Í Alþýðublaðinu, helgarblaði, segir m.a. um Kjós; “Talir þú gott, þá lýgur þú“.
“Kjósin lætur ekki mikið yfir sér, þegar maður virðir hana fyrir sér af þjóðvegjnum. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér. Og þetta er falleg sveit og búsældarleg, þótt hér verði hvorki tíunduð fegurð hennar né gæði.
Lengi vel vissi ég ekki annað um þessa sveit eða íbúa hennar en ýmsar sögur af Írafells-Móra, einum atkvæðamesta draug Íslandssögunnar, sem kenndur var við Írafell í Kjós. Írafells-Móri var vakinn upp af galdramanni nyrðra og sendur Kort Þorvarðarsyni, gildum bónda, sem lengi bjó á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar 1821.
Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði þeim öllum. Biðlarnir þóttust sárt leiknir og keyptu af galdramanninum að senda Kort og konu hans sendingu. Valdi hann til þess drenghnokka, sem orðið hafði úti milli bæja. Vakti galdramaðurinn hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins. Móri sveikst ekki um þetta. Gerði hann þeim hjónum og afkomendum þeirra margar skráveifur, drap fyrir þeim fénað, skemmdi mat og sótti að fólki í svefni og vöku. Skammta varð honum fullan mat ekki síður en hverjum öðrum heimilismanni á Möðruvöllum og á Írafelli, eftir að hann fluttist þangað með Magnúsi Kortssyni. Sömuleiðis þurfti að ætla honum rúmflet til að liggja í, bæði af bæ og á.
Hér er ekki ætlunin að rekja frekar lífshlaup Írafells-Móra, sem þó var ærið sögulegt og viðburðaríkt. Hins vegar hefði kannski einhver gaman af að kynnast lítillega Kjósverjum þeirrar tíðar, samtíðarfólki Írafells-Móra, eins og það kom sálusorgara þess á Reynivöllum fyrir sjónir, og hvernig hann lýsir því, daglegu lífi þess og áhugaefnum, atvinnuháttum og menningu.
Um þessar mundir, eða nánar tiltekið 30. apríl 1839, sendi nefnd manna í umboði Hins íslenzka bókmenntafélags í Kaupmannahöfn boðsbréf heim til Íslands „sérílagi öllum prestum og próföstum á landinu” með þar til heyrandi spurningum um náttúru og byggð landsins, menningu og atvinnuhætti.
Séra Sigurður Sigurðsson á Reynivöllum í Kjós fékk þetta bréf eins og aðrir kirkjunnar menn í landinu. Svaraði hann spurningum nefndarinnar vel og skilmerkilega. Um Kjósverja hefur hann m.a. þetta að segja: „Flestir bændur í Kjósinni hafa sauðfá fátt, en fer mikið fleiri að tiltölu, sem þeir ala margir á útheyi, arðlitlar, fram eftir vetri. Tún sín rækta þeir sæmilega; láta margrf kýr liggja inni á sumrum. Til eru þeir, sem brúka færikvíar, og margir beitarhús á vetrum. Þeir stunda heyafla vel og fara lestir í útver tll fiskifanga vetur, vor og haust, þegar afli er. Fiskur er meiri partur þeirra höndlunarvara, þar landvara svo lítil til. Kálgarða rækta þeir margir, er ekki kartöflur eður önnur jarðepli. Sölva- og rótatekju hafa þeir ekki og lítið af fjallagrösum, sem ekki fást í Kjósarfjöllum. Nokkrir fara samt eftir þeim austi: á fjöll, í Skjaldbreið, langan veg. Sumir veiða rjúpur á vetrum.
Þeir lifa margir fátæklega á kornvöru, fiski og mjólk. Þeir vinna ullu á vetrum til fatnaðar, en ekki til útgjalda, því ull er víða lítil. Karlmenn spinna sumir hamp á vetrum í þorskanet og til veiðarfæra. Sumir elta skinn og sauma skinnföt, nokkrir vefa vaðmál og hafa á hendi útiverk við fé og hross. Kvenfólk fæst við ullarvinnu, þó minna en víða er siður í Norðurlandi. Þegar vetrarvertíð byrjar, fara karlmenn flestir í ver, en kvenfólk tekur þá við útiverkum. Þeir smíða ekki til gróða, hvorki tré eður járn; margir eru þeir vel búhagir og smíða húsgögn sín af tré og járni. Trjáreki er hér enginn, ekki heldur skógarviður til húsabygginga. Ekki iðka menn skotfimi, — fáeinir að sönnu skjóta refa við gren og slysa rjúpur, — ekki glímur, ekki skíða- eður skautaferðir, — ekki sund, — vaða heldur —; enginn þeirra þekkir nótnasöng, ekki heldur kunna þeir á hljóðfæri.
Þeir skrifa fáeinir, og þó lítið, og eru ekki gefnir mjög fyrir bókmenntir, svo ekki hafa þeir þetta til skemmtunar. Ég nefni ekki fleira. Sumir lesa dálítið í alþekktum fornsögum, en vita lítið í veraldarsögunni. Ekki skilja þeir danska tungu. Enginn hefir hér vit á lækningum eður þekkir lækrringajurtir; engin er hér yfirheyrð yfirsetukona. Ekki tíðkast hér í sveit nokkrir sérlegir sjúkdómar, nema þeir, sem almennt ganga yfir landið, landfarsóttir, og ekki mjög sóttnæmt, enda þekkja menn hér lítið til uppruna sjúkdóma eður vita að ráða bót á þeim. Bráðdauði eður fjárpest sú, sem víða gengur um landið, hefur nú upp í nokkur ár undanfarið stungið sér niður á einstöku stað, einkum fyrri part vetrar, og drepið fénað. Dýralæknir vor í Reykjavík hefir enn ekkert ráð við henni gefið til hlítar.
Um trúrækni manna og trúarbragðaþekkingu talar maður með varygð, helzt um einn söfnuð út af fyrir sig. Er lítið mun því hafa miðað síðan um aldamótin síðast.”
Þann 1. marz 1840 sezt svo séra Sigurður á Reynivöllum við skrifborð sitt, eftir að hafa svarað samvizkusamlega öllum spurningum þeim, sem til hans var beint, og ritar nefndarmönnum eftirfarandi bréf til frekari skýringar og áréttingar:
-Háttvirtu herrar! Meðtekið hefi ég á síðastl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á. áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði lasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, sízt í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fávizka, aldurdómur og ókunnugleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálun gefið en þessa.
Nú, þó seinna sé en ég vildi, legg ég í þetta umslag útmálun um Reynivallasókn, hvar í lýst mun vera öllum örnefnum, er ég vissi eður heyrt hefi, að hér séu, sömuleiðis sveitarinnar ástandi og afstöðu yfir höfuð.
Spursmálunum hefi ég svarað [á] þann veg, ekki hverju út af fyrir sig eftir röðinni, heldur í söguformi, þó með tiliti því, að þeim yrði öllum svarað nokkurn veginn. Um siðferðið og trúrækni í þeirri sveit, hvar maður býr, og á að skipta við aðra, mundi bezt að vera nokkuð fáorður, ekki óþægilega. Nógu margir skrifa eður varpa á það efun yfir höfuð. Síðari tíð sýnir ávöxtinn, hver hann verður. Hertugans sannyrði mættu mér í minni vera: Talir þú illt um þá, verður þú barinn, talir þú gott, þá lýgur þú. Yfir höfuð ætti landkort að gjörast eftir sveitanna útmálun; þó eru fáir færir fyrir þeirri útmálun, sem þyrfti. Forlátið, háttvirtu herrar, þessa ófullkomnu tilreynslu mína.
Reynivöllum, þann 1. marz 1840, – S. Sigurðsson.”
Írafell er næstum því inni á gafli í Kjósinni, svo að notuð sé samlíking, sem á upprunalega annars staðar heima en í landslaginu. Jörðin og sveitin öll hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan á dögum séra Sigurðar á Reynivöllum og Írafells-Móra er ekki lengur skammtað í askinn sinn eins og hverjum öðrum heimilismanni eða ætlað rúmflet til að liggja í, enda lætur hann nú ekki á sér kræla.
En þeir, sem aka um Kjósina á góðviðrisdegi ættu þó að renna augum til bæjarins undir fellinu, sem uppvakningurinn var kenndur við, og hafa jafnframt í huga sóknarlýsingu sálusorgarans á Reynivöllum til skilningsauka á Írafells-Móra og samtíð hans. Kjósin er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér.” —6G
Heimild:
-Alþýðublaðið, helgarblað; “Talir þú gott, þá lýgur þú”, 25.05.1969, bls. 9-10.