Njarðvík – mörkin, nöfnin og sagan

Njarðvíkursel

Öll kort, sem birt hafa verið, telja Njarðvík vera heiti á vík sem er á milli Klapparnefs fremst á Vatnsnesi (þar sem vitinn er nú) og Hákotstanga.
„Merkin [Njarðvíkur] eru í Innri-Skoru á Stapa, en stapi þessi hét áður fyrr Kvíguvogastapi. Um 1840 segja þeir, að gamalt nafn á Stapanum sé Gullkistan sökum þess hve fiskignægð er þar mikil á færi rétt við. Ytri-Skora heitir önnur skora í stapann rétt vestar. Þar næst undir berginu er Svartiskúti, og þegar stapinn fer að lækka, heitir Sigurðarsteinn. Það er klöpp frammi við sjó, og er hann hæstur fremst. Þar var dreginn fiskur fram af. Upp af þessu og vestur af Svartaskúta eru á brúninni tvær vörður, sem heita Álbrúnarvörður. Draga þær nafn af því, að þær eru mið á fiskislóð þá, sem Álbrún heitir“.
Ofanverðar NjarðvíkurAllar gildandi örnefnalýsingar hefjast svona: „Þegar Stapanum sleppir, kemur lítil vík, sem heitir Kópa. Hún er austur af Stapakoti og er lending þaðan. Vestur af Kópu taka við Hákotstangar. Austur af Stapakoti og vestan Kópu gengur klettur langt fram, sem heitir Grákjafta. Þar næst eru Gálgaklettar, háir klettar eða björg við sjó, milli Stapakots og Njarðvíkna. Vestur af Gálgaklettum er vör, sem heitir Móakotsvör (eða Móakotsklettur?). Þar upp af var kot áður fyrr, sem hét Móakot. Þá er vík norður af kirkjunni, sem nefnd er Kirkjuvík. Þar næst eru svonefndir Hákotstangar, er liggja þar fram í sjóinn. Þar var og vör. Við þessa tanga segir maður svo, að Njarðvík byrji. Vestur af töngunum er Hákotsvör. Þaðan reri Pétur Björnsson í Hákoti. Þá er Hálfdán. Það er mið Súla um kirkjuna, og hitt miðið er Litli-Keilir um Fálkaþúfu á innri enda Stapans. Þar var mjög fiskisælt. Nokkur áratog framar var svo komið á leirbotn, nefnt Klettsmið, sem var milli Súlna um Stapakot.
Innri-Njarðvík

Vestur – suðvestur af Hákoti er stór klöpp, sem kemur ekki upp nema um fjöru, og heitir hún Hundhella. Þar utar eru Njarðvíkurvarir tvær, sem skiptast í Norðurvör og Suðurvör. Vararkjaftarnir eru saman. Næst er vík, sem heitir Tjarnarkotsseyla, og Seylubakki, kampurinn upp af sjávarmáli. Þetta er möl. Tjarnarkot er næst og stendur upp frá þessu á smáhæð. Framhald er malarkambur. Þá er næst Markasteinn, stór klettur, sem kemur upp um fjöru og er merki móti Narfakoti, aðeins til, að þar marka af þangfjöru(?). Narfakotsklettar eru þar við, og þar fram af er stór steinn, nefndur Snasi. Hann fer ekki í kaf, og suður af þessu er svo loks Narfakotsvör. Smátangi er þar næst, sem heitir Harðhaus. Narfakotsvör var þrautalending. Suður af Harðhaus eru Narfakotstangar, og þar næst er smávík, Narfakotsseyla, sem nær lengra inn en Tjarnarkotsseylan. Í Seylunni er Seylusker, og þar í er sandur, sem var maðkasandur. Í Narfakotsseylu var Stekkjarkotsvör. Hún var í svonefndum Seylutanga, sem er næst utan við Seyluna. Upp af Seylunni sunnanverðri er klapparhóll, sem heitir Tjaldhóll. Dregur hann nafn af því, að þar sat tjaldurinn oft. Þá er Stekkjarkotssíki, leysingarvatn. Stekkjarkot var rétt við veginn, en neðan við hann. Þá eru næst Njarðvíkurfitjar, láglendið fyrir botni víkurinnar. Þá er Grandi og Innri-Háibali, sbr. Ytri-Njarðvíkur. Þá er tangi utan við sandinn, sem heitir Háabalatangi. Spöl utan við tangann er lítill steinn á merkjum. Tvö sker eru utarlega á sandinum. Þau heita Stórasker og Móakotssker.

Ytri-NjarðvíkRéttarhús er upp af, milli Gálgakletta og Kirkjuvíkur. Njarðvíkurtjörn er upp af Tjarnarkotsseylu og var slegin lengi fram eftir. Við austurjaðar tjarnarinnar heitir Hólmfastskot og Ólafsvellir, sem eru þar upp frá. Í norðaustur frá Hólmfastskoti var býlið Tröð, og í austur frá því var Móakot, sem Móakotsklöppin er kennd við. Norðan við túngarð Hólmfastskots var blettur lítill niður við tjörn, og hét hann Ullarreitur. Hann er þríhyrndur í lagi, rétt hjá Njarðvíkurbrunni. Þá er Einarsvöllur hjá kirkjunni, og þar austur eftir er svo Kirkjuvíkurvöllur. Ullarreitur heitir þetta, því þar var þurrkuð ull.
Syðst í tjörninni var grjótgarður, sem gengið var eftir og er nefndur Heljarstígur. Hann var þjóðbraut milli bæjanna. Suður af  honum er smáflöt, sem heitir Ólafsvallakrókur. Nú er verið að umturna þessu öllu. Þar suður af var kálgarður, sem hét Illugagarður. Í Tjarnarkotstúni austast var kálgarður, sem nú er orðinn að túni, og hét hann Helgugarður. Suður af Tjarnarkoti er hóll þar upp af til austurs, Holtshóll. Þar er eyðibýlið (tómthús) Holt. Þetta er norður af Dæluhúsinu. Tættur eru þar upp af, upp við veg, sem heita Arnbjörnshús. Lambhús voru milli Akurs og Akurgerðis, sem hétu Lambhús. Í Tjarnarkotslandi austan til, rétt fram af, var býlið Hlíð, og Björnsbær var við bæinn heima.

Tóft Hólmfastskots

Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll. Þá er Stóragjá, sem er framhald af Hrafnagjá og nær alla leið með ýmsum nöfnum fram á Reykjanes. Vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar, kenndar við Gíslhelli, sem er þar ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum.
Beint upp af Njarðvíkum í suðaustur eru Löngubrekkur, og syðst í þeim er Vogshóll, sem er á merkjum, aðeins skorinn frá brekkunum. Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuendi. Þar á er stór varða, beint upp af Skjólgarði.
Ártalssteinn í NjarðvíkVestur frá Löngubrekkum niður af Vogshól eru Steindraugsbrekkur. Beint suður frá þeim eru smádældir, sem heita Djúpudalir. Við suðurenda Löngubrekku norður af Vogshól er hár hóll nær Njarðvíkum, sem heitir Sjónarhóll. Suður af honum er klettaklungur, Klofningur, suður af flugvelli. Stóri-Skjólgarður er fyrr nefndur, uppi á hæð, hlaðinn í kross og er norðvestur af Löngubrekkum. Þar í vestur er svo Litli-Skjólhóll skammt ofan við Njarðvíkur. Inn af honum er Leirdalur, land og gras, nú tættur. Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuhóll.
Leirflög eru fyrir ofan brekkur. Þar ofar er Litli-Latur og Stóri-Latur, grjótbelti beint upp af Njarðvíkum. Ofan við veginn er smáhæð, sem heitir Narfakotsborg. Þar suður af er smáhóll vestur af Vogshól, og heitir hann Smalaskáli. Gleymzt hefur Arnarklettur, sem er á merkjum. Hann stendur í hvamminum ofan við Vatnsgjár.

Njarðvíkursel

Landamæri Ytri- og Innri-Njarðvíkur eru frá Ytri-Háabala í Grænásvörð á Grænási. Innan við Háabala koma Njarðvíkurfitjar. Malarkambur er fyrir botni víkurinnar (Njarðvíkur), sem heitir Fitjagrandi. Fjöruborð er mikið frá víkurbotninum og er það mest allt dökkur, fínn sandur. Í honum var mikið af sandmaðki, sem notaður var til beitu frá ómunatíð og allt fram til ársins 1940, er atvinnuhættir breyttust, og menn höfðu öðru að sinna og öðru að beita. Framarlega á sandinum, sem kallaður var Stórisandur, eru tvö sker. Annað þeirra er kallað Langasker eða Móakotssker en hitt er kallað Stórasker eða Njarðvíkursker. Voru þessi sker mjög hættuleg flæðisker og urðu fjárbændur oft að vakta þau daga og nætur og oft um miðjar nætur í svartamyrkri og illviðrum að reka féð úr skerjunum og jafnvel að vaða sjóinn á aðfalli upp undir axlir.
Við austurenda Fitjagrandans er frárennsli úr tjörnum, sem eru ofan við grandann og nefnist það Stekkjarkotssíki og ber nafn af bænum Stekkjarkoti, er stóð ca. 1[00]-300 metra ofar og austar, skammt neðan við þjóðveginn. Þar var síðast búið fyrir 34 til 36 árum, og eru þar nú bæjartættur og garðarústir eftir.
Næstsíðustu ábúendur í Stekkjarkoti voru Ingibjörg Guðmundsdóttir og Magnús Gíslason, en síðast bjuggu þar Bjarni Sveinsson og Björg Einarsdóttir.
Innar með sjónum er tangi, sem kallast Byrgistangi. Á honum norðanverðum er vör, sem heitir Stekkjarkotsvör; þar rétt hjá er rúst af fiskbyrgi Stekkjarkotsbóndans, er hafði þaðan útræði á seinni hluta 19. aldar. Mun bóndi sá hafa heitið Jón, eins og gömul vísa bendir til, en vísan er þannig:

Bragnar halda besta mið
og búast ei við fiskiþroti,
ef Súla ber í salthúsið
signor Jóns í Stekkjarkoti.

Milli Byrgistanga og Seylutanga að norðan er dálítil vík, sem heitir Narfakotsseyla (Seyla). Er þar mest sandur á botni um fjörur og var þar grafinn upp maðkur eins og í Stórasandinum. Innst í botni Seylunnar er hóll, sem kallast Tjaldhóll og lá gamli vegurinn suður með sjó yfir hólinn.
Stóri-Skjólgarður á NjarðvíkurheiðiNæst norðan við Seylutanga kemur Narfakotsvör. Þaðan var töluvert útræði á síðustu öld. Skammt þaðan í suður eru rústir af bæ er hét Harðhaus. Lagðist það býli niður skömmu fyrir aldamót vegna sjávargangs, en bæjartóftir sjást enn í dag. Norður og fram af Narfakotsvör er stór steinn, sem heitir Snasi. Milli Narfakotsvarar og Tjarnarkotsvarar liggur malarkambur. Út í sjónum beint fram af túngarði milli Tjarnarkots- og Narfakotsjarða er stór steinn, sem kallast Marka- eða Merkjasteinn. Tjarnarkotsvör  er við botn Tjarnarkotsseylu, og liggur svonefndur Seylubakki norður að syðri Njarðvíkurvör, en sú vör var niður lögð 1935, er byggð var þar dráttarbraut.
Ofan við Seylubakkann liggur Njarðvíkurtjörn og var hún prýði byggðarlagsins þar til fyrir þremur árum, að grafin var skolpveita gegnum Seylubakkann og gengur nú sjór inn í tjörnina á flóðum í stórstraumum og virkar það á þann veg, að gras og gróður drepst þar. Hefir þetta og annað umrót gjört það að verkum, að nú er hún á leið með að verða moldar- eða forardý og er það mjög illa farið að áliti okkar eldri Njarðvíkinga, er þekktum hana eins og hún var frá náttúrunnar hendi.
GarðbærNjarðvíkurvarir voru tvær, suður- og norðurvör. Frá Tjarnarkotsvör og Njarðvíkurvörum var á 19. öld mikil útgerð áraskipa allt frá tveggja manna förum og upp í áttæringa og hélst alltaf nokkur útgerð frá þessum lendingum á árabátum og opnum vélbátum (trillum) fram til ársins 1942. Fyrstu opnu vélbátarnir voru gerðir út frá þessum lendingum og hér í Innri-Njarðvík veturinn 1928, tvær trillur þá vertíð og hélst trillubátaútgerðin óslitin til ársins 1942, lengst af tveir 4-5 [tonna] bátar frá Tjarnarkotslendingu.
Dekkaður vélbátur kom fyrst í Innri-Njarðvík 1912 og hét hann Njarðvík og var eign heimamanna og áttu þeir hann í 7-8 ár. Á árunum 1925 og allt fram yfir 1940 voru gerðir út mótorbátar frá Innri-N[jarð]v[ík] og höfðu þeir lendingu við bryggju steinsteypta, er byggð var á árunum 1925 til 30. Stærð þessara báta var frá 12-30 tonn og voru þeir frá eftirtöldum stöðum: Vestmannaeyjum, Keflavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Hrísey og ef til vill víðar að, og á þessum árum sóttu báteigendur utan af landi eftir að komast með báta sína á vertíð hér við Faxaflóa, jafnvel þó aðstæður væru slæmar miðað við það sem nú er, og urðu menn þá að leggja bátum sínum við legufæri úti á víkinni og oft á lágum sjó og landa fiskinum á opnum smábátum.
StekkjarkotsbrunnurÁ árunum 1925-31 var gerður út átján tonna vélbátur frá Narfakots- og Tjarnarkotslendingum. Í Tjarnarkotslendingu var byggð lítil bryggja, og fiskhús þar upp af á árunum 1927-8, og var þar aðallendingarstaður fyrir trilluútgerðina. Þá útgerð ráku um árabil bræðurnir Finnbogi Guðmundsson, Tjarnarkoti og Sigurgeir Guðmundsson, Akurgerði, er báðir voru formenn, og meðeigandi þeirra var Magnús Pálsson frá Garðbæ.
Skammt norður frá Njarðvíkurvörum er gríðarstór klöpp, sem kölluð er Hundhella. Spölkorn norðaustar er Hákotsvör, var þaðan róið á 19. öld, allt fram yfir 1890. Norður af henni er Hákotstangi og skagar hann lengst í norður hér í Innri-Njarðvíkurbyggð. Suðaustur frá Hákotstöngum er vík, sem heitir Kirkjuvík og ber hún sennilega nafn af kirkjunni, er stendur upp frá víkinni í suðurátt. Austan við Kirkjuvíkina eru háir bakkar.  Er þar mjög stór klöpp, sem kallast Móakotsklöpp, og er aðdýpi mikið við hana. Var oft lent bátum við klöppina til að landa fiski. Var það gert langt fram á 19. öld og er tóft af fiskbyrgi uppi á bakkanum til minja um þá tíma.
Stapinn - sorphaugarFrá þessum stað, austur með sjónum, er klettabelti er nefnist Gálgaklettar. Tilgátur eru um, að þar hafi verið reistir gálgar í fornöld. Þar skammt austar er smáklettanes, fremst á því er stór klettur, sem nefndur er Grákjaftur. Þar fyrir suðaustan er vík, sem heitir Kópa. Við botn hennar að vestanverðu er Stapakotsvör og var stundaður sjór þaðan allt fram til 1930. Fyrir botni Kópu er hár malarkampur allt að Stapaenda, en hann myndar víkina að austanverðu. Þar skammt innar undir Stapanum er mikil klöpp er heitir Sigurðarsteinn. Gömul sögn segir, að maður að nafni Sigurður hafi orðið út undan með skiprúm, en tekið það ráð að renna færi sínu fram af klöppinni og fiskað ekki síður en þeir sem reru.
Dálítið innar með Stapanum er skúti undir bergi, sem kallaður er Svartiskúti. Upp af honum eru tvær vörður, önnur fram undir bergbrún, en hin spölkorn ofar, og heita þær Álbrúnarvörður. Nokkru innar er Ytriskorunef; þar er Stapinn hæstur fram við sjóinn. Þar innar er Ytriskora og var oft áður farið þar niður og náð í kindur er þangað sóttu. Nú síðan í stríðslok eru þar sorphaugar niðri og uppi. Suðurnesjamenn, aðallega Keflvíkingar, hafa keyrt þangað alslags óþverra og fýkur hann í norðanátt langt upp á land og yfir þjóðveginn eins og vegfarendur geta séð, og eru það mikil og skammarleg óþrif.
Í StekkjarkotiNokkru innar er önnur vík, er skerst inn í Stapann, og heitir hún Innriskora og eru þar endamörk Innri-Njarðvíkurlands. Eru landamerki þaðan upp í Arnarklett, sem er spölkorn austur frá Seltjörn.
Svo vil ég segja frá nokkrum fiskimiðum fram af Innri-Njarðvík og undir Stapanum. Fyrst skal nefna Hálfdánarmið. Súla ber (um kirkjuna) … og Litli-Keilir í Fálkaþúfu á innri Stapaendanum. Álbrúnarmið eru að Álbrúnarvörður  fyrrnefndar bera hvor í aðra.
Njarðvíkurbrún kallast þar sem hraunið og leirinn mætast; miðin þar eru: Brúnarhnúkur suðvestur af Keili kemur fram fyrir Grímshólshæð nærri hraunbrún fram úr miðri Njarðvíkinni að vestan og út af Kópu að austan. Klettsmið eða Klettsslóð fram í leirnum var kallað, er Súla bar í Gálgakletta.
Njarðvíkurbrún var kölluð, þegar Súla bar í Njarðvík og Kirkjubrún er Súla bar í kirkjuna; Narfakotsbrún, er Súla bar í Narfakot.
Skoruleir var kallaður undir Stapanum út frá og milli Ytri- og Innriskoru. Voru þessi mið oft mjög fiskisæl, er netafiskur gekk hér á grunnið.
Svo vil ég að lokum segja frá nokkrum býlum í Innri-Njarðvík til viðbótar þeim sem fyrr segir. Fyrst er Lambhús, tómthús utan túngarðs skammt suður frá Narfakoti. Lagðist það býli í eyði skammt eftir síðustu aldamót. Bjuggu þar seinast hjónin Jón og Margrét. Var Margrét systir Sæmundar Jónssonar á Minni-Vatnsleysu. Annað býlið hét Holt og var það í austur frá Lambhúsum og bjuggu þar hjónin Jón Jónsson og Ingigerður Þorsteinsdóttir, er síðar flutti að Akri. Holt lagðist í eyði rétt eftir síðustu aldamót.
Í túnjaðri við túngarðshlið í Tjarnarkoti (var lítið býli er lagðist í eyði upp úr miðri nítjándu öld, var það kallað Hlið. Þar bjuggu síðast, sem vitað er, gömul hjón, Halla og Magnús að nafni.
Ólafsvöllur og Hólmfastskot voru grasbýli byggð í Njarðvíkurtúni skammt hvort frá öðru austan við syðri tjarnarendann og lögðust þau í eyði á síðari hluta fimmta tugs þessarar aldar.
Skammt í austur frá Móum var grasbýli, sem hét Móakot. Bjó þar síðast maður að nafni Guðmundur Bjarnason. Var hann bróðir Péturs, er lengi bjó í Hákoti. Móakot lagðist í eyði um eða fyrir 1890, en jörðin fór í eigu Stapakotsbónda.
Milli Njarðvíkur og Móa var tómthús, sem nefndist Tröð. Bjuggu þar lengi hjón, er hétu Þorgerður og Jósep, en síðast bjuggu þar Sigríður og Sigfús Jónsson. Sigfús var sonur Jóns, er bjó lengi á Vatnsnesi við Keflavík. Lagðist Tröð í eyði skömmu eftir síðustu aldamót.
Er nú þessari frásögn lokið, en ég hef fest hana á blað í samráði við föður minn, Finnboga Guðmundsson, sem er á 76. aldursári og hefur búið í Tjarnarkoti í 51 ár, og var hann á 11. ári, er hann fluttist hér í Innri-Njarðvík. Ég er einnig fæddur og uppalinn hér og hef alltaf átt hér heima, og á uppvaxtarárum mínum var vinnan mest við sjó og á sjó og þurfti í þeim daglegu störfum að vita skil á mörgu, sem nú uppvaxandi kynslóð þarf ekki að vita eða kunna.

Tímarnir breytast og mennirnir með,
margt hefur gengið úr skorðum.
En halda skal í það, er hefir þó skeð
og hugsuðu kynslóðir forðum
.“                                             

Heimild m.a.:
-Kristján Sveinsson – Saga Njarðvíkur, Þjóðsaga 1996.
-Örnefnalýsingar fyrir Innri-Njarðvík – ÖI.

Innri-Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.