Öxará
Eftirfarandi fróðleikur um Öxará er finna má bæði í Sturlubók og Landnámu birtist í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags árið 1889:
„Á eftir fer orðrjettur útdráttur úr Íslendingabók hinni yngri um þá feðga Ísleif og Gizur og Teit Ísleifsson. Alveg tilsvarandi kafli er í Landnámu vorri, og það vill líka svo vel til, að ættartala Ketilbjarnar, sem stóð í „ættartölu“ hinnar eldri Íslendingabókar, hefur geymst aftan við Íslendingabók hina yngri, og hef jeg áður tilfært hana orðrjett ásamt tilsvarandi kafla úr hinni yngri Íslendingabók. Í Sturlungu og Landnámu er grein sú, sem hjer ræðir um, svo látandi (Sturl. Oxf. 1878,1,203.bls. (Khöfn 1817,1, 202. bls.)): Ketilbjörn Ketilsson, maðr norænn ok frægr, fór til Íslands, þá er landit var víða bygt með sjó. Móðir hans hét Æsa Grjótgarðsdóttir, systir Hákonar Hlaðajarls. Hann átti Helgu, dóttur Þórðar Skeggja , Hrapps sonar, ok var með honum inn fyrsta vetr á Íslandi fyrir neðan Bláskógaheiði ok fór upp í landaleitan um várit eftir. Svá segir Teitr. En þeir görðu sér skála, þar er þeir höfðu náttból, ok kölluðu þat af því Skálabrekku. En er þeir vóru þaðan skamt farnir, þá komu þeir á árís, ok hjoggu þar á vök, ok felldu í öxi sína, ok kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá, ok fellr nú eftir Þingvelli. Þá fóru þeir þar til, er nú er kallaðr Reyðarmúli. Þar urðu þeim eftir reyðar þær, er þeir fóru með, ok kölluðu þar af því Reyðarmúla.
Ketibjörn görði bú undir Mosfelli ok nam þar land umhverfis svá vítt sem hann vildi átt hafa. Frá þeim Ketilbirni ok Helgu eru Mosfellingar komnir.“
Áin kemur upp í Myrkavatni og fellur milli Búrfells og Leggjabrjóts og um Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í vatnið rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fossi, Öxarárfossi.
Heimild:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 10. árg. 1889, bls. 229-230.