Njarðvíkursel
Skúli Magnússon hafði eftir síra Pétri Jónssyni að höfðubæir í Njarðvíkum hafi verið tveir; Innri- og Ytri-Njarðvík: “Frá Innri-Njarðvík var selstaða við veginn, er liggur frá Vogum að Grindavík.
Þar er lítið vatn skammt frá, er heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningsfæðar aflögð”. Þetta var ritað í byrjun 19. aldar. Á gömlu dönsku landakortunum er merkt sel suðaustan við Seltjörn (vestan við Grindavíkurveginn á þeim stað, sem Stapavegurinn liggur nú). Við skoðun á staðnum þurfti ekki að leita lengi til að sjá seltætturnar. Þær kúra undir hraunkantinum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni.
Selið lagðist af um 1800, en líklegt er að það hafi verið notað eitthvað eftir það, t.a.m. sem sæluhús, enda við Vogaveginn til Grindavíkur.
Tóftirnar eru sumar enn mjög heillegar. Þær eru ekki fjarri gamla Grindavíkurveginum og er lagður var á árunum 1914-1918. Því er ekki ólíklegt að vegavinnumenn hafi haft einhver not af aðstöðunni þarna, a.m.k. réttinni norðan selsins, ofan við vatnsbakkann. Nefndur hólmi fór í kaf þegar hækkaði í vatninu er afrennsli þess var stíflað með vegastæðinu austan þess. Eini núverandi íbúinn, í einu tóftahorninu, minkur, vildi ekki láta sjá sig að þessu sinni.
Við Knarrarnes var skoðaður letursteinn og sást vel vísan, sem á hann var klappað á 18. öld. Vísunni er lýst í einni bóka Árna Óla. Talið er að hinn sami nafngreini maður (gátan felst í áletruninni) hafi einnig klappað ártalið á skósteininn í hlöðnu brúnni á kirkjugötunni að Kálfatjörn.