Saltfisksetur Íslands í Grindavík var stofnað haustið 2002 og hefur á þeim stutta tíma náð að marka sér stöðu sem einn af helstu ferðamannastöðum Reykjaness.
Mikill vaxtarbroddur er í ferðamennsku á svæðinu að sögn Óskars Sævarssonar. Hann er og hefur verið forstöðumaður Saltfisksetursins, (síblundandi sjómaður frá fyrri tíð), göngugarpur, leitarmaður fjár að hausti, félagi í björgunarsveitinni Þorbirni, stjórnarmaður í Ferðamálasamtökum Suðurnesja og nefndarmaður í Menningarráði Suðurnesja, áhugamaður um menningu og minjar á Reykjanesskaganum, frumköðull að örnefnaskiltagerð í Grindavík, jeppafræðingur og samhæfingarsinni um áhrifaríkt samspil náttúru og sögu. Óskar telur að ferðaþjónustumöguleikarnir á Suðurnesjum séu nær óþrjótandi.
„Það hefur verið nokkur aukning hjá okkur undanfarið og sem dæmi var síðastliðinn febrúar okkar besti febrúarmánuður frá upphafi,” segir Óskar, en á síðasta ári sóttu 12.000 gestir setrið heim. [Eru þá ótaldir hinir fjölmörgu er leið áttu um svæðið, gjörsneiddir meðvitund um hvað það kynni að geta boðið því upp á að öðru leyti).
[Athyglinni var hins vegar að þessu sinni (árið 2006) aðallega beint að vinnustað Óskar; Saltfisksetrinu]. Fjölbreytt starfsemi er í Saltfisksetrinu, en fyrir utan sýninguna „Saltfiskur í sögu þjóðar”, sem hefur verið uppi frá upphafi er í setrinu glæsilegur listsýningasalur þar sem nokkrir frægustu listamenn þjóðarinnar hafa sýnt verk sín. Vinsældirnar hafa heldur ekki látið á sér standa og sækja nú um 400 manns hverja sýningu að jafnaði. Óskar segir sýningarsalinn í mikilli sókn sem slíkan, en hann er nú fullbókaður fram á næsta ár.Þar hafa, auk sýninganna, verið haldnir fyrirlestar og kynningar ýmiss konar, t.a.m. sérstök sagnakvöld um minjar og menningu svæðisins.
„Mesta traffíkin hjá okkur þessa dagana er í hópferðunum, en þá koma til okkar fólk frá vinnustöðum eða félögum. Ferðin hefst gjarna í hellaferð í nágrenninu, fólkið kemur svo hingað í Saltfisksetrið þar sem er boðið upp á rauðvín og saltfiskbollur eftir sérstakri uppskrift,” segir Óskar, en eftir þá dagskrá er farið á veitingastað í Grindavík til að snæða og eftir það á pöbbarölt.
Áætlanir eru þó uppi um að í nánustu framtíð verði í Saltfisksetrinu allsherjarferðamannamiðstöð. Lykillinn að því er í fyrsta lagi að bæta aðstöðu í setrinu, en strax næsta sumar er gert ráð fyrir að opna kaffiteríu sem hefur bráðvantað til að geta annað eftirspurn. „Svo erum við líka að byrja með aðra nýjung en það er svokölluð hljóðleiðsögn. Þá fá erlendir ferðamenn geislaspilara með heyrnartólum með sér sem leiðir þá um sögusýninguna og segir frá því sem fyrir augu ber á tungumáli áhorfandans. Þetta fyrirkomulag hefur þegar gefið mjög góða raun.”
Sá ferðamannahópur sem hefur vaxið hvað örast á síðustu árum er farþegar skemmtiferðaskipa, en Óskar hefur lagt mikla áherslu á að fá slíka viðskiptavini á Reykjanesskagann. „Það skiptir öllu máli að markaðssetja svæðið rétt og bjóða upp á eitthvað einstakt. Við höfum til dæmis verið að vinna í því að koma á fót jeppaferðum um Reykjanesið, en það verður að sjálfsögðu skipulagt með umhverfisvernd í huga,” segir Óskar og er full alvara þar sem hann metur hið ósnortna svæði Reykjaness mikils.
Óskar hefur gengið um nesið þvert og endilangt frá því hann var drengur og þekkir þar til Oskar en flestir. Hann var einmitt í göngu fyrir skemmstu ásamt ferðahópnum FERLIR þegar hann rak skyndilega augun í áður óþekktar mannvistaleyfar sem stendur til að rannsaka og aldursgreina. Um var að ræða hlaðin hús í Eldvörpum, mjög líkum þeim er uppgötvaðar voru í Sundvörðuhrauni á 19. öld – og þóttu einstaklegur fundur á þeim tíma.
Óskari er heitt í hamsi þegar talið berst að umgengni fólks á Reykjanesi, sem hann segir að mætti bæta verulega. „Það eru ótrúlega margir útlendingar sem hafa farið um svæðið sem minnast á slíkt. Það er varla eitt skilti sem ekki er útskotið svo að maður minnist ekki á gróðurskemmdirnar. Jeppaslóðirnar og förin eftir torfæruhjólin eru skelfileg. Það má ekki skilja sem svo að ég vilji láta banna hjólin og jeppana með öllu, en við verðum að vinna saman að því að finna öllum stað. Það gengur ekki að bjóða fólki að skoða náttúru sem er búið að fara svona með.”
Möguleikar Reykjaness í ferðamannaiðnaðinum eru nær óþrjótandi og með bættum samgöngum telur Óskar að svæðið eigi enn eftir að eflast. „Tilkoma Kynnisferða hér á svæðinu hefur stóraukið tíðni rútuferða frá Reykjavík. Það er að vísu óvíst með framhaldið á því þar sem fyrirtækið er til sölu, en við erum bjartsýn.”
Þá hafa Ferðamálasamtökin staðið fyrir miklu átaki í að merkja gönguleiðir á svæðinu og er nú búið að stika 5 af u.þ.b. 20 leiðum leiðum. Auk þess er búið að setja upp eitt af 6 stórum gönguleiðaskiltum við Sólarvéið í Grindavík.
Vonir Óskars og fleiri ferðaþjónustaðila á svæðinu standa til þess að fá nánara samstarf við Bláa lónið, fjölsóttasta og best kynnta ferðamannastað landsins. „Það væri mikil lyftistöng fyrir Grindavík sem ferðamannastað að ferðamenn gætu farið í Bláa lónið og tekið þaðan rútu að Grindavík. Þaðan væri svo farið í hellaferðir, gönguferðir, ferðir með leiðsögumönnum eða eitthvað slíkt. Þá gæti Saltfisksetrið verið miðpunkturinn hér í Grindavík.”
Framtíðin er björt í ferðaþjónustunni á Reykjanesi segir Óskar að lokum. Með réttri og markvissri stjórn Ferðamálasamtakanna og ekki síst nánu samstarfi helstu aðila á svæðinu hefur kynningarstarf skilað miklu – og gæti enn bætt um betur.
„Það segir sig sjálft að einn stór bás frá Reykjanesi á Vest-Norden ferðakaupstefnunni hefur meiri áhrif en ef við værum hver í sínu horni. Það eru enn mikil sóknarfæri hjá okkur og má þar minnast á ferðir tengdar upplifun af ýmsu tagi líkt og jeppaferðir. Þar erum við að tala um allt öðruvísi kúnnahóp en hefur vanið komur sínar hingað til lands. Sem dæmi um möguleikana má nefna að franskur milljarðamæringur hefur leigt helli í nágrenni Grindavíkur til að halda upp á stórafmæli sitt.”
Á árinu verður enn bætt um betur í aðgengi um svæðið þegar Ósabotnavegur verður lagður milli Hafna og Stafness og þá verður kominn hringvegur um alla ferðamannastaði á nesinu. Einnig verður nýr áfangi endurnýjuðum Suðurstrandavegi frá Hrauni til Ísólfsskála tilbúinn í júni og Nesvegur frá Stað í Grindavík að orkuveri Reykjanesvirkjunar mun verða malbikaður [ef alþingismenn standa við orð sín]. „Grundvöllur þessara tækifæra er að stækka Reykjanesfólkvang og koma á samvinnu allra aðila í því sambandi. Við vonumst til að fá Hitaveitu Suðurnesja með okkur í það verkefni auk Landgræðslunnar sem þegar er byrjuð að vinna gott starf eftir að beitarhólf var girt við Krýsuvík.”
Það má með sanni segja að framtíðin sé björt í ferðamannaiðnaðinum á Reykjanesi þar sem þegar er rekin ein öflugasta ferðaþjónusta landsins. Nú er einmitt rétti tíminn því mikið liggur á að efla slíka starfsemi undir núverandi kringumstæðum. Hver veit nema þjónusta við ferðamenn verði hin nýja kjölfesta í atvinnulífinu suður með sjó er fram líða stundir.
Heimild:
-reykjanes.is