Nýjahraun (Kapelluhraun/Bruninn) – hrauntröð
Ætlunin var að ganga upp og niður meginhrauntröð Nýjahrauns, sem myndaðist haustið 1151, frá upptökunum og til baka. Í tröðinni, sem er bæðidjúp og breið á köflum, eru formfagrar hraunmyndanir, auk þess sem landslagið á svæðinu er ægifagurt.
Að þessu tilefni var gengið inn í Nýjahraun (Kapelluhraun) við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Norðan gatnamótanna eru hin grónu Snókalönd, hluti Hrútagjárdyngjuhrauns, og sunnan þeirra er hin stórbrotna hrauntröð Rauðhóls. Fyrir hugsandi hugmyndasmiði og myndlistamenn eru fáir staðir áhugaverðari.
Jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af Reykjanesi fyrir um 12.000 – 13.000 árum og er það nokkru fyrr en annars staðar á landinu. Jarðlög Reykjanesfólkvangs eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólstraberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin á nútíma, það er eftir að jökull hvarf af svæðinu.
Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það er væntanlega leifar af fornum dyngjum og hefur líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli síðasta ísaldarskeiðs. Syðst og austast í fólkvanginum eru t.d. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun, forsögulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám og á 14. öld. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151. Þá opnaðist 25 km löng gossprunga og rann hraun bæði til norðurs og suðurs allt til sjávar. Norðurelfa þessa hrauns er Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Ögmundarhraun rann yfir þéttbýlisbyggð Krýsuvíkur sem þá stóð á sjávarbakka við grunna vík (nafnið „krys“ táknar grunna skoru í ask) innan í landinu, allt nema kirkjuna, skála og mikla garða, sem nú liggja innan Húshólma og Óbrennishólma. Þar eru og fornar fjárborgir (nema borgin mikla í Óbrennishólma hafi verið hringlaga virki). Heita má að svæðið sé órannaskað þrátt fyrir merkilegheitin, en yfirlýst „stefna“ Fornleifaverndar ríkisins hefur frá upphafi verið sú að „engar merkilegar fornleifar er að finna á Reykjanesskaganum“ (haft eftir forstöðumanni stofnunarinnar í fornleifafræðitíma í HÍ 2006). Viðbrögð stofnunarinnar sem slíkrar svo og aðgerðir hennar hafa hingað til endurspeglast í þessum orðum.
Reykjanesið er þó óumdeilanlega jarðfræðilega merkilegt, þ.e. gosbeltið sem slíkt, landmótunin og ekki síst nútímaleg hraunamyndunin. Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Á Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast
þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum, en stundum er erfitt að taka eftir þeim þar sem hallinn er svo lítill og
stærð þeirra er slík að auðvelt er að sjá þær ekki.
Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001). Hrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 4.500 – 5000 árum síðan.
Nálægt gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, sem fyrr segir, eru Snókalöndin. Allt umleikis er vaxið hraungambra, en löndin sjálf eru gróin birki, enda miklu mun eldri en umhverfið. Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“.
Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Aðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Ofar eru garðhleðslur landamarka Straums og Áss. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.
Kapelluhraunið er á köflum mjög úfið apalhraun, en jaðrar þess, ofan hrauntraðarinnar, eru slétt helluhraun. Að þessu sinni voru litbrigðin óvenjumikil því það haustaði að. Víðirinn var orðinn gulur, bláberjalyngið brúnt og mosinn var bæði hvanngrænn og grár eftir undangengin regnskúr. Mosahraunin verða nefnilega grá í þurrkum, en græn í vætutíð. Litbrigðin margfaldast þannig áþeim tímamótum fyrir áhugasamt listafólk, hvort sem um er að ræða ljósmyndara eða málara.
Kapelluhraun er, se, fyr segir, ákaflega fallegt úfið á köflum og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum þess vestanverðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.
Um aldur Kapelluhrauns hefur Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson ritað árið 1989; Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Einnig Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80. Þá rituðu Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998 um; Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177. Páll Imsland sitaði 1998; Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Í framangreindum skrifum kemur m.a. fram að; yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.“
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177): „Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.“
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.: „Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Þegar gengið var til suðurs með austurjaðri hrauntraðar Rauðhóls mátti sjá þar gamla götu, að mestu mosavaxna. Hún gæti hvort sem er verið eftir skepnur eða menn. Þeir, sem vel þekktu til og áttu leið um Undirhlíðaleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, gætu með góðu móti hafa smeygt sér þarna niður Brunann með greiðfærum hætti því leiðin er jafnvel auðveldari yfirferðar en Stórhöfðastígurinn, sem þarna er nokkru sunnar.
Hraunið, tröðin eða hraunmyndanir í Kapelluhrauninu eru einu sagt ómótstæðilegt – en fara þar varlega svo ekki hljótist af skrokkskjóður eða beinbrot. Göngusvæðið er eitt hið aðgengilegasta á höfuðborgarsvæði Hafnarfjarðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Jónas Guðnason.
-Hjörleifur Guttormsson.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.