Miðfellsfjárhellir – Ródólfsstaðir
Á loftmynd má sjá gróna flöt vestarlega á svonefndum Mosum ofan við Miðfell í Þingvallahreppi. Að flötinni liggur forn gata upp frá bænum. Auk hennar má sjá nokkrar aðrar götur er liggja ýmist til norðurs og suðurs eða austurs og vesturs. Í Friðlýsingaskránni frá 1990 stendur m.a. þetta um friðlýstar minjar ofan við Miðfell: „Miðfell. Rústir Ródólfsstaða, uppi í hrauninu. Sbr. Árb. 1905: 46-47. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.“ Vitað er að austan núverandi vegar undan Miðfelli er fjárhellir sem notaður var fram á öldina.
Þegar FERLIR kom að framangreindum helli mátti m.a. sjá leifar túngarðs og annarra hleðslna við hann. Túngarðurinn hefur verið verklegur þótt nú sjáist hann einungis að hluta. Leifar af hlöðnu ferhyrndu húsi eru norðan í túninu, rúst sauðakofa suðvestar og minjar stekks suðvestan við túnið. Heillegustu hleðslurnar eru veggir framan við hellisopið; inngangurinn.
Fjárhellirinn hefur getað hýst a.m.k. 200 kindur. Hann er bæði víður og langur, ca. mannhæðahár. Fyrrum hefur verið hærra til lofts því talsvert tað hefur sest á gólfið. Augljóst er að þarna hefur verið fjárskjól, en önnur ummerki gefa til kynna að þarna hafi getað verið kot fyrrum.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1905 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi eftirfarandi um athugun sína á nálægum stað ofar í hrauninu: „Rótólfsstaðir – Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna.
Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhornið vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skamt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn. Hið merkilegasta við þessa rúst er nafnið: »Rótólfsstaðir«, sem auðsjáanlega á að vera Ródólfsstaðir (o: Róðólfsstaðir). Þar eð menn vita eigi af manni með því nafni hér á landi í fornöld, öðrum en Róðólfl biskupi, þá kemur manni ósjálfrátt í hug, að hann muni í fyrstu hafa sezt að á þessum stað, álitið hagkvæmt fyrir trúboðið að búa nálægt alþingi. En svo hafi hann brátt flutt sig að Lundi og síðast að Bæ, eftir því sem reynslan sýndi honum hvað bezt kæmi í hald. Auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja. En hvað sem um það er, þá hygg eg að Ródólfsstaðir bendi á það, að snemma á öldum hafi mannsnafnið verið borið fram Ródólfr, en ekki Róðólfr, sem síðar varð, og að d í þessu bæjarnafni hafi snemma orðið að t og það síðan haldist. Annars er líklegt að þar hefði komið ð fyrir d eins og í mannsnafninu. Og sú breyting (ð fyrir d) virðist hafa verið komin á áður rit hófust hér á landi.“
Í örnefnalýsingu fyrir Kaldárhöfða segir m.a. um austur/vestur göturnar: „Austur af Mölvíkum, alllangt austan vegar, eru Krókhólar (ekki Hrakhólar (GG)), hólaröð. Það eru ekki stórir hólar, sem mynda hrygg, er hraunbollar ganga inn í. Þar sem þeir eru hæstir, er stór varða, Krókhólavarða. Vestan við Krókhóla liggja svonefndar Prestagötur út af Miðfellsgötunum. Þegar Þingvallaprestar fóru til Úlfljótsvatnskirkju, styttu þeir sér leið með því að fara fyrir vestan Vesturhöfðann, beint yfir Kaldá fyrir vestan bæinn í Kaldárhöfða og svo beint að ferjustað móti Úlfljótsvatni. Voru þeir sóttir þaðan austur yfir vatnið.“
Í örnefnalýsingu fyrir Miðfellshraun segir: “
Frá bænum liggur Hellisgata austur að fjárhelli fyrir norðan Dagmálabrúnir. Að hellinum er hægt að ganga á 20 mín.; hann er kippkorn na. af Brúnum. Frá hellinum heldur gatan áfram austur hraunið, [um] Gjáarhóla, sunnan Háhrauns austur í Drift, og er heybandsvegur á sumrum.
Hellirinn er hið mesta hrakhýsi, lágur, dimmur og blautur. Þar var byggð heyhlaða 1892; í honum var haft á vetrum um hundrað sauðir og tuttugu til þrjátíu ær. Heyið var gefíð á gadd, sem kallað var, með öðrum orðum: látið á fönn. Féð þyrptist þar utan um og át. Fór furðu litið til ónýtis.
Norðaustur af Fjallsenda eru Ródólfsstaðahæðir, Efri- og Neðri-. Sú neðri er lág, og austur af henni er hóll mikill, er Rani heitir. Efri hæðin er gamall eldgígur, snýr frá austri til vesturs; vestur af henni er hæðardrag. Á því er stór og fallegur móbergshellir, sem vert mundi vera að athuga. Á milli hæðanna, sunnan grjótbala, er sagt, að verið hafi bærinn, sem hæðirnar bera nafn af, en óglöggt sáust þar tóftir síðast á nítjándu öld (sbr. þó árb. 1905, bls. 46−47).
Austan við hæðir þessar, upp að Grímsnesvegi, er sléttlendur halli suður að Mosum; heita þar Bringur. Í þeim endilöngum er hellraröð, þar sem víða má ganga úr einum í annan, og heitir það Undirgangur.
Þar austur af eru Hamraselshæðir. Ná þær jafnlangt upp og Bringur, og niður að Stóra-Karhrauni og austur að Barmahrauni. Austast á hæðum þessum er hellir, og tóftir, er hæðirnar bera nafn af; þar hefir vafaust verið sel. Syðst á hæðum þessum er stór brekka við Stóra-Karhraun, er Grembás heitir.“
Heimildir m.a.:
-Friðlýsingaskrá 1990.
-Örnefnalýsing fyrir Kaldárhöfða.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Rannsókn í Árnesþingi, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, bls. 46-47.
-Örnefnalýsing fyrir Miðfellshraun.