Prestsvarða – letursteinn
Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.“
Varðan var hlaðin upp fyrir stuttu, letursteinninn hreinsaður og honum komið aftur fyrir á sínum stað við vörðuna – þar sem hann er í dag.
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“). Ártalið er 1876.
-Rauðskinna II 295.