Ófriðarstaðir – örnefni
Gísli Sigurðsson skráði örnefni fyrir Ófriðarstaði við Hafnarfjörð.
Ófriðarstaðir á fyrri hluta 20. aldar.
Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.
Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.
Ófriðastaðir um miðja 20. öld.
Ófriðarstaðir var konungsjörð fram til 1804 er Bjarni riddari Sívertsen eignaðist jörðina með það í huga að reisa þar skipasmíðastöð. Bjarni átti jörðina meðan hann lifði en það voru danskir kaupmenn sem keyptu hana þá á uppboði eftir andlát Bjarna og seldu þeir svo jörðina í tvennu lagi. Til aðskilnaðar þá hélt sá hluti jarðarinnar er Árni J. Mathiesen keypti nafninu Ófriðarstaðir/Jófríðarstaðir en hinn hlutinn fékk þá nafnið „Hamar“ii. Eftir það gengu þessir jarðarhlutar kaupum og sölum þar til Hafnarfjaðrarbær eignaðist stóran hlut úr Hamri og Maríuprestaregla heilags Louis Grignion de Montfort, sem þá þjónaði kaþólsku kirkjunni á Íslandi, keypti Jófríðarstaði á árunum 1921 og 1922.
Jósepsspítali.
Regla St. Jósefssystra studdi jarðakaupin strax með því að kaupa tveggja hektara spildu af Montfort-reglunni undir spítala og aðra starfsemi.
Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.
Ófriðarstaðir, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. 1885 var nafninu breytt í Jófríðarstaðir, en eldra nafninu er haldið hér. Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að þar var reist, og tvíbýli varð á jörðinni 1885.
Ófriðarstaðir um 1855 – tilgáta. Suðurtraðir.
Ófriðarstaðatún var allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðargarðana sér enn. Meðfram læknum var Harðhaus. Þá mun þarna í Suðurtúninu hafa verið Þinggerðið.
Ófriðarstaðir – landamerki.
Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðarhlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.
Kvíholt var í norðaustur frá bænum. Þar stendur nú Karmelítaklaustur. Neðan undir því rann Kvíholtslækur. Á fyrstu árum aldarinnar voru nokkrir bæir byggðir rétt við stíginn. Má þar nefna Ívarshús með Ívarsbæjarlóð, Klapparholt með Klapparholtslóð. Bær þessi stendur enn og var venjulega aðeins kallaður Holt.
Á Vesturhamar liggur landamerkjalínan; nefnist hann einnig Sjávarhamar, Skiphamar og Flensborgarhamar.
Steinsstaðir.
Hamar var stór og reisulegur bær á Hamrinum. Í Hamri var bær snemma byggður, og undir aldamótin var bær byggður þar, er nefndist Miðengi. Um Hamarinn, rétt neðan við bæi þessa, lá alfaraleiðin, síðan niður af Hamrinum og eftir fjörunni suður yfir Ásbúðarlæk og áfram. Sunnan við Miðengi var bærinn Hella. Þar suður af var sjóbúðin, sem seinna nefndist Steinsstaðir, og þar sunnar Mýrarhús. Allir þessir bæir áttu sínar lóðir: Hamarslóð, sem einnig nefndist Bjarnabæjarlóð og Bjarnabær bærinn, Miðengislóð, Hamarslóð 2, Hellulóð, Sjóbúðarlóð og síðar Steinsstaðalóð, þá Mýrarhúsalóð.
Kaldadý (Kaldalind) – loftmynd 1954.
Suður af Mýrarhúsum var Kaldalind [Kaldadý]. Þaðan var fyrst vatni veitt til neyzlu í Firðinum 1905. Einnig var 1891 veitt vatni úr þessari lind að gosdrykkjaverksmiðjunni Kaldá, sem Jón Þórarinsson skólastjóri setti á stofn. Frá Kaldá rann Kaldárlækur. Einnig lá Kaldárstígur frá verksmiðjunni niður að sjó.
Niður undan Hamrinum tók við Ófriðarstaðamöl og Ófriðarstaðafjara. Rétt við Hamarinn var svo Ófriðarstaðavör, og þar hjá Ófriðarstaðasjóbúð. Síðar fékk staður þessi eftirtalin nöfn: Hellumöl, Hellufjara og Hellusjóbúð og fjárhús Hellukofi. Hér í fjörunni stofnaði Júlíus V. J. Nýborg skipasmíðastöð. Hér stendur nú skipasmíðastöðin Dröfn.
Hafnarfjörður á árum fyrri heimstyrjaldarinnar, á árunum 1914 til 1918. Myndin er tekin ofan af Ófriðarstöðum, hæst á Ölduslóð. Séð er yfir svæði sem kallaðist Austur- og Vesturhamar en er nú Hlíðarbraut, Suðurgata og Hamarsbraut og Hringbraut. Fjörðurinn og vesturbærinn fyrir miðri mynd.
Ofan við mölina er Sjávarmýrin og efst í henni Briemstún. Gunnlaugur E. Briem ræktaði þarna tún, þegar hann var verzlunarstjóri fyrir Knudtzon. Vestar tók svo við Íshúsfjara og Íshúsmöl eftir að Aug. Flygenring reisti hér íshús.
Í holtinu upp frá Melnum var Miðaftansvarða, eyktamark frá Ófriðarstöðum. Héðan nefndist lækurinn Ófriðarstaðalækur. Vestan hans, upp við traðarhlið, var lambhúsið.
Sunnan lækjarins voru nokkuð börð, þar á meðal Gálga-torfur. Veit þó enginn deili á þeirri nafngift. Þegar kemur upp fyrir túnið, nefnist lækurinn Grænugrófarlækur, enda rennur hann hér ofar um Grænugróf. Þegar sleppir Brandsbæjarholti, tekur við Háaleiti eða Ófriðarstaðaleiti.“
Heimild:
-Örnefnaskrá fyrir Ófriðarstaði – Gísli Sigurðsson.
Ófriðarstaðir – loftmynd frá 1937 sett yfir loftmynd frá 2024 – ÓSÁ.