Móakot í Þingvallasveit – fórnarlamb vanrækslu

Móakot

Þrír bæir Þingvallasveitar voru neðan gamla Þingvallavegarins 1890, þ.e. Skálabrekka, Móakot og Heiðarbær. Ljóst er hvar bæjarstæði Skálabrekku og Heiðarbæjar voru fyrrum, en margt er hins vegar á huldu um bæjarstæði Móakots.

Móakot

Móakot – bæjartóftirnar.

Þegar FERLIRsfélagar reyndu að nálgast fyrrum bæjarstæðið komu þeir hvarvetna að lokuðum hliðum sumarbústaðaeigenda. Því var, líkt og fyrrum, ákveðið að feta bara yfir torærur og klofa yfir girðingar, með það fyrir augum að nálgast markmiðið. Það er reyndar alveg ótrúlegt hvernig einstakir sumarbústaðaeigendur geti útilokað almenning frá einstökum minjastöðum innan sveita, langt út fyrir umráðasvæði sín. Bara það eitt er verðugt umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Örnefnaskráningu Guðmanns Björnssonar um Skálabrekku„, fæddur 13. nóvember 1909, segir: Guðmann fluttist að Skálabrekku árið 1941 frá Hagavík í Grafningi, ásamt konu sinni, Regínu Sveinbjarnardóttur, en hún ólst upp á Heiðarbæ, næsta bæ við Skálabrekku. Hafa þau átt þar heima síðan. Megnið af örnefnum jarðarinnar lærði Guðmann af Þorláki Björnssyni, sem bjó á Skálabrekku á undan þeim. Ennfremur mun Regína hafa þekkt mörg þeirra“.
Í örnefnalýsingunni segir um Móakot: „Nú verður haldið utast í landið neðan Þingvallavegar. Móakot var þar við Móakotsána undir Móakotsás. Móakot fór í eyði um 1865. Þarna undir Ásnum eru nokkrir sumarbústaðir. Þar er nú kominn mikill skógur. Þarna rétt hjá er vaðið í Ánni og Móakotsárfoss skammt fyrir ofan, fellur fram af 7 m háu bergi.“

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél“ Gunnars Grímssonar frá því mái 2020 segir:
„Heiðarbær, Skálabrekka og Móakot. Fjögur lögbýli eru ofan Almannagjár og á þeim er enn búið. Syðst er Heiðarbær, þar sem Hrolleifur Einarsson er sagður hafa búið og er landnám hans talið hafa náð frá Öxará og suður fyrir Heiðarbæ (Íslenzk fornrit I, bls. 391). Heiðarbær átti sel við Selbrúnir í hlíðunum norðan bæjarins („Heiðarbær 1“, e.d., bls. 2). Norðaustan Heiðarbæjar er Skálabrekka, þar sem Landnámabók getur þess að Ketilbjörn hinn gamli hafi reist sér skála á leið sinni til að nema land á Mosfelli í Grímsnesi (Íslenzk fornrit I, bls. 385).

Móakot

Móakotsárfoss.

Áin Móakotsá rennur sunnan Skálabrekku en hún er kennd við hjáleiguna Móakot, sem var í byggð á miðri 19. öld og fór í eyði um 1865 (Hjörtur Björnsson, 1937, bls. 165; „Skálabrekka 1“, e.d., bls. 4). Rústir eru sjáanlegar við árbakka Móakotsár, Skálabrekkumegin, nokkuð skammt frá Þingvallavatni (Jóhannes Sveinbjörnsson, munnleg heimild, febrúar 2020). Bæjarrúst Móakots var skráð ásamt útihúsum af nemendum í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2004, í trjáreit austan Móakotsárfoss. Var það hluti af vettvangsnámskeiði sem var haldið í kjölfar svæðisskráningar fornleifa í Þingvallasveit þar um kring árið áður (Guðrún Alda Gísladóttir og Orri Vésteinsson, 2003).“

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – nánast horfnar í skóg árið 2014.

Sá er þetta skrifar tók þátt í fornleifaskráningarverkefni HÍ undir forystu Guðmundar Ólafssonar árið 2014. Tilgangurinn var að teikna upp rústir Móakots. Síðan eru liðin 11 ár. Það verður að segjast eins og er að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að gera framangreindar minjar aðgengilegar almenningi, hvað þá að varðveita þær fyrir ágengri skógrækt. Í dag eru minjarnar ekki svipur hjá sjón, frá því sem var, auk þess sem nálægur sumarbústaður getur varla talist lengur svipur hjá sjón.

Heimildir:
-Skálabrekka, Guðmann Ólafsson á Skálabrekku skráði, snemma á árinu 1982.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði Gunnar Grímsson, 2020, bls 29.

Móakot

Móakot – bæjarminjarnar hornar í skóg 2025.