Minnismerki við Nauthólsvík
Við Nauthólsvík, vestan við Nauthólsvíkurveg, er minningarsteinn um veru herdeildar 330 norsku flugsveitarinnar sem var stofnuð sem herdeild í Konunglega breska flughernum (Royal Air Force) í Bretlandi í apríl 1941.
Verkefni herdeildarinnar var að leita að kafbátum og fylgja lestum flutningaskipa yfir hafið. Hún byrjaði með 24 Northrop N-3PB sjóflugvélar sem Noregur hafði haft í pöntun frá því fyrir apríl 1941. Til þess að fylla í skarð þeirra véla sem töpuðust var bætt við Catalina-sjóvélum í staðinn. Alls töpuðust 12 Northrop vélar í stríðinu og með þeim 21 maður.
Bautasteinninn úr grágrýti með áletrunum á báðum hliðum. Á norðurhliðinni er steypt málmplata. Efst er hringlaga merki flugsveitarinnar með nafni hennar: 330 (NORWEGIAN) SQUADRON 330 ROYAL AIR FORCE, kringum víkingaaldarseglskip. Á borða undir stendur: TRYGG HAVET. Texti undir merkinu: REIST TIL MINNE OM DEN NORSKE 330 SKVADRON SOM FRA APRIL 1941 TIL APRIL 1943 OPERERTE FRA REYKJAVIK, AKUREYRI OG BUDAREYRI.
Á suðurhliðina er meitlað í steininn:
LIÐSMENN ÚR 330. FLUGSVEIT ÞAKKA ÍSLENSKU FRÆNDÞJÓÐINNI HJÁLP OG AÐSTOÐ SEM ÞEIM VAR VEITT Á ÍSLANDI. Steinninn stendur á steyptum fleti og í steypuna hefur verði skrifað nafn og ártalið 1943.
Á vefsíðu Landhelgisgæslunnar má lesa eftirfarandi um nefnda herdeild:
„Upprunaleg herdeild 330 var norsk og var stofnuð sem herdeild í Konunglega breska flughernum (Royal Air Force) í Bretlandi í apríl 1941 . Deildin byrjaði að starfa á Íslandi í september sama ár og var Njörður Snæhólm einn af stofnendum hennar. Herdeildin starfaði á Íslandi frá Reykjavík, Reyðarfirði og Akureyri.
Verkefni herdeildarinnar var að leita að kafbátum og fylgja lestum flutningaskipa yfir hafið. Hún byrjaði með 24 Northrop N-3PB sjóflugvélar sem Noregur hafði haft í pöntun frá því fyrir apríl 1941. Til þess að fylla í skarð þeirra véla sem töpuðust var bætt við Catalína sjóvélum í staðin. Alls töpuðust 12 Northrop vélar í stríðinu og með þeim 21 manns.
Meðfylgjandi mynd var tekin er Northrop N-3PB sem var til sýnis í Reykjavík eftir af hafa verið gerð upp í Bandaríkjunum. Vélin var hluti af norsku flugsveitinni. Hún nauðlenti á Þjórsá 21. apríl 1943, á leið frá Búðareyri til Reykjavíkur. Í lendingunni skemmdist vélin og sökk, en áhöfn hennar, 2 menn, björguðust í land. Í nóvember 1979 var flak hennar tekið úr ánni og 10. nóvember 1980 lauk viðgerð á henni. Þessi flugvél er eina heila eintakið af þessari tegundar í heiminum og er nú til sýnis í Osló í Noregi. Á leið hennar þangað var hún sýnd í Reykjavík.
Árið 1943 flutti herdeildin til Oban í Skotlandi og síðar sama ár til Hjaltlandseyja þar sem deildin notaði 13 Short Sunderland sjóvélar. Herdeildin var endurvakin í konunglega norska hernum (RnoAF) eftir seinni heimstyrjöldina og hélt þá sínu upprunalega herdeildarnúmeri frá RAF (Royal Air Force) eða 330. Síðan árið 1973 var hún aftur endurvakin, aðalega með Sea King þyrlum og hennar meginhlutverk er leit og björgun (SAR). Deildin notar 8 Sea King þyrlur og eru aðalstarfsstöðvar deildarinnar í Bodo, Banak, Örland og Stavanger-Sola.
Árið 2002 fannst svo, við sjómælingar á vegum sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar, ein véla 330 herdeildarinnar á hafsbotni. Á mynd af fjölgeislamælingunni má greinilega sjá lögun vélarinnar.“
Heimildir:
-Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur; Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2019, bls. 57.
-https://www.lhg.is/frettir-og-fjolmidlar/frettasafn/frettayfirlit/nr/1049