur; á það [strikað yfir: nafn] bendir bæjarnafnið Mýdalur [Eftirfarandi setningu á neðri spássíu er vísað hér inn: Nefndur Mýrdalur í fornu bréfi (Fbrs.); þá var þar kirkja.] (r-ið fallið burt?).
Sveitin á ekki upprekstarland; en margar jarðirnar eiga land til fjalls, og eru sjálfum sér nógar um sumarland, en frá hinum landþrengri er rekið í hin rúmu lönd Brynjudalsjarðanna, einkum sameiginlegt land Ingunnarstaða og Hrísakots. Reynivallakirkja á og land gott í Seljadal og vestanverðum Kili; en á síðari árum er Seljadalur bygður (1 bær).“

Litla-Sauðafell

Litla- (Syðra-) Sauðafell; sýslusteinn.

Björn Bjarnarson lýsir mörkum Kjósarsýslu þannig árið 1937: „Takmörk Kjósarsýslu landmegin eru: Frá Botnsvogi innanverðum suður og upp á (Hrísháls-) Múlann, er nú er nefndur Múlafjall, en er endi Hrísháls; þá eftir Hríshálsi sunnanverðum (þar hallar öllum vötnum norður), upp eftir Súlnahrygg og upp á Súlnatind, þá suðvestur til Sandvatns, er Brynjudalsá fellur úr (litlum spöl sunnar er Myrkavatn, er Öxará fellur úr), þá suðvestur um Kjalfjall (Kjölinn) og vestur af því ofan í efra hluta Kjósardalsins um Þórufoss í Laxá, skammt fyrir neðan Stíflisvatn, sem Laxá fellur úr, þá yfir Seldal, vestur í Rjúpnagilsbotna, þá gilið, unz gljúfur þess þrýtur hið neðra, þá yfir Syðra-Sauðafell, um Sýslustein, sem er uppi á fellinu, þá stefna til Þrívarða (nú sæluhússtóftar, er byggð var úr varðagrjótinu á miðri næstliðinni öld), …“

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðanendar, mál nr. 3-4/2004. 31. maí 2006. bls. 25-26.

Þórufoss

Þórufoss.