Nyrðri-Eldborg – skemmdir á fallegum gíg

Eldborgir

Af og til hafa verið unnar skemmdir á náttúruverðmætum Reykjanesskagans. Áður fyrr voru það einkum vegargerðarmenn og landeigendur en í seinni tíð hafa orkufyrirtækin verið stórtækust í eyðileggingunni. Raunar er fyndið að heyra fólk tala um að gufuaflsvirkjanir „valdi minni eyðileggingu“ en fallvatnsvirkjanir. Þetta er svona álíka gáfulegt og halda því fram að hver sá sem orðið hefur fyrir skaða geti þakkað fyrir að skaðinn varð ekki meiri. Best er að enginn verði skaðinn þegar hægt er að koma í veg fyrir hann.

EldborgFallegir gjall- og klepragígar svo og önnur verðmæt svæði, sem eyðilögð hafa verið á svæðinu eru allnokkur. Má þar nefna Moshól undir og vestan Núpshlíðarhorns, sem Krýsuvíkurvegurinn var lagður í gegnum. Jón Jónsson, jarðfræðingur, taldi hann einn merkilegastan slíkra á landinu. Í honum var t.a.m. hægt að sjá þverskurð myndunarinnar. Eldborg norðan Höskuldarvalla er ágætt dæmi um eyðilegginguna, hluta Rauðhóls við Afstapahraun, minjar í Herdísarvíkurhrauni austanverðu, Rauðhóla við Suðurlandsveg (sem voru gervigígar), gíg austan Hesthúsabrekku við Grindavíkurveg, Hraunhóla undir Vatnsskarði, Óbrennishóla við Bláfjallaveg og Litlu-Eldborg undir Geitahlíð, auk síðustu skemmdarverkanna á gígum Hellisheiðarinnar. Hægt er að fullyrða hér og nú að í öllum tilvikum hefði verið hægt að komast hjá eyðileggingunni og að þau verðmæti, sem þar fóru forgörðum, hefðu nú þegar margfaldast í „verði“. En því miður er það nú svo að enn er líkt með allt of mörgum og verktakanum er greinir frá í fréttinni hér á eftir.
Í Mbl. föstudaginn 16. ágúst árið 1968 er frétt með fyrirsögnina „Skemmdir á fallegum gíg á Hellisheiði – Náttúrvernadrráð stöðvar framkvæmdir“.
Í fréttinni kemur fram að „framtakssamur maður úr Ölfushreppi fékk fyrir nokkru leyfi hreppsins til að taka möl úr eldgígnum Nyrðri-Eldborg, sem er milli Bláfjalla og Lambafells á Hellisheiði. Gígur þessi er hinn fegusti og er Náttúrverndarráð komst á snoðir um hvað gera átti, voru gerðar ráðstafnir til þess að koma í veg fyrir skemmdir á gígnum en því miður virðist það orðið of seint. Hefur verið farið yfir norðurhlið gígsins með jarðýtu og skafinn mosinn ofan af og vegur verið lagður upp í miðja hlíðina.

EldborgBlaðamanni Morgunblaðsins gafst í dag tækifæri til þess að fara með dr. Þorleifi Einarssyni, jarðfræðingi, upp í Svínahraun til þess að skoða þær skemmdir, sem orðið hafa á gígnum Eldborg. Milli Bláfjalla og Lambafells lá nýrudd slóð út af þjóðveginum og stór mannlaus jarðýta við vegamótin. Ókum við 3 kílómetra upp eftir slóðinni unz við komum að gígnum.
Þorleifur, sem þekkir jarðfræði Hellisheiðar manna bezt, benti á það á leiðinni, að slóðin hefur verið lögð á brún hrauntraðar, sem hraunið úr Eldborg rann um og væri þessi hrauntröð ein fallegasta sinnar tegundar hér á landi. Var hún frá slóðinni að sjá sem djúpur árfarvegur og var botninn sem hvítfreyðandi á yfir að líta. Sagði Þorleifur, að þessi slóð væri ljótt ör á þessu fallega landslagi.
Er að gígnum kom, var ljótt umhorfs. Gígurinn er tvöfaldur og hefur hraunið komið þar upp úr nyrðri gígnum. Brattar hliðar gígsins hafa á undanförnum öldum náð að verða mosagrónar, en nú er stór svartur blettur á þeirri hlið gígsins, sem að þjóðveginum snýr. Þar hefur greinilegt verið farið yfir með jarðýtu nýlega og mosinn skafinn ofan af. Sárið var mjög nýlegt og að því er virðist ekki eldra en frá því í gærmorgun. Auk þess að mosinn hefur verið skafinn af hlíðinni hefur verið ruddur slóði upp í miðja hlíð.
Eldborg Er þorleifur skoðaði verksummerki á staðnum, varð honum að orði, að hann skildi ekki hver ætlunin hefði verið með því að gera þetta jarðrask. Þeim, sem þarna ætlaði að taka möl, hlyti að hafa verið kunnugt um, að gjall væri í gígnum og því væri ekki unnt að sjá hver ætlun hans hefði verið með því að spilla hlíðinni, því enn væri vegarslóðinn að gígnum ekki orðin bílfær. Sagði Þorleifur, að verk þetta hlyti að hafa verið unnið af óvitaskap.
Dr. Finnur Guðmundsson sagði í gær, aðð Náttúrverndarráð hefði komist á snoðir um það, sem frra, fór í Eldborg fyrir fáeinum dögum. Hefði þá þegar verið hringt til sýslumanns Árnessýslu og oddvita Ölfushrepps og um leið rætt við eiginkonu mannsins, sem fyrir framkvæmdunum stóð, því ekki hefði verið unnt að ná tali af honum sjálfum. hefði svo um samizt, að ekki yrði haldið áfram framkvæmdum næstu tvo eða þrjá daga, þar til Náttúruverndarráð hefði haldið fund um málið.
Í gær sagði dr. Finnur svo, að haldinn hafi verið fundur í Náttúruverndarráði og hefði verið ákveðið á þeim fundi að friðlýsa staðinn eins og ráðinu er heimilt samkvæmt lögum. Sendi ráðið skeyti sýslumanni Árnessýslu, formanni náttúruverndarnefndar sýslunnar og oddvita Ölfushrepps og tilkynnti um ákvörðun sína.
Að lokum gat dr. Finnur Guðmundsson þess, að ef rétt reyndist, að jarðraski hefði verið haldið áfram eftir að Náttúruverndarráði var gefinn frestur til þess að halda fund um málið, teldi hann það vísvitandi gerð náttúruspjöll og sér þætti mjög alvarlegt, ef ráðist hefði verið á hlíð gígsins í gærmorgun.
Eldborg Morgunblaðið náði í gær tali af Páli Hallgrímssyni, sýslumanni, sem sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um framkvæmdir við Eldborg fyrr en dr. Sigurður Þórarinsson hefði hringt til sín í fyrradag. Hreppsnefnd Ölfushrepps hefði upphaflega leyft, að möl yrði tekin úr gígnum, og hefði verið vegna þess, að hún hefði álitið gíginn hverja aðra gjallhrúgu. Myndu á hinn bóginn hreppsnefndarmenn allir af vilja gerðir að stöðva framkvæmdir nú, er víst væri um miklvægi þess, að það yrði gert. Ekki kvaðst Páll hafa fengið skeyti Náttúruverndarráðs, en ef búið væri að friðlýsa staðinn, kæmi það væntanlega til sinna kasta, að sjá um, að því yrði framfylgt.
Morgunblaðið gerði í gær ráðstafanir til að ná tali af manni þeim, sem staðið hefur fyrir framkvæmdum við Eldborg, en á árangurs.“
Slóðinn, sem um getur í fréttinni er enn greinilegur – 38 árum seinna. Hann hefur reyndar verið nýttur talsvert í seinni tíð. Rask það er að honum laut á því enn við og rúmlega það. Gígsárið sjálft hefur hins vegar smám saman verið að gróa upp þó enn megi vel greina það í hlíðinni. Svona sár gróa upp á 60-100 árum. Það verður því að gaumgæfa vel allar framkvæmdir, jafnvel þær smærstu, er áhrif geta haft á umhverfið – til lengri tíma litið. Hér er ekki verið að halda því fram að engu megi raska. Einungis er verið að vara við vanhugsuðari röskun eða röskun án tilgangs.
Segja má að framangreind umfjöllun MBL fyrir 38 árum hafi komið í veg fyrir skemmdir á náttúruverðmætum. Í dag ríkir þögnin ein – og verðmæti glatast.

Heimildir:
-Mbl. 16. ágúst 1968.

Eldborgir