Ölfusvatn – letursteinn 1736
Við Ölfusvatn er letursteinn með áletruninni VES + 1736.
Steinninn, sem er friðlýstur, er kominn undir gras, en í Fornleifaskrá 1977 segir m.a. um hann: „Jarðfastur grágrýtsisteinn með áletruninni VES + 1736 er í túninu suðaustan við gamla fjárhústóft, nærri hulinn jarðvegi,“ segir í örnefnalýsingu. Steinninn er aðeins norðar en beint vestur af heimreiðinni sem gengur þvert yfir bæjarhólinn. Hann er alveg í brekkurótum, um 3 m S við allmikla grjóthrúgu sem einnig er í brekkurótunum neðan við fjárhústóftina. Steinninn er nær alveg hulinn sinu og mosa. Steinninn var friðlýstur 1927. Hann er a.m.k. 60×50 cm, heldur ávalur og er áletrunin ofaná honum, á eystri helmingi, er steinninn snýr uppí brekkuna, A-V og snýr áletrunin í norður.“
Á skilti við tóftir bæjarins Ölfusvatns stendur m.a.: „Ölfusvatn hefur verið í eyði frá 1947. Bæjarins er getið í fornum heimildum og því má ætla að hér hafi verið búið óslitið allt frá því á landnámsöld. Bæjarstæði Ölfusvatns er einstakur minjastaður og óskaddaður að mestu leyti. Bærinn fór í eyðu áður en byrjað var að beita stórvirkum vinnuvélum við sléttun túna og byggingar. Á Ölfusvatni er því óskemmdur bæjarhóll – upphlaðnar leifar af bæjarhúsum síðustu 1000 ára og útihúsatóftir og garðleifar sem gefa hugmynd um forna búskaparhætt. Bæjarstæðpið eða bæjarhóllinn er mjög greinlegur og má enn greina í honum herbergja- og húsaskipan síðasta bæjarins. Enn fremur sjást leifar nokkurra útihúsa í túninu. Uppbyggð heimreið liggur heim að bænum en framan eða austan við hann voru kálgarðar.
Ölfusvatn var stórbýli á miðöldum og þar var komin sóknarkirkja um 1200. Ölfusvatnskirkja átti hálfa jörðina og Sandey í Þingvallavatni. Hún stóð fram undir 1600 en eftir það lagðist sóknin til Úlfljótsvatnskirkju. Í byrjun 18. aldar sáust enn merki kirkjugarðs og leiða. Í brekkurótum í túninu vestan við bæjarstæðið er steinn sem var friðlýstur af þjóðminjaverði 1927. Á honum er krossmark, áletrunin VES og ártalið 1736. Ekki er ljóst fyrir hvað áletrunin stendur, hugsanlega er hún fangamark einhvers.“
Yfir 80 letursteinar eru þekktir á Reykjanesskaganum.
Heimild:
-Fornleifaskrá 1997.
-Örnefnalýsing fyrir Ölfusvatn.
-Skilti við Ölfusvatn.