Oddshellir

Oddshellir

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gíg fellsins eru hlaðnir garðar, aðhald og rétt og við hellisop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont. Tvö fjárskjól eru utan í fellinu suðaustanverðu.

Oddshellir

Oddshellir.

Einn hellanna, skammt sunnar, heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt suðaustan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyrnar”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin.
Oddur hélt a.m.k. til í hellinum og þegar Ólafur Þorleifsson mun hafa ætlað að heimsækja hann á aðfangadag um aldamótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 30 árum síðar, sitjandi á syllu.
Sagnir er um að þegar mest var af sauðum í hellum Kálffells hafi þeir verið á annað hundrað.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.