Nafnlausa fjelagið – undanfari Ferðafélags Íslands

Anna Kr. Pétursdóttir skrifaði um „Nafnlausa fjelagið„, undanfara Ferðafélags Íslands (FÍ) í Litla Bergþór árið 2021. Þar segir m.a.:

Nafnlausa fjelagið„Upp úr fyrsta áratug 20. aldar var til félagsskapur sem gekk undir nafninu „Nafnlausa fjelagið“. Nafnlausa fjelagið er undanfari Ferðafélags Íslands (FÍ) og gaf afrakstur starfsemi sinnar til byggingar sæluhússins í Hvítárnesi þegar félagið var lagt niður og sameinað FÍ. Stofnendur Nafnlausa fjelagsins voru nokkrir ungir menn í Reykjavík sem áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á útilegum og ferðalögum þeim tengdum. Allt frá æsku vissi ég að hann afi minn, Einar Pétursson (1892-1961), hafði verið meðlimur í þessu félagi en vissi ekkert sérstaklega mikið um hvað félagið hafði á stefnuskrá sinni nema að tilgangurinn var að kanna fáfarnar slóðir á Íslandi og hálendisferðir voru mikið áhugamál hjá þeim. Því miður, þá hef ég ekki nema nokkur minningarbrot sem tengjast þessu merka félagi.

Nafnlausa fjelagið

12. júní 1913, fánatökunni mótmælt í Reykjavíkurhöfn. Hópur fólks mótmælir aðgerðum Rothe skipherra á varðskipinu Islands Falk. Fyrr um daginn lét hann sjóliða gera bláhvítan fána sem Einar Pétursson var með í skut á róðrarbát sínum upptækan, enda þótti tiltækið brjóta í bága við siglingalög danska konungsríkisins. Í kjölfarið gripu Íslendingar til mótmælaaðgerða, m.a. með því að ögra skipherranum á danska varðskipinu og sigla um höfnina með fjölda bláhvítra fána og syngja íslensk ættjarðarkvæði.

Einar afi minn var sá Einar sem var tekinn til yfirheyrslu af danska yfirvaldinu 12. júní árið 1913 þegar að hann reri á einmennings kappróðrabáti sínum í kringum herskipið Islands Falk þar sem skipið lá á legu sinni í Reykjavíkurhöfn. Afi var með fánann Hvítbláinn í stafni bátsins en ekki þann danska og það fór heldur betur fyrir brjóstið á skipherra Islands Falk sem gerði fánann upptækan og það hafði ýmsa eftirmála í för með sér sem ekki verður skrifað um í þessari grein.

Nafnlausa fjelagið var fámennt félag, stofnað þann 11. ágúst 1916 af nokkrum ungum mönnum sem áttu það sameiginlegt að hafa gaman af að fara í gönguferðir um helgar og ferðast inn í óbyggðir og fjarlægar sveitir í sumarleyfum sínum. Svæðin sem þeir fóru aðallega um og könnuðu voru fáfarin og afskekkt svæði eins og Reykjanesskaginn, Þingvellir, Uxahryggir og Ok. Einnig svæðin í kringum Langjökul, Hvítárnes og Kerlingafjöll. Skýringuna á nafngiftinni á félaginu segir Skúli Skúlason ritstjóri vera þá að stofnendur félagsins voru að búa sig undir sumarleyfisferðalag og keyptu sér sameiginlega í nestið í versluninni Liverpool við Vesturgötu.

Björn Ólafsson

Björn Ólafsson (1895-1974).

Í stað þess að skrifa á reikninginn nöfn allra þátttakenda var kosið að láta Nafnlausa fjelagið standa fyrir úttektinni og festist þessi nafngift við félagið (sjá Mbl. 11.ág.1956, bls. 6). Nokkuð víst er að aðal stofnandi félagsins var Björn Ólafsson, stórkaupmaður og síðar ráðherra. Björn stóð fyrir leiðangrinum í Þórisdal árið 1918 og birtist frásögn hans, „Ferð í Þórisdal“ af leiðangrinum í Eimreiðinni 1918 24. árg., 3-4.tölubl., bls. 206217.
Þeir menn sem mynduðu kjarnann í félaginu með Birni Ólafssyni voru Einar Viðar, Helgi Jónasson frá Brennu, Tryggvi Magnússon, Einar Pjetursson stórkaupmaður og Gunnar Kvaran. Þess utan voru oft með þeim í ferðunum ýmsir kunningjar þeirra samkvæmt skrifum Skúla Skúlasonar ritstjóra, sem ritaði frásögn um félagið sem birtist í Morgunblaðinu þann 11. ágúst 1956.
Félagið virðist hafa verið rekið af miklum metnaði. Fáni var hannaður með merki þess, þríhyrnd veifa sem sést á myndum ef vel er að
gáð. Félagsmenn virðast hafa lagt sig fram um að vera prúðbúnir á ferðum sínum, því að á nokkrum myndum sést að félagsmenn hafa borið hálsbindi.

Nafnlausa fjelagið

Einar Pétursson (1892-1961) stundaði líka skautahlaup, á þessari mynd er hann sá hvítklæddi vinstra megin, sá hvítklæddi hægra megin er bróðir hans Sigurjón á Álafossi. Milli þeirra er afi minn Magnús Magnússon skipstjóri sem þarna er sigurvegari en varð síðar að lúta í lægra haldi fyrir Sigurjóni.

Á einhverjum starfsárum félagsins héldu þeir úti skrifstofu sem kölluð var „Leiðbeiningarskrifstofa Nafnlausa fjelagsins“ sem staðsett var í Hafnarstræti í Reykjavík. Félagið tók aðallega að sér að leiðbeina erlendum ferðamönnum sem komu til Íslands með skemmtiferðaskipum og þurftu leiðsögn. Félagið fékk mikið lof fyrir framtakið eftir því sem ég hef ég lesið í ýmsum heimildum frá þessum tíma. Félagið gaf líka út bækling eða smárit sem kallað var „Útilega” og er talið með fyrstu leiðbeiningarbæklingum sem gefnir hafa verið út hérlendis um útilegu.
Á starfsárum félagsins hafði safnast í sjóð sem ákveðið var að myndi renna til byggingar á sæluhúsi í Hvítárnesi þegar að félagið yrði lagt niður við stofnun Ferðafélags Íslands. Eitt síðasta verkefni félagsins var að fara í leiðangur inn í Hvítárnes til að velja staðsetningu undir sæluhúsið.“

Heimild:
-Litli Berþór, 1. tbl. 01.06.2021, Nafnlausa fjelagið, Anna Kr. Pétursdóttir, bls. 37-39.

Ferðafélag Íslands

Ferðafélag Íslands á Eyjafjallajökli 1931. Félagið var stofnað með formlegum hætti þann 27. nóvember 1927 í svokölluðum Kaupþingssal í húsakynnum Eimskipafélags Íslands.